Skattkerfisumbætur

Þann 6. september 2016 skiluðu "6 sérfræðingar í skattamálum" tillögum til "Samráðsvettvangs um aukna hagsæld" um umbætur á skattkerfinu.  Ekki var vanþörf á því.  Á þessu kjörtímabili hefur reyndar verið gerð gangskör að umbótum til einföldunar á tolla- og vörugjaldafrumskóginum og einnig á óbeinu- (neyzlu) og beinu (tekju) skattheimtunni.  Breytingarnar eru til hagsbóta fyrir skattborgarana og ríkissjóð.  Þetta tvennt fer nefnilega saman, þegar stjórnað er af skynsamlegu viti, en þegar vankunnátta, þröngsýni og ofstæki eru við völd, skaðast allir, eins og skemmst er að minnast frá 2009-2013.

Skattkerfið er flókið, krefst mikillar skriffinnsku, jafnvel í kringum litla atvinnustarfsemi, í um 17 þúsund tilvikum vegna tekna innan við 3 Mkr/ár.  Þarna er líka verið að leggja steina í götu "litla" atvinnurekandans, sem er þó driffjöður atvinnulífsins og kjarni miðstéttarinnar.  Með því að létta "litla" atvinnurekandanum lífið, hvort sem hann er einyrki eða með nokkra í vinnu, mun hagsæld miðstéttarinnar vaxa, og það er gott fyrir þjóðfélagið allt. 

Innheimtudagar ríkissjóðs eru 269 á ári, sem er dæmigert fyrir "bákn", sem vaxið hefur án yfirsýnar nokkurs manns.  Skattkerfið gæti verið mun skilvirkara og verið síður letjandi til tekjuöflunar en nú, ef við hönnun þess væri tekið meira tillit til hagsmuna skattborgaranna en nú er.  Hið opinbera má ekki refsa fólki fyrir frumkvæði í lífsbaráttunni og fyrir að leggja meira á sig.  Ef A bætir við sig tekjum, mun B njóta góðs af því.  Þetta skilur fólk ekki, sem nærist á öfund í garð náungans, þolir ekki velgengni annarra, en nennir sjálft ekki að teygja sig eftir lífsbjörginni.  Kerfið er dugnaðarfólki og ríkissjóði óhagfellt, því að lægri skattheimta á Íslandi mun leiða til hærri skatttekna vegna aukins hagvaxtar og vaxandi skattstofna. 

Það vekur athygli, að nefndin lagði til eitt virðisaukaskattþrep, 19 %, í stað núverandi tveggja, 11 % og 24 %.  Á þessu kjörtímabili var bilið stytt á milli þrepanna með hækkun úr 7 % í 11 % og lækkun úr 25,5 % í 24,0 %.  Jafnframt var skattstofninn breikkaður með fækkun undaþága.  T.d. var ferðaþjónustan felld meira inn í VSK-stofninn en verið hafði.  Þessari grein hafði verið haldið í bómull, og svo er að nokkru leyti enn. Þessi VSK-breyting var gerð í mikilli andstöðu við stjórnarandstöðuna, sem þyrlaði upp miklu moldviðri, og Framsóknarflokkurinn stóð gegn meiri hækkun neðra þreps en upp í 11 % vegna áhrifa frá lýðskruminu.  Tillagan nú gengur út á að fara enn lengra á sömu braut og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vildi 2014-2015, en það eru litlar líkur á, að hún geti hlotið brautargengi á Alþingi eftir næstu kosningar m.v. afstöðu þingflokkanna á núverandi Alþingi.    

Það er þó spurning, hvort þær gætu hlotið brautargengi með því að undanskilja innlenda matvælaframleiðslu og orku og setja þessa lífsnauðsynlegu framfærsluþætti í núllflokk.  Það ættu að vera nokkuð hreinar línur að fylgja í framkvæmd, þó að ekki sé í samræmi við stefnumiðið um breikkun skattstofnsins.  Þá kann þetta að fela í sér óleyfilega mismunun innlendra og erlendra framleiðenda matvæla, en á móti kemur minnkandi tollvernd. 

