Hefðbundin viðhorf á hverfanda hveli

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ríkjandi stjórnmálaviðhorf eru í uppnámi. Þegar breyttur samskiptamáti fólks og bætt aðgengi að upplýsingum eru höfð í huga, þarf ekki að undra, að viðhorf almennings til stjórnmálanna breytist samhliða.  Víða erlendis bætast við afkomuleg vandamál af völdum stöðnunar hagkerfanna, og sums staðar er atvinnuleysið tvímælalaust hátt yfir þeim mörkum, sem við Íslendingar mundum kalla þjóðfélagsböl.  Hérlendis er mjög á brattann að sækja fyrir ungt fólk með fjármögnun húsnæðis, svo að nokkrar rætur þjóðfélagsumróts séu tíndar til.

Vaxandi urgur í miðstéttinni hefur víða leitt til aukins fylgis jaðarflokka á báðum vængjum stjórnmálanna.  Í Noregi er flokkur hægra megin við Hægri flokkinn í ríkisstjórn, og í Danmörku hefur róttækur hægri flokkur töluverð áhrif á stjórnarstefnu ríkisstjórnar í minnihluta á danska þinginu. 

Svíar og Finnar hafa enn ekki hleypt Svíþjóðardemókrötunum og Sönnum Finnum til valda, en hinir fyrr nefndu hafa hlotið fylgi í skoðanakönnunum á borð við Pírata á Íslandi.  Í Bretlandi hafa róttækir vinstri menn lagt undir sig Verkamannaflokkinn, og reyna mun á málstað Brezka Sjálfstæðisflokksins, UKIP, í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að Evrópusambandinu, ESB.  Í Þýzkalandi vex Alternative für Deutschland ásmegin, en hann er hægra megin við CDU/CSU, flokka Angelu Merkel og Horst Seehofers, sem að sama skapi missa fylgi. Fylgi sópaðist að AfD í þremur fylkiskosningum í marz 2016, og var úrslitum kosninganna líkt við stjórnmálalega jarðskjálfta í Þýzkalandi.  Þar er þó efnahagur góður og atvinnuleysi tiltölulega lítið, en lítt heftur straumur flóttamanna frá Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sem flestir aðhyllast Múhameðstrú, er tekinn að valda almenningi í Þýzkalandi áhyggjum, og yfirvöldin ráða ekki við móttöku þess yfirþyrmandi fjölda, sem komizt hefur inn fyrir landamæri Þýzkalands, sem hafa verið opin samkvæmt Schengen-ráðslaginu. Komið hefur í ljós, að upp til hópa er um að ræða lítt menntað, jafnvel ólæst fólk, sem gríðarlega dýrt yrði, og sennilega ómögulegt í flestum tilvikum, að aðlaga þýzku þjóðfélagi, enda er Mutter Merkel farin að tala um, að fólkið verði að fara til baka til síns heima, þegar friðvænlegra verður þar.  Þetta var líka ætlunin með "Gastarbeiter", sem tóku þátt í uppbyggingu Vestur-Þýzkalands eftir heimsstyrjöldina seinni, en flestir þeirra ílentust með fjölskyldum sínum í Vestur-Þýzkalandi, en hafa aðlagazt misvel að þýzku samfélagi, en hafa myndað þar sín eigin samfélög. 

Í Frakklandi stefnir formaður Þjóðfylkingarinnar, Marie Le Pen, á forsetabústaðinn, Elysée, og gæti hreppt hann í næstu forsetakosningum miðað við ástandið í Frakklandi. 

Í Grikklandi hefur róttækur vinstri flokkur verið við völd um hríð, en Grikkland er efnahagslega ósjálfbært og er eins og tifandi tímasprengja. 

Á Spáni er stjórnarkreppa eftir síðustu þingkosningar, og Katalónar í Norð-Austurhorni Spánar, sem tala frönskuskotna spænska mállýzku, vilja aðskilnað frá ríkisheildinni.  Á Spáni sækir systurflokkur Syriza, Podemos, í sig veðrið. 

Í Bandaríkjunum, BNA, hefur vinstri öldungurinn Bernie Sanders náð eyrum ótúlega margra, einkum ungra Demókrata, og velgt Hillary Clinton, mótframjóðanda sínum, undir uggum.  Hefur Bernie náð óvæntum árangri í forkosningum margra ríkja BNA. Repúblikanamegin eru róttkir hægrimenn atkvæðamestir. Donald Trump er ólíkindatól, sem kann að spila á mikla þjóðfélagsóánægju í BNA, sem stafar m.a. af töpuðum störfum til Kína og víðar og (ólöglegra) innflytjenda frá Mexikó.

 Allt hefðu þetta þótt vera firn mikil um síðustu aldamót, en fyrri hluti 21. aldarinnar býður greinilega upp á meiri þjóðfélagsróstur á Vesturlöndum en seinni hluti 20. aldarinnar gerði. 

Á Íslandi blasir eftirfarandi staða við samkvæmt skoðanakönnunum:

  • Vinstra mixið:            25 %
  • Borgaraflokkarnir:        40 % (tæplega)
  • Píratar (sjóræningjarnir) 35 % (rúmlega)

Hvaða ályktun og lærdóm skyldi nú mega draga af þessum tölum, sem eru ískyggilegar fyrir stjórnmálalegan stöðugleika á Íslandi ? 

Blekbóndi túlkar þær þannig, að þær séu ákall kjósenda um nývæðingu lýðræðis í átt að auknu beinu lýðræði á kostnað hins hefðbundna fulltrúalýðræðis.  Kjósendur vilja fá beinan aðgang að ákvarðanatöku í einstökum málum, ef þeim býður svo við að horfa.  

Ríkisstjórnarflokkarnir eiga að bregðast við þessum breytta tíðaranda með jákvæðum og uppbyggilegum hætti, sem þýðir, að breyta þarf Stjórnarskránni.  Blekbóndi telur, að slá eigi tvær flugur í einu höggi og gjöra umgjörð forsetaembættisins á Bessastöðum skýrari og embættið veigameira en nú er án þess að hreyfa við meginstjórnarfyrirkomulaginu, sem er þingbundin ríkisstjórn:

  1. Aðalhlutverk forseta lýðveldisins verði að gæta þess, að lagasetning þingsins sé í samræmi við Stjórnarskrá lýðveldisins. Hann verði þannig eins konar verndari Stjórnarskráarinnar. Ef hann telur vafa á því, að lögin standist Stjórnarskrá, skal hann fresta staðfestingu laganna með því að vísa þeim til þriggja manna Stjórnlagaráðs, þar sem hann skipar formann, Hæstiréttur annan og háskólarnir, þar sem lagadeildir eru, skipa þriðja, til þriggja ára í senn. Stjórnlagaráð skal úrskurða innan viku um vafamál, sem forseti lýðveldisins vísar til þess, og ef úrskurður er á þá lund, að lögin standist Stjórnarskrá, ber forseta að staðfesta þau samdægurs með undirskrift sinni, annars vísar hann þeim aftur til þingsins.  Forseti getur ekki vísað máli í þjóðaratkvæðagreiðslu, nema hann fái um það skriflega áskorun frá fjölda, sem nemur 20 % af atkvæðisbæru fólki í síðustu Alþingiskosningum.
  2. Kjósendur til Alþingis skulu geta farið fram á það við forseta lýðveldisins, að hann láti semja frumvarp til laga um tiltekið efni í ákveðnu augnamiði.  Ef fjöldi, sem nemur 20 % kjósenda í síðustu Alþingiskosningum, hvetur hann til þess skriflega, skal hann verða við því og fela forseta Alþingis að leggja málið fyrir þingið.  Slíkum lögum frá Alþingi skal hann geta synjað staðfestingar og fara þau þá í endurskoðun hjá þinginu, eða þingið efnir til þjóðaratkvæðis um þau.   
  3. Að afloknum Alþingiskosningum metur forseti lýðveldisins, hverjum er eðlilegast að fela stjórnarmyndunarumboð með tilliti til úrslita kosninganna.  Ef ekki tekst að mynda starfhæfa ríkisstjórn innan 6 vikna frá kjördegi, fellur stjórnarmyndunarumboð til forseta, sem þá skal skipa ríkisstjórn og hefur til þess frjálsar hendur.  Þingrofsvaldið skal aðeins vera hjá forseta lýðveldisins. 
  4. Forseti Alþingis er staðgengill forseta lýðveldisins og aðrir ekki.  Forseti Alþingis ræður dagskrá þingsins og getur stytt umræðutíma eða tekið mál af dagskrá, ef honum þykir þingmenn misnota starfstíma þingsins, t.d. með því að setja á ræður um mál utan dagskrár eða með því að teygja lopann. Hann getur hvenær sem er takmarkað ræðutíma einstakra þingmanna í hverri umræðu, eins og hann telur nauðsynlegt fyrir eðlilega framvindu frumvarps eða þingsályktunartillögu. Forseta Alþingis ber að hlúa að virðingu þingsins í hvívetna. 
  5. Ef minnihluti Alþingis, 40 % þingmanna eða 25 þingmenn hið minnsta m.v. heildarfjölda þingmanna 63, samþykkir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, þó ekki um fjárlög, þá skal sú tillaga fara til forseta lýðveldisins til samþykktar eða synjunar.  Í tillögunni skal setja fram nákvæmt orðalag á spurningum, sem leggja skal fyrir þjóðina.  Synjun forseta skal fylgja rökstuðningur til Alþingis, en samþykkt tillaga fer til ríkisstjórnarinnar til framkvæmdar.
  6. Annað meginhlutverk forseta lýðveldisins skal vera að varðveita stöðugleika, þjóðfélagslegan og efnahagslegan.  Ef honum virðist Alþingi vera þar á rangri leið, skal hann leysa þingið upp, og verður þá efnt til kosninga.  Kjörtímabil forseta skal vera 6 ár, en hann skal geta stytt það, kjósi hann svo, og hann má ekki sitja lengur en 12 ár.  

Hér er aðeins drepið á örfá atriði.  Réttast er að fá hópi stjórnlagafræðinga slíkt afmarkað verkefni um Stjórnarskrárbreytingar.  Þeir yfirfara þá alla Stjórnarskrána m.t.t. til breytinga, sem óskað er eftir, til að tryggja innbyrðis samræmi í Stjórnarskránni, og senda tillögurnar síðan Alþingi til umfjöllunar.  Í þessu tilviki þarfnast allir liðir um forseta lýðveldisins og þjóðaratkvæðagreiðslur endurskoðunar. 

Stjórnarskráin er m.a. til að tryggja frelsi og mannréttindi einstaklingsins gagnvart hinu opinbera valdi og gagnvart öðrum einstaklingum og félögum.  Í þessu sambandi er rétt að hafa ákvæði í 65. grein frá árinu 1995 í huga, en það hefur jafnvel verið sniðgengið við lagasetningu síðan:

"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti,  Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna." 

Það kemur einnig til greina við næstu endurskoðun Stjórnarkráar að setja þar inn ákvæði um skipan þriggja dómsstiga í landinu, og hvernig ráðningu dómara skuli haga á öllum þremur dómsstigum. Þá þarf að skilgreina verkaskiptingu á milli Stjórnlagaráðs og Hæstaréttar varðandi lög, sem kunna að brjóta í bága við Stjórnarskrána. Til álita kemur, að forseti lýðveldisins skipi Hæstaréttardómara með sjálfstæðum hætti. 

Þann 1. desember 2015 ritaði Jóhannes Loftsson, verkfræðingur og frumkvöðull, mjög góða grein í Morgunblaðið:

"Hverju megum við ráða". 

Í niðurlagi greinarinnar sagði hann:

"Á meðan báknið vex, þá minnkar sífellt vald einstaklingsins yfir eigin lífi.  Þegar haft er í huga, hversu óvinsælir gömlu fjórflokkarnir eru, þá verður að telja með ólíkindum, að fólk hafi gefið yfirvöldum slíkt vald yfir lífi sínu og raunin er.  Ef við eigum ekki að enda sem þjóð, sem ávallt er undir þumlinum á duttlungum síðasta hæstbjóðanda í kosningum, þá verður að eiga sér stað grundvallar hugarfarsbreyting um, að snúa þurfi þessari þróun við.  Þörf er á, að fólk geti valið stjórnmálamenn, sem lofa að gera minna og leyfa meira.  Fimmföld laun hljóma hreint ekki illa."

Sé þetta sett í samhengi stjórnarskrárbreytinga, er þörf á breytingu reglna um kjör til Alþingis í þá veru að gefa kjósendum kost á að kjósa bæði flokk og einstaklinga á öðrum listum en þeim, sem kosinn er, þ.á.m. af landslista óháðum stjórnmálaflokkunum.Fyrirmyndir um persónukjör má t.d. finna í Þýzkalandi.

Jóhann J. Ólafsson, stórkaupmaður, ritaði 3. desember 2015 grein í Morgunblaðið, sem hann nefndi:

"Útrýmum fátækt - gerum lýðræðið nothæft". 

Þar segir svo m.a:

""James Harrington (1611-1677), enskur stjórnmálamaður, sagði á sinni tíð: "Einveldi ríkir, þegar krúnan á allt eða í það minnsta 2/3 af öllum landauði.  Höfðingjaveldi ríkir, ef aðalsmenn eiga svipaðan hlut.  Eigi almenningur 2/3 eða meira, ríkir lýðræði."

Þótt margt sé breytt síðan á 17. öld, er kjarni þessarar hugsunar í fullu gildi.  Í stað krúnunnar kemur ríkið, í stað aðalsins koma auðmennirnir, en almenningur er enn almenningur.  Í stað landauðs koma allar eignir, allur auður þjóðfélagsins.

Þau sannindi eru enn góð og gild, að eignum og útdeilingu þeirra fylgja völd, en lýðræðið byggist á því, hversu vel tekst til með eignadreifingu í þjóðfélaginu. 

Valdið leitar fyrr eða síðar þangað, sem auðurinn er.  Þess vegna er tiltölulega jöfn dreifing auðsins meðal landsmanna forsenda lýðræðis. 

Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er allur þjóðarauður Íslendinga (allar eignir landsmanna, einkaeignir og opinberar eignir, samanlagt) 23,3 trilljónir (þúsund milljarðar) kr.  Af þeim eru u.þ.b. 4,4 trilljónir í einkaeign, en u.þ.b. 18,9 trilljónir í opinberri eigu.  Lýðræði í skilningi Harringtons er því víðs fjarri, því að eignir einstaklinga eru ekki nema um 19 %, en opinberar eignir um 81 % af heildareignum þjóðfélagsins.  Ef lýðræði ætti að vera raunverulegt, þyrfti almenningur, þ.e. einstaklingarnir sjálfir, að eiga 15,5 trilljónir til að leiðrétta þennan lýðræðishalla.  Ásættanlega jöfn dreifing eigna á milli einstaklinga innbyrðis yrði svo einnig að vera fyrir hendi til að treysta lýðræði og sátt í þjóðfélaginu." 

Á Íslandi eiga 30 % þjóðarinnar tæplega 80 % allra einkaeigna, en þær nema einvörðungu rúmlega 15 % heildareigna í landinu.  Við þessar aðstæður blasir við, að það er engin ástæða til að festa í sessi eða auka enn við eignarhald hins opinbera með nýjum ákvæðum í Stjórnarskrá.  Slík þjóðnýting mundi draga enn úr lýðræðislegu valdi almennings, en það er ekki einvörðungu fólgið í kosningarétti og aðkomu að einstökum ákvörðunum, heldur ekki síður, eins og Jóhann J. Ólafsson bendir á, fjárhagslegu sjálfstæði einstaklinganna og olnbogarými í samfélaginu án afskipta annarra innan marka laga og réttar, sem gilda um farsæl samskipti manna. 

Samkvæmt Hagstofunni eru um 80´000 framteljendur án nettóeignar og skulda 87 milljarða kr.  Það er miklu brýnna þjóðfélagslegt viðfangsefni að koma fleiri einstaklingum til bjargálna með möguleikum á eignamyndun en að auka við eignir ríkisins á kostnað einstaklinga og frjálsra félaga. Til að auðvelda ungu fólki þetta hefur verið bent á þá leið, að ríkissjóður leggi fram styrk til fólks, sem er að fjárfesta í sinni fyrstu íbúð, allt að Mkr 10, en hætti að veita vaxtabætur og dragi úr peningaaustri í Íbúðalánasjóð.  Þetta mundi gera fleirum kleift að losna úr fátæktargildru, en fara þess í stað að safna eignum, sem veita ómetanlegt afkomuöryggi í ellinni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson


Þú ert á brautinni, framtíðar brautinni.

Þetta er flott hjá þér, ég hef reyndar ekki tíma til að ljúka við þetta.

Íbúðalánasjóður, Sjóður-0 lánar til 40 ára, vextir 0,1 til 0,5% umsýsla, verðtryggt í launum.

Íbúðalánasjóður, Hinn nýi.

Ekki má veðsetja eign í íbúð nema hjá Íbúðalánasjóði.

Ekki má ganga að eign í Íbúðarhúsi fjölskyldunnar til að greiða eitt eða neitt.

Sama gildi um húsbúnað, upp að 10 milljón krónur.

Þetta er hugsað til að enginn geti ráðstafað íbúðarhúsinu, innbúinu, það er því sem fjölskyldan þarf að nota.

Þarna ætlum við að sjá um að fjölskyldan hafi íbúðarhús og húsbúnað, alla sína tíð.

Þá getur enginn selt einhverjum eitthvað, og treyst á að hafa íbúðarhús eða húsbúnað að veði.

SJÓÐUR "0"

Egilsstaðir, 31.03.2016  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 31.3.2016 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband