26.11.2015 | 10:27
Sjúkrahúsmál á krossgötum
Sjúkrahús landsins, ekki sízt móðurskipið, Landsspítalinn, hafa ítrekað á þessu ári orðið skotspónn stéttaátaka og vinnudeilna. Í ljósi stöðu fórnarlambanna í þessu máli er það algerlega forkastanlegt, að stéttir á þessum vinnustöðum skuli beita verkfallsvopninu æ ofan í æ til að knýja gæzlumenn ríkissjóðs til uppgjafar og til flótta frá launastefnu sinni. Slík gíslataka er óboðleg, reyndar einnig í skólum landsins.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta úrelta stéttastríð hefur leitt til verðbólguhvetjandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, eins og spáð hafði verið, sem aðeins lág eða engin verðbólga erlendis og styrking krónunnar hefur hindrað um sinn, að leiði til kjararýrnunar allra landsmanna. Er óskandi, að mótvægisaðgerðir fjármála- og efnahagsráðherra og framleiðniaukning fyrirtækja og stofnana muni hindra verðbólguskot yfir 3 % á næsta ári.
Verðbólga er versti vágestur landsmanna af mannavöldum. Mótun nýrra vinnubragða við gerð kjarasamninga undir skammstöfuninni SALEK gefur von um, að heilbrigð skynsemi fái sæti við samningaborðið í framtíðinni og forði landsmönnum hreinlega frá kollsteypum heimskulegs metings og launasamanburðar.
Nýlega vakti dómsmál, þar sem starfsmaður Landsspítala var ákærður fyrir morð á langt leiddum sjúklingi af gáleysi, miklar umræður í þjóðfélaginu, enda um fyrsta mál sinnar tegundar að ræða hérlendis. Af málsatvikum, eins og þeim var lýst í fjölmiðlum, að dæma, má sú afstaða saksóknara furðu gegna, að ákæra starfsmanninn fyrir "manndráp af gáleysi" og krefjast samt skilorðsbundins dóms. Ekki virðist fara vel á því að vera fundinn sekur um manndráð, þótt af gáleysi sé, og sleppa við refsingu, ef hegðun er góð.
Ljóst má vera af verknaðarlýsingu, að viðkomandi starfsmanni varð á í messunni, sýndi vangá í starfi, en hún varð við aðstæður mikils vinnuálags, sem yfirmaðurinn ber að öðru jöfnu ábyrgð á, og þess vegna hefði saksóknara verið nær annaðhvort að falla frá ákæru eða að ákæra vinnuveitandann, Landsspítalann. Málavextir voru bein afleiðing af þeirri niðurskurðarstefnu, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur beitti gagnvart sjúkrahúsum landsins, þ.e. að klípa utan af fjárveitingum án skipulagsbreytinga, þó að álagið ykist stöðugt. Glórulaust athæfi vinstri stjórnarinnar, sem vitnar enn og aftur um algert ráðleysi þar á bæ og um kolranga forgangsröðun, sem sjúkrahús landsins eru enn að súpa seyðið af.
Núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur aukið mjög fjárveitingar til sjúkrahúsanna og hafið nauðsynlegt endurnýjunarferli tækjabúnaðar, sem er góð fjárfesting fyrir þjóðarhag. Einnig hefur hún sett uppbyggingu nýs Landsspítala í ferli, sem þó er þörf á að bæta til að nýta tækniþróunina til hagsbóta fyrir skattgreiðendur. Þann 11.11.2015 tók heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, fyrstu skóflustunguna að nýbyggingum á Landsspítalalóðinni við Hringbraut. Þar með er mörkuð braut nývæðingar Landsspítalans, þó að mikill ágreiningur ríki enn, einnig á milli starfsfólks sjúkrahússins, um staðsetninguna. Ætlunin er að byggja og tækjavæða á Landsspítalalóðinni fyrir um miaISK 50 á 8 árum. Tímaramminn er raunhæfur, en þar sem aðeins um 25 % hönnunarinnar hefur farið fram, er mikil hætta á, að kostnaðaráætlunin eigi eftir að hækka verulega.
Þau rök hafa verið tilfærð, að vegna núverandi ójafnvægis í borginni á milli þungamiðju byggðar og atvinnustarfsemi þurfi að flytja spítalann í austurhluta borgarinnar. Borgarskipulagsrök hljóta þó að vera léttvæg m.v. innra skipulag og hönnun sjúkrahússins og nándina við miðstöð innanlandsflugs og fræðasetranna á Melunum og í Vatnsmýrinni, sem munu verða á sínum stöðum um langa framtíð.
Eitt af hlutverkum hönnuða er að miða hugverk sitt við það að geta þjónað þörfum framtíðar að breyttu breytanda. Í því sambandi ber að gjalda varhug við risabyggingum, því að tækniþróunin er í þá átt að minnka húsnæðisþörf sjúkrahúsa á hvern íbúa. Hagkvæmara er fyrir alla aðila að hefðbundnar aðgerðir á "tiltölulega lítið veikum" sjúklingum séu framkvæmdar utan móðurskipsins með lægri tilkostnaði og styttri bið en mögulegt er á Háskólasjúkrahúsinu, þar sem stjórnunarkostnaður og fastur kostnaður per aðgerð er mun hærri en í minni starfsstöðvum. Ef hönnuðir minnka fremur umfangið en hitt á grundvelli nýrrar þarfagreiningar, er tekur mið af téðri þróun, sem þegar er hafin og mun verða hröð á næstu árum, getur verkefnisstjórnin haldið aftur af kostnaðarhækkunum og jafnvel haldið kostnaðinum innan eðlilegra óvissumarka, sem m.v. núverandi hönnunarstig er allt að +/- 10 %.
Um þetta ritaði Jón Ívar Einarsson, yfirlæknir á Brigham and Women´s sjúkrahúsinu í Boston og "Associate Professor" við Læknadeild Harvard-háskóla, merka grein í Morgunblaðið þann 11. nóvember 2015:
"Heilbrigðismál - að hengja bakara fyrir smið":
"Greinarhöfundur starfar á Brigham and Women´s sjúkrahúsinu í Boston, sem er eitt virtasta sjúkrahús Bandaríkjanna og einn af aðalkennsluspítölum fyrir læknadeild Harvard-háskóla. Þar á bæ er nú unnið að því að úthýsa dagdeildaraðgerðum og þær fluttar yfir á minni einingar, þar sem yfirbygging og kostnaður er u.þ.b. helmingi minni en á "móðurskipinu". Þetta leiðir til gríðarlegs sparnaðar, og er verið að innleiða þessa stefnu víðar. Svipaða sögu er að segja af öðrum greinum læknisfræðinnar; allt ber að sama brunni, þ.e.a.s. sjúkrahúsdvöl er stytt eða er ekki lengur til staðar. Nauðsyn þess að byggja upp risastóran miðlægan spítala fer því þverrandi.
Uppbygging nýs Landsspítala á að taka mið af þessu. Að sjálfsögðu þarf miðlægan og öflugan spítalakjarna, sem sinnir bráðaþjónustu, gjörgæslu og mikið veikum sjúklingum. Hins vegar er hagkvæmara að hafa ýmsa aðra starfsemi utan þessa miðlæga kjarna."
Verkefnisstjórn um nýjan spítala og hönnunarteymið ættu nú þegar að taka mið af þessari nýju hugmyndafræði, sem er að ryðja sér til rúms vestra, í því skyni að spara sjúkratryggingum, sjúklingum og öðrum, fé. Í upphafi er um að ræða lækkun fjárfestingar og fjármagnskostnaðar, og síðan tekur við lækkun rekstrarkostnaðar spítalans og ríkissjóðs yfir allan starfstíma spítalans. Að núvirði (núvirt) gæti hér verið um meira en miaISK 100 að ræða, svo að eftir miklu er að slægjast, ekki sízt í ljósi óhjákvæmilegs kostnaðarauka hins opinbera af öldrunarþjónustu hvers konar vegna lengri meðalævi og fjölgunar aldraðra. Á sama tíma fækkar vinnandi mönnum á hvern "gamlingja". Það er því eftir miklu að slægjast.
Jón Ívar heldur áfram:
"Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp, sem Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, lagði fram um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Megintilgangur þess er m.a. að innleiða tilskipun Evrópuþingsins um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Þetta mun auðvelda sjúklingum að leita sér aðgerða í öðrum löndum, ef biðlistar eru óhóflega langir hérlendis. Sú spurning vaknar, hvort sjúklingar hafi þá ekki líka rétt á að leita sér þessara aðgerða innanlands, ef boðið er upp á þær utan veggja Landsspítalans. Ef svo er, þá getur þessi tilfærsla lítið veikra sjúklinga út af Landsspítalanum gengið enn hraðar fyrir sig."
Frumvarp heilbrigðisráðherra miðar tvímælalaust að því að auka valfrelsi sjúklinga um aðgerðaraðila hér innanlands einnig og er mikil réttarbót fyrir sjúklinga. Jafnframt munu starfsstöðvar sérfræðinga á heilbrigðissviði utan Landsspítalans geta sparað Sjúkratryggingum fé, og framleiðni við lækningar mun aukast. Margra mánaða bið eftir aðgerð getur verið sjúklingunum kvalafull og þjóðhagslegur sparnaður næst, ef aðgerðin hefur í för með sér, að vinnuþrek sjúklings vaxi í kjölfarið.
Þannig er óhætt fyrir verkefnastjórn nýs Landsspítala og hönnuðina að reikna með dreifðu aðgerðaálagi vegna sjúklinga, sem eru rólfærir. Það er nauðsynlegt að taka tillit til þessara sparnaðaraðgerða strax nú, þegar 75 % hönnunarinnar eru eftir. Breytingar á hönnunarstigi eru ódýrar m.v. breytingar á framkvæmdastigi.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Heilbrigðismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.