Aflátsformaður skriftar

Nú hafa þau undur og stórmerki orðið, að formaður Jafnaðarmannaflokks Íslands hefur sent út í eterinn bréf, þar sem hann tíundar axarsköpt flokksins síns á síðasta kjörtímabili, þegar hann fór með stjórnarforystu.  Er ekki að orðlengja það, að formaðurinn tekur þar undir með þáverandi stjórnarandstöðu um, að efnistök við öll helztu málefni hinnar afspyrnulélegu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hafi verið mistökunum mörkuð. Formaðurinn virðist þarna vera í hlutverki hins iðrandi syndara, en þar sem hann kennir öðrum um ófarir Samfylkingarinnar, er iðrunin ósannfærandi og þess vegna loku fyrir það skotið, að hann og flokkur hans verðskuldi nokkra syndakvittun frá almenningi, sem hefur í mörgum tilvikum mátt líða fyrir afglöpin.

Það er ástæða til að gefa gaum að téðum mistökum hins aflátandi formanns, því að um sögulegan syndalista er að ræða, hvað sem öðru líður.  Framarlega í bréfinu kemur sú furðustaðhæfing, að við "settum Íslandsmet í samgönguframkvæmdum".  Hið rétta er, að ríkisstjórn Jóhönnu skar allar framkvæmdir niður við trog, og ástand ríkiseigna ber þess enn merki.  Þá skrifar aflátsformaðurinn, að "við gengum inn í valdakerfi hinna gömlu flokka (2007)".  Samfylkingarfólkið hafði sem sagt ekki bein í nefinu til að snúa einu né neinu kerfislega til betri vegar, þrátt fyrir allan fagurgalann fyrir kosningar, og mistökin verður þess vegna að skrifa á kerfið, þ.e. á alla hina.  Þetta er svo ódýr og ómerkilegur málflutningur, að engu tali tekur.  Hann sýnir í sjónhendingu, að forystufólk Samfylkingar er engan veginn til forystu fallið og þess vegna í engu treystandi í stjórnmálum

  1. "Kjarninn okkar:   Við misstum það nána samband, sem við höfðum haft við verkalýðshreyfinguna og talsambandið við atvinnulífið."                 Þetta er þvættingur.  Samfylkingin hefur aldrei átt náið samband við verkalýðshreyfinguna.  Hún er flokkur menntamanna á ríkisjötunni.  BHMR er skjólstæðingur Samfylkingarinnar. Þar er kjörorðið að meta menntun til launa, en með því að berjast fyrir því, er Samfylkingin að berjast fyrir auknum ójöfnuði í samfélaginu.  Það gengur ekki að bera kápuna á báðum öxlum, þ.e. að borga fyrir námsgráður og samtímis að þykjast vilja aukinn launajöfnuð.  Þetta sambandsleysi Samfylkingarinnar við atvinnulífið og hræsnin í málflutninginum ásamt ásamt eintómum þokulúðrum í forystunni, sbr Dag B. Eggertsson og verk hans í borgarstjórn, eru meginskýringin á hrakfallasögu flokksins.
  2. "Icesave: Við studdum samning um Icesave, sem varði ekki ýtrustu hagsmuni þjóðarinnar, og mæltum gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um hann."          Fyrsti Icesave-samningurinn voru svo hrapalleg mistök að hálfu stjórnvalda, að jafna má við landráð, enda virtust annarleg sjónarmið vera höfð í fyrirrúmi, sem miðuðu að því að friðþægja kröfuhafana og Evrópusambandið, sem gerði allt, sem í þess valdi stóð, til að tryggja ríkisábyrgð á bankaskuldum hvarvetna í Evrópu.  Þrátt fyrir að eignir slitabús Landsbanka Íslands hafi dugað til að greiða allan höfuðstól skuldanna við Breta og Hollendinga, þá hefðu samt fallið 208 milljarðar kr á ríkissjóð þann 5. júní 2016 vegna vaxtakostnaðar. Þáverandi stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks reyndi mikið til að koma vitinu fyrir ríkisstjórn Jóhönnu í Icesave-málinu, þ.á.m. með þingsályktunartillögu um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, en einstrengingshátturinn reið þá ekki við einteyming, og slíkt er eðli vinstri flokka, sem til valda brjótast.
  3. "Aðildarumsóknin:   Við byggðum aðildarumsókn að ESB á flóknu baktjaldasamkomulagi, sem aldrei hélt, í stað þess að fá skýrt umboð frá þjóðinni til að fara í aðildarviðræður, sem hefði bundið alla flokka við umsóknarferlið."  Þessi lýsing á málsmeðferð í örlagaríku máli, þar sem Samfylkingin stefndi á að færa ákvarðanatöku um lífshagsmuni íslenzku þjóðarinnar frá Reykjavík og niður til meginlands Evrópu, Brüssel eða annarra staða, sýnir í hnotskurn fyrirlitningu þingflokks Samfylkingarinnar á nærlýðræði og beinu lýðræði. Forgangsröðunin er flokkshagsmunir fyrst, og þjóðin getur síðan étið það, sem úti frýs. Fyrirlitning flokksins á þingræðinu hefur oft komið skýrt fram, en þarna krystallaðist hún í "kattasmölun", sem gekk svo langt, að "kettirnir" komu rófustýfðir í pontu, mæltu fyrst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu, en samþykktu svo aðildarumsóknina á grundvelli heimskulegustu kenningar íslenzkra utanríkismála "að kíkja skyldi í pakkann", en fulltrúar ESB hafa samt margítrekað við Íslendinga, að fullt gegnsæi ríki frá fyrstu stundu um, hvað í pakkann verði sett, þó að um gildistökuna, aðlögunartíma að innihaldinu, megi semja.  Þessi kattarþvottur Árna Páls dugir ekki til að sannfæra nokkurn mann um, að Samfylkingin mundi ekki leika nákvæmlega sama leikinn aftur, fái hún til þess aðstöðu, því að þetta eru hin "náttúrulegu" vinnubrögð vinstri manna.
  4. "Skuldir heimilanna:  Þegar fólk var að drukkna í skuldafeni, tókum við að okkur í of ríkum mæli að útskýra fyrir fólki, að það ætti að borga skuldirnar sínar í stað þess að taka okkur stöðu með fólki gegn fjármálakerfi."   Í ríkisstjórn  Geirs Haarde fór Samfylkingin með bankamálin og gerði ekkert til að draga úr tjóni heimilanna.  Sú vinna var unnin síðar, aðallega af sjálfstæðismönnum, með frumvarpi og síðar lagasetningu, sem kallast Neyðarlögin.  Í ríkisstjórn Jóhönnu gekk Samfylkingin leynt og ljóst erinda fjármagnseigenda, kröfuhafa föllnu bankanna, og kórónaði axarsköpt sín á þessu sviði með því að afhenda þeim bankana tvo, Aríon- og Íslandsbanka, sem ríkið þó hafði lagt til endurreisnarféð. Hefur oft minni afbrotaferill en þessi verið rannsakaður. Fólk er enn að súpa seyðið af Árna Páls-lögunum, svonefndu, og hversu margar fjölskyldur skyldu hafa misst aleiguna í gin bankanna vegna þessara ólaga, sem Hæstiréttur dæmdi, að stríddu gegn Stjórnarskrá, en hafa samt ekki verið numin úr gildi af Alþingi.  Allur þessi viðbjóðslegi hernaður Samfylkingarinnar gegn fólkinu í landinu var samt öðrum að kenna, af því að "við tókum að okkur", þ.e. einhverjir fólu ráðherrum og þingmönnum Samfylkingarinnar að haga sér eins og "bestíur".  Lágkúran ríður ekki við einteyming á þeim bænum.
  5. "Fiskveiðistjórnun:     Við lofuðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu, en týndum okkur í langvinnum samningum fyrir luktum dyrum við samstarfsflokkinn um útfærslur á breytingum, sem strönduðu svo hver á eftir annarri.  Þess í stað hefðum við sem lýðræðisflokkur átt að leita til almennings um stuðning í glímunni við sérhagsmunaöflin."  Hér er eðli vinstri flokksins rétt lýst, hallur undir baktjaldamakk með gegnsæi á vörunum og ábyrgðarlaus um mestu lífshagsmuni þjóðarinnar, fiskveiðarnar.  Það er hent upp í loftið alls kyns ómótuðum hugmyndum um annars konar skipan fiskveiðanna, þótt aflahlutdeildarkerfið hafi gefizt frábærlega, og svo við lendinguna brotna þær allar í mél, af því að þær reynast með öllu óraunhæfar, hagfræðilegt óráð og byggðaleg rústun. Gríðarlegu púðri var þarna eytt í tóma vitleysu.  Þetta sýnir svart á hvítu, að þingflokkur Samfylkingarinnar "kunni ekki réttri hendi í rass að taka" og kann ekki enn.
  6. "Stjórnarskráin:  Við höfðum forgöngu um stjórnarskrárbreytingar, en drógum það allt of lengi að áfangaskipta verkefninu til að koma mikilvægustu breytingunum í höfn.  Ég tók um síðir af skarið, en í stað þess, að samtalið væri lifandi og allt uppi á borðum, var upplifun fólks sú, að ég hefði brugðizt og fórnað málinu og allt hefði klúðrazt."   Þetta er í meira lagi ruglingslegur texti um mál, sem var einn allsherjar Samfylkingarsirkus frá upphafi til enda.  Þetta er þyngra en tárum taki, því að málefnið er ekki léttvæg málfundaræfing, heldur grundvallarlög ríkisins.  Samfylkingin er svo kolrugluð í ríminu, að henni þóknaðist að setja breytingaferli grundvallarlaganna í eitt samfellt lýðskrumsferli, þar sem horft var algerlega framhjá því réttarfarslega öngþveiti, sem leitt getur af hrákasmíð, þar sem hrossakaup eru venjan.  Bezt fer á því hér sem endranær að gæta faglegra sjónarmiða, eins og hægt er að koma þeim við, og í þessu tilviki þá að setja valinkunnum hópi stjórnlagafræðinga að endurskoða afmarkaða þætti Stjórnarskráarinnar í ákveðnu augnamiði.  Þeir gæta þá að því, að lögræðileg samfella sé í breytingunum og að þær stangist ekki á við aðrar greinar Stjórnarskráarinnar, alþjóðlega samninga eða þekkta dóma, t.d. Mannréttindadómstóls Evrópu.  Leið Samfylkingarinnar að semja algerlega nýja og tætingslega Stjórnarskrá var fallin til að skapa djúpstæða réttaróvissu og flókin málaferli í landinu.  Hún var þess vegna sízta leiðin, sem hægt var að velja.  Minnir þetta á efnafræðikennarann í MR, Þórarin að nafni, sem var með nemanda uppi við töflu, og þar voru 2 kostir, sem nemandinn átti að velja á milli.  Hann valdi ranga kostinn.  Þá sagði Þórarinn, að þar skildi á milli greindra og heimskra nemenda, að sá greindi veldi fremur rétta kostinn, en sá heimski skyldi ætíð velja verri kostinn.

Það er hægt að lýsa umræddu dæmalausa bréfi aflátandi formanns Samfylkingarinnar með einu orði: hræsni.        

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband