Eigendastefna handa Landsvirkjun

Málflutningur og gjörðir ýmissa forystumanna Landsvirkjunar undanfarinn hálfan áratug hafa vakið furðu allmargra og talsverða umræðu á opinberum vettvangi. 

Fyrirtækinu var í lófa lagið að búa svo um hnútana, að strax eftir lúkningu Búðarhálsvirkjunar 2013 væri hafizt handa um framkvæmdir við Búrfell II, en tímanum var sóað með þriggja ára töf á komu virkjunarinnar inn á stofnkerfið sem afleiðingu. Þessi mistök leiða til orkuskorts, glataðra viðskiptatækifæra, sóunar á vatni (orku) og óþarfa hækkunar á raforkuverði í landinu. "Cuo bono" (hverjum í hag), spurðu Rómverjar, þegar málavextir voru óljósir. Viðskiptavitinu er a.m.k. ekki fyrir að fara.

Í stað þess að láta hendur standa fram úr ermum var tíminn nýttur til að kynda undir allsendis óraunhæfum og raunar fótalausum væntingum um ábatasaman útflutning á rafmagni um sæstreng til Bretlands. Var þá einblínt á verð, sem brezka ríkisstjórnin hefur lofað að greiða fyrir endurnýjanlega orku.  Þróun orkuverðs, einnig á grænni orku, er öll til lækkunar, og vegna gríðarlegs flutningskostnaðar frá virkjunum á Íslandi og að stofnkerfi Englands er fáanlegt verð ekki nógu hátt til að standa undir lágmarks arðsemi flutningsmannvirkja og virkjana. Að reiða sig á gríðarlegar niðurgreiðslur úr brezka ríkissjóðinum á orku frá Íslandi er allt of mikil áhætta fyrir ríkisfyrirtæki á Íslandi að taka, svo að alls ekki kemur til mála, að Landsvirkjun sé að bauka við viðskiptaævintýri af þessu tagi, enda ekki á hennar verksviði samkvæmt lögum um hana. 

Þessi hegðun "viðskiptamógúla" Landsvirkjunar þjónar aðeins einum tilgangi: að hækka raforkuverðið á Íslandi.  Þetta er áreiðanlega í andstöðu við vilja eigandans, fólksins í landinu, sem Alþingi er fulltrúi fyrir og verður þess vegna að grípa í taumana.

Sú var tíðin, að Alþingi gaf Landsvirkjun fyrirmæli um 3,0 % árlega raunverðslækkun á meðalverði sínu til almenningsveitna.  Þetta gaf góða raun og leiddi til þess, að raforkuverð til almennings á Íslandi varð nánast hið lægsta, sem þekkist á byggðu bóli, og þannig á það að vera. Spákaupmenn draga kolranga ályktun af miklum mismuni raforkuverðs á Íslandi og erlendis.  Viðskiptatækifærið, sem í þessu felst, er ekki fyrir orkufyrirtækin að hækka verðið, heldur er hér um að ræða forskot Íslands í samkeppnishæfni við útlönd.

Raforkumarkaðurinn á Íslandi er fákeppnimarkaður, þar sem risinn, Landsvirkjun, er ríkjandi í krafti orkusölu til stóriðju.  Landsvirkjun er af þessum sökum markaðsleiðandi og hefur með ábyrgðarlausu framferði sínu í verðlagningu upp á síðkastið valdið óþarfa verðbólgu á almenna raforkumarkaðinum, þannig að svo illa er nú komið, að almenningur er tekinn að "greiða niður" raforku til stórnotenda, sem bundin er samkvæmt samningum til margra ára.  Þetta á þó engan veginn við alla stóriðjusamninga, t.d. á þetta alls ekki við um verðið til ISAL, sem endurskoðað var árið 2010 samhliða aukinni orkusölu þangað og breyttum skilmálum, enda hefði gamli samningurinn runnið út árið 2014. Þar sem ófullkominn samkeppnimarkaður er, ber ríkisvaldinu, í anda markaðshagkerfis með félagslegu ívafi, að hlutast til um samkeppnina til að verja hagsmuni neytenda.

Það, sem koma þarf fram í nýrri eigendastefnu ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem koma þarf til umfjöllunar og samþykktar Alþingis, er:

  1.  Orkuverð til viðskiptavinna Landsvirkjunar skal endurspegla kostnað af orkuvinnslunni fyrir þá að teknu tilliti til mismunandi fjármagnskostnaðar fjárfestingar fyrir ólíka viðskiptavini og ávöxtunarkröfu fjárbindingar í samræmi við aðrar fjárfestingar með sambærilegri áhættu.   
  2. Óheimilt skal vera að hækka meðaltals heildsöluverð til almennings í landinu umfram útreiknað jaðarkostnaðarverð fyrirtækisins við að virkja fyrir almennan markað einvörðungu. 
  3. Óheimilt skal vera að endurskoða langtíma orkusamninga eða semja um viðbótar orku án þess að taka tillit til kröfunnar um orkuverð, sem að lágmarki sé jafnhátt jaðarkostnaði orkuvinnslu fyrir viðkomandi viðskiptavin. Slíkir langtíma orkusamningar mega aldrei verða fjárhagslegur baggi á raforkunotendum án skriflegra skuldbindinga um orkukaup af fyrirtækinu, t.d. notendum almenningsveitna.
  4. Starfsvettvangur Landsvirkjunar er Ísland og stefnumið fyrirtækisins er að hafa á hverjum tíma næga forgangsorku og afl allt að 100 MW á boðstólum í háum gæðaflokki m.v. evrópskar gæðakröfur til að fullnægja skammtíma eftirspurn og nóg af virkjanakostum til að verða við óskum markaðarins um viðbótar orku og afl á bilinu 100-500 MW að taknu tilliti til eðlilegs framkvæmdatíma. Af þessu leiðir, að Landsvirkjun á á hverjum tíma að geta afhent a.m.k. 10 % af seldri forgangsorku sem ótryggða orku með um 90 % afhendingaröryggi á verði á bilinu 5 % - 50 % af af forgangsorkuverðí, háð framboði og eftirspurn.  
  5. Afnema skal ríkisábyrgð á lánum Landsvirkjunar eins hratt og mögulegt er og ekki á lengri tíma en 7 árum frá gildistöku nýju eigendastefnunnar.  Hvers konar fjárútlát eða skuldbindingar í þágu orkusölu út fyrir efnahagslögsögu Íslands skulu verða háðar samþykki eigendanna.
  6. Á meðan markaðshlutdeild Landsvirkjunar á íslenzka raforkumarkaðinum er yfir 45 %, skal vera óheimilt að selja hlut ríkisins eða að taka inn nýja eigendur. Hins vegar skal vera heimilt að selja hluta af starfsemi fyrirtækisins á innlendum markaði, ef Samkeppnisstofnun telur slíkt vænlegt til að draga úr neikvæðum afleiðingum af markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar.  Sem dæmi má nefna sölu á jarðhitavirkjunum Landsvirkjunar og sölu á ráðandi hlut fyrirtækisins, eða honum öllum, í Landsneti. 

Þann 24. október 2015 birtist fyllilega tímabær grein í Morgunblaðinu eftir Ásmund Friðriksson, Alþingismann, sem blekbóndi getur algerlega tekið undir.  Hún bar heitið, "Landsvirkjun þarf pólitíska eigendastefnu" og hófst þannig:

"Markmið raforkulaga er að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.  Undir þau lög fellur m.a. starfsemi ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem er eign þjóðarinnar.  Stjórnendur Landsvirkjunar, stærsta orkufyrirtækis landsins, einblína á aukna arðsemi fyrirtækisins, eins og það sé eyja í hagkerfinu.  Með tilvísun í stefnumið stjórnenda Landsvirkjunar er eins og heildarhagsmunir þjóðarbúsins séu ekki hafðir að leiðarljósi, og það er eins og gleymst hafi að meta langtímasamstarf við trausta viðskiptavini, sem hafa skapað Landsvirkjun og samfélaginu gríðarleg verðmæti á umliðnum árum.  Þannig huga þeir minna að því, hvort starfsemi Landsvirkjunar auki útflutningstekjur eða stuðli að hagvexti í landinu og virðisauki raforkunnar skapi fjölbreytt og vellaunuð störf."