Um tekjuskatt einstaklinga leggja sérfræðingarnir til fækkun skattþrepa, og slíkt mun einmitt koma til framkvæmda um áramótin 2016/2017, er miðþrepið, 38,35 %, fellur brott.  Það vekur nokkra furðu, að sérfræðingarnir leggja ekki til eins þreps, heldur tvíþrepa tekjuskattskerfi.  Daði Már Kristófersson, formaður nefndarinnar, segir í viðtali við Vilhjálm A. Kjartansson í Morgunblaðinu 7. september 2016,

"Sérfræðingar leggja til einföldun á skattkerfinu" : 

"Ástæðan fyrir því, að við höfum 2 þrep í stað þess að fara niður í eitt, er reynsla annarra þjóða af tveggja þrepa kerfi.  Það hefur sýnt sig, að tveggja þrepa kerfi er skilvirkara en eitt þrep (sic !) og kemur vel út í rannsóknum."

Hvort það kemur betur út í rannsóknum sem tekjuöflunarkerfi fyrir ríkissjóð en eins þreps kerfi er ekki sagt, og tekjuöflun á að vera eina hlutverk skattkerfis, og um það má efast, því að hvati til vinnu er óneitanlega meiri í eins þreps kerfi en í tveggja þrepa, og hvati til undanskota er meiri í tveggja þrepa kerfi.  Skattstofninn er þess vegna líklegri til vaxtar, ef aðeins er beitt einu þrepi. Hinar neikvæðu hamlandi hliðar tveggja þrepa kerfa magnast við hækkun skattheimtunnar yfir 40 %.  Sérfræðingarnir leggja til 43 %, og þar með verða jaðarskattsáhrifin of há að mati blekbónda.  Betra er, að ekki sé meiri en 10 % munur á milli þrepa, þ.e. efra þrepið verði 35 %, þegar það byrjar að telja við tekjurnar 650 kkr/mán, sem algengar eru á meðal þeirra, sem leggja þurfa hart að sér við kaup á húsnæði og/eða eru að koma út á vinnumarkað klyfjaðir námslánum.  Að taka 43 % af hverri umframkrónu, sem dugnaðarfólk aflar sér, er ótækt, og á að milda þennan jaðarskatt niður í 35 %.

Það fáránlega fyrirkomulag var innleitt á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms að tvöfalda skattheimtu af sparnaði og reikna vísitölubætur inn í skattgrunn fjármagnsteknanna.  Hið síðar nefnda leggja sérfræðingarnir að sjálfsögðu til, að verði afnumið, en til að efla sparnað í landinu, sem er undirstaða fjárfestinga, ætti að auki að lækka skattheimtuna úr 20 % í 15 % og hafa bankainnistæður eins eiganda í sama sparnaðarflokki upp í 5 Mkr fríar undan skatti. Þetta mundi örva miðstéttina til sparnaðar.

Tekjuskattur fyrirtækja er nú almennt 20 % hérlendis.  Með því að lækka þessa skattheimtu, hefur þjóðum á borð við Íra, þar sem þessi skattheimta ku vera 12,5 % um þessar mundir (Írska lýðveldið), tekizt að draga til sín fjárfestingar erlendra fyrirtækja, og opinberar tekjur af þeim hafa margfaldlega unnið upp minni ríkistekjur vegna lægra tekjuskattshlutfalls á fyrirtækin.  Reyndar verður tekjutapið sáralítið, því að hvatinn til að auka téðan skattstofn vex með lækkandi skattheimtuhlutfalli. Miklar beinar erlendar fjárfestingar á Írlandi eru meginástæða þess, að Írar eru að rétta úr kútnum eftir fjármálakreppuna 2007-2008, sem kom hart niður á þeim, af því að skuldsetning írska ríkisins jókst mjög við björgunaraðgerðir í bankakerfinu. 

Fjárfestar í ýmsum tiltölulega stórum nývirkjum á Íslandi hafa gert lækkun tekjuskatts af starfsemi þessara fyrirtækja ásamt ýmiss konar öðrum ívilnunum að skilyrði fyrir því að fjárfesta í þessari atvinnustarfsemi.  Það á að steinhætta að verða við þessum skilyrðum þeirra, en láta eitt yfir alla atvinnustarfsemi í landinu ganga og lækka skattheimtu af hagnaði fyrirtækja niður í 15 %. 

Það þarf ekki að taka það fram, að s.k. "þunn eiginfjármögnun" er ekki fremur líðandi en önnur sniðganga skattalaga.  Skatta ber almennt að greiða, þar sem verðmætin verða til, og himinhár fjármagnskostnaður til brúðulands með mun lægri skattheimtu en landið, þar sem fjárfest var, er óeðlilegur.  Evrópusambandið er að reyna að beita sér gegn þessu ásamt OECD, og sömu sögu er að segja um ríkisstjórn Íslands með undirbúningi lagasetningar í samræmi við alþjóðlegar ráðleggingar. 

Sexmanna sérfræðinganefndin telur grunnauðlindanýtingu standa undir 22 % af framleiðslu hagkerfis Íslands.  Þessi tala verður mun hærri, e.t.v. þreföld, þegar allar hliðargreinar og afleiddar greinar auðlindanýtingarinnar eru taldar með. Auðlindirnar eru þess vegna kjölfesta núverandi lífskjara á Íslandi. Sexmenningarnir leggja til, að umhverfis- og auðlindagjöld verði hækkuð og að tekjunum verði varið til að lækka aðra skatta.  Hér eru þeir því miður staddir uppi í fílabeinsturni, og kjörin gerast ekki þannig á eyrinni. Það er t.d. undir hælinn lagt, að stjórnmálamenn lækki skatta, og vinstri menn gera það nánast aldrei, því að þeir skattleggja allt, sem hreyfist, og þeir líta á fjölskyldur og fyrirtæki sem skattstofna fyrir hið opinbera og virðast halda, að starfsemi þessara aðila snúist um að afla hinu opinbera tekna.  Þetta er stórhættulegur misskilningur. 

Gera þarf greinarmun á úthlutun nýrra verðmæta, t.d. svæðum úti fyrir strönd fyrir eldiskvíar, og úthlutun hefðbundinna verðmæta, t.d. fiskveiðiheimilda í lögsögu Íslands:

  1. Er verið að úthluta nýrri auðlind, eða er hefð á nýtingu hennar ?  Ef ný auðlind, þá þarf að kanna, hvort rentusækni er í greininni, þ.e. ásókn í ívilnanir eða meðgjöf að hálfu hins opinbera á kostnað annarra, sem sækjast eftir sama.  Ef rentusækni er fyrir hendi í greininni, þá er þar væntanlega einnig að finna auðlindarentu. 
  2. Ef hefð er fyrir nýtingu, og menn standa frammi fyrir nauðsyn kvótasetningar, þarf að draga fram lögfræðileg rök eða annars konar jafngild rök fyrir annars konar úthlutun en á grundvelli nýtingar í nánustu fortíð. Þó að takmarkaðri auðlind sé úthlutað á grundvelli nýtingarreynslu, þarf samt að kanna, hvort rentusækni hafi myndazt í greininni. Rentusækni þýðir, að líklega hefur myndazt auðlindarenta, annars ekki. 

Dæmi um úthlutun nýrra auðlinda:    

  •  Uppeldissvæði fisks í kvíum við strendur landsins.  Þetta er takmörkuð auðlind, og nánast fullnýtt auðlind í sumum nágrannalöndum okkar, t.d. við strendur Noregs.  Þar eru starfs- og rekstrarleyfi til þessarar viðkvæmu starfsemi margfalt dýrari en hér.  M.a. af þessum ástæðum hafa norsk fyrirtæki í þessari grein fjárfest í fyrirtækjum hérlendis, og því ber að fagna, því að þar með flyzt erlent fjármagn til atvinnu- og verðmætasköpunar á Íslandi.  Norðmenn búa yfir langri reynslu og þekkingu í fremstu röð í þessari grein.  Svæði, þar sem fiskeldi í sjó verður leyft, eru nánast bundin við Vestfirði og Austfirði af ótta við blöndun við íslenzka stofna, en suðurströndin er ekki talin heppileg til þessarar starfsemi vegna brims.  Fyrirtækin kosta að vísu að miklu leyti sjálf rannsóknir og umhverfismat, en engu að síður er ljóst, að verð á starfs- og rekstrarleyfum hérlendis er óeðlilega lágt borið saman við nágrannana, og færri fá þessi leyfi en vilja.  Af þessum ástæðum hefur skýlaust myndazt þarna rentusækni, og gegn slíku ber að beita markaðsráðum, þ.e. útboði á starfsleyfum, t.d. til 25 ára, sem megi ganga kaupum og sölum á tímabilinu með forkaupsrétti hins opinbera. Rekstrarleyfin ættu að þurfa endurnýjunar við árlega í ljósi þess, hversu miklar kröfur er nauðsynlegt að gera til rekstraröryggis eldiskvíanna. 
  • Úthlutun virkjanaleyfa er annað dæmi um úthlutun takmarkaðrar auðlindar, þar sem meiri eftirspurn er en framboð.  Um vatnsorkuver hefur Hæstiréttur nýlega dæmt, að vatnsréttindin myndi andlag fasteignagjalda.  Viðkomandi sveitarfélag vill beita hæsta taxta í gjaldskrá sinni, en virkjunarfyrirtækið móast því miður við.  Með úrskurði dómstóla kemst þannig auðlindarenta vatnsorkuvera á hreint, og mun auðlindagjaldið renna til viðkomandi sveitarfélaga samkvæmt þessu, eins og önnur fasteignagjöld.  Fyrir jarðhita í þjóðlendum eða á öðrum svæðum, sem eru utan einkaeignarlanda, þarf að meta verðmæti jarðgufunnar eða heita vatnsins til að reikna út auðlindarentuna.  Nú er enginn virðisaukaskattur af jarðhita, en raforkan er í lægra þrepinu.  Eðlilegast er að hafa hana í núllflokki VSK til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja og mynda mótvægi við hækkanir út af auðlindagjaldi. 

Dæmi um úthlutun hefðbundinna auðlinda:

  • Fiskveiðistjórnunarkerfið hefur verið eitt heitasta umræðuefni stjórnmálanna í heilan mannsaldur hérlendis. Umræðan hófst í kjölfar "Svörtu skýrslunnar" 1977, þar sem Hafrannsóknarstofnun birti varnaðarorð sín um, að sóknin í þorskstofninn væri ósjálfbær.  Fljótlega varð ljóst, að draga yrði úr sókninni til að vernda stofnana, og spurningin var aðeins um, hvernig það yrði gert. Í desember 1983 lagði þáverandi sjávarútvegsráðherra, Halldór Ásgrímssson, fram frumvarp um úthlutun aflahlutdeilda 1984 á skip á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja ára á undan.  Var til einhver sanngjarnari leið til þessarar úthlutunar ? Hún var í eðli sínu þannig, að þó að yfirvöld stæðu frammi fyrir ósjálfbærum sjávarútvegi með miklum taprekstri vegna allt of mikils sóknarþunga í stofna á undanhaldi, þá ýttu þau engum út af miðunum, heldur létu markaðsöflin um það.  Þannig hafa núverandi útgerðarmenn keypt yfir 90 % af sínum aflahlutdeildum, og skiptir þá auðvitað engu, þótt einhverjir hafi fengið skuldalækkun hjá bönkum til að geta haldið starfsemi sinni áfram.  Það ríkir frjáls markaður með aflahlutdeildir á Íslandi, og afurðirnar eru seldar á frjálsum markaði, oftast í harðri samkeppni við niðurgreiddan sjávarútveg á erlendum mörkuðum.  Af þessum sökum er engin rentusækni í íslenzkum sjávarútvegi samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu, og þar af leiðandi er þar enga auðlindarentu að finna. Þetta er hægt að staðfesta hagfræðilega með því að leita til rits Hagstofunnar, "Hagur veiða og vinnslu 2014", sem var sjávarútveginum hagfelldara ár en árin tvö á eftir.  Þar kemur fram, að arðsemi eigin fjár útgerðarinnar nam 13 %, sem að teknu tilliti til áhættu fjárfestingar er sízt meiri en í öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Hitt er annað mál, að útgerðarmenn eiga íslenzka ríkinu mikla þökk upp að inna fyrir að hafa gert þeim kleift að reisa starfsemi sína úr öskustó til sjálfbærni með innleiðingu núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis.  Þar af leiðandi er siðferðisgrundvöllur fyrir því, að þeir létti fjárhagslega undir með ríkinu við fjárfestingar stofnana ríkisins, sem aðallega þjóna sjávarútveginum, t.d. Landhelgisgæzlunni, Hafrannsóknarstofnun og Hafnasjóði, með því að stofna sjávarútvegssjóð, og þangað renni 2 %-5 % af verðmætum óslægðs afla upp úr sjó, háð gengisvísitölu. 
  • Annað kerfi, sem reynt hefur verið við úthlutun fiskveiðiheimilda, er s.k. "uppboðsleið".  Hún er fólgin í því, að ríkið aflar sér eignarréttar á hluta veiðiheimildanna og býður þær síðan upp. Ríkið ræður núna yfir rúmlega 5 % allra veiðiheimilda og getur þar af leiðandi gert tilraunir með "uppboðsleiðina", ef sæmileg sátt verður um það á meðal hagsmunaaðilana, en að öðru leyti þyrfti að fara s.k. fyrningarleið. Á Íslandi er þetta mjög torsótt leið, af því að ólíklegt er, að útgerðarmenn vilji láta afnotarétt af miðunum af hendi við ríkið.  Einu gildir, hvort um aukningu aflaheimilda til núverandi útgerðarmanna er að ræða.  Heimildir þeirra hafa áður verið skertar, og þeim ber afnotaréttur á aukningunni líka.  Þessi aðferð, "uppboðsleið", hefur verið reynd í nokkrum löndum, t.d. í Eistlandi, og alls staðar hefur verið horfið frá henni jafnharðan aftur.  Nú eru Færeyingar að gera tilraunir með þessa aðferð, en þar í landi munu allar fiskveiðiheimildir falla til Landsstjórnarinnar 2018 samkvæmt lögum þar í landi frá 2008.  Það eru mjög skiptar skoðanir í Færeyjum um "uppboðsleiðina".  Nýlega var boðinn upp kolmunnakvóti í tvígang án þess, að nokkur byði.  Það var fyrst, eftir að lágmarksverð hafði verið lækkað mjög, að tilboð bárust, og voru þau ekkert umfram veiðigjöldin, sem verið höfðu.  Það er mikil hætta á markaðsmisnotkun í þessu kerfi, t.d. að stórútgerðir bíti fljótlega af sér samkeppni og sammælist að því loknu um lág tilboð.  Röksemdin fyrir þessu "ríkisvædda markaðskerfi" er, að  "fólkið", þ.e. ríkissjóður, fái meira í sinn hlut af verðmætum auðlindarinnar. Þetta er afstyrmislegt sjónarmið, því að með núverandi fyrirkomulagi hefur tekizt að hámarka virði auðlindarinnar með beintengingu markaðar og veiða og gjörnýtingu aflans. Allt þjóðfélagið nýtur góðs af.  Ef á að breyta útgerðarmönnum í leiguliða ríkisins, er það ávísun á gjaldþrot útgerða. Slík þjóðnýting (fyrning aflaheimilda) brýtur í bága við jafnréttissjónarmið til atvinnurekstrar og brýtur á atvinnuréttindum útgerðarmanna og sjómanna, því að atvinna og atvinnutekjur sjómanna munu verða í uppnámi.  Af hverju reyna vinstri menn ekki að móta aðrar einfaldari og löglegri leiðir en þessa meingölluðu "uppboðsleið", sem hvorki á hljómgrunn á meðal sjómanna né útgerðarmanna. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband