Um daginn og veginn

Íslenzka vegakerfið hefur verið hornreka hjá ríkissjóði síðan árið 2010. Hér verður ömurlegt ástand gatnakerfis Reykjavíkurborgar ekki gert að umtalsefni, enda er ráðsmennskan í Ráðhúsinu við Reykjavíkurtjörn sorglegri en tárum taki. 

Fjárveitingar undir þjóðhagslegum mörkum til Vegagerðar ríkisins eiga í senn við fjárfestingar og viðhald.  Á sama tíma hefur umferðin vaxið með hverju árinu, og munar þar mest um erlenda ferðamenn, en það stefnir í, að 40 þúsund erlendir ferðamenn verði á landinu dag hvern að meðaltali, og þá jafnvel 80 þúsund að sumrinu.  Megnið af þeim er á ferðinni á vegum landsins flesta daga ársins á alls konar farartækjum, þ.m.t. langferðabílum.  Þetta jafngildir 12 % viðbót við íbúatölu landsins. 

Búizt er við, að bílainnflutningur árið 2016 slái met frá 2007 og verði um 17´000 bílar. Fátt vitnar betur um grózkuna í íslenzka hagkerfinu og góðan árangur núverandi ríkisstjórnar við efnahagsstjórnunina. Hugsanlega þýðir þessi bílainnflutningur 3 % nettófjölgun bifreiða á vegum landsins í ár að jafnaði, og þar við bætast erlendir ferðamenn, sem koma á eigin fararskjótum með ferjunni til Seyðisfjarðar. 

Það er þess vegna ljóst, að mikil álagsaukning á sér stað um þessar mundir á vegakerfi landsins vegna aukinnar hagsældar landsins og gríðarlegrar aukningar á fjölda erlendra ferðamanna í landinu.  Hvernig skyldu yfirvöldin nú bregðast við þessari stöðu ?  Ætli sé sofið á verðinum á þessum vígstöðvum, eins og varðandi sómasamlega móttöku ferðamanna í náttúru Íslands, þar sem öryggi og umhverfisvernd sitja gjörsamlega á hakanum, á meðan silkihúfur kasta á milli sín fjöregginu, þó að næg úrræði séu fyrir hendi til að grípa til, ef nægur dugnaður væri fyrir hendi ? Lítum á, hvað fram kom í frétt Morgunblaðsins, 1. marz 2016, hjá Birni Jóhanni Björnssyni,

"Viðhaldið fylgir ekki umferðinni":

"Áætluð framlög til vegagerðarinnar á þessu ári eru rúmlega miakr 24,1.  Það er um Mkr 900 (3,6 %-innsk. BJo) minna en árið 2015, þegar framlögin voru rúmir miakr 25,0, samkvæmt fjárlögum og fjáraukalögum."

Þetta er alger ósvinna og má túlka sem skilningsleysi þingmanna á því, að vegakerfið er algerlega ófullnægjandi í sinni núverandi mynd til að fullnægja lágmarks öryggiskröfum og til að þjóna athafnalífinu, eins og vert er.  Samkvæmt alþjóðlegu mati er íslenzka vegakerfið aftarlega á merinni, og í lestarlausu vestrænu landi er slíkt ástand samgönguinnviðanna óþolandi. Fjárframlag til viðhalds veganna er skorið niður um miakr 0,5 eða tæp 8 %, og framlag til nýframkvæmda er skorið niður um miakr 0,2 eða um 2 %, niður í miakr 9,7 og nema þá innan við tíund af heildarfjárfestingum ríkisins.  Þetta er algerlega ábyrgðarlaus stjórnvaldsráðstöfun í tvenns konar ljósi:

Í fyrsta lagi hækkar nú slysatíðni á vegunum, og fjarlægist hún núverandi viðmið stjórnvalda.  Hönnun og ástand vegakerfisins hefur mikil áhrif á öryggi bílaumferðar.  Skortur á fjárveitingum til Vegagerðarinnar á þess vegna sinn þátt í því, að árið 2015 var fjöldi látinna og alvarlega slasaðra 3,2 % hærri en nemur meðaltali 9 ára þar á undan og 24 % hærri en viðmiðun stjórnvalda nú um stundir, sem er 156.  Þetta er óviðunandi. 

Þróun minni háttar meiðsla í umferðarslysum gefur til kynna, hvers má vænta um þróun alvarlegra slysa.  Umferðarslys, þar sem urðu minni háttar meiðsli, voru árið 2015 1130 talsins eða 14 % fleiri en árið 2014.  Þetta sýnir grafalvarlega þróun á vegum landsins, og Vegagerð ríkisins verður að fá tækifæri til að hrinda þegar í stað af stokkunum áætlunum sínum um tafarlausar úrbætur. 

Í öðru lagi þjónar núverandi vegakerfi ekki nægilega vel atvinnuvegum landsins, sem leiðir til lengri flutningstíma og hærri rekstrarkostnaðar.  Þetta skerðir samkeppnishæfni landsins, eins og alþjóðlegur samanburður gefur til kynna.

Það þarf að leyfa einkaframkvæmd, þar sem raunhæft er að rukka inn veggjald, eins og t.d. fyrir akstur á nýrri Sundabraut og fyrir tvöföldun Hvalfjarðarganga, þegar þar að kemur, og verður væntanlega við Vaðlaheiðargöng.  Það eru vanhöld á, að tekjur ríkissjóðs af umferðinni renni allar til Vegagerðarinnar og þarf að leiðrétta það í áföngum. 

Fjárveitingar til Vegagerðarinnar á fjárlögum 2016 eru rúmlega miakr 24, en þurfa að hækka á þremur árum um u.þ.b. miakr 11 á ári upp í u.þ.b. miakr 35 að raunvirði til að fækka slysum og til að vegakerfið styrki samkeppnishæfni landsins frá því, sem nú er.

  Í fjáröflunarskyni þarf að gera gangskör að því að draga úr skattaundanskotum, t.d. í ferðageiranum, því að samkvæmt Ríkisskattstjóra gætu þessi undanskot alls numið miakr 80 á ári, og það eru vísbendingar um, að til ferðageirans sé nokkuð að sækja í þessum efnum. Í Morgunblaðinu 5. marz 2016 var upplýst, að Ríkisskattstjóri hefði virðisaukaskattskil ferðaþjónustunnar til rannsóknar.

Nú er það vitað, að erlendir ferðamenn voru rúmlega 30 % fleiri á Íslandi árið 2015 en árið 2014. Hvernig má það þá vera, heildarvelta gisti- og veitingaþjónustu á sama tímabili samkvæmt virðisaukaskattskýrslum jókst aðeins um 16,5 % hjá gististöðum og aðeins um 14,0 % í veitingasölu ? Það ríkir gullgrafaraæði í ferðaþjónustunni núna, sem er ávísun á kollsteypu.  Munurinn á erlendri tekjuöflun virkjunarfyrirtækjanna og ferðaþjónustufyrirtækjanna er sá, að lágmarkstekjur hinna fyrr nefndu eru tryggðar til áratuga með langtímasamningum, en tekjur hinna síðar nefndu geta horfið, eins og dögg fyrir sólu.  Hvað verður þá um skuldsettar fjárfestingar og 20 þúsund launþega ?

Ef hið rétta er, sem rannsókn Ríkisskattstjóra á eftir að leiða í ljós, og ekki er unnt að fullyrða á þessu stigi, að virðisaukaskyld velta hafi í raun aukizt um 30 % í stað 15 % árið 2015 m.v. 2014, þá nemur vangoldinn virðisaukaskattur þessa hluta ferðageirans að lágmarki miakr 2,2 árið 2015.  Það er lágmark, af því að það er líka óútskýrt misræmi á milli fjölgunar ferðamanna og aukningar á téðri veltu á fyrri árum, þó e.t.v. minna. 

Með fjárlögum 2016 fækkaði undanþágum ferðaiðnaðarins frá virðisaukaskattskyldu, sem enn ætti að bæta innheimtu VSK.  Það er enn fremur orðið tímabært að færa þessa miklu vaxtargrein úr neðra VSK-þrepinu í hið efra, og þá e.t.v. að lækka það um leið fyrir heildina. Með því móti gætu skatttekjur af ferðageiranum vaxið um miakr 20. Núna þarf að endurgreiða sumum ferðaþjónustufyrirtækjum virðisaukaskatt, af því að innskattur þeirra er hærri en útskatturinn.  Það er tímabært að taka þessa grein úr bómull, og þar með að jafna samkeppnishæfni hennar við aðrar atvinnugreinar í landinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband