Gamlar lummur

Á Íslandi hefur Stjórnleysisstefna ekki verið áberandi í umræðunni á lýðveldistímanum, og stjórnleysingjar ekki átt sæti á Alþingi, þó að þeir e.t.v. hafi boðið fram í einhverjum myndum. Tilhneigingin á Vesturlöndum hefur fremur verið í átt til aukinnar miðstýringar þegnanna en öfugt, og hefur keyrt úr hófi í þeim efnum, þar sem jafnaðarstefnan hefur fengið að grafa um sig. 

Líta má á pírata nútímans sem andóf við opinbera bákninu, og Píratahreyfingunni svipar sumpart til Stjórnleysisstefnunnar, og e.t.v. má segja, að Píratahreyfingin sé nútímavædd Stjórnleysisstefna.  Sem dæmi vilja píratar ekki lúta stjórn í Píratahreyfingunni, en megineinkenni stjórnleysingja er einmitt andstaða við boðvald að ofan. Hér verður reynt að staðsetja Píratahreyfinguna í hinu pólitíska litrófi með hliðsjón af stjórnleysingjum:  

Hér á eftir fer stutt lýsing á Stjórnleysisstefnu, sem tekin er af www.wikipedia.org :

"Stjórnleysisstefna eða anarkismi er stjórnmála- og félagsstefna, sem einkennist fyrst og fremst af andstöðu við yfirvald og höfnun á réttmæti þess.  Fylgismenn stefnunnar stefna að samfélagi byggðu á sjálfviljugri samvinnu einstaklinga.

Stjórnleysingjar eru afar fjölbreyttur hópur, eins og við er að búast, þar sem hugmyndafræðin byggist upp á höfnun á yfirvaldi, gagnrýninni hugsun og einstaklingsfrelsi. 

Nafngjöfin á þessari stjórnmálastefnu, anarkismi, sem íslenzkað hefur verið sem stjórnleysisstefna, er upphaflega níðyrði andstæðinganna, sem vildu meina, að hún mundi leiða til upplausnar og ringulreiðar.  Orðið sjálft, anarkhia, kemur úr grísku og þýðir án höfðingja eða stjórnanda."

Ætli mörgum þyki ekki margt líkt með ofangreindri lýsingu á stjórnleysisstefnu og því, sem hrýtur af vörum eða úr tölvu pírata, og þessu svipi jafnvel til stefnuskráar þeirra ?  Má ekki einmitt til sanns vegar færa, að hugmyndafræði pírata snúist um "höfnun á yfirvaldi, gagnrýna hugsun og einstaklingsfrelsi" ?  Í gr. 6.3 í "Grunnstefnu pírata" stendur t.d. eftirfarandi og er í samræmi við stjórnleysisstefnuna:

"Píratar telja, að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum, sem bjóðast."

Þetta má m.a. túlka sem aðför að þingræðinu og upphafningu sjálfræðis í anda stjórnleysingja.  Menn skulu ekki þurfa að lúta valdi að ofan.  Píratar vilja ekki hafa formlega miðstjórn í sínum samtökum, og engan hafa þeir formanninn. Þeir hafa hins vegar alls ekki kveðið að orði í sinni stefnuskrá með jafnskeleggum hætti og stjórnleysingjar hafa gert hjá sér, og fjölmargt er ósagt eða loðið í stefnuskrá pírata, en annað eru sjálfsagðir hlutir, sem allir geta verið sammála um og eiga þess vegna ekki heima í stefnuskrá stjórnmálaflokks, sem á að vera einkennandi fyrir hann og aðgreina hann frá öðrum, en ekki að vera orðskrúð og/eða loðmulla. 

Stjórnleysingjar eru andstæðingar ríkisvalds, en ekki verður ráðið af stefnuskrá pírata með einhlítum hætti, hvort þeir eru það, þó að ýmislegt bendi frekar í þá áttina í stefnu og gjörðum þeirra.

Stjórnleysingjar eru andsnúnir einkaeign, nema til eigin nota.  Gildir hið sama um pírata ?  Efnahagsstefna pírata er óljós, og það er e.t.v. af ráðnum hug búið þannig um hnútana, og e.t.v. ríkir grundvallarágreiningur um þennan mikilvæga málaflokk í röðum þeirra.  Það er óviðunandi fyrir kjósendur, sem íhuga að ljá Píratahreyfingunni atkvæði sitt.

Stjórnleysisstefnan felur í sér andkapítalisma, en kapítalisminn, auðhyggjan, er efnahagskerfi, sem felur í sér, að launþegar eða verktakar selja vinnu sína við eign annarra. Ýmislegt bendir til, að píratar séu hallir undir stjórnleysisstefnuna einnig að þessu leyti og hallist að einhvers konar sjálfsþurftarbúskap.  Villta vinstrið svarar þessari spurningu þannig, að allir eigi að vera launþegar hjá hinu opinbera eða hjá félagslegum samvinnufélögum og samyrkjubúum.

 Það er mjög lítið að græða á lestri stefnuskráar pírata um efnahagsmál, og það er alvarlegur ljóður á ráði þeirra að tjá sig svo þokulega um efnahagsmál, að ekki er hægt að segja til um, hvort þeir aðhyllast stefnu stjórnleysingja í þessum málaflokki, borgaraleg sjónarmið um sölu á vinnuafli í frjálsu markaðshagkerfi eða afstöðu kommúnista um einokun hins opinbera á vinnuframboði. 

Stjórnleysingjar styðja almennt það, sem nefnt er "beinar aðgerðir".  Almenn mótmæli eru beinar aðgerðir, en kosning stjórnmálaflokks á þing er það ekki, svo að dæmi sé tekið.  Þetta virðist falla eins og flís við rass að stefnu pírata, eins og Austurvallamótmælin og samúð pírata innan þings og utan með þeim bera með sér.

"Píratar aðhyllast afglæpavæðingu vímuefnaneyzlu á þeim forsendum, að núverandi stefna, sem er stundum kölluð refsistefnan, geri beinlínis meira ógagn en gagn." 

Hassþefurinn finnst langar leiðir af þessum boðskap.  Hann er ekki útfærður í stefnu pírata frekar en annað.  Á t.d. að leyfa sölu á hassvindlingum, E-töflum, kókaíni og öðrum stórskaðlegum og jafnvel baneitruðum óþverra í verzlunum ÁTVR eða jafnvel í stórmörkuðunum ?  Er ekki líklegt, að verðið á eitrinu lækki og neyzlan vaxi, ef hún verður lögleg ? Á þá að skattleggja eitrið til að fjármagna kostnað heilbrigðisgeirans við að reyna að koma fórnarlömbunum á réttan kjöl aftur, eða á að setja þau á Guð og gaddinn, svo að þau dragi ekki úr þeim fjármunum, sem til ráðstöfunar eru fyrir aðra sjúklinga ? Höfundum stefnumála pírata er ekki sjálfrátt.  Eru þeir heilaskaðaðir eftir hassreykingar og/eða aðra fíkniefnaneyzlu ? 

Kaflinn um menntamál hefur líklega verið saminn í hassreykfylltu bakherbergi pírata, því að þar er stórfurðuleg fullyrðing um hlutverk menntakerfisins.  Ef hún væri sönn, væri mjög lítill tími veittur í menntakerfinu til  að viða að sér þekkingu í grunnfögum skólakerfisins, og til að kynnast náttúrulögmálunum frá mörgum hliðum með námi í raungreinum eða verklegum greinum, sem verða tvímælalaust í askana látin og standa síðan undir verðmætasköpun í vestrænum samfélögum, þegar nemendur koma út í atvinnulífið:

"Tilgangur skólakerfisins er að kenna fólki á það, hvernig samfélagið virkar, og hvernig á að búa til nýja þekkingu." 

Blekbóndi gekk 20 ár í skóla, frá Ísaksskóla til lokaprófs í verkfræði í erlendum háskóla, en hann lærði á þessum árum í mismunandi skólum nánast ekkert um, hvernig samfélagið virkar, og aðeins á lokaárum háskólanámsins um aðferðarfræði til að þróa nýjungar út frá þekktum staðreyndum með sjálfstæðum rannsóknum.  Annars snerist námið um að tileinka sér lestur, skrift, reikning og síðar stærðfræði, íslenzka málfræði og réttritun, erlend tungumál og alls konar færniþjálfun og fróðleiks- og staðreyndaöflun, sem ekki er hægt að bendla við, "hvernig þjóðfélagið virkar".  Blekbónda er næst að halda, að sá, sem samdi þessa píratamálsgrein, hafi engin almennileg kynni haft af skólakerfinu né komizt í góða snertingu við námsefnið, sem þar er á boðstólum, og e.t.v. verið í hassvímu alla sína skömmu skólagöngu. 

Annað furðuverk kemur í ljós, þegar "stefnumótunin" gagnvart Evrópusambandinu er lesin:

"Það er ekki hlutverk stjórnmálaflokka að taka afstöðu með eða á móti aðild, en aftur á móti eiga þeir að vera búnir undir hvora niðurstöðuna sem er."

Svona lagað getur aðeins stjórnleysingi látið frá sér fara, því að stjórnleysinginn vill ekki lúta stjórn neins, og þess vegna lætur hann ekki stjórnmálaflokk segja sér fyrir verkum.  Ef þeir, sem móta stefnur stjórnmálaflokka, eiga ekki að rannsaka kosti og galla aðildar að ESB samkvæmt beztu getu, og móta síðan rökstudda stefnu flokksins til aðildar Íslands að ESB, hvers konar hlutverki eiga stjórnmálaflokkar þá eiginlega að gegna í þjóðfélaginu, í ljósi þess, að afstaðan til ESB er örlagaþrungin afstaða fyrir landsmenn og felur í sér afstöðu til grundvallarmáls á borð við fullveldis landsins. 

Spyrja má einnig, hvernig þingmenn eigi að móta samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum, ef þeir hafa ekkert komið að rannsókn á, hvað aðild felur í sér ?  Eiga þeir bara að fljóta sofandi að feigðarósi og láta embættismenn um allt saman, og e.t.v. að dingla með skoðanakönnunum ?  Þetta er ekki sérlega gagnrýnin afstaða hjá pírötum og gengur engan veginn upp, nema í huga stjórnleysingja, sem er utanveltu í nútímasamfélagi. 

Einnig má spyrja þá, sem vildu þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar viðræður Íslands og ESB voru lagðar á ís í janúar 2013, um hvað átti eiginlega að kjósa þá ?  

Staðreyndin var, að ESB stöðvaði viðræðurnar með því að neita að birta rýniskýrslu sína um sjávarútvegsmál.  Þar hafa menn nefnilega að öllum líkindum komizt að þeirri niðurstöðu, að sjávarútvegsstefna Íslands, sem Alþingi hafði nestað samninganefnd Íslands með, var og er ósamrýmanleg sjávarútvegsstefnu ESB.  Sú stefna er hluti af CAP-Common Agricultural Policy, sem er ein af meginstoðum ESB, og fram hjá henni verður ekki gengið í aðildarviðræðum.

Hvernig í ósköpunum átti þá að orða spurningar til þjóðarinnar, sem greiða ætti atkvæði um, já eða nei ? Vilt þú halda áfram viðræðum við ESB um aðild Íslands að ESB ?  Já við þessu hefði jafngilt því að gera Alþingi afturreka með samþykktir sínar, og slíkt er Stjórnarskrárbrot, því að á Íslandi ríkir þingræðisfyrirkomulag samkvæmt Stjórnarskrá.

Í þessari stöðu var aðeins hægt að leggja fyrir þjóðina tvær spurningar:

Vilt þú fresta aðildarviðræðum við ESB, þar til Alþingi hefur breytt samningsskilmálum Íslands, svo að hægt verði að halda áfram aðildarferlinu og greiða síðan um aðild atkvæði á Alþingi og í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu ?

Vilt þú, að Alþingi afturkalli umsókn Íslands um aðildarviðræður við ESB ? 

Fylgismenn aðildarviðræðna hafa forðazt að ræða inntak þjóðaratkvæðagreiðslu, sem þeir þó kröfðust um það leyti, sem fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, sendi "afurköllunarbréf" sitt til stækkunarstjóra ESB.  Jafnvel forsetaframbjóðandinn Andri Snær Magnason, sem ber kápuna á báðum öxlum, en er af málflutningi sínum að dæma hallur undir ESB, tuðar um, að hann hefði viljað fá þjóðaratkvæðagreiðslu, en um hvað þá ?  Allt tal um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður er lýðskrum eitt, nema spurningarnar fylgi með í kaupunum.

Það kennir ýmissa grasa í stefnuskrá pírata, og sumt kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum og stingur með forræðishyggjustefi sínu í stúf við stjórnleysisstefnuna. Það hefur ljóslega komizt refur í hænsnabúið. Dæmi um þetta er eftirfarandi freklega og rándýra inngrip í vinnumarkaðinn með fyrirmynd frá jafnaðarmönnum í Frakklandi, sem eru að hrökklast frá þessu ákvæði, af því að franskt atvinnulíf rís ekki undir því.  Hvað hafa píratar í höndunum um það, að íslenzkt atvinnulíf muni fremur rísa undir því ?:

"Breyta skal lögbundinni vinnuviku úr 40 tímum í 35 tíma með breytingu á lögum 88/1971."

Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er þetta stefnumál pírata algerlega úr lausu lofti gripið og án nokkurrar áhættugreiningar á áhrifunum á samkeppnisstöðu landsins.  Framleiðni á Íslandi er að jafnaði minni en í samkeppnislöndum okkar.  Það er misráðið hjá pírötum, að hægt sé með skrifborðsákvörðun stjórnvalda af þessu tagi að þvinga fram aukna framleiðni.  Með fylgdi nefnilega, að vinnutímastyttingin ætti ekki að hafa áhrif á launin.  Verðmætasköpun starfsmanna í flestum greinum verður minni á 35 klst en á 40 klst, en kostnaður atvinnurekenda sá sami, nema aukin yfirvinna verði afleiðingin.  Af þessum sökum minnkar geta fyrirtækjanna til fjárfestinga og launagreiðslna, sem hafa mun neikvæð áhrif á hagvöxt, eins og reyndin varð í Frakklandi.  Píratar hefðu betur kynnt sér reynslu Frakka áður en þeir frömdu þetta stílbrot á stefnuskrá sinni.  Til lengdar grefur stjórnvaldsákvörðun af þessu tagi undan hagsmunum launþega og hagkerfisins í heild, eins og raunin varð í Frakklandi. 

Síðasta stefnuatriði pírata, sem hér verður tilfært, er aðför að núverandi sjávarútvegsstefnu, en hún er afrakstur stöðugrar þróunar frá um 1980 á Íslandi.  Þessi stefna hefur reynzt framúrskarandi vel, enda hefur hún hlotið alþjóðlega viðurkenningu, og æ fleiri þjóðir taka hana upp.  Píratar vilja hins vegar, að vafasöm skrifborðshugmynd, sem hvergi hefur verið reynd fyrir heila grunnstoð útflutningstekna í neinu landi, verði innleidd hér, væntanlega með voveiflegum afleiðingum fyrir minni útgerðir og dreifðar byggðir landsins:

"Ríkið skal bjóða aflaheimildir upp á opnum markaði fyrir hönd þjóðarinnar.  Handfæraveiðar séu þó frjálsar fyrir þá einstaklinga, sem kjósa að stunda þær.  Allur afli skal fara á markað."

  1. Hvernig á ríkið með lögformlegum hætti að taka sér vald til að bjóða upp eign, sem það á ekki ? Það er grundvallarmunur á þjóð og ríki.  Þjóð er t.d. ekki lögaðili, en ríki er það. Þetta er brot á eignarréttarákvæði Stjórnarskrárinnar, 71. gr., en afnotaréttur er almennt viðurkenndur sem eitt form eignarréttar, og afnotaréttur á við um útgerðirnar, því að enginn á óveiddan fisk í sjó, sem er almenningur að fornri skilgreiningu.  Þessi fyrirætlun pírata felur í sér þjóðnýtingu, sem hvergi er lögleg í hinum vestræna heimi, nema með þröngum skilyrðum, sem ekki eru uppfyllt hér, enda er frjálst markaðshagkerfi reist á einkaeignarréttarákvæðum, sem varin eru af ríkisvaldinu. Auðvaldskerfið, kapítalisminn, er reist á lögvörðum einkaeignarréttindum, sem fela í sér veðsetningarheimild.  Vilji píratar umturna þessu kerfi, eins og stjórnleysingjar, þá er "system í galskapet" hjá þeim að setja þetta ákvæði í stefnuskrá sína. Ef þessi lögleysa væri samt framkvæmd og fyrirtækjum á öllu evrópska efnahagssvæðinu leyft að bjóða í aflaheimildir, mundi stórauðvaldið augljóslega sölsa þær undir sig með einum eða öðrum hætti.
  2. Það er brot á jafnræðisreglu og atvinnufrelsi, sem eru varin af Stjórnarskrá, að taka veiðiréttinn með einhverjum hætti af sumum útgerðum og veita öðrum útgerðum frelsi til óheftra veiða.  Með þessu væri verið að auka hlut óhagkvæmari veiða á kostnað hagkvæmari veiða, og tæknilega væri verið að færa veiðar á sjó eina öld aftur í tímann.  Allt er þetta glórulaust, löglaust og siðlaust.

Niðurstaðan af þessari athugun á stefnuskrá Píratahreyfingarinnnar á Íslandi er, að hún sé gamalt vín á nýjum belgjum, af því að hún er afsprengi hefðbundinna stjórnleysingja og netþræla nútímans.  Í þetta glundur hefur verið hent ýmsum óþverra úr seinni tíma umræðu, sem gera það að óætum viðbjóði. 

 

   

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband