Af kárínu

Kári Stefánsson, læknir, hleypti fyrir nokkru af stokkunum undirskriftasöfnun með stóryrðum, sem stangast á við staðreyndir, og skírskotun, sem er fyrir neðan allar hellur.  Það er jafnframt algerlega óljóst, hvað undirskrifendur eru að fara fram á af Alþingi.  Er það, að útgjöld íslenzka ríkissjóðsins til sjúklingameðhöndlunar fari úr 7,1 % af VLF (tala OECD frá 2013) í 11,0 %, en það væru hæstu ríkisútgjöld í þennan málaflokk innan OECD, eða, að Alþingi hlutist til um, að heildarútgjöld samfélagsins, opinberra og einkaaðila, verði 11,0 % af VLF ? 

Þá vaknar spurningin, hvernig á að skipta viðbótar útgjöldunum á milli ríkis og sjúklinga. Ríkishlutdeildin er núna um 82 %. Á að hækka hana, viðhalda henni, eða lækka hana ? Viðbótar spurning er svo, hvort átt er við summu rekstrarkostnaðar og árlegra fjárfestinga, eða er fjárfestingum haldið utan við þetta hlutfall ? Umgjörð þessarar undirskriftasöfnunar er óboðlegt lýðskrum varðandi mjög mikilvægan málaflokk, sem vekur fleiri spurningar en hún svarar.

Kári birti heilsíðu auglýsingu í Morgunblaðinu 26. janúar 2016 undir fyrirsögninni,

"Endurreisum heilbrigðiskerfið".  

Það, sem er í rúst, þarf endurreisnar við, annað ekki.  Þannig gefur Kári í skyn, að allt sé í kalda koli í heilbrigðiskerfinu.  Ekkert er fjarri sanni, og um það getur blekbóndi vitnað af eigin reynslu, en hann þurfti innlagnar við á bráðadeild Landsspítalans aðfararnótt sunnudags snemma í desember 2015. Þar var gengið fumlaust og skipulega til verks, framkvæmd bráðaaðgerð og síðan rannsakað, hvort nóg væri að gert.  Var blekbóndi útskrifaður eftir rúmlega 4 klst þar á spítalanum með ákveðinn tækjabúnað festan við sig, sem hann er löngu laus við. Þar var skilvirknin fullnægjandi. 

Eftir langan starfsferil í framleiðslugeira telur blekbóndi sig skynja, hvenær unnið er af fagmennsku og hvenær ekki.  Allir, sem þarna komu að málum, ynntu af hendi verk, sem blekbóndi er fullkomlega ánægður með.  Ef þessir starfsmenn stæðu í kerfisrústum, gætu þeir ekki sýnt svo frábæra þjónustu eða uppfyllt væntingar neins.

Hér var um persónulega reynslu af einum anga Landsspítalans að ræða.  Það eru hins vegar til hlutlægir mælikvarðar á gæði íslenzka heilbrigðiskerfisins, þar sem Landsspítalinn er þungamiðjan.  Einn er tíðni ungbarnadauða.  Hún er lægst á Íslandi af öllum löndum, t.d. aðeins brot af tíðni ungbarnadauða í BNA-Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar sem þó er varið 16 % af VLF (vergri (heildar) landsframleiðslu) til heilbrigðismála, sem er 84 % meira en á Íslandi. Sýnir þetta, að það er alls ekki einhlítt samband á milli gæða heilbrigðiskerfis og fjármagnsins, sem í það fer.  Það eru auðvitað gæðin, sem eru eftirsóknarverð, en ekki að geta sýnt fram á sem hæstan kostnað sem hlutfall af VLF. 

Annar algengur mælikvarði á gæði heilbrigðisþjónustu er langlífi fólks.  Íslenzkir karlar og kerlingar verða elzt í heiminum næst á eftir Japönum.  Þetta leiðir hugann að því, að um helmingur af kostnaði við sjúklinga á Íslandi mun vera varið í að þjónusta sjúklinga síðustu 3 æviár þeirra.  Tækniþróun og þekkingu innan heilbrigðisgeirans og lyfjaþróun hefur fleygt fram síðasta aldarfjórðunginn, svo að heilbrigðisstéttirnar hafa nú miklu meiri möguleika á að fresta dauðdaga.  Það er í mörgum tilvikum gleðiefni, en í sumum tilvikum er þannig komið fyrir sjúklingi, að erfitt er að sjá, að nokkrum sé greiði gerður með slíku.  Erlendis er þá sums staðar gripið til líknardauða, sem lög og strangar reglur gilda um.  Nokkrir heilbrigðisstarfsmenn hérlendis hafa tjáð sig opinberlega um líknardauða og ekki verið hallir undir hugmyndina að því, er virtist, en þetta er samt æskilegt að ræða í hópi heilbrigðisstarfsmanna, yfirvalda heilbrigðismála, lögmanna og í samfélaginu öllu.  Fjármunir til sjúklingameðhöndlunar eru og verða alltaf takmarkaðir, og á þessu sviði sem öðrum er forgangsröðun nauðsynleg við ráðstöfun fjármuna. Þarf ekki að tíunda, að með innleiðingu líknardauða eykst fé til ráðstöfunar, þar sem það verður augljóslega til góðs og kemur einstaklingum og jafnvel samfélaginu að gagni.   

Alþingi ráðstafar tiltæku skattfé til ólíkra þarfa, þ.á.m. innviða, svo sem samgöngumála.  Margnefndur Kári hefur í umræðu um téða undirskriftasöfnun gert lítið úr jarðgangagerð í samkeppni um fjármuni ríkissjóðs við heilbrigðismálin. Hér er ekki allt, sem sýnist.  Þetta eru þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir til að auka öryggi vegumferðar, stytta vegalengdir og sameina atvinnusvæði.  Kostnaður við flutninga minnkar, og við það eykst verðmætasköpun samfélagsins, þ.e.a.s. landsframleiðslan eykst.  Þá minnkar hið káríska hlutfall að öðru jöfnu.  Sama gerist með hið káríska hlutfall, ef hér verður gengisfall á myntinni.  Árið 2013 var hlutfall sjúkrakostnaðar í Noregi 8,9 % af VLF, 0,2 % hærra en hlutfallið á Íslandi, en 1,5 % lægra en þetta hlutfall í  Danmörku.  Þessi samanburður er villandi, því að landsframleiðsla Norðmanna á mann var á þessum tíma miklu hærri í Noregi en í Danmörku, því að verð aðaltekjulindar Norðmanna, olíunnar, var þá hátt eða um 100 USD/fat.  Norðmenn vörðu þess vegna hærri upphæð til sjúklingameðferðar en Danir árið 2013 reiknað á íbúa, þó að ofangreint hlutfall beri það ekki með sér.  Þjóðartekjur Norðmanna hafa lækkað frá miðju ári 2014, og norska krónan hefur síðan lækkað um þriðjung, sem skekkir þennan hlutfallasamanburð á milli ára og á milli landa. Samt hefur þjónustan við sjúklinga ekkert breytzt í Noregi á þessu tímabili. Það, sem skiptir máli, eru gæða- og afkastamælikvarðar sjúkrahúsanna og sjúklingameðhöndlunar í heild sinni, en hið káríska hlutfall, kostnaður heilbrigðisgeirans/VLF, er ótækur mælikvarði.

Til að auka enn á gæði og afköst sjúklingaþjónustunnar á Íslandi er nauðsynlegt að fjárfesta í húsnæði, vinnuaðstöðu og tækjum.  Það verk er hafið á Landsspítalalóðinni við Hringbraut og á að kosta 50 miakr samkvæmt áætlun.  Víðar í heilbrigðiskerfinu og víðar en í Reykjavík þarf að fjárfesta í geiranum og auka við fé til viðhalds.  Ekki er ólíklegt, að á næstu 5 árum þurfi að setja 100 miakr í geirann í þessu augnamiði til viðbótar við fjárveitingar 2016, en í kjölfarið mun koma sparnaður vegna hagræðingar af völdum fjárfestinganna, e.t.v. 70 miakr uppsafnað á næstu 10 árum, sem er 5 % hagræðing m.v. kostnað heilbrigðisþjónustunnar 2014. Á móti mun róðurinn þyngjast vegna fjölgunar gamalmenna.  Nauðsynlegt er að horfast í augu við viðfangsefnin, sem fjölgun gamalmenna fylgir, og fjárfesta í aðstöðu, sem þeim og heilbrigðiskerfinu í heild hentar.  Núverandi ástand er ekki á vetur setjandi, enda er það allt of dýrkeypt, og girðir fyrir möguleika Landsspítalans á að sýna þá skilvirkni, sem hann annars gæti.  

Óli Björn Kárason, ritstjóri tímaritsins Þjóðmála, hefur rætt og ritað með eftirtektarverðum hætti um heilbrigðismál.  Þann 27. janúar 2016 birtist í Morgunblaðinu grein hans,

"Af hverju ég skrifa ekki undir hjá Kára". 

Þar setur hann fyrst fram 6 fullyrðingar um íslenzka heilbrigðiskerfið, sem hægt er að taka undir með honum:

  1. "Það vantar fjárfestingu í innviðum.
  2. Fjárskortur lamar eða veikir þjónustuna.
  3. Föst fjárveiting til mikilvægustu stofnunar landsins - Landsspítalans - er tímaskekkja, sem eykur vanda sjúkrahússins og kerfisins í heild.
  4. Fjármunum er sóað vegna skipulagsleysis og skammtímahugsunar.
  5. Kostir einkaframtaksins eru ekki nýttir með skipulegum hætti.
  6. Einhver arðbærasta fjárfesting, sem Íslendingar eiga völ á, er í heilbrigðisþjónustu."

Síðan skrifar Óli Björn, og er það í samræmi við áður fram komna skoðun blekbónda:

"Þrátt fyrir marga vankanta er heilbrigðisþjónustan á Íslandi með þeirri beztu, sem þekkist í heiminum.  Af einhverjum ástæðum finnst mörgum rétt að draga upp allt aðra og dekkri mynd; sannfæra landsmenn um, að flest sé í kalda koli og kerfið að hrynja."

Það er enginn bættari með þeim endemis barlómi, en nú eru hins vegar miklar fjárfestingar óhjákvæmilegar vegna ástands húsnæðis, til að sameina starfsemi á einn stað og til að skapa aðstöðu fyrir nútímalegan tækjabúnað.

Í allri þessari fjármunatengdu umræðu um sjúklingameðhöndlun er þó nauðsynlegt að hafa eftirfarandi heilræði Óla Björns í huga:

"Aukin útgjöld til heilbrigðismála er ekki markmið í sjálfu sér.  Markmiðið er alltaf að auka lífsgæði almennings með góðri og öflugri heilbrigðisþjónustu.  Og þá skiptir skipulagið - kerfið sjálft - mestu."

Rúsínan í pylsuendanum kemur við lok greinar Óla Björns.  Þáttur í umbótaferli stjórnkerfis heilbrigðiskerfisins er að breyta fjármögnunarfyrirkomulagi þess.  Nýtt fyrirkomulag mun gera kleift að auka skilvirkni kerfisins, sem í svo stóru kerfi getur sparað skjólstæðingum og skattborgurum miklar fjárhæðir.  Samkvæmt ríkisreikningi 2014 námu útgjöldin 140 miakr.  5 % sparnaður með aukinni skilvirkni eru 7,0 miakr/ár.

"Nauðsynlegt er að gjörbreyta fjármögnun Landsspítalans og í kjölfarið annarra sjúkrahúsa, beita forskrift og greiða fyrir unnin, skilgreind verk.  Þannig á að hverfa að mestu af braut fastra fjárframlaga.  Um leið opnast nýir og auknir möguleikar á að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi lækna um einstaka þætti, líkt og þekkist vel í þeim löndum, sem við viljum bera okkur saman við.

Í stað þess að leggja steina í götur einkaframtaksins á "kerfið" að nýta sér kosti þess, auka valmöguleika almennings og tryggja um leið hagkvæma nýtingu fjármuna og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag."

Þjónusta við sjúklinga á Íslandi er ekki í molum. Hins vegar stöndum við nú á tímamótum vegna fjölgunar þjóðarinnar og einkum eldri borgara og úrelts húsnæðis og búnaðar.  Til að ráða bót á þessu er ekki ráðið að hella tugum milljarða króna í óbreytt kerfi, heldur að fjárfesta í nýju húsnæði og útbúa það að hætti nútímalegra sjúkrahúsa og heilsugæzlustöðva samkvæmt beztu þekkingu á næstu 5 árum.  Þetta er ekki nóg, heldur þarf að stokka upp fyrirkomulag fjárveitinganna.  Það á auðvitað hvorki að binda þær við fast hlutfall fjárlaga né landsframleiðslu, heldur að sníða þær að þörfum hverju sinni og hafa í fjárveitingunum innbyggða hvata til aukinnar skilvirkni. Það er ekki hægt að ætlast til þessarar auknu skilvirkni með núverandi aðbúnaði starfsfólksins, en með nútímavæðingu húsnæðis og búnaðar verður grunnur lagður að kerfi með framleiðni á við það bezta sem gerist í heiminum, af því að starfsfólkið hefur til þess bæði vilja og getu.  Þar með verður sjúklingum tryggð lækningaþjónusta í fremstu röð samkvæmt alþjóðlegum viðmiðunum og skattborgurum tryggð svo góð nýting fjármuna sem kostur er miðað við alþjóðlega árangursmælikvarða um þessi efni.   

      

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Kári veit kannski ekki af því að það stendur spítali tómur í Hafnarfirði, sem bíður bara tómur eftir því að fá að hýsa og hjálpa sjúku fólki?

Sankti Jósefsspítali í Hafnarfirði!

Ég skil alls ekkert í hvað Kári blessaður er að tala um í sínum rándýru dagblaða-heilsíðu-áróðursgreinum, og víðar í fjölmiðlaviðtölum þessa dagana.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 29.1.2016 kl. 02:40

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Margt ágæt má eflaust um Kára Stefánsson segja, en nú gerði hann ásig, með einstaklega ósmekklegu einræðis þvaðri. Það mun taka hann töluverðan tíma að hreinsa úr þeirri brók.

Hrólfur Þ Hraundal, 29.1.2016 kl. 06:54

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er víðar en í Hafnafirði sem spítalapláss stendur ónotað. Á Akranesi er einungis hálfur spítalinn nýttur og svipaða sögu að segja á Selfossi. Í Keflavík er ástandið enn verra, ekki einu sinni stendur spítalinn þar nánast ónýttur, heldur eru innan hans skurðstofur sem teknar voru í gegn og endurnýjaðar. Skömmu síðar var tilkynnt um lokun þeirra.

Þessir byggðakjarnar, Akranes, Selfoss og Keflavík, eru allir í stuttri fjarlægð frá Reykjavík og lítið mál að létta á Landspítalanum með því einu að auka starfsemi á þessum stöðum.

Það breytir því þó ekki að undirskriftasöfnun Kára er í alla staði klúður og rugl. Auðvitað vilja allir landsmenn betri heilbrigðisþjónustu og þarf enga undirskriftasöfnun til að fá það staðfest. Hins vegar eru forsendurnar sem Kári gefur og hann reynda hefur síðan sagt að skipti ekki máli, rangar. Þær tölulegu upplýsingar sem hann færir fram eru rangar, eða í það minnsta rangt fram settar. Viðmiðið sem hann vill taka upp er stórhættulegt fyrir heilbrigðiskerfið en aftur kærkomið fyrir pólitíkusa.

Að miða við ákveðið hlutfall af VLF er fáránlegt. Eftir hrun jukust framlög til heilbrigðismála gífurlega, miðað við VLF, án þess þó að einni einustu krónu væri bætt til kerfisins. Þáverandi stjórnvöld urðu að skera niður til heilbrigðismála, með tilheyrandi óvinsældum. Ef þessi aðferð Kára hefði verið við lýði á þeim tíma, hefðu þáverandi stjórnvöld getað sparað sér þær óvinsældir, lækkunin til heilbrigðiskerfisins hefði orðið sjálfvirk og það sem verra er, sennilega hefðu skerðingarnar orðið svo miklar að kerfið hefði lagst í rúst.

Þá væri gaman ef talnaglöggir menn, eins og höfundur þessa bloggs, legðu á sig að reikna út hversu mikið framlagið til heilbrigðismála myndi aukast miðað við VLF, ef Straumsvík lokar. Það er ekki svo fjarri því að slíkt geti gerst og jafnvel ekki langt þar til stóriðju verði alfarið úthýst af landinu, ef sama ruglið heldur áfram í stjórnun Landsvirkjunar.

Svo má ekki gleyma þeirri staðreynd að ef vinstriflokkar komast til valda, með sínum klassísku skattaálögum og afturhaldi á sviði atvinnu og auðframleiðslu, mun þeim á skömmum tíma takast að auka framlög til heilbrigðismála töluvert, miðað við VLF, án þess þó að bæta einni einustu krónu til kerfisins.

Ég vil að eins miklu sé varið til heilbrigðismála og hægt er hverju sinni. En ég krefst þess að vel sé farið með það fjármagn sem til þess fellur. Þar er vissulega pottur brotinn og auðveldlega má skera upp rekstur Landspítalans þannig að það fé sem honum er ætlað nýtist mun betur.

Það hefði t.d. verið hægt að spara nokkur hundruð milljónir við það eitt að hafna gjöf IE til spítalans. Þeirri gjöf fylgdi kvöð af hálfu Kára, sem þó er einungis starfsmaður IE. Kári krafðist þess að nýtt hús, hannað af honum sjálfum, yrði byggt yfir þetta tæki. Að öðrum kosti fengist gjöfin ekki afhent. Það var til staðar innan spítalans pláss fyrir tækið, en Kári vildi nýtt hús. Því er nú verið að byggja þetta húsnæði og kostnaðurinn áætlaður vel yfir milljarð króna. Hefði ekki verið skynsamlegra að hafna gjöfinni og kaupa bara tækið. Setja það síðan niður í það pláss sem til var? Þannig hefði spítalinn getað sparað sér nokkur hundruð milljónir og samt fengið þetta tæki til sín.

Gunnar Heiðarsson, 29.1.2016 kl. 10:32

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Anna Sigríður;

Að loka sjúkrahúsum virðist spara fé en rýrir þjónustu við sjúklinga í nærumhverfinu.  Það er heildinni skaðlegt, þegar "hagræðingin" virkar í þá átt, sem að lokum leiðir til yfirlestunar á miðlægu þjónustunni, Landsspítalanum. Með slíku ráðslagi er verkröðin röng.  Fyrst þarf að endurnýja Landsspítalann áður en hægt er að auka álagið þar með fækkun annarra sjúkrahúsa.  Ef þetta allt leiðir til að "stífla" spítalann, er ver farið en heima setið frá kostnaðarlegu sjónarmiði.

Bjarni Jónsson, 29.1.2016 kl. 11:11

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Hrólfur;

Það er ábyrgðarhluti að hleypa slíkri skoðanakönnun af stokkunum, og rökin fyrir henni mega ekki vera bæði loðin, teygjanleg og orka mjög tvímælis.  Þá er stutt í, að hún geti talizt blekkingaleikur.  Það er svipaður snykur af þessu og þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrárdrögin á síðasta kjörtímabili.  Niðurstaðan gat hvorki orðið fugl né fiskur.

Bjarni Jónsson, 29.1.2016 kl. 11:20

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar;,

Við erum á sama máli hér.  Ef svo óhönduglega myndi takast til, að ISAL í Straumsvík verði lokað vegna deilu verkalýðsfélaganna við vinnuveitandann, þá mun "káríska hlutfallið", þ.e. heildarfjárnotkun heilbrigðisgeirans sem hlutfall af landsframleiðslu, aukast um a.m.k. 1,0 %, þótt ekki verði varið einni krónu meira í málaflokkinn fyrir vikið.

Bjarni Jónsson, 29.1.2016 kl. 11:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband