Skattkerfi og samkeppnihæfni hagkerfa

Það, sem einna mest skilur að hægri menn og vinstri menn, er hugmyndafræði þessara fylkinga um skattheimtu.  Hægri menn vilja haga skattheimtunni þannig, að hún skekki hagkerfið sem minnst, t.d. mismuni ekki atvinnugreinum, fyrirtækjum eða einstaklingum.  Hægri menn vilja forðast álögur, sem letja menn til framtaks, vinnuframlags og nýsköpunar, og haga skattheimtunni þannig, að hún hafi sem minnst neikvæð áhrif á samkeppnihæfni atvinnugreina, fyrirtækja og einstaklinga. Stækkun skattstofna er keppikeflið að mati hægri manna.

Þessu er öllu öfugt farið með vinstri menn, og þeir láta gjarna, eins og þeir skilji ekki, hversu vandmeðfarið skattkerfið er, og haga sér eins og fíll í postulínsbúð, þegar þeir komast til valda, eins og ráðsmennskan í Fjármálaráðuneytinu á dögum Jóhönnustjórnarinnar sýndi.  Þá var skattheimtan aukin mjög mikið og einstrengingslega, þannig að skatttekjurnar hurfu í skuggann af skattheimtunni, af því að þynging hennar hafði kunn og alvarleg áhrif á skattstofnana með þeim afleiðingum, að hagvöxtur koðnaði niður og tekjur ríkisins jukust miklu minna en efni stóðu til. Það hefur afhjúpazt við fjárlagagerð haustið 2015, að vinstri menn hafa engu gleymt og ekkert lært, síðan þeir báru ábyrgð á ríkissjóði, með hraksmánarlegum afleiðingum.  Þeir reikna með að éta kökuna áður en hún er bökuð.  Búskussar hafa slíkir jafnan kallaðir verið á landi hér. 

Samkvæmt nýrri kýrslu Tax Foundation (TF) batnaði alþjóðleg samkeppnihæfni íslenzka skattkerfisins árið 2014 m.v. 2013, því að landið fór úr 24. sæti í 20. sæti af 34 löndum OECD, sem í samanburðinum eru, og var með einkunn 6,7 árið 2014. Þetta er góður bati, en mun meira þarf, ef duga skal.

Í skýrslu TF kemur fram, að helzta ástæða batans var afnám auðlegðarskattsins, sem var eignaskattur, sem fól í sér tvísköttun og gerði t.d. eldri borgurum með lágar tekjur og miklar eignir erfitt um vik, og þeir urðu í sumum tilvikum að losa sig við eignirnar til að geta staðið í skilum.  Þetta var mjög óréttlátt, en þannig er einmitt réttlæti vinstri manna, sem fóðra allar sínar skattahækkanir með réttlætis- og jafnréttisblaðri. 

Miklar umbætur voru gerðar á skattkerfinu haustið 2014, sem tóku gildi 1. janúar 2015.  Má þar nefna afnám vörugjalda af öllu, nema bílum og eldsneyti, og styttingu bilsins á milli virðisaukaskattþrepanna tveggja og fækkun undanþága frá virðisaukaskatti. Verður gaman að sjá skýrslu TF árið 2016, en 2014 var Ísland eftirbátur allra Norðurlandanna, nema Danmerkur, að þessu leyti. 

Efst trónuðu Eistland með 10,0, Nýja Sjáland með 9,2, Sviss með 8,5 og Svíþjóð með 8,3. Ef Íslandi tekst að komast yfir 7,5, þá má búast við, að landflóttinn snúist við og fleiri erlend fyrirtæki fái raunverulegan hug á fjárfestingum hérlendis.  Það er áreiðanlegt, að skattkerfið á hlut að atgervisflóttanum frá Íslandi, þó að fleiri atriði komi þar við sögu. 

Fernt skýrir velgengni Eistlands: 

  1. 20 % tekjuskattur á fyrirtæki og engin auðlindagjöld.  Skatturinn er tiltölulega lágur og mismunar ekki fyrirtækjum eftir greinum.
  2. 20 % flatur tekjuskattur á einstaklinga.  Þetta er eftirsóknarvert kerfi, því að það hvetur til tekjuaukningar og umbunar þeim, sem lagt hafa út í langt nám, fá í kjölfarið háar tekjur, en að sama skapi skemmri starfsævi en hinir.  Á Íslandi verður tekið hænuskref í þessa átt með afnámi miðþrepsins, en þá lækkar viðmiðun efra þrepsins.
  3. Eignarskattsstofn í Eistlandi er einvörðungu landeign, en hvorki fasteignir né fjármagn mynda eignarskattsstofn. Það virkar nokkuð kyndugt að skattleggja land, og verður þá ekki séð, hvers bændur eiga að gjalda.  Þeir, sem kaupa sér land eða lóð, hafa þegar greitt skatt af aflafé sínu, og þess vegna er um tvísköttun að ræða, nema um arf eða gjöf sé að ræða.
  4. Erlendar tekjur fyrirtækja, sem skrásett eru í Eistlandi, eru undanskildar skattheimtu ríkisins.  Þetta virkar auðvitað sem hvati á fyrirtæki til að skrá höfuðstöðvar sínar í Eistlandi, enda hljótast af slíku fjárfestingar og óbeinar tekjur til hins opinbera.  Þetta er snjallt hjá Eistum.

Niðurstöður rannsókna skýrsluhöfundanna sýna ótvírætt, að til að skattkerfi efli samkeppnihæfni lands, verður skattheimtunni að vera stillt í hóf.  Vinstri stjórnin rýrði samkeppnihæfni Íslands með hóflausum og illa ígrunduðum skattahækkunum.  Þetta kemur þannig niður á launþegunum, að kjör þeirra dragast aftur úr kjörum starfsbræðra og -systra erlendis.  Að kjósa vinstri flokkana er þess vegna að kjósa lakari kjör sér til handa en ella væru í boði. 

Alþjóðleg fyrirtæki líta mjög til skattkerfisins, þegar þau íhuga að hasla sér völl í nýju landi.  Það er keppikefli flestra landa, þróaðra og annarra, að draga til sín starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja. 

Fyrir heilbrigt hagkerfi skiptir ekki einvörðungu hófleg skattheimta máli, heldur má skattlagningin ekki mismuna starfsgreinum, þ.e.a.s. skattkerfið þarf að sníða í því augnamiði að afla sem mestra tekna án þess að valda markaðsbresti.  "Það þýðir skattkerfi, sem ýtir ekki undir neyzlu á kostnað sparnaðar, eins og raunin er með fjármagnstekjuskatt og eignaskatt.  Þetta merkir einnig kerfi, sem veitir ekki einum geira atvinnulífsins skattaívilnanir miðað við aðra geira þess.", svo að vitnað sé beint í umrædda skýrslu. 

Heimfært á Ísland væri nær að skrifa, að samkeppnihæft skattkerfi íþyngi ekki einum geira atvinnulífsins umfram aðra geira, því að um það er engum blöðum að fletta, að auðlindagjaldið, sem innheimt er af sjávarútveginum einum, er í senn ósanngjarnt og sérlega íþyngjandi.  Til að sníða af því agnúana þarf að búa svo um hnútana, að andvirði s.k. veiðigjalds renni til starfsemi, sem þjónustar sjávarútveginn umfram aðra aðila, t.d. Hafrannsóknarstofnunar, Landhelgisgæzlunnar, Hafnarsjóðs o.fl..  Gjaldið þarf að vera verðtengt og magntengt, t.d. 4%-5% af verði óslægðs fiskjar upp úr sjó.  Að öðrum kosti skekkir þessi skattheimta samkeppnihæfni sjávarútvegs um fólk og fé og má líta á sem landsbyggðarskatt.  Ekki þarf að fara mörgum orðum um, að þetta veiðigjald, eins og það er lagt á hérlendis, á sér enga hliðstæðu erlendis, heldur er reist á annarlegum sjónarmiðum hér innanlands. Samt er stjórnarandstaðan hérlendis enn eins og gömul plata, þegar hún ræðir fjárlagafrumvarpið og þarf að fjármagna lýðskrum sitt, og heggur í knérunn sjávarútvegsins, þar sem hún ævinlega telur feitan gölt að flá.  Samt eru með slíku brotin lögmál heilbrigðrar og sjálfbærrar skattheimtu, svo að ekki sé nú minnzt á sanngirnina.  Hún liggur ævinlega óbætt hjá skattbæli villta vinstrisins.     

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband