Nýr bóndi að Bessastöðum 2016

Hvernig við verjum atkvæði okkar í forsetakosningum, getur jafnvel orðið afdrifaríkara en listavalið í Alþingiskosningum, því að á Bessastöðum er bara einn öryggisloki samkvæmt Stjórnarskrá, en á listum er fjöldi manns.  Að verja atkvæði sínu að óathuguðu máli samkvæmt einhvers konar tilfinningalegum áhrifum af silkimjúku hjali hönnuðu hjá almannatenglum er óábyrgt.  Það á ekki sízt við um forsetakosningar. 

Við eigum ekki að kjósa reynslulausan mann í stjórnunarlegum efnum í embætti forseta Íslands.  Í tilviki Guðna Th. Jóhannessonar getur slíkt jafnvel reynzt háskalegt, því að dómgreind hans á atburði líðandi stundar virðist ekki vera upp á marga fiska, þegar fyrri ummæli hans í ræðu og riti er skoðuð. 

Þá hefur hann verið svo ístöðulaus, að hann hefur alla kosningabaráttuna verið á harðahlaupum frá þessu fyrra skjalfesta mati sínu, hvort sem um er að ræða atburði í fortíð eða nútíð, t.d. landhelgisdeilurnar, Evrópusambandsaðild Íslands, Neyðarlögin um fjármálakerfið og Icesave, svo að nokkuð sé nefnt úr blómagarði Guðna, sem sumir mundu þó fremur vilja kenna við illgresi. Sýnin er alls staðar brengluð, þar sem hvergi vottar fyrir hlutlægri greiningu á grundvelli fullveldisréttar Íslands.  Það er eins og forneskjulegt nýlenduhugarfar gegnsýri alla afstöðu sagnfræðingsins til manna og málefna.  Það er mjög líklegt, að honum hugnist ekki "Brexit", sem brezka þjóðin ákvað í gær, 23. júní 2016, af því að nánast öll samfelld "elítan", hin ráðandi öfl heimsins, ráku hamslausan hræðsluáróður gegn úrsögn Breta úr Evrópusambandinu, ESB.  ESB hafð þegar steytt á skeri, og brezkur almenningur skynjaði, að aðild Bretlands var orðin landinu baggi og að ESB hefur í raun gengið sér til húðar.  Þvættingur um nauðsyn ESB til varðveizlu friðar í Evrópu er grátlega heimskulegur.  Hver heldur í raun og veru, að Bretar muni nú einangrast viðskiptalega í Evrópu og fara að láta ófriðlega !? 

Nú háttar þannig til, að okkur kjósendum er veittur sá valkostur að velja mann í embætti forseta Íslands, sem hefur alla tíð haft skoðanir á öllum ofangreindum íslenzku málefnum, sem eru á öndverðum meiði við fyrri skoðanir Guðna, og um þennan mann, Davíð Oddsson, ríkir alls engin óvissa.  Enginn þarf að fara í grafgötur um, að hann eða hún er að velja heilsteyptan baráttumann, með skarpa og óbrenglaða dómgreind, fyrir hagsmunum Íslands í hvívetna með því að kjósa Davíð til embættis forseta Íslands. 

Hið sama verður með engu móti sagt um Guðna Th. Jóhannesson, eins og hér og víðar hefur komið fram.  Sitji kjósandinn uppi með eitthvað eftir kosningabaráttu hans, er það óvissa; óvissa um viðsjárverðan persónuleika, sem virðist háll sem áll og ómögulegt að henda reiður á.  Slíkum manni er alls ekki treystandi fyrir æðsta embætti lýðveldisins. Forsetaframbjóðandi verður að vera hreinn og beinn og þora að kannast við verk sín, eigi að vera unnt að treysta honum. Forseti þarf að vera fastur fyrir, og Guðni hefur ekki sýnt það í þessari kosningabaráttu, heldur þvert á móti. Ístöðuleysið skín í gegnum fagurgalann. 

Sagt er, að slíkt ístöðuleysi á Bessastöðum muni ekkert gera til, því að sá ístöðulausi hafi lofað að vísa deilumálum til þjóðarinnar.  Þarna liggur þó einmitt vafinn og hundurinn grafinn.  Hvernig er hægt að treysta því, að ístöðulaus forseti láti ekki undan miklum þrýstingi, eins og dr Ólafur hefur lýst opinberlega, að hann var beittur af innlendum og erlendum valdaöflum varðandi staðfestingu viðurhlutamikilla laga frá Alþingi.  Vindhani snýst aðeins eftir vindátt næst honum, en ekki samkvæmt vindátt utan lóðarmarka. Það skulum við kjósendur hafa í huga, þegar við göngum að kjörborðinu laugardaginn 25. júní 2016, því að hvesst getur á toppinum.

Sagt er, að hluti af valdi forseta sé áhrifavald.  Hér skal fullyrða, að vindhani hefur ekkert áhrifavald á vindstefnuna, hvort sem sá vindur blæs úr Alþingishúsinu, frá Brüssel, London, Berlín, Washington eða Moskvu, ef svo má að orði komast

Það er hins vegar vitað, að það er hlustað á Davíð Oddsson, hvar sem hann kemur, og ekki síður á erlendri grundu en innlendri. Um það vitnar ferill hans allur, og hvers vegna ekki að taka tillit til þess við þá ráðningu, sem hér fer fram til embættis ? 

Davíð Oddsson mun þó örugglega ekki dvelja langdvölum erlendis, enda engin þörf á langdvöl til að tala máli Íslands augliti til auglitis við erlenda ráðamenn.  Til slíks þarf ekki marga daga, hvað þá margar vikur á ári, og margar aðrar og ódýrari leiðir eru til árangursríkra samskipta. 

Davíð Oddsson mun ekki verða skattborgurum dýr á fóðrum á Bessastöðum, taki hann þar við búsforráðum, og hann mun ekki fara fram úr fjárheimildum sínum.  Kostnaður við forsetaembættið mun stórlækka frá því, sem verið hefur um langa hríð, en afrakstur þjóðarinnar sennilega stórhækka, því að peningunum verður varið með skilvirkum hætti og mest hér innanlands, ef marka má orð Davíðs sjálfs, og það hefur hingað til mátt.  Það er skoðun blekbónda þess, er hér ritstýrir, að skattborgarar muni fá mest fyrir peningana sína með Davíð Oddsson sem forseta, allra þeirra níu, er nú bjóða sig fram til þjónustu á Bessastöðum.  Fái hann tækifæri til, mun hann áreiðanlega setja litríkan, farsælan og skemmtilegan svip á þetta annars nokkuð formfasta og hátíðlega æðsta embætti lýðveldisins. 

Verst er, að heimiliskötturinn Franz þyrfti þá að skipta um umhverfi. Kettir eru íhaldssamir, en af lýsingum að dæma er þessu húsdýri margt til lista lagt, og sem fyrrverandi villiketti ætti honum ekki að verða skotaskuld úr búsetu á Bessastöðum, ef því er að skipta.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

þessi tími kemur ekki aftur! Tími sem er fullur af vandamâlum sem þjóðin hefur ekki staðið frammi fyrir áður. Með vísan til þeirra sem öllum er ljóst hver eru,eigum við kost á hæfasta manninum til að gegna starfi forseta Íslands. Hann kemur heill úr þeim mestu pólitísku árásum sem nokkurn tíma hafa dunið á einum manni.Það sýnir okkur og sannfærir að í honum býr afl og þor,til að takast à við þau ótal vandamál sem þjóðin stendur nú frammi fyrir.   Er á seinusta afli Ipadsqins og ákveð með baràtttuhug.

Helga Kristjánsdóttir, 25.6.2016 kl. 01:28

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já þarna voru 4% eftir á Ipadinum og ég með apparatið á eldhúsborðinu,ég hafði misst af öllu fúttinu um kvöldið.En tíminn nýttist í svefn og tæknin bætir mér upp fréttirnar af því sem brennur heitast á kosningadaginn. "Þannig nýtist tíminn"en týnist ef þú færð eftirsjá og átt ekki kost á að taka hann upp. Þetta er það sem ég vildi segja,um leið og ég ætlaði að kveðja þig góði Bjarni og þakka þér fyrir greinarnar þínar. 

Helga Kristjánsdóttir, 25.6.2016 kl. 03:06

3 identicon

var á leiðinni upp í Hagaskóla til að kjósa á hjólinu þegar að móðir mín hringdi og spurði hvort ég væri búinn að kjósa. Sagði henni að ég væri á leiðinni. Æji geturðu ekki sótt mig. Ég svaraði að bragði. Ef þú kýst Davíð. Auðvitað, annað væri það nú, það D fyrir Drottinn. 

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.6.2016 kl. 09:50

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Miklir atburðir eru nú í vændum í Evrópu eftir þá ákvörðun meirihluta kjósenda á Bretlandi á fimmtudaginn að gefa ríkisstjórninni fyrirmæli, sem munu leiða til lýðræðisvakningar í Evrópu.  Þetta gerðu þeir, þrátt fyrir að ríkjandi öfl á Bretlandi, á meginlandi Evrópu, í BNA og víðar, þyrluðu upp gríðarlegu áróðursmoldviðri gegn úrsögn.  Við heyrum bábiljurnar enn hafðar uppi, og Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, er ekki beint kurteis í garð Breta nú.  Við sjáum nú nýja og betri tíma renna upp fyrir Evrópu án miðstjórnar, með greiðum viðskiptum og stjórnun hvers ríkis á innflæði fólks af erlendum uppruna. 

Við þessar aðstæður þarf þekkingu og reynslu af heimsmálunum, en umfram allt heilbrigða dómgreind og einbeittan vilja til að verja hagsmuni Íslands í hvívetna og varðveita fullveldið.  Kjósendur eiga nú kost á að kjósa einn, sem skarar fram úr á öllum þessum sviðum, og hann er nefndur hér að ofan.

Bjarni Jónsson, 25.6.2016 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband