6.3.2016 | 11:09
Græningjar sveigja til vinstri
Sagt er, að Samfylkingin sé í andarslitrunum. Farið hefur fé betra, verður þá sumum að orði. Það er ekki séríslenzk þróun, að jafnaðarmannaflokkar skreppi saman um þessar mundir. Þessa þróun má sjá um alla Evrópu, og græningjar álfunnar hafa séð sér leik á borði að sækja inn í tómarúmið, sem jafnaðarmenn skilja eftir sig á vinstri vængnum. Þá skapast náttúrulega svigrúm fyrir hægri græna, og einmitt það sáum við í Þýzkalandi, þegar Angela Merkel, kanzlari og leiðtogi CDU-Christliche Demokratische Union, sem er miðju-hægri flokkur og svipar til Sjálfstæðisflokksins á Íslandi, tók þýzka græningja á orðinu í kjölfar Fukushima-kjarnorkuslyssins í Japan 2011 og gleypti við stefnu þeirra um að loka þýzkum kjarnorkuverum í síðasta lagi árið 2022. Þessi stefna er reyndar tímaskekkja nú, þegar megináherzluna verður að leggja á að stöðva aukninguna í styrk koltvíildis, CO2, í andrúmsloftinu, og það verður hreinlega ekki hægt, nema með því að fjölga kjarnorkuverum á kostnað kolakyntra raforkuvera.
Jesse Klaver heitir nýr formaður hollenzkra græningja, sem nú reynir að blása nýju lífi í flokk, sem í kosningum árið 2012 féll úr tæplega 7,0 % fylgi í rúmlega 2,0 % fylgi. Eftir honum hefur "The Economist" þetta, 23. maí 2015:
"Sú tilfinning hefur grafið um sig í Hollandi, í Evrópu, á Vesturlöndum, að við fáum engu breytt um nokkurn skapaðan hlut, að þetta sé bara, eins og heimurinn er. Það er þó ekki rétt. Við reistum þessa veröld, stein eftir stein, og það, sem þið reisið sjálf, því getið þið og breytt."
Aukið fylgi hollenzkra vinstri grænna geta þeir þakkað Verkamannaflokkinum, sem gekk í eina sæng um ríkisstjórn með mið-hægri Frjálslyndum og ber með þeim ábyrgð á aðhaldsstefnu um ríkisfjármálin. Það hefur skapað Klaver tækifæri til ákafs áróðurs fyrir lausatökum á ríkisfjármálum. Honum verður tíðrætt um skattaundanskot fjölþjóðafyrirtækja. Á slíkum áróðri gegn erlendum stórfjárfestum ber og hérlendis á vinstri slagsíðunni. Hann vill setja lög um lágmarkslaun, og hann hefur boðið franska hagfræðinginum Thomas Piketty að ávarpa hollenzka þjóðþingið.
Í Þýzkalandi hefur samsteypustjórn CDU/CSU og SPD (þýzkra jafnaðarmanna) valdið vafa hjá kjósendum um, hvað jafnaðarmenn standa eiginlega fyrir. Frank Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýzkalands, nýtur þó vinsælda á með Þjóðverja. Málsmeðferð ríkisstjórnarinnar í Berlín er þó tekin að reita af henni fylgið, og spennandi verður að fylgjast með afstöðu kjósenda í væntanlegum þýzkum fylkiskosningum.
Í Frakklandi hafa jafnaðarmenn gengið á bak fyrri loforða sinna og reyna nú að draga saman seglin í ríkisrekstrinum. Þess vegna yfirgáfu græningjar ríkisstjórnina frönsku. Franska ríkisstjórnin hraktist frá ofurskattlagningu, 75 %, á hátekjufólk, og nú eru þeir að hörfa frá stolti sínu, 35 klukkustunda vinnuviku, vegna bágborinnar samkeppnishæfni fransks atvinnulífs.
Þrátt fyrir rek brezka Verkamannaflokksins til vinstri fyrir kosningatap sitt 7. maí 2015, þá skilgreindu þarlendir græningjar sig sem staðfastan vinstri flokk og fjórfölduðu fylgi sitt upp í 4 %. Verkamannaflokkurinn brezki er lamaður vegna innanflokkserja eftir kjör vinstri mannsins Corbyns í formannssætið. Hins vegar ætlar þjóðaratkvæðagreiðslan um veru eða brotthvarf Bretlands að reynast Íhaldsflokkinum býsna örlagarík.
Í Austurríki lyfti andóf við miðjumoði í ríkisstjórn græningjum upp í 12 % fylgi í þingkosningum 2013.
Í Svíþjóð eru græningjar í ríkisstjórn með jafnaðarmönnum, í fyrsta sinn, og hafa fengið framgengt nýskattlagningu á kjarnorkuver, svo að framtíð þeirra er teflt í tvísýnu. Sænska ríkisstjórnin hefur annars verið aðgerðalítil, en tók þó loks af skarið gagnvart hömlulausu innstreymi flóttafólks, þegar allt var komið í óefni.
Bágstödd hagkerfi og mikið atvinnuleysi eru ekki fylgislegt kjörlendi fyrir flokka, sem einblína á umhverfisvernd. Versnandi kjör virðast fæla kjósendur frá miðjuflokkum og til lítilla hugsjónaflokka, en þar fljóta yfirleitt ofan á hatrammir Evrópusambandsandstæðingar og þeir, sem hamla vilja innstreymi innflytjenda, t.d. brezki UKIP-Sjálfstæðisflokkurinn og franska Þjóðfylkingin-FN. Græningjar vilja yfirleitt ekki hömlur á aðstreymi innflytjenda, og þeir eru Evrópusambandssinnar.
Hérlendis svipar pírötum nokkuð til græningja í Evrópu, en þeir eru þó ólíklegir til að leita til vinstri við Samfylkinguna. Líklegra er, að vinstri grænir blási dálítið út, þegar Samfylkingin veslast upp, enda njóta vinstri grænir nú meira fylgis í skoðanakönnunum en Samfylkingin. Píratar á Íslandi bera keim af gömlu stjórnleysingjunum, enda hafa þeir lýst sér sem andkerfisflokki. Stefnumálin flækjast ekki fyrir pírötum, heldur eru þeir uppteknari af naflaskoðun, innanflokks valdabáráttu og titlatogi. Í einu orði má lýsa slíku fólki sem naflaskoðurum, og verður ekki séð, hvaða erindi slíkir eiga á vettvang stjórnmálanna. Kannski er þessi "póstmoderníski" snykur pírata styrkur þeirra og svar við firringunni.
Sjálfstæðisflokkurinn ætti að taka sér stöðu sem raunhæfur, þ.e. "no nonsense", umhverfisverndarflokkur og einblína í því sambandi á minnkun og útjöfnun losunar gróðurhúsalofttegunda, sem er stærsta umhverfisverndarmálið nú á Íslandi og á alþjóðavísu, og á Íslandi má enn bæta við uppblæstri lands og stækkun stærstu eyðimerkur Evrópu sem meginviðfangsefni á sviði umhverfisverndar. Þar er hægt að setja þjóðinni metnaðarfullt markmið um að verða fyrst Evrópuþjóða til að ná 0 nettó losun gróðurhúsalofttegunda eigi síðar en árið 2045, m.a. með stórfelldri ræktun auðna, sem kostuð væri af kolefnisgjaldi og/eða koltvíildisskattheimtu (samhliða lækkun annarrar skattheimtu til mótvægis).
Til alls þessa eru raunhæfar efnahgslegar og tæknilegar forsendur nú þegar fyrir hendi eða verða fyrirsjánlega tiltækar í tæka tíð. Stefnumörkun af þessu tagi mun hafa jákvæð áhrif á hagkerfið, sem verður óháð innflutningi á jarðefnaeldsneyti, og mun skapa arðsama atvinnu við landgræðslu og skógrækt í hinum dreifðu byggðum landsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.