Þetta er hörð gagnrýni stjórnarþingmanns á forstjóra og stjórn ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar, sem sýnir megna óánægju í landinu með það, hvernig haldið hefur verið á málefnum þessa orkurisa á íslenzkan mælikvarða undanfarinn hálfa áratug.  Mönnum þykir fyrirtækið vera farið að fjarlægjast ærið mikið uppruna sinn og ekki þjóna lengur alls kostar hagsmunum fólksins í landinu, eins og það þó var stofnsett til að gera með lögum frá Alþingi árið 1965 fyrir hálfri öld.  Alþingi ber að ræða þessa öfugþróun, sem er heimildarlaus frá eigandans hendi, og snúa ofan af öfugþróuninni með því að semja fyrirtækinu eigendastefnu, eins og Ásmundur Friðriksson, Alþingismaður, hefur lagt til, og drög eru lögð að í þessari vefgrein.   

    

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Alltaf er von meðan rödd þjóðhollra íslendinga fær að heyrast. Það biðjum við almenningur um lengstra orða. Að uppgötva að til séu menn sem fá það af sér að svíkja oft grandalausan íslenskan almenning um þjóðararf sín,er átakanlegt.

Helga Kristjánsdóttir, 8.11.2015 kl. 22:16

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Hvað með iðnaðarráðherrann, á hann að vera stikkfrí? Það þarf að stjórna þessu Jóhönnuliði sem vafrar um í draumórum og leikur sér að vindmillum og öðrum verri fíflaskap. Sé ómögulegt að fá þetta fólk til að skilja hlutverk sitt þá þarf annan manskap. 

Hrólfur Þ Hraundal, 9.11.2015 kl. 07:14

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Mæl þú manna heilust, Helga.

Það munu engin verðmæti renna í vasa almennings á Íslandi, nema fyrir tilstilli vinnuframlags, strits hugar og handa, þessa sama almennings.  Allt annað eru gylliboð, sem hinn sami almenningur sér í gegnum, því að almenningur á Íslandi er ekki fæddur í gær, og til er fyrirbrigði, sem nefnist saga og allir geta dregið sínar ályktanir af. 

Sama saga kennir okkur, að til að viðhalda samkeppnishæfum lífskjörum á Íslandi, þurfa Íslendingar á öllu sínu að halda, þ.e. mannauði og auðlindum til lands og sjávar.  Enginn fer í grafgötur um, hvað uppi verður á teninginum, ef þessar auðlindir verða sendar "óunnar" úr landi.  Að bjóða fólki upp á þau býti er furðuleg ósvífni á 21. öld. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 10.11.2015 kl. 14:24

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hrólfur Hraundal;

"Það er nú verkurinn", eins og Brekkukotsbóndinn gjarna tók til orða.  Iðnaðarráðherra og formaður Atvinnumálanefndar Alþingis þurfa að taka höndum saman og efna til umræðu um þá vegferð, sem Landsvirkjun er á.  Er t.d. til þingsályktunartillaga um, að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun skuli reisa og reka vindmyllugarða ?  Hafa einhvers staðar verið færð að því gild rök, að þjóðhagslega hagkvæmt sé að virkja vind á kostnaði per MWh, sem er 3-4 faldur á við virkjun fallvatna á Íslandi ?  Alþingi hefur aldrei, og þetta þing mun aldrei samþykkja slíka sóun almannafjár, sem óhjákvæmilega leiðir til hækkunar orkuverðs í landinu. 

Ný eigendastefna fyrir Landsvirkjun er fyllilega tímabær.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 10.11.2015 kl. 14:37

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Svona einskonar P.S. Þakka þér svarið Bjarni. Í lok greinar þinnar (og allra),er boðið upp á -F líkar þetta- er frá facebook,ég hef margoft notað þennan möguleika sem viðurkenningu,hef samt ekki hugmynd um hvernig hann skilar sér á facebook.Nú bregður svo við að mér birtist einskonar falleinkunn > í rauðu letri= VILLA. Þeir bjóða upp á þetta og ættu að sýns háttvísi og skýra fyrirbærið.Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 12.11.2015 kl. 03:34

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér kærlega fyrir þessa ábendingu um villuboð, Helga, þegar þrýst er á "Like".  Ég nota þennan hnapp aldrei á eigin vefsíðu, og hef hvergi lent í þessu, svo að ég tilkynnti í morgun vefstjóra Morgunblaðsbloggsins um þetta.  Sjáum, hvað setur.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 12.11.2015 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband