16.6.2016 | 22:08
Orkan er undirstaðan
Undirstaða ríkjandi lífsgæða á Íslandi eru endurnýjanlegu orkulindirnar jarðvarmi og fallvatnsorka og nýting landsmanna á þessum orkulindum. Þegar nýting þeirra hófst fyrir um 100 árum, voru lífsgæði í Evrópu einna rýrust á Íslandi mæld í heilsufari, langlífi, kaupmætti og landsframleiðslu á mann. Nú á árinu 2016 eru lífsgæði einna mest á Íslandi á hvaða mælikvarða sem er. Án jarðvarma og fallvatnsorku væru lífskjör á Íslandi hins vegar lökust af öllum Norðurlöndunum og sennilega undir miðbiki lífskjara í Evrópu. Hér væri allt öðru vísi umhorfs en nú, og landið væri vart samkeppnishæft við umheiminn. Með orkunni skilur á milli feigs og ófeigs, hvorki meira né minna.
Til að lýsa raunverulegri stöðu efnahagskerfisins á Íslandi nú um stundir er hægt að tilfæra eftirfarandi úr forystugrein Morgunblaðsins,
"Bjart útlit", þann 25. apríl 2016:
"En jafnvel vinstri stjórn síðasta kjörtímabils, sem taldi sér rétt að nýta hið óvænta tækifæri til að koma öllum sínum pólitísku áhugamálum í framkvæmd á kostnað efnahagsbatans, tókst ekki að koma í veg fyrir, að efnahagslífið rétti sig við. Smám saman braggaðist efnahagurinn afar hægt, þegar stjórnvöld voru upptekin af eigin kreddum, en hraðar eftir að kjósendur höfðu rekið vinstristjórnina út úr stjórnarráðinu og kosið breytta stefnu.
Margar vísbendingar hafa komið um það á síðustu misserum, að efnahagur landsins hefur verið að færast í rétt horf. Atvinnuleysi er lítið og telst ekki lengur efnahagslegt vandamál, enda innflutningur á erlendu vinnuafli hafinn á nýjan leik. Verðbólga hefur verið lág, og hagvöxtur er kraftmikill, á sama tíma og og þjóðir Evrusvæðisins búa við skuldavanda og stöðnun.
Í riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem kom út í liðinni viku (v.16/2016 - innsk. BJo), má lesa, að hagur heimilanna hafi sjaldan verið betri en nú og að fjárhagsstaða fyrirtækja haldi áfram að batna. Kaupmáttaraukning var með allra mesta móti í fyrra, og í ár stefnir í svipaða þróun. Vísitala kaupmáttar hefur aldrei verið hærri en nú, sem leitt hefur til mikillar aukningar einkaneyzlu.
Skuldastaða heimilanna hefur lækkað mjög, og eru skuldirnar nú svipað hlutfall af ráðstöfunartekjum og þær voru um síðustu aldamót og eru svipaðar eða lægri en í mörgum löndum, sem við berum okkur helzt saman við."
Þetta er glæsilegur árangur í hagstjórn og vert að hafa í huga, að honum er auðvelt að glutra niður, ef eitruð blanda fákunnáttu um hagstjórn og ábyrgðarleysis stjórnlyndra frömuða gæluverkefna og tilraunastarfsemi jafnaðarmanna tæki við í Stjórnarráðinu eftir næstu kosningar, eins og gerðist hér eftir kosningarnar í apríl 2009.
Því má bæta við tilvitnunina hér að ofan, að atvinnuleysi er nú undir 3,0 % á Íslandi og minnkandi, en t.d. yfir 10 % á evrusvæðinu, og þar ríkir stöðnun, þrátt fyrir stanzlausa peningaprentun síðan fjármálakreppan hélt innreið sína fyrir 9 árum, sem gæti breytzt í glundroða vegna mikils útlánataps banka og vegna hlutabréfalækkunar og neikvæðra vaxta evrubankans í Frankfurt. Gríski harmleikurinn mun bráðlega verða tekinn til sýningar aftur, enda er ástandinu í Grikklandi nú lýst sem nýlenduástandi. Uppreisn gegn slíkri niðurlægingu getur brotizt út í Grikklandi hvenær sem er með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Kaupmáttur launafólks á Íslandi er nú í hæstu hæðum og jókst um 11 % á 12 mánaða skeiði til apríl 2016, sem er einsdæmi á Íslandi, og þó að víðar væri leitað. Þetta má þakka lágri verðbólgu, sem á sama tímabili hefur verið undir 2,0 % og um 1,0 %, ef húsnæðisliðnum væri sleppt úr neyzluverðsvísitölunni, eins og margar þjóðir gera.
Ein af ástæðum lágrar verðbólgu er, að ríkissjóður hefur verið rekinn með afgangi á þessu kjörtímabili og samtímis hafa beinir og óbeinir skattar verið lækkaðir, sem minnkað hefur þrýsting á launa- og vöruhækkanir. Nefna má lækkun efra þreps virðisaukaskatts úr 25,5 % í 24,0 %, afnám vörugjalda af öllu, nema jarðefnaeldsneyti og farartækjum knúnum því, og tollalækkanir á öðru en matvælum. Allt er þetta til mikilla hagsbóta fyrir almenning í landinu og styrkir samkeppnisstöðu landsins um fólk og fyrirtæki, enda flykkist fólk nú til landsins, bæði brottfluttir innfæddir og útlendingar í atvinnuleit, sem sumir ílendast og gerast íslenzkir ríkisborgarar. Enn fara þau fleiri innfæddir utan en út, flestir til Norðurlandanna í nám.
Allt þetta saman tekið sýnir svart á hvítu, að það er grundvallarmunur á gjörðum borgaralegrar ríkisstjórnar og vinstri stjórnar, en þessi glæsilega staða þjóðmála væri þó útilokuð án orkugjafanna í iðrum jarðar og í ánum og án núverandi nýtingar þeirra. Úrtöluraddirnar hefur þó ekki vantað við hvert eitt hænuskref. Hefði verið tekið mark á þeim, væri Ísland ekki hreint land og ríkt, heldur sótugt, reykmettað og fremur fátækt á evrópskan mælikvarða. Þeir, sem lagzt hafa gegn framförum, sem dregið hafa úr fátækt og lyft lífskjörum almúgans, hafa með réttu fengið stimpilinn "afturhaldsöfl". Með þá einhæfni atvinnugreina, sem stefna afturhaldsins býður upp á, væru kjör landsmanna mun lakari en raunin er nú, atvinnustigið lægra og færri landsmenn sæju sér fært að snúa heim að námi loknu. Fjölbreytni tryggir farsæld.
Eitt mesta sameiginlega hagsmunamál landsmanna nú og á næstu árum er að lækka skuldir alls staðar til að auka ráðstöfunarféð og til að efla mótstöðukraftinn, þegar núverandi hagvaxtarskeiði lýkur, því að allt gott tekur enda, eins og kunnugt er, og víða erlendis hefur mjög lítill hagvöxtur orðið frá hruni hins alþjóðlega fjármálakerfis árið 2008. Eignastaða heimilanna hefur ekki verið betri frá aldamótunum síðustu, Landsvirkjun hefur lækkað skuldir sínar um miakr 100 á um hálfum áratug, ríkissjóður lækkaði skuldir sínar um 10 % árið 2015 og mun lækka þær um 10 % í ár. Jafnvel sveitarfélög eru að lækka skuldir sínar með nokkrum undantekningum, og sker höfuðborgin sig úr fyrir afspyrnu lélega fjármálastjórnun síðan 2010, og er hraði skuldaaukningar borgarsjóðs nú um 13 miakr/ár þrátt fyrir skattheimtu í sögulegu hámarki. Þetta er engin tilviljun. Sukk vinstri manna með fjármuni annarra hefur aldrei riðið við einteyming og er innbyggt í hugmyndafræði þeirra. Það er félagshyggjuöflunum siðferðilega um megn að sýna ráðdeildarsemi, þegar umgengni við fé annarra á í hlut.
Hvað sem ólíkri ráðdeildarsemi líður, er þó eitt víst, að lífskjör á Íslandi væru ekki nema svipur hjá sjón, ef landið væri ekki rigningasamt og hálent eldfjallaland. Fyrir vikið er hér víða mikill jarðhiti og orkumikil fallvötn, sem landsmenn hafa borið gæfu til að hagnýta í miklum mæli með sjálfbærum og afturvirkum hætti og þannig sparað gríðarlegan gjaldeyri og aflað enn meiri gjaldeyris, svo að ekki sé nú minnzt á, að fyrir vikið er Ísland með hreinasta loft og vatn iðnvæddra ríkja, enda fer hér fram endurnýjanleg og mengunarlítil orkuvinnsla til nánast allrar húshitunar og rafmagnsnotkunar, sem vekur heimsathygli og gæti verið einsdæmi á jörðunni. Ísland nýtur nú þessarar ímyndar við sölu á afurðum og landkynningu fyrir ferðamenn.
Sem dæmi er aðeins rúmlega þriðjungur raforkuvinnslu Þjóðverja og rúmlega fjórðungur raforkuvinnslu Breta úr endurnýjanlegum orkulindum, en tæplega 100 % á Íslandi. Raforkuvinnsla Norðmanna er nánast öll, >95 %, í vatnsaflsvirkjunum, og þeir hita hús sín að mestu með rafmagni frá þeim, en raforkuverðið er þar sveiflukennt og fer eftir framboði og eftirspurn, svo að þeir grípa stundum til annarra úrræða við húshitun, t.d. gas- eða viðarkyndingar, sem þá veldur slæmu lofti í þéttbýli.
Það má gera ráð fyrir, að ein af ástæðum þess, að Ísland er nú vinsæll viðkomustaður erlendra ferðamanna, sé sú staðreynd, að landsmenn eru leiðandi á heimsvísu í nýtingu sjálfbærra orkulinda með þeim afleiðingum í umhverfislegu tilliti, að hér er skyggni betra en annars staðar á björtum degi og loft og vatn heilnæmara. Íslenzk jarðhitafyrirtæki á borð við OR hafa verið leiðandi í heiminum við að fanga koltvíildi og brennisteinsvetni og binda þessar gastegundir í berglögum neðanjarðar. Fer nú styrkur brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjunum ekki lengur yfir sett hættumörk.
Gjaldeyristekjur af ferðamönnum, yfir miakr 400 árið 2015, eru þess vegna að einhverju leyti svo háar sem raun ber vitni vegna orkunýtingarinnar, sem hvarvetna þykir til mikillar fyrirmyndar, og gjaldeyristekjur af stóriðjunni, um miakr 250 á sama ári, eru alfarið vegna orkuvinnslunnar, svo að sjálfbær orkunýting hefur gríðarlega jákvæð áhrif á tekjuhlið þjóðarbúsins.
Sjávarútvegurinn, hvers útflutningsverðmæti námu miakr 265 (miakr 151 upp úr sjó) árið 2015, nýtir enn þá svartolíu og dísilolíu til að knýja skipin, en orkubylting mun eiga sér stað í sjávarútveginum á næstu 35 árum, sem mun losa hann við jarðefnaeldsneytið. Þar hefur hins vegar átt sér stað stöðug jákvæð þróun í orkunýtni á síðustu 25 árum, og um þessar mundir vex hraði þeirrar þróunar með miklum fjárfestingum í fiskiskipum. Frá 1990-2013 minnkaði losun sjávarútvegs á koltvíildi um 181 kt eða 27 %, sem er samdráttur losunar um 7,9 kt/ár að jafnaði, og nægir þessi taktur til til að ná Parísarmarkmiðinu um 40 % minnkun losunar árið 2030 m.v. 1990 án nokkurra viðbótar ráðstafana. Kvótakerfið hefur knúið þessa jákvæðu þróun áfram með fækkun togara. Losun gróðurhússlofttegunda fiskiskipa hafði í árslok 2014 minnkað um 33 % frá 1990 og nam þá aðeins 10 % af heildarlosun landsmanna, en nam 18 % 1990. Íslenzkur sjávarútvegur er framúrskarandi atvinnuvegur á heimsvísu.
Sem dæmi um vel heppnaða aðferðarfræði má taka útgerðarfélagið Ramma. Fyrirtækið er að fá nýjan frystitogara, Sólberg ÓF, með 4640 kW aðalvél. Það leysir af hólmi tvö skip, hvort með 2000 kW aðalvél. Við þetta batnar orkunýtnin úr 5,1 MWh/t olíu í 11,1 MWh/t olíu á fullu álagi við veiðarnar, sem er ríflega tvöföldun. Á árabilinu 1998-2015 hefur orðið 53 % olíusparnaður við að sækja aflaheimildir Ramma eða 3,1 % á ári að jafnaði, og til (og með) ársins 2017 verður 67 % olíusparnaður, sem svarar til 3,5 % olíusparnaðar að meðaltali á ári. Það er sem sagt mjög góður og stígandi taktur í olíusparnaði útgerðarinnar samfara fjárfestingum hennar.
Í Fiskifréttum 28. apríl 2016 hafði Guðjón Einarsson þetta eftir Ólafi H. Marteinssyni, framkvæmdastjóra Ramma hf.:
"Það eru ekki tæknibreytingar, sem hafa gert þetta að verkum, heldur kvótakerfið, merkilegasta framlag Íslendinga til umhverfismála. Árið 2017, þegar nýja skipið hefur verið tekið í notkun, stefnum við að því að nota 5 milljónir lítra til að veiða sömu aflaheimildir og fyrr" (15 Ml árið 1998 - innsk. BJo).
Orkusparnaður um 2/3 á hvert veitt tonn á stóran þátt í að breyta taprekstri útgerða sveitarfélaga, ríkisins og annarra frá því um 1980 í arðsaman rekstur einkafyrirtækja, almenningshlutafélaga í sumum tilvikum, á 21. öldinni.
Á næstu þremur áratugum munu útgerðarmenn, vinnuvélaeigendur og bíleigendur fjárfesta í nýrri tækni, sem leysa mun jarðefnaeldsneyti alfarið af hólmi. Að mestu leyti verður um að ræða rafala, rafhreyfla og ýmsa orkugjafa til vinnslu rafmagns, t.d. í þóríum-kjarnakljúfum og efnarafölum (fuel cells), en einnig sprengihreyfla, sem brenna tilbúnu innlendu eldsneyti úr koltvíildi og vetni, t.d. metanóli. Þar með losna útgerðirnar við fjárhagslegan bagga koltvíildisskatts og óvissu vegna verðsveiflna á alþjóðlegum olíumarkaði, og þjóðhagsleg hagkvæmni útgerðanna vex enn, þar sem erlendur tilkostnaður á hvert kg afla snarminnkar.
Langmesti orkukostnaður íslenzkra heimila er vegna fjölskyldubílsins eða bílanna. Ef reiknað er með, að meðalfjölskyldan aki um 20´000 km/ár og að meðaleldsneytisnotkunin sé lág, 0,07 l/km, hjá fjölskyldum landsins, þá notar "meðalfjölskyldan" 1400 l/ár, sem kosta nú um 280´000 kr/ár.
Sömu fjölskyldu gefst nú kostur á að kaupa tengiltvinnbíl, þegar hún hyggur á bílakaup. Raforkunotkun meðalbíls af þeirri gerð er undir 0,26 kWh/km í rafhami við íslenzkar aðstæður mælt inn á hleðslutæki bílrafgeymanna. Sé bílnum ekið 15´000 km/ár á rafmagni, notar hann 3900 kWh/ár af raforku, sem kosta um 55´000 kr. Áætla má, að slíkur bíll noti undir 0,05 l/km af eldsneyti þá 5000 km/ár, sem jarðefnaeldsneyti knýr hann, aðallega á langkeyrslu. Kostnaður þessara 250 l/ár nemur um 50´000 kr/ár. Þá nemur heildarorkukostnaður þessa tengiltvinnbíls 105´000 kr/ár, sem er tæplega 38 % af orkukostnaði hefðbundins eldsneytisbíls m.v. jarðolíuverðið 50 USD/tunnu, sem er lágt til lengri tíma litið.
Þar með er orkukostnaður fararskjóta þessarar fjölskyldu orðinn um 70 % af orkukostnaði íbúðarinnar hennar, og hún nær að draga úr heildarorkukostnaði sínum um rúmlega 40 % með því að nýta að mestu innlendar orkulindir. Þessi sparnaður verður að sjálfsögðu enn meiri með hreinum rafmagnsbíl.
Upphitunarkostnaður blekbónda á 193 m2 húsnæði nemur 120 kkr/ár með sköttum. Í alþjóðlegu samhengi er staðan þannig, að meðalverð á orku til húshitunar frá hitaveitu án skatta er 6,5 cEUR/kWh, en á Íslandi 2,0 cEUR/kWh, og er hlutfallið um 3,3. Meðalupphitunarkostnaður án skatta á íbúð hérlendis með jarðvarma gæti hugsanlega numið 70 kkr/ár, en ef þyrfti að hita sama húsnæði upp með olíu, mundi sá kostnaður nema um 1,0 Mkr/ár eða 14 földum kostnaðinum frá íslenzkri hitaveitu að jafnaði.
Ráðstöfunartekjur á hverja fjölskyldu hérlendis án hefðbundnu innlendu orkugjafanna mundu vera allt að 30 % minni en raunin er nú, sem mundi gjörbreyta lífskjörum hérlendis til hins verra.
Andvirði eldsneytisinnflutnings árið 2015 nam um 83 miakr FOB. Eldsneytiskostnaður þjóðfélagsins væri tvöfaldur að öðru óbreyttu, ef ekki nyti við innlendra orkugjafa til upphitunar húsnæðis, og innflutningskostnaður vöru 2015 hefði þá numið 730 miakr FOB, eða 12 % hærri upphæð en raunin varð.
Óskuldsettur gjaldeyrisforði Seðlabankans er um þessar mundir um 400 miakr, en alls óvíst er, hver hann væri án endurnýjanlegra orkulinda landsins. Hér gæti verið viðvarandi fjárhagslegur óstöðugleiki og lakari lífskjör en að meðaltali í Evrópu, en nú eru þau á meðal hinna beztu.
Það er ekki einvörðungu, að framfærslukostnaðurinn væri miklu hærri án innlendu orkulindanna, heldur væru gjaldeyristekjurnar jafnvel 40 % lægri og þjóðartekjur og tekjur launþega að sama skapi lægri.
Eftir öllum sólarmerkjum að dæma væri kaupmáttur almennings án innlendu orkulindanna, jarðhita og fallvatna, aðeins helmingur af núverandi kaupmætti, og landsframleiðsla á mann næmi ekki kUSD 55, eins og nú, heldur í hæsta lagi kUSD 35.
Nú mun einhver segja, að hvað sem jarðhita og vatnsafli líður, hefðum við þó vindinn, og mundum vafalaust hafa nýtt hann í miklum mæli. Það er rétt, en vindorkan hefði ekki laðað hingað erlenda fjárfesta, og raforkuverð á Íslandi væri a.m.k. 5-falt dýrara en það er nú, ef aðeins nyti við endurnýjanlegrar orku frá vindmyllum. Hlutfall orkukaupa (án bíls) til heimilis í 100 m2 húsnæði af meðallaunum einstaklings er í Evrópu utan Íslands 8,3 %, og er þetta hlutfall á Íslandi aðeins 1/6 af 8,3 % eða 1,4 %. Án jarðhita og vatnsafls á Íslandi væri þetta hlutfall á meðal hins hæsta í Evrópu vegna legu landsins.
Af því, sem hér hefur verið tínt til, er ljóst, að jarðhitanýting og virkjun vatnsfalla eru meginskýring þess, að Íslendingum tókst á 20. öldinni að sækja fram úr örbirgð til tiltölulega ágætra lífskjara og mun takast að ná einum beztu lífskjörum í Evrópu fyrir miðja 21. öldina, ef fram heldur sem horfir.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Lífstíll, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Tókst ekki að koma í veg fyrir..." efnahagsbata. Sem sagt; ríkissjórnin, sem tók við efnahagslífinu í rústum, ætlaði sér samkvæmt þessum ummælum að rústa því enn frekar, "en tókst ekki..."
Ómar Ragnarsson, 17.6.2016 kl. 17:56
Sæll, Ómar;
Það er rangt hjá þér, að "hin tæra vinstri stjórn" hafi tekið "við efnahagslífinu í rústum", því að grunnatvinnuvegirnir gengu sinn vanagang og öfluðu jafnvel aukins gjaldeyris vegna bættrar samkeppnisstöðu á útflutningsmörkuðum, þrátt fyrir gjaldþrot gömlu bankanna. Með Neyðarlögum Alþingis í október 2008 voru ennfremur lögð drögin að endurreisn bankakerfisins. Með frumvarpi til Neyðarlaganna var vandað til verka, enda var það upprunnið í Seðlabankanum, þar sem menn höfðu séð ástæðu til viðbúnaðar með því að hafa drög tiltæk, ef allt færi á versta veg, eins og formaður bankastjórnar Seðlabankans hafði ítrekað varað stjórnvöld við, en þáverandi bankamálaráðherra lét þau alvarlegu varnaðarorð sem vind um eyrun þjóta.
Það, sem átt er við með tilvitnuðum orðum í forystugrein Morgunblaðsins í þessari vefgrein, er, að jafnvel kjánaleg efnahagsstjórn vinstri stjórnarinnar við aðstæður, sem uppi voru á valdatíma hennar, sem gerðu ekkert annað en hægja á efnahagsbatanum og þar með að lengja kreppuna, náðu þó ekki að stöðva óhjákvæmilegan efnahagsbata eftir mikinn samdrátt 2009-2010.
Bjarni Jónsson, 18.6.2016 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.