Hryðjuverkaógnin varðar alla

 

Föstudagskvöldið 13. nóvember 2015 verður lengi í minnum haft, því að þá létu jihadistar (islamistar í heilögu stríði gegn "trúleysingjunum") til skarar skríða í París og myrtu þar og særðu tæplega 500 manns.

Þann 19. nóvember 2015 tilkynnti forsætisráðherra Frakka opinberlega, að hætta væri á hryðjuverkaárás á almenning í Frakklandi, þar sem eiturefnum eða sýklahernaði yrði beitt.  Er þessi aðvörun vafalaust gefin að gefnu tilefni, þar sem leyniþjónusta Frakklands eða annarra landa hefur komizt á snoðir um óhugnanlega fyrirætlun jihadista um örkuml og/eða kvalafullan dauðdaga enn fleiri en þeir skutu á eða sprengdu í loft upp föstudagskvöldið hræðilega í París.

Lega Íslands hjálpar til við að draga úr líkum á hryðjuverkum hér, en útilokar þau ekki.  Eftir því sem gerzt er vitað, skortir allmikið á, að íslenzka lögreglan hafi sambærilegar forvirkar rannsóknarheimildir á við lögreglu hinna Norðurlandanna.  Það er full ástæða til að samræma þessar heimildir, og fyrr verður í raun ekki samstarfsvettvangur Norðurlandanna fullnýttur á þessu sviði.  Ekki skal draga úr gildi mats lögreglu á þörf hennar á nýjum vopnum, en upplýsingaöflun og geta til að uppræta glæpahópa áður en þeir láta til skarar skríða er jafnvel enn mikilvægari.  Til þess getur reyndar þurft öflugan vopnabúnað. Ný heimsmynd blasir við, og þá dugar ekki að stinga hausnum í sandinn.   

Þrátt fyrir, að lögreglan hafi í raun bjargað íslenzka lýðveldinu í árslok 2008 og ársbyrjun 2009, þegar óður skríll bar eld að Alþingishúsinu og réðst til atlögu við Stjórnarráðið, og kannski þess vegna, veitti vinstri stjórnin lögreglunni þung högg með því að draga úr fjárveitingum til hennar á sínum tíma, og nemur þessi kjánalegi sparnaður allt að miakr 10 á verðlagi 2015, uppsafnaður.  Það er þess vegna lágmark að auka fjárveitingar 2016 um miakr 0,5 m.v. 2015.  Innanríkisráðuneytið vinnur að langtímaáætlun um löggæzluna, og væntanlega verður aukið í ár frá ári. 

Á sama tíma og áhrif Frakka innan Evrópu hafa dvínað undanfarin ár, hafa þeir beitt sér hernaðarlega meira á erlendum vettvangi en nokkur önnur Evrópuþjóð, og aðgerðir þeirra hafa í mörgum tilvikum beinzt gegn Múhameðstrúarmönnum.  Fleiri Múhameðstrúarmenn búa í Frakklandi en í nokkru öðru landi Evrópu, og á það sér sögulegar skýringar frá nýlendutímanum. Í verstu fátæktarhverfum franskra borga og bæja eru Múhameðstrúarmenn fjölmennir, og þeir hafa ekki aðlagazt franska þjóðfélaginu. Sama má segja um Belgíu og önnur lönd. Þessi staða mála er gróðrarstía jihad, heilags stríðs, gegn Frakklandi, og þess vegna eru árásir og fjöldamorð islamistanna í París engin tilviljun. 

Jihadistarnir fyrirlíta lifnaðarhætti Vesturlanda og ráðast þess vegna gjarna á táknmyndir þeirra, s.s. fólk á veitingastöðum, börum, tónleikum og íþróttaleikvöngum og jafnvel í kirkjum.  Þannig voru skotmörkin í París greinilega ekki valin af handahófi. 

Frakklandsforseti lýsti í kjölfarið yfir stríði við hin islömsku glæpasamtök ISIS, kalífadæmi Íraks og Sýrlands.  Frakkar hófu síðan loftárásir á ISIS í Sýrlandi, en þetta er eins vonlaus baráttuaðferð Frakkanna og hugsazt getur.  Til að uppræta hernaðargetu kalífadæmisins þarf landhernað og til að uppræta öfgafulla hópa í Frakklandi og annars staðar, sem hlýða kalli kalífadæmisins, þarf öflugt eftirlit með öllum, sem farið hafa þangað og snúið til baka eða alizt hafa upp í gróðrarstíu öfgafullra trúarskoðana, þar sem moskurnar vissulega eru í brennidepli.  

Frakkar eiga ekki sjö dagana sæla um þessar mundir.  Þeim, eins og öllum öðrum við slíkar aðstæður, er hollt að líta í eigin barm. Frelsi, jafnrétti og bræðralag er e.t.v. ekki öllum ætlað, frekar en fyrri daginn.   

Frakkar hafa glutrað niður forystuhlutverki sínu í Evrópu vegna bágs efnahags og skorts á sveigjanleika í samskiptum við aðra. Þeim gengur illa í alþjóðlegri samkeppni, enda eru þeir almennt ekki hallir undir auðvaldskerfið.  Þeir vilja fremur reiða sig á opinber inngrip í markaðinn, og almennt horfa þeir mjög til miðstýringarvaldsins í París, sem Napóleón Bonaparte frá Korsíku byggði upp af natni fyrir meira en 200 árum.  

Frakkland er heldur ekki óskastaður flóttamanna.  Dæmi um þetta var, þegar Frakkar ákváðu í September 2015 á hápunkti flóttamannastraumsins til Þýzkalands, að setja á svið atburð, sem sýna átti evrópska samstöðu.  Franskir embættismenn héldu til Munchen í Bæjaralandi í þremur rútum með túlka af frönsku á arabísku og gjallarhorn.  Hugmyndin var að fylla rúturnar af flóttamönnum og flytja þá vestur yfir Rín til að létta þrýstingi af Þjóðverjum.  Frakkarnir áformuðu að sækja um 1000 hælisleitendur, en tókst aðeins að telja örfá hundruð á að fara með sér til Frakklands.  Flóttamennirnir höfðu lítinn áhuga á að verða aðnjótandi franskrar samstöðu, en kusu fremur að búa í Þýzkalandi.  Rúturnar héldu til baka yfir Rín hálftómar, þrátt fyrir margfalt meira flóttamannaálag á Þýzkaland en Frakkland.  Þetta er sláandi dæmi og sýnir muninn á ímynd Þjóðverja og Frakka í huga flóttamannanna. Þessi munur mætti verða Frökkum nokkurt áhyggjuefni. 

Það hefur gerzt hvað eftir annað í mismunandi málaflokkum, t.d. gríska myntdramanu og evrukreppunni í heild sinni, að Frakkar sprikla, en að lokum fer ESB þá leið, sem Þjóðverjar, undir leiðsögn kanzlarans, Angelu Merkel, hafa stikað. Hið merkilega er, að Evrópumenn virðast oftast nokkuð ánægðir með þetta fyrirkomulag. Til þess liggja bæði efnahagslegar og sálrænar ástæður.   

Of mikið væri að segja, að nú, 70 árum eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar, stæðu allir og sætu, eins og Þjóðverjar vilja, en það má til sanns vegar færa, að engum mikilvægum málefnum Evrópu er ráðið án þess að taka tillit til vilja Þjóðverja. 

Nú gerast Þjóðverjar sjálfir hins vegar tregari í taumi við Angelu Merkel með hverri vikunni, sem líður, vegna flóttamannavandans, en frumkvæði hennar að opna Þýzkaland fyrir sýrlenzkum flóttamönnum þykir ekki lengur merki um ígrundaða ákvarðanatöku og ætlar að reynast kanzlaranum þungur pólitískur baggi og þýzkum skattborgurum þungar klyfjar.  Enginn veit, hvort jihadistarnir í Þýzkalandi og annars staðar í Evrópu fá með þessu gríðarlega flæði Múhameðstrúarmanna til Evrópu meira fóður fyrir sitt heilaga stríð gegn gestgjöfunum, en margir óttast það. Þessi ótti er líklegur til að framkallast í stjórnmálasveiflu til hægri við ríkjandi mið-hægri flokka, eins og CDU/CSU í Þýzkalandi og flokk Sarkozys í Frakklandi. Væringar munu vaxa í Evrópu fyrir vikið. Landamæralaus Evrópa gengur auðvitað engan veginn upp, og Íslendingum ber að vera í stakk búnir til að loka landamærum sínum þrátt fyrir aukakostnað, sem þó getur reynzt hverfandi miðað við afleiðingar lágmarks landamæraeftirlits.    

    

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband