6.4.2016 | 10:30
Hýenur baktjaldamakksins
Þann 11. marz 2016 var forsætisráðherra Íslands veitt fyrirsát í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Hann var blekktur til að veita sænskum rannsóknarblaðamanni viðtal um endurreisn Íslands eftir hrun fjármálakerfisins, en í raun var ætlunin að klekkja á honum með Panamaskjölunum svo kölluðu og særa hann þannig til ólífis. Þetta kom ráðherranum í opna skjöldu, vörn hans reyndist arfaslök, og hann hvarf illa særður af vígvellinum. Hildarleikurinn var þó rétt að hefjast.
Ráðherrann virðist hafa notað tímann fram að fyrirhuguðum aftökudegi sænsku og íslenzku slátraranna, 3. apríl 2016, mjög illa, þannig að vopnabræður hans voru árásinni óviðbúnir. Þetta ótrúlega andvaraleysi átti eftir að reynast banabiti ráðherrans.
Stjórnarandstaðan var nokkra stund að bögglast með, hvernig hún ætlaði að bregðast við. Hún boðaði fyrst vantrauststillögu á þingi á forsætisráðherra, en fékk þá að vita hjá starfsmönnum þingsins, að slík tillaga væri markleysa, og var tillögunni þá breytt þann 4. apríl í að verða vantrauststillaga á forsætisráðherra og ríkisstjórnina.
Þann 5. apríl 2016 lék fráfarandi forsætisráðherra enn nokkra grófa afleiki. Hann hugðist stilla bæði formanni Sjálfstæðisflokksins og forseta lýðveldisins upp við vegg, en reyndist þá ekki vera nokkur bógur til að standa í slíkum stórræðum. Forseti lýðveldisins átti mótleik, sem kom stjórnlagafræðingum og sagnfræðingum á óvart, en reyndist vera hárréttur í stöðunni. Með þessum leik var fráfarandi forsætisráðherra mát. Hinn mátaði forsætisráðherra lék einleik téðan morgun, sem eðlilega hugnaðist ekki þingflokki hans, sem steypti honum fremur mjúklega af stóli á fyrsta fundi sínum eftir Bessastaðafundinn.
Það má hverju barni ljóst vera eftir sviptingar í málefnum íslenzka ríkisins þann 5. apríl 2016, hver hinn sterki maður núverandi stjórnarsamstarfs er. Hann mætti í Kastljósþátt RÚV að kvöldi þessa dags, sýndi þar mikla vígfimi og gerði algerlega hreint fyrir sínum dyrum. Hann hafði aldrei í hyggju að flýja með sitt fé í eitthvert skattaskjól, heldur var ætlunin að fjárfesta í íbúð á miklu uppgangssvæði við Persaflóann. Slíkar fjárfestingar erlendis voru þá fullkomlega löglegar, og þær munu verða það, þegar þessum manni, Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, tekst ætlunarverk sitt í þágu landsmanna allra að losa um gjaldeyrishöftin.
Hýenur baktjaldamakksins, formenn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, hafa nú beint spjótum sínum að þessum manni og ríkisstjórninni allri og heimta kosningar strax. Atferli þeirra og handbenda þeirra, innan þings og utan, er óþingræðislegt. Þau hafa samt enga kosti að færa þjóðinni, enga stefnu hafa þau kynnt, sem þau hafi sammælzt um að framfylgja í ríkisstjórn eftir kosningar. Þau standa nú sem fyrr fyrir aðför að þingræðinu, sem þau virðast fyrirlíta. Hér er um sömu svikahrappana að ræða, sem með bolabrögðum hugðust fórna efnahagslegu sjálfstæði landsins með því að samþykkja afarkosti Breta og Hollendinga um ríkisábyrgð á skuldum óreiðumanna, s.k. "Icesave-reikningum", og fórna stjórnmálalegu sjálfstæði þjóðarinnar í hendur kommissara ESB-klíkunnar í Brüssel, sem nú er að krebera sökum eigin úrræðaleysis.
Það verða senn haldnar Alþingiskosningar, og þá munu þessar hýenur baktjaldamakksins verða krafðar sagna um, hvað fór raunverulega fram á bak við tjöldin, þegar þessir tveir vinstri sinnuðu og þjóðhættulegu flokkar, sem hengu á völdunum eins og hundar á roði án starfshæfs þingmeirihluta og eftir afhroð í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um fjöregg þjóðarinnar, véluðu um örlög íslenzku þjóðarinnar. Hýenurnar munu líka verða krafðar svara við því, hvað frábrugðið verði í stjórnarháttum þeirra, komist þær til valda, m.v. stjórnarhætti ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem að ýmissa mati jaðraði við landráð.
Hýenur baktjaldamakksins hafa sýnt og sannað, að þær eru óhæfar til að fara með ríkisvald. Mistakaferill þeirra á ráðherrastóli er svo langur og ljótur, að það má furðu gegna, að þær hangi enn sem formenn sinna flokka. Þær hanga ekki á hvönn, eins og Þorgeir Hávarsson forðum, heldur á einskærri græðgi, valdagræðgi. Aldrei aftur vinstri stjórn.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Magnaður pistill frá þér, Bjarni, snillingur ertu.
Jón Valur Jensson, 7.4.2016 kl. 03:38
Þingmönnum vinstri flokkanna hefur ekki tekist að ná hylli þjóðarinnar á eigin verðleikum né málefnum. Því skal reynt að upphefja sig á kostnað annarra. Þetta bragð þeirra mun ekki heppnast, þó vissulega hafi tekist að vængbrjóta núverandi ríkisstjórn. Kjósendur eru ekki hálfvitar, eða það ætla ég ekki þjóð minni.
Það er undarlegt og gengur næst farsa að hlusta nú á fulltrúa stjórnarandstöðuflokka tala um að ríkisstjórnin sé ekki starfhæf, hafi ekki burði. Flest það fólk sem svo tjáir sig voru aðilar að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, að undanskyldum þingmönnum Pírata.
Sú ríkisstjórn sat í meir en ár með þingminnihluta, hafði enga burði til að afgreiða mál frá Alþingi. Hún hélt völdum vegna þess eins að þeir þingmenn sem nú telja sig vera einhverja sjóræningja, varði þá ríkisstjórn fyrir vantrausti.
Ef nú er tilefni til að stytta kjörtímabilið, þá var sannarlega tilefni til að stytta kjörtímabil síðustu ríkisstjórnar, ekki bara vegna þess að hún hafði ekki þingmeirihluta, heldur enn frekar vegna þess að þjóðin hafnaði stjórnartilburðum þeirra ríkisstjórnar í tvígang á kjörtímabilinu.
Hvernig getur gjá milli þings og þjóðar orðið víðari og dýpri en með því að þjóðin, í kosningu, hafni stjórnartilburðum starfandi ríkisstjórnar?
Atburðirnir nú eru sem barnavísa miðað við þann ósóma sem hér óð uppi á síðasta kjörtímabili og skiptir þá málefni eða pólitísk sýn kannski ekki öllu, mun freka störf og starfshættir þáverandi valdhafa.
Gunnar Heiðarsson, 7.4.2016 kl. 08:40
Sælir, heiðursmenn tveir hér að ofan;
Þegar manni blöskrar málatilbúnaðurinn og sezt niður og fer að skrifa um hneykslunarefnið, þá verður þetta niðurstaðan, Jón Valur.
Ég er algerlega sammála innleggi þínu hér að ofan, Gunnar. Loddarar stjórnarandstöðunnar kasta steinum úr glerhúsi. Vinstri stjórnin hékk á völdunum út kjörtímabilið, þótt hún hefði í raun misst þingmeirihlutann á miðju kjörtímabilinu. Þar að auki var hún gerð í tvígang afturreka með miklum meirihluta atkvæða í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum um sitt aðalmál fyrir utan ESB-umsóknina, sem hún vildi ekki leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um. Þessu er rétt að halda rækilega til haga í komandi kosningabaráttu til að sýna fram á tvískinnung og sviksamlegt eðli þess fólks, sem nú sækir í völdin.
Það er margt fleira, sem verður rifjað upp í kosningabaráttunni. Katrín Jakobsdóttir margtuggði á blaðamannafundi stjórnarandstöðunnar í Alþingishúsinu í gærkvöld, að hún væri bezt til þess fallin að "berjast gegn skattaskjólum". Þetta eru tóm öfugmæli. Með breytingu á lögum nr 21/1991, sem gerð var í desember 2010, þegar vinstri stjórnin með téða Katrínu hafði þingmeirihluta, var undanskotsfólki á fé til skattaskjóla auðveldað að komast upp með að lýsa sig gjaldþrota að afloknum slíkum flutningi fjár til aflandseyja með því, að lagabreytingin kvað á um, að allar kröfur á hendur þrotamanni fyrnast á tveimur árum frá skiptalokum. Loddarinn Katrín Jakobsdóttir heiðrar þannig í raun skúrkinn, þó að lýðskrumarinn Katrín Jakobsdóttir þykist vilja leiða aðför að honum. Slíkum botnlausum óheilindum í stjórnmálunum verðum við að berjast gegn með oddi og egg.
Aldrei aftur vinstri stjórn !
Bjarni Jónsson, 7.4.2016 kl. 14:21
Góð grein Bjarni, þakkir fyrir, við þurfum öll að snúa bökum saman til að varðveita lýðræðið okkar, þingræðið og stjórnarskrá Íslands. Það er ríkisstjórnin sem stjórnar landinu ekki s.k. keyptir "rannsóknar"blaðamenn í þágu fjármálaklíka.
Gústaf Adolf Skúlason, 8.4.2016 kl. 11:35
Sæll, Gústaf Adolf;
Það er hvorki hér né annars staðar skipt um valdhafa eftir því, hvernig svarendum þóknast að svara í skoðanakönnunum. Loddarar nota æsing í samfélaginu til að koma hér á nornaveiðum í anda galdraofsókna á 17. öld. Siðleysingjar galdrafársins á borð við Svandísi Svavarsdóttur, sem dæmd var af Hæstarétti fyrir ólöglega embættisfærslu, hrópar nú á torgum: "Hann er í Panamaskjölunum". Þetta á að hennar dómi að nægja til að menn segi af sér ráðherradómi, þó að sannað sé, að féð fór til fjárfestingar í íbúð við Persaflóann, sem hætt var við, og var flutt heim aftur með tapi, þannig að 0 kr voru sviknar undan skatti. Dómgreindarleysi Svandísar nú felst í að halda, að hún komist upp með þessar galdraofsóknir á Íslandi á 21. öldinni, og hjá Svandísi ráðherra eftir Hæstaréttardóminn fólst það í að yppta öxlum, glotta illyrmislega og segja: "ég er í pólitík".
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 8.4.2016 kl. 13:33
Allir þið sem látið ykkar skoðanir hérna í ljós, virðist engan veginn hafa fylgst með fréttum síðustu daga. Það er með ólíkindum hverskonar moðsuða kemur frá ykkur og gætuð þið með miklum sóma orðið ráðherrar eða ráðgjafar ráðherra í núverandi stjórn á Íslandi í dag.
Þorkell Sigurjónsson, 8.4.2016 kl. 21:40
Túlka þú það sem þú túlka vill Þorkell, þín sýn á þessa atburðarás er væntanlega þannig að þú kýst að henda í einhverja súpu sem sæma mætti visntri vængnum
Guðmundur Júlíusson, 9.4.2016 kl. 00:17
Sagt er, að hátt hreyki heimskur sér, og það er ofan af undarlegum mykjuhaugi, sem því er varpað fram, að blekbóndi og gestir hans á þessu vefsetri séu svo skyni skroppnir, að þeir hafi "engan veginn fylgst með fréttum síðustu daga". Hins vegar ber að halda til haga, að "sínum augum lítur hver á silfrið".
Bjarni Jónsson, 9.4.2016 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.