Evrópusamband í uppnámi

Af hegðun og talsmáta valdsmanna Evrópusambandsins (ESB) má ráða, að þeir upplifi ESB sem viðkvæma skútu í ólgusjó og að velferð Evrópu (vestan Rússlands) velti á því, að þessi skúta komist klakklaust í höfn.  Þetta er rangt mat hjá ráðamönnum ESB. Það gerir Evrópu ekkert til, þótt hið ólýðræðislega skrifræðisbákn í búranna í Brüssel líði undir lok í sinni núverandi mynd.  Þúsundir embættismanna munu þá hins vegar missa vænan spón úr aski sínum við slíka þróun mála, en þeir eru afætur, sem þungar eru á fóðrum fyrir minnkandi hlöður ESB-landanna. 

Bretar hafa fyrir löngu áttað sig á, að þeir eiga ekki samleið með ESB, enda eru þeir á 2. farrými síðan evran var sett á laggirnar um aldamótin á grundvelli Maastricht-sáttmálans og EMU-myntsamstarfsins, sem Bretland hrökklaðist úr.  Þessi gjörningur, að setja hina sameiginlegu mynt á koppinn, var stjórnmálalegs eðlis, dulbúinn sem viðskiptaleg hagræðing.  Evran er líkið í lestinni í ESB-skútunni, sem virkar sundrandi fremur en sameinandi.  Að þvinga Þýzkaland til að gefa sitt þýzka mark (DEM) upp á bátinn í skiptum fyrir að samþykkja endursameiningu landsins 1990 var versti afleikur Frakklands í Evrópu eftir Seinni heimsstyrjöld í og hefur þegar gert Frakka að minnipokamönnum gagnvart Þjóðverjum.  Þegar ráðamenn Bandaríkjamanna þurfa að ná í ráðamenn Evrópu, þá hringja þeir til Berlínar við Spree.   

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Bretlandi 23. júní 2016 komu þessum blekbónda ekki á óvart, enda fékk UKIP-Sjálfstæðisflokkur Sameinaða konungdæmisins tæp 28 % atkvæða í kosningum til Evrópuþingsins 2014, um helmingur Íhaldsmanna er andsnúinn veru Bretlands í ESB og bætast þar við tæplega 20 %, og Verkamannaflokkurinn er alls ekki heill í stuðningi sínum við aðild Breta, enda erfitt að sjá gagnsemi ESB fyrir þá, sem Corbyn & Co segjast helzt bera fyrir brjósti.  Niðurstaðan var klár meirihluti kjósenda, tæplega 52 % eða um 1,3 milljónir manna, með útgöngu Bretlands.  Söguleg úrslit. 

Málpípur ESB hafa leyft sér þá dæmalausu alhæfingu, að Brexit-sinnar séu um illa upplýst fólk, sem samfélagslega nauðsynlegt sé að hafa vit fyrir, og þess vegna skuli virða úrslitin að vettugi, jafnvel semja að nýju og kjósa aftur.  Þarna lýsa aðdáendur ESB frati á megininntak lýðræðishugtaksins, og fyrirlitning á fólki skín þarna í gegn.  Háskólakennarar á Íslandi hafa jafnvel gert sig seka um þessa þjónkun við "elítu" Evrópu, og er það ekki í fyrsta skipti. Er illskiljanlegt, að hérlandsmenn skuli hafa tekið trú á ríkjasamband og ríghaldi í hana, þó að það sé nú komið að fótum fram, eins og hér verður rakið.

Með myndun ríkisstjórnar Theresu May í kjölfar afsagnar Davids Camerons eftir ósigur hans er þó tekinn af allur vafi um, að ríkisstjórn Bretlands mun virða vilja meirihluta kjósenda, og þingið mun vafalaust leggja blessun sína yfir úrslitin líka.  Theresa May fjarlægði m.a. þá George Osborne, valdamesta ráðherra Cameron-stjórnarinnar, að forsætisráðherranum undanskildum, og Michael Gove, sem óvænt bauð sig fram til formennsku Íhaldsflokksins, en skipaði Boris Johnson utanríkisráðherra.  Er hroðalegt að heyra, hversu illa honum er tekið í Berlín og París.  Bretar standa nú með pálmann í höndunum, gengi punds hefur lækkað svo mikið, að vörur þeirra verða ódýrari en áður í ESB-löndunum, þótt á þær verði lagður hefðbundinn tollur, og þeir geta óheftir snúið viðskiptum sínum annað, t.d. til Bandaríkjanna, eins og Boris hefur boðað. 

Úrslitin í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu eru einkar athygliverð fyrir þann hamslausa hræðsluáróður, sem rekinn var frá  Brüssel, City of London, Downingstræti 10, AGS og víðar, "all the usual suspects", gamalkunnir tónar í eyrum Íslendinga frá 2009-2011.  Hið merkilega er, að almenningur er orðinn svo vel upplýstur, að hann lætur ekki þessa fjármálakóna draga sig lengur á asnaeyrunum.  Ef allt væri með felldu í hinum ESB-ríkjunum núna, mundu þjóðþingin þar fara að fordæmi brezka þingsins og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um veru landanna í ESB. Þjóðþingin og hin ráðandi öfl ESB óttast fólkið, svo að bið getur orðið á slíku, en að þingkosningum mun koma, og sums staðar eru þær á næsta leiti. "Æ nánari samruni" er kominn á leiðarenda, og tími þjóðríkisins er runninn upp að nýju í Evrópu.  Stjórnmálaflokkar, sem skynja þetta, munu blómstra.  Hinir munu visna og deyja drottni sínum. 

Að halda því fram, að án stjórnmálalegs yfirþjóðlegs valds í Evrópu muni þjóðríkin þar fara í hár saman, er afneitun á staðreyndum.  Síðustu vopnuðu átök í Evrópu voru á Balkanskaganum, þegar Júgóslavía hafði liðazt í sundur í nokkur þjóðríki, og það var ekki ESB, heldur NATO, sem skakkaði leikinn þar.  Friðurinn í Evrópu hefur verið tryggður síðan 1949 með NATO, og svo mun áfram verða. Evrópuher ESB verður aldrei barn í brók og er aðeins líklegur til að dreifa kröftum, sem þó eru ekki til skiptanna í gömlu Evrópu. 

Allir hafa hag af frjálsum viðskiptum með lágmarks tollvernd.  Þar sem þar eru gagnkvæmir hagsmunir í húfi, þarf ekki ríkjasamband, hvað þá sambandsríki, til að koma á og viðhalda frjálsu flæði vöru, þjónustu og peninga.  Það er hins vegar eðlilegt og nauðsynlegt af öryggisástæðum, að hvert ríki stjórni sjálft umferðinni um landamæri sín, og þar af leiðandi hentar EES (Evrópska efnahagssvæðið) með sínu fjórfrelsi Bretum ekki. EFTA er líklega heppilegri samstarfsvettvangur fyrir þá, og líklega mun þá EES-viðhengið lognast út af.  Það getur vel orðið Íslandi hagfellt. 

Ef EFTA eflist og gerir viðskiptasáttmála við breytt ESB, gegnir EES engu hlutverki lengur. Um þessa þróun ritaði Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur, merka grein í Morgunblaðið 30. júní 2016, sem bar heitið:

"Úrsögn Bretlands úr ESB getur haft víðtæk áhrif í norðanverðri Evrópu".

"Vaxandi óánægja er með ESB-aðild í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.  Það kann því svo að fara, að innan tíðar opnist nýjar leiðir um efnahagssamstarf milli Norðurlandanna allra og Bretlands í kjölfar aðskilnaðar á síðasta þriðjungi 20. aldar."

Hér kveður við allt annan tón en hjá hinum ráðandi öflum í Evrópu, sem viðhafa endemis svartagallsraus um afleiðingar úrsagnarinnar fyrir Breta, og sams konar hjáróma raddir heyrast á Íslandi.  Brezkir sjómenn, ekki sízt skozkir, eygja nú tækifæri á bættri fiskveiðistjórnun innan brezkrar lögsögu, þar sem ofveiði undir handarjaðri hrossakaupa-ESB muni linna og aukinn afli samt verða hlutskipti Breta.  Það er brýnt fyrir Íslendinga, Færeyinga og Norðmenn að ná samstarfi við Breta, sem leiði til samkomulags um sanngjarna skiptingu deilistofnanna á grundvelli sameiginlegra vísindarannsókna.   

Mat Hjörleifs á núverandi stöðu mála í Evrópu kom fram í téðri grein og má telja raunsætt saman borið við vaðalinn, sem nú tröllríður umræðunni:

"Brezku kosningarnar hafa staðfest það rækilega, sem öllum mátti vera ljóst, að Evrópusambandið er ólýðræðisleg valdablokk fjármagns og stórfyrirtækja, sem færir völd og áhrif burt frá þjóðríkjunum í hendur yfirþjóðlegra stofnana, þar sem raunveruleg völd eru í höndum gömlu meginlandsríkjanna. 

Þetta sýndu ljóslega fyrstu viðbrögðin við úrsögn Breta, þegar kvaddur var saman leiðtogafundur Þjóðverja, Frakka og Ítala, en hin aðildarríkin 24 máttu standa álengdar og bíða frétta. 

Evrópusambandið átti í miklum erfiðleikum fyrir, einkum ríkin 16, sem búa við evruna sem sameiginlega mynt. Viðbrögð við vanda myntsambandsins hafa birzt í kröfum um hertan samruna, m.a. um sameiginlega fjármálastjórn aðildarríkjanna.  Slíkar hugmyndir eru nú fjær því að hljóta brautargengi en áður.  Engin sameinandi leið hefur verið mörkuð um viðbrögð við flóttamannastraumnum, og Schengen-samstarfið er í miklu uppnámi.  Leynimakkið kringum TTIP-viðskiptasamning ESB og Bandaríkjanna hefur sætt mikilli gagnrýni og enn aukið á tortryggni almennings.  Það eru því framundan afar erfiðir tímar innanvert í ESB í aðdraganda þess, að ganga þarf formlega frá útgöngu Breta í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar og semja um framtíðar samskipti."

Með þessari greiningu sinni hittir Hjörleifur naglann á höfuðið.  ESB-þjóðirnar eru komnar út í kviksyndi í sínum farkosti, sem þær ekki geta snúið við, og þá er eina ráðið að fara að ráði Breta og yfirgefa farkostinn áður en hann sekkur. Evran er snaran, sem nú herðist að hálsi evru-ríkjanna, og eina ráðið, sem valdhafarnir sjá til bjargar henni er æ nánara samstarf, en þar steytir á vilja aðildarþjóðanna.  Engin þjóðanna vill "dýpka" samstarfið enn meir, en slík dýpkun þýðir framsal til Brüssel á enn stærri hluta fullveldis. 

Bretar voru á sérkjörum í ESB og greiddu minnst þangað miðað við efnahag.  Þá eru þeir hvorki þjakaðir af evru né Schengen.  Hins vegar líkaði Bretum ekki sú þróun, sem þeir horfðu upp á, að þeir væru 2. flokks aðilar, og mikilvægasta stefnumótunin færi fram í hópi evru-ríkjanna.  Bretar munu aldrei fórna sterlingspundinu, og þeir vilja Evrópusamstarf, sem snýst um viðskipti og menningu. Þeir munu berjast við ESB-ríkin um forystu í fjármálum álfunnar og víðar og um að hýsa alþjóðleg fyrirtæki.  Þetta sjáum við af nýlegu útspili fyrrverandi fjármálaráðherra, George Osbornes, um að lækka skattheimtu af hagnaði fyrirtækja niður í 15 %.  Þetta er fyrsta gagnsókn Breta í kjölfar ruddalegra ummæla forkólfa hinna ráðandi ríkja ESB  og Junckers um, að Bretar skuli nú hypja sig úr sambandinu.  Slíkt tal er óviðeigandi, því að áframhaldandi samstarf við fullvalda Bretland og frjáls viðskipti með vörur, fjármagn og þjónustu er augljóslega allra hagur, og hagsmunaðilar í öllum Evrópulöndunum (vestan Rússlands) munu vinna að því.

Í kjölfar Brexit bárust fregnir af því, ítalskir bankar stæðu nú mjög höllum fæti, svo að styttast færi í nauðsynlegar björgunaraðgerðir hinna evruríkjanna, þ.e. Sambandslýðveldisins Þýzkalands, því að hin ríkin eru vart aflögufær.  Sannleikurinn er sá, að neikvæðir innlánsvextir evru-bankans í Frankfurt hafa leikið alla bankastarfsemi evru-svæðisins grálega, svo að jafnvel risinn Deutsche Bank og banki þýzka Mittelstand, die Commerzbank, eiga um sárt að binda.  Það er þess vegna ógnvænlegra tíðinda að vænta á þessu ári frá fjármálaheimi "evrulands", sem enn hefur ekki náð sér eftir hina grafalvarlegu alþjóðlegu lausafjárkreppu 2007-2008, sem leiddi til bankagjaldþrota, nema þar sem ríkissjóðir og/eða seðlabankar komu til bjargar.

Um hið hræðilega ástand í evruríkinu Grikklandi skrifar Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, í Markaðinn 1. júní 2016:

"Hver er þá grunnvandinn ?  Mergurinn málsins er sá, að gríska ríkið er einfaldlega gjaldþrota og getur ekki borgað skuldir sínar, en Evrópusambandið neitar að viðurkenna þessa staðreynd.  Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn virðist skilja þetta, og sennilega gera embættismenn ESB það líka, en pólitískt virðist ómögulegt að viðurkenna það, því að það myndi þýða, að ESB yrði að viðurkenna, að stefnan gagnvart vandamálum Grikklands hafi verið röng." 

Það er unnt að leiða þessa röksemdafærslu skrefinu lengra.  Viðurkenning ESB á vandamáli Grikkja hlyti að fela í sér viðurkenningu á því, að evran steypti Grikkjum í glötun.  Þeir voru vanbúnir að taka hana upp og var smyglað inn.  Efnahagslíf þeirra þoldi ekki fastgengi fremur en efnahagslíf Ítala, Portúgala, Spánverja og Frakka, svo að fjórðungur evruríkjanna sé nefndur til sögunnar.  Senn mun draga til tíðinda, og þá verður ríkjum hollara að standa utan við mökkinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband