Stjórnsýslubotnlangi

Blekbóndi þessa vefseturs telur miklum vafa undirorpið,  að flokkun og röðun nýtingarkosta íslenzkrar náttúru sé bezt háttað með núverandi fyrirkomulagi Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun, VuR.  Hefur blekbóndi gengið svo langt að halda því fram á þessu vefsetri og í grein í tímaritinu Þjóðmálum, að vegna óheppilegrar skörunar fræða- og athafnasviða Orkustofnunar, OS, og VuR, mundi það verða fallið til að straumlínulaga stjórnsýsluna á sviði frumrannsókna á náttúrunni og mats á þeim rannsóknum m.t.t. orkunýtingar eða friðunar, sem undanfarið hefur verið seinvirk, að fela OS núverandi hlutverk VuR og leggja VuR niður sem slíka.  VuR hefur með starfsemi sinni gengisfellt sjálfa sig sem farveg sáttar á milli ólíkra sjónarmiða um sjálfbæra og afturkræfa nýtingu náttúruauðlinda. Þar með er hún komin á leiðarenda. Aldrei verður á allt kosið, og allar niðurstöður munu vekja úlfúð um skeið.  Þess vegna er nauðsynlegt, að skýr málefnaleg rök, reist á haldgóðri þekkingu á öllum hliðum málsins, liggi til grundvallar flokkun á nýtingarkostum náttúrunnar. 

Nú gerðist það 27. febrúar 2016, að í Fréttablaðinu birtist hógvær og vönduð grein eftir Orkumálastjóra, Guðna A. Jóhannesson, um málefni VuR og OS:

"Allir sáttir - en um hvað ?"

Að mati blekbónda er svo komið eftir upplýsingar Orkumálastjóra, m.a. í þessari grein, að þing og ríkisstjórn eru nauðbeygð til að grípa til þeirra ráðstafana, sem duga til að setja "Rammaáætlun" í ásættanlegt stjórnsýslulegt ferli, en af grein Orkumálastjóra er ljóst, að VuR er haldin óviðunandi meinlokum og óhlutlægni, jafnvel slagsíðu:

"Stjórnsýsla, sem bregst við erfiðum málum með því að kippa þeim út úr hinu eðlilega stjórnsýslulega ferli og stinga þeim niður í skúffu, er ekki vanda sínum vaxin.  Hlutverk verkefnisstjórnar rammaáætlunar er að stjórna ferli, þar sem allir virkjanakostir eru greindir af faghópum og flokkaðir í tillögu, sem síðan er kynnt í umsagnarferli, þar sem allir hafa aðkomu.  Ráðherra leggur síðan þingsályktunartillögu fyrir alþingi til umfjöllunar og ákvörðunar. 

Með því að hafna því að taka virkjanakost til meðferðar er verkefnisstjórnin að koma í veg fyrir faglega umfjöllun faghópa, aðkomu fólks og fyrirtækja að umsagnarferlinu og síðast en ekki sízt alþingis Íslendinga. Slíkt valdarán fámennrar klíku þekkist sem betur fer ekki í okkar heimshluta og engar líkur á, að löggjafinn hafi haft slíkt í huga, þegar lög um rammaáætlun voru sett."

Langt er síðan önnur eins ádrepa hátt setts embættismanns um jafnalvarlegar brotalamir í stjórnsýslu landsins hefur sézt opinberlega á prenti.  Orkumálastjóri hefur lög að mæla, þegar hann nefnir Verkefnisstjórn um Rammaáætlun fámenna klíku, sem framið hafi valdarán með því að stinga undir stól ósk Orkustofnunar um endurskoðun á flokkun/röðun á grundvelli tillögu að breyttri virkjunartilhögun.  Þetta brot í starfi er næg ástæða, og alls engin tylliástæða, til að lýsa vantrausti á Verkefnisstjórnina og leysa hana frá störfum.  Í kjölfarið ætti að færa hlutverk hennar undir Orkustofnun.  Það er æskilegt að afmarka nánar störf faghópanna, svo að þeir risti ekki jafndjúpt og hingað til, því að rannsóknir á nýtingarkostum eru síðari tíma mál umhverfismats, forhönnunar og verkhönnunar.  Með því að raða verkþáttum í rétta röð má draga úr tvíverknaði og spara tíma og nýta viðeigandi innviði, sem þegar eru fyrir hendi í Orkustofnun. Niðurstaða á hæpnum forsendum áður en forhönnun fer fram, er svo mikilli óvissu undirorpin, að hún getur hæglega leitt til rangrar ákvörðunar um niðurröðun. 

Orkumálastjóri heldur áfram:

"Það var frá upphafi veikleiki í starfi verkefnisstjórnarinnar, að staða hennar og ábyrgð innan stjórnsýslunnar var ekki vel skilgreind.  Orkustofnun hefur frá upphafi gert athugasemdir við vinnulag verkefnisstjórnar.

Fyrstu tillögur að starfsreglum verkefnisstjórnarinnar voru mjög í rétta átt, en voru ekki nægilega skýrar til þess að taka af öll tvímæli í þeim atriðum, sem ágreiningur var um.  Þær bárust ekki Orkustofnun til umsagnar, og því hafði stofnunin ekki möguleika á að koma með sínar athugasemdir áður en þær voru gefnar út."

Orkumálastjóri bendir hér á meingallaða stjórnsýslu, þar sem Orkustofnun var sniðgengin.  Þeir, sem stóðu að því, hafa verið meðvitaðir um skörunina á verkefnasviðum OS og Verkefnisstjórnarinnar, VuR, og hvílíkt örverpi sú síðar nefnda er í stjórnsýslunni.  Þegar þannig háttar til, veltur vönduð stjórnsýsla á persónunum, sem í hlut eiga, og meirihlutinn í núverandi Verkefnisstjórn, sem mun vera frá fyrri hluta árs 2013, veldur engan veginn hlutverki sínu.  Til að rökstyðja það nægir að vísa í tilvitnaða grein Orkumálastjóra hér að ofan. 

Á meðal áforma núverandi ríkisstjórnar við myndun hennar var að straumlínulaga stjórnsýslu ríkisins.  Téð Verkefnisstjórn, VuR, er utan við meginfarveg stjórnsýslunnar og er eins og sepi utan á Orkustofnun án þess að OS geti hlutazt til um starfsemi hennar, sumpart eins og botnlangi á meltingarveginum.  Sem kunnugt er hleypur oft bólga í botnlanga meltingarvegarins, og líkaminn verður í raun betur settur án botnlangans en með hann innanborðs.  Botnlangabólga getur leitt til dauða líkamans, og með núverandi Verkefnisstjórn er svo mikil slagsíða á málsmeðferð, að raunhæfir orkurannsóknarkostir verða færri en efni standa til.  Slíkt leiðir til glataðra tækifæra til atvinnusköpunar og verðmætasköpunar. Mál er, að linni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband