Syrtir í álinn hjá áliðnaðinum

Verðið fyrir hvert áltonn á LME-markaðinum (London Metal Exchange) var komið niður fyrir 1500 USD í nóvemberbyrjun 2015.  Verðviðbót (premía) fyrir gæði  og eiginleika samkvæmt pöntun viðskiptavinar, eins og t.d. ISAL nýtur vegna sérhæfðrar og þróaðrar framleiðslu, er einnig í lágmarki. 

Þó að hráefni til álframleiðslu hafi lækkað í verði, dugar það alls ekki á móti tekjutapinu, því að raforkan hefur hækkað í USD samkvæmt neyzluvísitölu í BNA, og innlendur kostnaður hefur hækkað, reiknaður í USD, þar sem bókhaldið er í bandaríkjadölum.

Þungar afskriftir hvíla á ISAL vegna mikilla fjárfestinga á árabilinu 2010-2014. Þegar fjárhagskreppan var upp á sitt versta á Íslandi, þá bar móðurfyrirtækið, RTA, nægilegt traust til viðskiptahugmyndar ISAL og framtíðarspurnar eftir áli til að fjárfesta fyrirtækja mest hérlendis. 

Fjárhagslegur rekstur fyrirtækisins er mjög þungur þessi misserin af ofangreindum ástæðum og sennilega fremur byrði á RTA- (Rio Tinto Alcan) samstæðunni en hitt.  Meginskýring dapurlegra álmarkaða er mesta álframleiðsluland heims, Kína, sem á við efnahagsvandræði að stríða og hefur þar af leiðandi minni not fyrir ál, en flytur að sama skapi mun meira út en áður og hefur með framferði sínu skapað offramboð á heimsmörkuðunum þrátt fyrir aukningu eftirspurnar.

Líkast til hefur aldrei horft jafnþunglega um framtíð þessa elzta álfyrirtækis landsins og núna, því að við þessar aðstæður hafa öll hlutaðeigandi verkalýðsfélög, nema eitt, samþykkt verkfallsboðun 2. desember 2015.

Hér kasta skessur fjöreggi fyrirtækisins á milli sín, svo að notuð sé myndlíking úr íslenzkum þjóðsögum, því að nú þýðir ekki að skáka í því skjólinu, að eigandinn, RTA, muni skirrast við að loka, af því að þá muni hann glata trausti stórra viðskiptavina og þurfa hvort sem er að greiða yfir 80 % af umsaminni raforku, þó að engin verði framleiðslan. 

Tímarnir eru breyttir í Straumsvík.  Nú eru ekki lengur framleiddir völsunarbarrar fyrir örfáar risavölsunarverksmiðjur, heldur sívalningar fyrir fjölmarga, tiltölulega litla kaupendur. 

Nú er aðalásteytingarsteinn vinnudeilunnar, hver á að ráða því, hverjir vinna hin ýmsu verk fyrir verksmiðjuna, þ.e. deilan fjallar um grundvallaratriði stjórnunar, sem nauðsynlegt er, að sé á hendi fulltrúa eigendanna, en ekki fulltrúa launþeganna, og ekki aðallega um krónur og aura, eins og jafnan er þó í vinnudeilum.  Af þessum ástæðum gildir að líkindum "Force majeure" ákvæði raforkusamningsins um þessa vinnudeilu, þ.e. "óviðráðanleg öfl" verða þess valdandi, að verksmiðjan getur ekki tekið við raforku til framleiðslunnar, af því að óhjákvæmilegt reynist að stöðva hana vegna verkfalls starfsmanna. Af hinu gagnstæða mundi leiða, að öruggt væri, að starfsmenn næðu hvaða kröfu sem væri fram með verkfalli, og sjá allir til hvers slíkt gæti leitt og hversu ójafn slíkur leikur væri.

Landsvirkjun mun þess vegna ekki einvörðungu verða af tæplega 40 % af tekjum sínum af orkusölu til stóriðju, heldur einnig af umsömdum lágmarksorkukaupum, þar sem við "óviðráðanleg öfl" er að ræða.  Þó að orkusalan til ISAL nemi aðeins um 25 % af orkusölu Landsvirkjunar í GWh/a, þá er verðið til fyrirtækisins svo hátt m.v. verðið til annarra heildsölukaupenda með langtímasamninga, að tekjuhlutfallið er miklu hærra, eins og fram kemur hér að ofan.  Ljóst er, að hér er um gjaldeyristap að ræða, sem nemur þjóðhagslegum stærðum og ógnar efnahagsstöðugleikanum í landinu.

Áætlað hefur verið, að 1500 fjölskyldur hafi lífsframfæri sitt af starfseminni í Straumsvík með einum eða öðrum hætti.  Ábyrgð verkalýðsfélaganna, sem nú hafa samþykkt verkfallsboðun frá og með 2. desember 2015 er í ljósi ofangreinds óvenjumikil, og það er hætt við því, að þau spili nú óyfirvegað og of djarflega og hafi tekið allt of mikla áhættu m.v. hagsmunina, sem í húfi eru. Verkfallsboðun við núverandi aðstæður er ekki aðeins tímaskekkja; hún er illa rökstudd og leikur að eldi. 

Svipað má segja um þvergirðingslega afstöðu forstjóra Landsvirkjunar, sem hann hlýtur að hafa stuðning stjórnar fyrirtækisins við, að ljá ekki máls á  neinni tímabundinni lækkun raforkuverðs til ISAL í þrengingum fyrirtækisins, en hin álverin eru að líkindum að greiða um helmingi lægra einingarverð til Landsvirkjunar en ISAL, án flutningsgjalds og jöfnunarorkugjalds. 

Vestrænum álverum hefur mörgum verið lokað á þessu ári, og önnur, t.d. tengd vatnsorkuverunum í Quebec í Kanada, hafa fengið tímabundna orkuverðslækkun gegn því að halda áfram rekstri.  Í þessu ljósi verður að skoða váboða álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík, og Morgunblaðið lætur í ljós miklar áhyggjur sínar af þróun mála þar í forystugrein þann 4. nóvember 2015 undir fyrirsögninni,

"Hættumerki":

"Vandinn kann á hinn bóginn að vera töluverður hjá öðrum hér á landi, og skemmst er að minnast þess, að þegar kjaradeilur í Straumsvík stóðu sem hæst fyrir skömmu, var útlit fyrir, að slökkt yrði á ofnum [kerum - leiðr. BJo] álversins, og þá hefði verið óvíst, hvort eða hvenær kveikt hefði verið á þeim á nýjan leik.

Þó að ekki hafi verið slökkt á álverinu, er þó ekki hægt að líta svo á, að öll álver hér á landi séu komin fyrir vind, enda markaðsaðstæður erfiðar.  Full ástæða er til að hafa áhyggjur af framtíðinni í þessum efnum."

Nokkru síðar í þessari forystugrein er vitnað til Viðars Garðarssonar, sem ritar upplýsandi pistla á mbl.is um viðskiptatengd málefni og hefur t.d. hlotið fyrir suma þeirra óverðskuldaða og ómálefnalega gagnrýni Ketils Sigurjónssonar, lögfræðings, sem virðist vera einhvers konar púkablístra fyrir Landsvirkjun:

"Viðar heldur áfram í umfjöllun sinni og segir, að Landsvirkjun láti sem henni komi málið ekki við.  Þar ríghaldi menn í nýtt hlutverk fyrirtækisins, sem stjórnendur þess hafi skilgreint sjálfir undir nýrri forystu og athugasemdalaust af hálfu Samfylkingar og Vinstri grænna, sem þá voru í ríkisstjórn.

"Athyglisvert er, að þetta nýja hlutverk, þar sem arðsemi Landsvirkjunar sjálfrar er sett í öndvegi, og hvernig stjórnendur Landsvirkjunar túlka það, gengur þvert á raforkulög.  Í þeim grundvallarlögum er skýrt kveðið á um, að heildarhagsmunir þjóðarinnar eigi að ráða för", segir Viðar og heldur áfram: "Þetta mál er komið á það stig, að ríkisstjórn og forráðamenn Hafnarfjarðarbæjar hljóta að beita sér af hörku til að tryggja áframhaldandi starfsemi álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík.  Komi til lokunar, tapa allir.""

Hér eru orð í tíma töluð.  Blekbóndi þessa vefseturs hefur löngum verið sem barnið í ævintýrinu, sem hrópaði, þegar það sá keisarann spígspora á sviðinu til að sýna lýðnum hið fegursta hýjalín klæðskeranna, að eigin mati, að keisarinn væri ekki í neinu.  Nú hefur Viðar Garðarsson bætzt í hópinn og tekið réttilega svo sterkt til orða, að framferði Landsvirkjunar um þessar mundir stríði jafnvel gegn raforkulögum.  Er eftir nokkru að bíða fyrir ríkisstjórn og Alþingi að rétta af kúrsinn hjá fyrirtækinu með nýrri eigendastefnu, eins og Ásmundur Friðriksson, Alþingismaður, og blekbóndi í vefgrein: http://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2110052/

hafa lagt til.  

Þjóðarhagsmunir eru í húfi, þó að furðufuglar á borð við Ketil Sigurjónsson muni líklega gleðjast yfir þessum mannlega og efnahagslega harmleik, sem hér gæti verið í uppsiglingu, og telja, að við þetta verði um 400 MW afl í raforkukerfi landsins á lausu fyrir sæstreng til Bretlands. 

"Over my dead body", segja Englendingar, þegar þeir hóta að bíta í skjaldarrendurnar og berjast fyrir einhverjum málstað unz yfir lýkur.  Málstaður blekbónda í þessu tilviki er einfaldlega sá, að betra sé að láta ógert að virkja og leggja línur, nema til að nýta raforkuna hér innanlands. Í því sambandi er vert að minnast á varnaðarorð þýzks ráðgjafa um orkumál, sem sagði í kvöldfréttatíma RÚV, að enn ríkti fullkomin óvissa um kostnað slíks sæstrengsverkefnis og fáanlegt orkuverð á Englandi og reynslan af slíkum tengingum á milli landa væri sú, að raforkuverðið hækkaði, þar sem það væri lægra fyrir.  Sínum augum lítur hver á silfrið.

    

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rauða Ljónið

Góður.

Rauða Ljónið, 12.11.2015 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband