Ris og fall bandarísks vaxtar

Út er komin hjá bandaríska forlaginu, Princeton University Press, bókin: "Ris og fall bandarísks vaxtar - bandarískir lífshættir síðan í Borgarastríðinu".

Lýsingin á að mörgu leyti einnig við Evrópu og þá Ísland með hálfrar aldar seinkun og er fróðleg. Verður stuðzt hér við þessa bók í endursögn "The Economist", 9. janúar 2016:

Þann 20. janúar 2016 komu þeir saman í fjallabænum Davos í Sviss, sem líta á sig sem alþjóðlegt úrval, og ræddu "fjórðu iðnbyltinguna". 

Sú fyrsta varð um 1750 með hagnýtingu eðlisfræðilögmála Sir Isacs Newtons frá öldinni áður og lögmála varmafræðinnar með frumsmíði gufuvélar Skotans James Watts, og skömmu seinna var farið að dæla olíu úr jörðu í Pennsylvaníu og hagnýta hana sem eldsneyti í Bandaríkjunum - BNA. Tímabil jarðefnaeldsneytis gekk í garð og varaði í þrjár aldir, en um miðja 21. öldina verður notkun þess að renna sitt skeið á enda, ef ekki á illa að fara. 

Önnur iðnbyltingin varð með útleiðslu eðlisfræðilögmála Maxwells og Faradays um rafsegulfræði og rafstraum og síðan beizlun rafmagns á þeim grunni um 1880. 

Sú þriðja fylgdi í kjölfar Afstæðiskenningar Alberts Einsteins fyrir öld og síðan beizlun kjarnorkunnar 1945, og sú fjórða stendur í raun enn yfir, en það er tölvubyltingin, sem hófst um 1985.  Sér ekki fyrir endann á henni.

Það er þó ofmat hjá Klaus Schwab, hringhöfðingja sirkusins, sem á ensku nefnist "The World Economic Forum" eða "Vettvangur heimshagkerfisins", að 4. byltingin sé sú áhrifamesta.  T.d. er sjálfkeyrandi bíll minni breyting en vélknúin bifreið, sem smíði hófst á í lok 19. aldar, og fjöldaframleiðslutækni Fords í byrjun 20. aldar gerði síðan að almannaeign.

Önnur tæknibyltingin, sem átti sér stað 1870-1900, gjörbylti lífi fólks.  Áður var hraði tengdur hrossum, og sólarhringstaktinn ákvarðaði snúningur jarðar um möndul sinn.  Grunnþörfum var fullnægt með líkamlegu erfiði, t.d. að sækja eldunarvatn, baðvatn og þvottavatn, og bera í hús.  Þetta erfiði lenti oftast á konum og börnum, og hiklaust má halda því fram, að 2. tæknibyltingin hafi frelsað konuna undan þrældómi heimilisverkanna, og var þá kominn tími til. Rafknúin heimilistæki og raflýsing gjörbyltu heimilishaldinu til hins betra ásamt loftgæðum innanhúss, og mynduðu grundvöllinn að þátttöku kvenna í atvinnulífinu og kvenfrelsisbaráttunni, svo að ekki sé nú minnzt á framleiðniaukninguna og framleiðsluaukninguna, sem varð samfara innreið rafmagnsins. Að baki meiriháttar þjóðfélagsbreytingum og hernaðarsigrum er oftast tækniþróun.  Barátta verkalýðshreyfingarinnar fyrir bættum hag verkalýðs hefði orðið ósköp léttvæg án risaskrefa í framleiðniaukningu 1880-1980 á Vesturlöndum, í Japan og víðar, og hefði orðið létt í vasa án mikillar framleiðsluaukningar og hagvaxtar, sem hagnýting tækniþróunar gerði mögulega.   

Rafmagnið færði birtu og yl inn í húsakynnin og smám saman komu á markaðinn rafknúnar eldavélar, þvottavélar, ísskápar og fleiri heimilistæki.  Við þetta snarbatnaði loftið í hýbýlunum, afköst við heimilisverkin jukust, og þau urðu léttari. Fæðuúrvalið jókst til muna með bættri geymslutækni. Nútímalega lifnaðarhætti og velferðarmöguleika eigum við raunvísindunum og hagnýtingu þeirra á margvíslegum tækni- og framkvæmdasviðum að þakka. 

Uppgötvun, smíði og dreifing símans stytti fjarlægðina á milli fólks til mikilla muna.  Afturhaldsöfl voru auðvitað á móti þessum breytingum víða, og á Íslandi er andstaðan og óttinn við símann alræmd. Síðan hafa flest framfaramál á Íslandi, sem fólu í sér verklegar framkvæmdir og/eða breytingar á umhverfi eða lífi fólks, sætt ámæli afturhaldsafla.  Í hverju þjóðfélagi má búast við, að afturhaldsöfl geti náð til 20 % þjóðarinnar, og þetta hlutfall virðist stækka með aukinni velmegun, en það er ekki um neitt annað að gera fyrir hina en að halda sínu striki og leiða þróunina áfram til betra mannlífs með beztu fáanlegu tækni á hverjum tíma.  Það er skylda okkar að búa þannig eftir megni í haginn fyrir komandi kynslóðir.  Aðgerðarleysi og dauðyflisháttur er dauðasök.   

Verð á bílum hríðféll, eða um 63 %, á árabilinu 1912-1930 eða um 3,5 % á ári að jafnaði að raunvirði.  Nú á tímum á sér stað enn meiri verðlækkun á rafmagnsbílum, sem taka munu við af bílum knúnum sprengihreyflum 19. aldar, þegar tökin á geymslu rafmagns verða orðin viðunandi. 

Á þessum árum varð bifreiðin almenningseign í BNA, því að þá jókst fjöldi heimila með aðgang að bifreið frá 2 % og upp í 90 % eða um tæplega 5 % á ári að jafnaði.  Gerðist þetta mun fyrr í BNA en í Evrópu eða annars staðar í heiminum, en var í raun stefna Þriðja ríkisins á 4. áratuginum, og var Volkswagen-bjallan hönnuð sem bifreið hins vinnandi manns og fyrir hana og stærri bifreiðir af gerð Merchedes-Benz, Porsche o.fl., lagðar fyrstu hraðbrautirnar, "Autobahnen", sem nú eru sveitavegir í Sambandslýðveldinu Þýzkalandi. 

Á fyrstu 30 árum 20. aldarinnar varð tækniþróunin svo ör í borgaralegu samfélagi BNA markaðshagkerfis frjálsrar samkeppni, að segja má, að þau hafi skilið Evrópu eftir, enda álpuðust stórveldi Evrópu út í stórstyrjöld, sem stóð 1914-1918, og var reist á misskilningi, rangtúlkunum og risaegói aðalsins, sem enn hafði þar tögl og hagldir þó án beysinna hæfileika í mörgum tilvikum.  Þjóðfélagsumrót í kjölfar gífurlegs mannfalls og hörmunga þessarar styrjaldar velti aðlinum góðu heilli úr sessi, en í henni voru færðar hræðilegar og ófyrirgefanlegar fórnir, og hún varð Evrópu hrikalega dýrkeypt á marga vegu. 

Reyndar höfðu BNA strax um aldamótin 1900 náð mikilli forystu í tæknivæðingu almennings. Árið 1900 voru ferfalt fleiri símtæki á íbúa í BNA en á Bretlandi, sexfalt fleiri á íbúa en í Þýzkalandi og 20-falt fleiri á íbúa en í Frakklandi.  Þremur áratugum seinna áttu Bandaríkjamenn meira en 78 % af öllum bifreiðum í heiminum.  Loks árið 1948 höfðu Frakkar náð sambærilegu aðgengi að bifreiðum og rafmagni og Bandaríkjamenn höfðu náð árið 1912. 

Evrópa hafði verið lögð í rúst í hefndarstríði þjóðernisjafnaðarmanna 1939-1945 eftir ófarir þýzkumælandi landa keisaranna í Berlín og Vín í ófriðnum mikla 1914-1918, og Bandaríkin reyndar leitt báðar styrjaldirnar til lykta, svo að forskot Bandaríkjanna í tæknivæðingu samfélagsins hélzt lungann úr 20. öldinni.

Þegar þýzka herráðið vann að styrjaldaráætlunum Þriðja ríkisins 1938-1940, var ekki gert ráð fyrir ógn af hernaðarmætti BNA í Evrópu.  Stafaði það af þrennu:

Ífyrsta lagi var rík einangrunartilhneiging í BNA eftir Kreppuna miklu og þingið ófúst að taka afstöðu með öðrum hvorum deiluaðilanum í Evrópu, þ.e. Möndulveldunum eða Vesturveldunum, enda afkomendur þýzkumælandi innflytjenda í BNA um þriðjungur Bandaríkjamanna á þessum tíma og öflugir í samfélaginu. Þá þótti ógæfulegt að stugga við hinni rísandi sól, Japan, sem var eitt Möndulveldanna. 

Í öðru lagi stóð Wehrmacht ekki ógn af bandaríska hernum á þessum tíma, því að hann þótti þá sambærilegur rúmenska hernum að stærð og atgervi, sem er með ólíkindum. 

Í þriðja lagi var talið, að Bandaríkjamenn mundu eiga fullt í fangi með að fást við Japani, en vegna öxulsins Berlín-Tokyo-Róm var Berlín kunnugt um fyrirætlun keisaradæmis hinnar rísandi sólar um framrás á Kyrrahafinu og til Suð-Austur Asíu, en Japanir höfðu þá tögl og hagldir í auðugum héruðum Kína, þar sem þeir öfluðu hráefna fyrir ört vaxandi iðnað sinn.  Forkólfar möndulveldanna réttlættu stríðsæsing sinn með nauðsynlegri öflun matvæla og iðnaðarhráefna fyrir ört vaxandi þjóðir sínar, sbr slagorðið, "Drang nach Osten", sem átti að beina sjónum Þjóðverja í austurátt að "kornforðabúri Evrópu", Úkraínu, en átti eftir að leiða þá í tortímingarleiðangur til Leningrad, Stalingrad, Moskvu og Kákasus.

Þýzka herráðið vanmat gjörsamlega mikilvægi tæknilegs forskots Bandaríkjanna og hinn gríðarlega framleiðslumátt þessa rísandi stórveldis, og herráðinu varð þetta ekki ljóst fyrr en árið 1942, og þessi mistök ásamt WC-þættinum, þ.e. stríðsleiðtogahæfileikum Sir Winstons Churchills, áttu eftir að verða afdrifarík og leiða til endaloka "Þúsund ára ríkisins" eftir rúm 12 ár frá stofnun.  Þetta kemur vel fram í endurminningabók þýzka vígbúnaðarráðherrans, Alberts Speers, arkitekts.

Eftir sigur Bandamanna undir forystu Bandaríkjamanna 1945 festu þeir áhrifamátt sinn í sessi með með nýrri heimsskipan á grundvelli Marshall-aðstoðarinnar og Bretton Woods fjármálakerfisins, og með því að láta mikið fé renna til æðri menntunar í BNA, sem leiddi til atgervisflótta þangað og lagði grunn að miklu framfaraskeiði í hagkerfi, þar sem framleiðslunni var beint frá hergögnum og öðrum þörfum hersins til friðsamlegra þarfa og neyzluvarnings.  1950-1970 var tímabil velmegunar og eflingar miðstéttarinnar bandarísku, og jafnvel fólk með einvörðungu grunnskólamenntun gat vænzt atvinnuöryggis, húss í úthverfi og nægra eftirlauna, sem var afrakstur byltingar borgarastéttarinnar. 

Árið 1970 tók að falla á þessa fögru mynd, enda fóru bandarísk fyrirtæki nú að finna fyrir samkeppni, einkum frá þeim, sem bandaríski herinn hafði átt drjúgan þátt í að knésetja 1945, Japan og Þýzkalandi.  Víetnam-stríðið dró BNA siðferðislega niður í svaðið og varð upphafið að hnignun ríkisins.  OPEC margfaldaði olíuverðið 1973, og það varð öllum iðnríkjum þungbært, ekki sízt BNA, sem knúin voru áfram með olíusóun.  Tekju-og eignamunur þegnanna tók nú að aukast, þar sem auðurinn safnaðist á færri hendur, og kjarabætur miðstéttanna stöðvuðust. Þær fengu ekki lengur réttlátan hlut í framleiðniaukningunni. Þessi þróun mála getur endað með ósköpum í BNA. Þar ríkir greinilega reiði á meðal almennings út í stjórnkerfið, sem mörgum þykir hafa brugðizt sér, en hyglað "Wall Street" (Borgartúninu), þ.e. spákaupmönnum og auðjöfrum, á kostnað hins stritandi manns.  Þetta er ástæðan fyrir fylgi við lýðskrumarann Donald Trump og jafnaðarmanninn Bernie Sanders.  Þarna er mikil gerjun, sem vonandi mun á endanum verða almenningi til eflingar á kostnað auðjöfranna.

Á bak við kjarabætur almennings hafði á tímabilinu 1920-1970 staðið mikill framleiðnivöxtur eða 2,82 % á ári að jafnaði.  Á tímabilinu 1970-2014 hefur honum hrakað mjög eða niður í 1,62 % á ári að jafnaði.  

Nú mega Bandaríkjamenn muna fífil sinn fegri.  Þjóðin eldist, lækniskostnaður vex, ójöfnuður er hrikalegur á íslenzkan mælikvarða og samfélagsleg innanmein grafa um sig.  Bandaríkjamenn hafa misst fótfestu í alþjóðamálum, og þau gætu hreinlega dregið sig inn í skel sína, senn hvað líður.  Það er auðvitað miður og mun auka enn á óreiðuna í heiminum.  Þó virðast þeir  nýlega vera farnir að bera víurnar í sína gömlu aðstöðu á Íslandi, en óvissan er mikil um, hvað við tekur eftir kosningarnar í nóvember 2016.

Tæknilegt forskot Bandaríkjamanna virðist nú vera bundið við hergagnaiðnaðinn, þar sem þeir njóta yfirburða, en í flestum nytjavöruflokkum almennings virðast þeir jafnvel hafa dregizt aftur úr, s.s. í farsímum, bílum og heimilistækjum.  Í fararbroddi á þessum sviðum eru nú Evrópumenn og Austur-Asíumenn.  Við þessum heimshlutum blasir hins vegar ekki síður við mikill vandi af lýðfræðilegum og stjórnmálalegum toga, þ.e. hrörnun. Nestor jafnaðarmanna á Íslandi, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur lýst Evrópusambandinu sem brennandi húsi. Olíuverðlækkunin, sem hófst í júní 2014 og mun standa a.m.k. út 2016, nema fjandinn losni úr grindum, hefur komið af stað miklu umróti í heiminum, sem ekki sér fyrir endann á. Íslendingar standa við þessar aðstæður að mörgu leyti með pálmann í höndunum, en verða, eins og fyrri daginn, að sýna skipstjórnarhæfileika til að sigla fleyinu ólöskuðu gegnum öldurótið.       

 

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Þakk fyrir þessa innsýn í bókina,  "Ris og fall bandarísks vaxtar - bandarískir lífshættir síðan í Borgarastríðinu" í gegn um greinina í "The Economist", 9. janúar 2016.

BNA, hafa fallið í þá gryfju,að nýta ekki hluta af vinnuaflinu og auðlegð sinni. Misskylda fjármagnstrúin orsakaði að BNA nýttu ekki auðæfin til að halda við og endurbyggja innviði þjóðfélagsins.

Fjármálakerfið trúði á að peningar væru eitthvað yfirnáttúrulegt.

Þeir spiluðu fjármálin, þannig að pappí, verðbréf, hlutabréf, vogunarsjóðir og allskonar spilamennska urðu aðalatriðið.

Þessi spilamennska bjó til meira fjármagn og allir þóttust vera að græða.

Ýmislegt gott kom þó út úr þessu, þegar eitthvað af þessum fjármunum var sett í uppbyggingu og framleiðslu og þá atvinnu fyrir fólkið sem þá skapaði neyslu.

Nýskan og skylningsleysið hefur oft orðið til þess að við höfum stöðvað allt vegna peningaskorts.

Nú skiljum við að peningar eru bókhald.

Við bjuggum fullt af bókhaldi til að leika okkur í fjármálagerningum.

Þetta skapaði engin  verðmæti en ef við settum þessa peninga sem við bjuggum til við þessa gerninga, í fasteignir og framleiðslu, þá var það til gagns.

En við áttum að hugleiða til dæmis hvað væri gáfulegt að byggja upp sem myndi gagnast okkur til framtíðar.

Þá lá beint við, þegar við áttum vinnuafl auðlindir ónotað,að byrja á fullu að byggja upp innviði þjóðfélagsins.

Í stað þess að treysta á verðbréfa spilamennskuna til að dreyfa peningum, bókhaldi um þjóðfélagið áttum við að meðvitað að byrja að byggja brýr, vegi, skóla og allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Þarna gerum við góða hluti til að dreyfa peningum, bókhaldi um þjóðfélagið.

Við vitum að ef við verslum við aðrar þjóðir þá verðum við að hafa sem jafnastan viðskiptajöfnuð.

Ég verð að hætta núna.

Egilsstaðir, 09.03.2016  Jónas Gunnlaugsson

Laga nýja peningakherfið í rauntíma

Jónas Gunnlaugsson | 28. desember 2015

The world's infrastructure is collapsing due to our own stupidity.

26.12.2015 | 17:47

Jónas Gunnlaugsson, 9.3.2016 kl. 14:00

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónas;

Flest bendir til, að þýzki kapítalisminn, Markaðshagkerfi með félagslegu ívafi", sé almenningi affarasælli en sá engilsaxneski.  Sá fyrr nefndi er reistur á framleiðsluhagkerfi með frjálsri samkeppni og félagslegu öryggisneti, en sá síðar nefndi hefur leiðzt út í ofvöxt fjármálakerfis og spákaupmennsku.  Eitruðu vafningarnir voru skilgetin afurð bandaríska fjármálakerfisins.  Þeim var dreift um heim allan og enduðu með að skapa svo mikla tortryggni á milli fjármálastofnana, að enginn þorði að lána fé eða kaupa skuldabréf.  Þetta leiddi til lausafjárþurrðar, sem felldi marga banka um allan heim og enn fleirum var bjargað við dauðans dyr af hinu opinbera. Íslenzku bankaforkólfarnir, sem eru vel geymdir núna og næstum gleymdir, höfðu sólundað miklu fé og öllu trausti og var ekki við bjargandi.  Bankakerfið íslenzka er enn of stórt og verður minnkað.  Risaumbun, bónus í milljónavís á ári, fyrir að vinna vinnuna sína er siðlaus, en lendir auðvitað í rúmlega 46 % tekjuskattsþrepi. 

Bjarni Jónsson, 9.3.2016 kl. 18:26

3 identicon

Ef ég má skjóta inn, varð það ekki í raun "efnahagsfræðingurinn", sem hlaut verðlaun Nobels ásamt "Goldman Sacks", sem er orsök að upphafi falls bandaríkjanna. Ef við hoppum yfir glópasama heimspólitík, á árunum 1990-2016.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 9.3.2016 kl. 22:09

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Bandaríkin voru ótvíræður sigurvegari Kalda stríðsins, bæði efnahagslega og hugmyndafræðilega.  Upp úr þessu, um 1990, óx innri spenna og andstæður í bandarísku þjóðlífi vegna vaxandi misskiptingar tekna og eigna og stöðnunar í kjörum miðstéttarinnar.  Við uppgang Kína töpuðust framleiðslustörf frá BNA til Kína.  Skuldasöfnun bandaríska alríkisins er við brugðið, og Kínverjar eru stórir lánadrottnar.  Hins vegar hefur framleiðniaukning og sköpun nýrra starfa í bandaríska raunhagkerfinu (þess, sem framleiðir verðmæti), verið meiri en víðast annars staðar undanfarin misseri, og USD stendur vel.  Bandaríkin eru óumdeilanlega enn þá mesta efnahagsveldi og herveldi heims og munu verða um fyrirsjáanlega framtíð.  Tilveran gengur þó upp og niður á öllum sviðum hjá þeim, eins og öðrum, og einmitt núna er hin pólitíska óvissa í BNA meiri en oft áður.  Þó ber að hafa í huga, að á síðara kjörtímabili núverandi forseta hefur framkvæmdavaldið verið hálflamað, af því að báðar deildir þingsins hafa verið á öndverðum meiði við forsetann.  Mun sú staða breytast í nóvember 2016 ?

Bjarni Jónsson, 10.3.2016 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband