1.7.2016 | 16:41
Gæðastjórnun íslenzks fiskeldis
Eins og Smári Geirsson skilmerkilega rekur í nýlega útgefinni bók sinni um þróun hvalveiða við Ísland, var hvalverkunin í raun fyrsti vélvæddi reksturinn á Íslandi og kom á undan vélbátaútgerð landsmanna. Að hvalveiðunum stóðu aðallega Norðmenn, en einnig Bandaríkjamenn. Blómaskeið hvalveiðanna við Ísland var á síðari hluta 19. aldarinnar á Vestfjörðum og Austfjörðum, og segja má, að Íslendingar hafi fyrst komizt í tæri við iðnvæðinguna og þénað umtalsverða peninga á hvalvertíðum. Bók Smára varpar ljósi á þennan upphafsþátt iðnsögu Íslendinga, ef Innréttingar Skúla, fógeta, Magnússonar, í Reykjavík um miðja 18. öldina eru undan skildar.
Á 21. öldinni endurtekur sagan sig að breyttu breytanda. Bandaríkjamenn eiga nú tvö af þremur stærstu stóriðjuverunum, Norðurál á Grundartanga og Fjarðaál á Reyðarfirði, og nú vex fiskeldi mjög fiskur um hrygg undir handarjaðri Norðmanna, aðallega á Vestfjörðum, en þó einnig á Austfjörðum.
Norðmenn framleiða og markaðssetja sennilega mest allra þjóða af eldislaxi, og nemur árleg framleiðsla þeirra um 1,3 Mt (milljón tonnum). Árið 2016 er á Íslandi áformað að slátra rúmlega 15 kt (k=þúsund) af eldisfiski, þar af 8,0 kt af laxi og um 7,0 kt af bleikju. Árið 2025 gæti heildarframleiðsla fisks í sjókvíaeldi hafa þrefaldazt hérlendis, og eldi í kerum á landi hafa hafizt fyrir alvöru, svo að heildarframleiðsla eldisfisks verði þá yfir 50 kt/ár. Andvirði þessarar framleiðslu gæti þá numið yfir 60 miaISK/ár, sem er tæplega fjórðungur af núverandi afurðaandvirði sjávarútvegsins. Engu að síður mun framleiðsla eldisfisks þá hérlendis nema innan við 4 % af framleiðslunni í norskum fjörðum 2025, ef að líkum lætur. Þessi nýja framleiðslugrein á Íslandi mun skipta verulegu máli fyrir byggðaþróun, gjaldeyrisöflun og þjóðarbúskap hérlendis, en verða alla tíð smár í sniðum á alþjóðlegan mælikvarða.
Sjókvíaeldi við Ísland eru mjög þröngar skorður settar vegna þess, að notazt er við erlenda fiskstofna, sem menn vilja ekki, að gangi upp í íslenzkar ár og blandist þar íslenzka stofninum. Nýlegar fréttir af regnbogasilungi í Berufirði minntu á þetta, og kvittur um, að eldisfiskur hafi líka sloppið nýlega úr eldiskví fyrir vestan vekur athygli á, að hættan á blöndun við íslenzka laxastofna er fyrir hendi, þó að áhættugreining leiði í ljós, að hún sé svo lítil, að hægt sé að búa við hana.
Í því augnamiði að lágmarka áhættuna á blöndun stofna með raunhæfum hætti var sett reglugerð árið 2004, þar sem sjóeldi laxfiska á nánast öllum svæðum, sem liggja að vatnasviði villtra laxfiska, var bannað. Þannig er einvörðungu heimilt að stunda sjókvíaeldi laxfiska á Vestfjörðum á milli Látrabjargs og Geirólfsgnúps og við Norð-Austurland á milli Hraunhafnartanga og Glettinganess auk Eyjafjarðar og Axarfjarðar. Við Suðurland eru aðstæður til sjókvíaeldis ekki fyrir hendi, en eldi í landkerum er þar og víðar mögulegt með því að hita sjó með hitaveituvatni. Er landkeraeldið nýjasta dæmið um samkeppnisforskotið gagnvart útlöndum, sem jarðhiti og nægt vatn veita Íslendingum.
Sjókvíaeldi hefur átt undir högg að sækja hérlendis m.a. vegna meintra hagsmunaárekstra við veiðiréttareigendur í ám í grennd. Með áður nefndum svæðistakmörkunum og ströngum gæðakröfum yfirvalda til búnaðar og stjórnkerfa starfs- og rekstrarleyfishafa er þó vel fyrir aðskilnaði laxastofnanna séð. Hefur því m.a. verið haldið fram, að laxeldið útheimti ótæpilega lyfjagjöf og að því fylgi mengun fjarðanna, eins og þekkt er frá slíku eldi í hlýrri sjó. Hér við land eru þó hvorki við lýði sýklalyf né lúsaeyðir í laxeldinu, og regluverk og eftirlit með starfseminni er tiltölulega strangt. Til að draga úr staðbundinni mengun er áformað að hvíla eldissvæði í eitt ár í senn hérlendis. Virðist fagmennsku nú gætt í hvívetna í fiskeldinu hérlendis.
Í Fiskifréttum, 19. maí 2016, er viðtal við Höskuld Steinarsson, framkvæmdastjóra Landssambands fiskeldisstöðva:
"Íslendingar hafa auk þess innleitt stranga, norska staðla um búnað við sjókvíaeldi. Það var gert á síðasta ári (2015-innsk. BJo). Norðmenn innleiddu þessa staðla hjá sér árið 2006, og þeir komu til fullra framkvæmda 2008. Síðan þá hafa tölur um sleppingar á löxum úr sjókvíum í Noregi hríðlækkað. (Fróðlegt væri að fá upplýst, hver þessi tala er núna í Noregi sem hlutfall af árlegum fjölda nýrra seiða í sjókvíum, því að búast má við svipuðu hlutfalli hérlendis - innsk. BJo.)
Ég tel það vera góðs vita, að Íslendingar skuli hafa innleitt þessar ströngu reglur hjá sér svona snemma í laxeldisbylgjunni. Við getum því bæði státað af ströngu eftirliti og góðum búnaði, sem minnkar hættu á, að laxar sleppi úr kvíum. Ef slysin gerast, þá eru engar sjókvíar nálægt helztu svæðum villtra laxa. Við höfum því tvöfalt öryggi."
Það er ánægjulegt, að nánu samstarfi skuli hafa verið komið á á milli Íslendinga og Norðmanna um mikla uppbyggingu útflutningsatvinnuvegar á Vestfjörðum, þar sem ládeyða var fyrir í atvinnulífinu. Þar liggja, eins og á 19. öldinni og kom fram hér að ofan, gagnkvæmir hagsmunir til grundvallar.
Norðmenn hafa nú nýtt megnið af sínum eyrnamerktu svæðum til kvíaeldis við strendur landsins og framleiða þar 1,3 Mt/ár af laxi, en á Íslandi slítur þessi grein nú barnsskónum, ef frá er talin tilraunastarfsemi af vanefnum á síðari hluta 20. aldar. Þrengsli fyrir kvíaeldi við Noregsstrendur hefur leitt til meiri sjúkdóma í stofninum en vænta má hér, þar sem þéttleikinn verður minni og hvíla á hvert svæði í 1 ár af 3. Fyrirsjáanleg framleiðslugeta við Ísland verður m.a. þess vegna innan við 100 kt/ár eða um 7 % af norskri framleiðslugetu, en Íslendingar geta aukið framleiðsluna mikið með keraeldi á landi með notkun jarðhita til upphitunar á söltu vatni, sem er óhagkvæm í Noregi. Með þessu móti má ætla, að útflutningsverðmæti kvía- og keraeldis hérlendis muni geta slagað upp í núverandi útflutningsverðmæti íslenzks sjávarútvegs, svo að það er ekkert smáræði, sem hangir á spýtunni.
Þessi þrengsli í norskum fjörðum hafa leitt til þess, að leyfisgjald yfirvalda nemur nú allt að 0,19 MISK/t, og verð á framsalsmarkaði þessara starfs- og rekstrarleyfa er tífalt hærra.
Á Íslandi nemur leyfisgjald til fiskeldisstöðva að meðtöldu iðgjaldi ábyrgðartryggingar innan við 2 % af norska gjaldinu, og hér er líka frjálst framsal starfs- og rekstrarleyfa, og markaðsverðið aðeins brot af því norska. Hér er óeðlilega mikið misræmi á ferð á milli nágrannalanda.
Það blasir við, að rentusækni ríkir í sjókvíaeldi bæði í Noregi og á Íslandi. Hún stafar af því, að yfirvöld úthluta hæfum umsækjendum starfs- og rekstrarleyfum fyrir starfsemi á takmörkuðu svæði, sem annar ekki eftirspurn í Noregi, og mun bráðlega heldur ekki anna eftirspurn á Íslandi. Á þessum leyfisveitingamarkaði ríkir ekki frjáls samkeppni, og verðlagið á Íslandi er miklu lægra en í Noregi og nánast örugglega langt undir markaðsverði. Vegna miklu lægri gjaldtöku yfirvalda á Íslandi en í Noregi verður mun meiri rentusækni á sviði sjókvíaeldis á Íslandi.
Það má ekki láta við svo búið standa, heldur verður að eyða þessari rentusækni með því að skapa markaðsverð á leyfisveitingunum. Það er t.d. hægt með því að skipta óúthlutuðum svæðum upp í mismunandi hólf með afkastagetu 100-1000 t/ár, semja útboðslýsingu, þar sem m.a. verði kveðið á um hvíld svæða, gæði búnaðar, gæðastaðla, sem fylgja á í rekstrinum, lágmarkstryggingar, eignarréttindi og framsalsskilyrði.
Það er eðlilegt, að afrakstur þessarar gjaldtöku skiptist á milli viðkomandi sveitarfélaga og ríkisstofnana, sem hlut eiga að máli. Þessi kerfisbreyting þarfnast lagasetningar, og ættu þingmenn Norðurkjördæmanna tveggja að hafa frumkvæði að þessu, enda er hér um stórfellt hagsmunamál viðkomandi byggðarlaga og landsins alls að ræða, og ekki er eftir neinu að bíða. Stöðva þarf allar frekari starfs- og rekstrarleyfisveitingar, þar til ný lagasetning í þessa veru hefur tekið gildi , því að þungi rentusækninnar er mikill.
Markaðsverð fyrir leyfi til sjókvíaeldis í íslenzkum fjörðum gæti slagað upp í það, sem er við Norður-Noreg eða 160 kISK/t. Markaðsverðmæti óúthlutaðra leyfa gæti þá numið 12 miaISK (mia=milljarður), og gæti fjármagnað nauðsynlegar fjárfestingar sveitarfélaganna vegna fiskeldisins og rekstrarkostnað ríkisstofnana vegna m.a. eftirlits með því í 10 ár.
Fyrirtæki, sem fyrir eru í sjókvíaeldi á Íslandi, hafa sín ótímabundnu starfs- og rekstrarleyfi og verða að njóta þess að hafa lagt grunn að að atvinnustarfsemi, sem reist er á faglegum vinnubrögðum og mikilli þekkingu á starfseminni. Hennar hefur aðallega verið aflað í Noregi, og Norðmenn hafa í vaxandi mæli fjármagnað hana. Það ríður mikið á fyrir orðstýr þessarar starfsemi og lífríkið í íslenzkum ám að halda fjölda laxfiska, sem sleppa úr eldiskvíum, í algjöru lágmarki. Ef árlegur slátrunarmassi kemst í 100 kt, þá jafngildir það árlega 25 milljónum nýrra seiða út í kvíarnar. Árlega ganga um 70 þúsund villtir laxar upp í íslenzkar ár eða 0,3 % af þessum seiðafjölda. Það er líffræðilegt viðfangsefni að finna og fastsetja efri mörk seiðafjöldans, sem sleppur, án þess að valda merkjanlegum erfðabreytingum á Íslenzka stofninum. Ef þessi mörk eru t.d. 0,1 % af fjölda göngulaxa, þá má meðalfjöldi seiða, sem sleppa á ári, ekki fara yfir 3 ppm. Í útboðslýsingu leyfanna skal kveða á um sektir í ríkissjóð, ef fleiri seyði sleppa en talið er nánast skaðlaust fyrir íslenzka stofna.
Til að lágmarka líkur á, að seiði sleppi, og til að tryggja, að gæði framleiðslunnar verði, eins og viðskiptavinum er lofað, hafa fiskeldisfyrirtæki komið sér upp alþjóðlega vottuðum gæðastjórnunarkerfum. Í fyrrnefndum Fiskifréttum er eftirfarandi frétt:
"Fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish hefur hlotið eftirsótta alþjóðlega umhverfisvottun, Aquaculture Stewardship Council (ASC), fyrst íslenzkra fyrirtækja að því, er fram kemur í frétt frá Arctic Fish."
"Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri Arctic Fish, segir umhverfisaðstæður á Vestfjörðum með hreinan sjó, lágt hitastig og lítinn þéttleika í kvíum hindra viðgang sjúkdóma, og því sé engin lyfjanotkun í eldi félagsins ólíkt því, sem gerist í hlýrri sjó."
"Vottun ASC er staðfesting á þeim árangri, sem við höfum náð, og vottunin mun án efa hjálpa okkur í frekari sókn á erlendum mörkuðum, þar sem kröfuharðir neytendur með mikla umhverfisvitund líta til afurða á borð við þær, sem við framleiðum. Sá markhópur fer sífellt stækkandi, og hann er tilbúinn til að greiða hærra verð fyrir vottaðar afurðir", segir Sigurður.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Matur og drykkur, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.