Í kjölfar prófkjörs

Vart er hægt að sökkva dýpra við framkvæmd prófkjörs en Pí-ratar hafa gert að þessu sinni í aðdraganda þingkosninga.  Þeir hafa framkallað endurtekningu prófkjörs til að breyta niðurstöðu fyrri atrennunnar.  Eftir hana var sigurvegari prófkjörsins sakaður um smölun inn í flokkinn, en erfitt er að sjá, að fjölgun flokksfélaga geti verið á skjön við lýðræðið.  Þetta bann við smölun ber vitni um furðulegan púrítanisma, og er tilraun "nómenklatúrunnar", valdaklíkunnar í flokkinum í anda bolsévíka til að viðhalda völdum í þröngum hópi, en þátttakan í prófkjörum pí-rata var alls staðar mjög lítil og í engu samræmi við fylgi, sem þeir hafa hingað til verið að mælast með. 

Það er ekki nóg með þetta, heldur var gerð tilraun til að sanna "smölun" sigurvegara prófkjörsins í NV með því að rekja stuðningsatkvæði hans til afraksturs smölunarinnar.  Sýnir þetta algert dómgreindarleysi Pí-rata, því að með þessu ganga þeir á svig við reglur persónuverndar og lög um leynilegar atkvæðagreiðslur.  Virðingarleysi Pí-rata fyrir lögum og reglum skýtur hvað eftir annað upp kollinum.

Fólk í Pí-ratahreyfingunni hefur vitnað um það, að furðufyrirbærið Birgitta Jónsdóttir hafi ekki linnt látum, heldur hringt og sent skeyti til að reyna að koma gæðingi sínum í efsta sæti listans í NV.  Hafi hún verið með dylgjur í garð sigurvegarans, sem passa við orð Helga Hrafns, þingmanns Pí-rata, um, að hún rægi fólk bæði oft og mikið.  Téð Birgitta þrætir svo fyrir allt saman og kannast ekkert við gjörninga, sem hópur fólks ber upp á hana.  Það er ástæða til, eftir þetta, til að líta á téða Birgittu sem ómerking án nokkurrar félagslegrar færni.  Að hún skuli tróna efst á lista Pí-rata í Reykjavík með 15 % fylgi í það sæti er furðulegt.

Pí-ratahreyfingin hefur nú opinberað sig sem miðstýrt apparat "flokkseigenda", þar sem ekkert mark er tekið á beinu lýðræði, ef niðurstaðan er ekki að skapi "flokkseigenda", þar sem gegnsæi ákvarðanatöku er mjög af skornum skammti og stefnumál eru á reiki.  Þetta er umfjöllunarefni forystugreinar Morgunblaðsins, 12. september 2016,

"Bakherbergi Pírata":

"Prófkjör var haldið, og svo var reynt að fá því breytt eftir kjörið, og loks þvingað fram endurkjör til að losna við óæskilegan frambjóðanda.  Þegar þessu var lokið og gagnrýni kom fram frá fólki í ábyrgðarstöðum í flokknum, var einn gagnrýnandinn lokaður inni í bakherbergi með kapteininum til að útkljá málið. 

Niðurstaðan var sú, að gagnrýnandinn, sem hafði verið afar skýr áður og sagðist hafa vitni að samskiptum sínum við kapteininn, baðst afsökunar á orðum sínum og óskaði flokknum velfarnaðar.  Hann bætti því svo við, að hann hefði lokið afskiptum af stjórnmálum."

"Hvers konar forystumenn eru það, og í hvers konar flokki, sem geta setzt með þessum hætti ofan á gagnrýnendur.  Og hvernig fer þessi atburðarás saman við grunnstafnu flokksins."

Svör blekbónda eru á þann veg, að kapteinninn, Birgitta Jónsdóttir, er uppvakningur úr fjarlægri fortíð flokksræðis, sem minnir mest á bolsévisma.  Forystumennirnir eru siðblindir og kunna þar af leiðandi ekki skil á réttu og röngu.  Í augum heiðarlegs fólks hlýtur þessi hjörð að hafa glatað trausti og trúverðugleika.

Fjölþætt óánægja ríkir innan Samfylkingarinnar eftir prófkjör þar í viku 36/2016.  Aðallega hefur þar borið á óánægju kvenfólksins, þó að RÚV hafi láðst að gera því máli hátt undir höfði í fréttatímum sínum.  Sumar eru konurnar óánægðar með lítið brautargengi og hafa jafnvel í kjölfarið alveg hrokkið úr skaptinu, pólitíska, sbr Ólínu Kjerulv, doktor í göldrum að vestan.  Sumar þeirra eru "hundfúlar" yfir því að hafa verið færðar niður á lista.  Ein sagði ástæðuna þá, að hún væri "gömul kerling", og átti þar við, að Samfylkingin treystir engan veginn hinu beina lýðræði til að velja á lista sína, heldur viðhefur þá forræðishyggju, að listinn verði að endurspegla ákveðna aldursdreifingu og kynjaskiptingu.  Ein þeirra, sem varð fyrir barðinu á þessu, vill nú afnema þessar reglur, af því að þær hafi þegar gert sitt gagn, en geri nú ógagn. 

Prófkjör af þessu tagi eru forneskjulegur skrípaleikur, þar sem "flokksapparatið" telur sig þess umkomið að gefa "grasrótinni" langt nef í kjölfar prófkjörs.  Allt upphafna talið um lýðræðisást og að treysta fólkinu fyrir ákvarðanatöku með beinu lýðræði er innantómur fagurgali.  Það er ekkert að marka  smjaður slíkra stjórnmálaflokka fyrir kjósendum.

Þann 10. september 2016 hélt Sjálfstæðisflokkurinn sín prófkjör á Suðurlandi og í Kraganum.  Sjálfstæðisflokkurinn leyfir "smölun" í flokkinn, en það er hins vegar ómögulegt að rekja atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins til þeirra, sem atkvæðin greiddu; alveg öndvert við Pí-ratahreyfinguna. 

Það var mikið líf í prófkjörsbaráttunni, enda kom í ljós, að breytingar urðu á listum, sem flokksmenn völdu fólk á þennan dag.  Hefur niðurstaðan fengið fulltrúa Landssambands Sjálfstæðiskvenna til að fara fram á breytingu á skipan lista á Suðurlandi og í Kraganum, væntanlega til að auka líkur kvenna á að hreppa þingsæti í haust.  Hvaða kona eða karl, ef því er að skipta, vill láta færa sér þingsæti á silfurfati ?  

Ef það er leyfilegt að hnika til eftir á röðun á lista á grundvelli kynferðis, þá hefur líka verið leyfilegt fyrir konurnar að sameinast um konur í ákveðin sæti.  Það var t.d. ekki gert í Kraganum, heldur börðust þær þar hver við aðra um sömu sætin.  Þar af leiðandi dreifðust atkvæðin mjög á kvenfólkið, og því fór sem fór gegn öflugum körlum.  Það er fráleitt, að kosið hafi verið gegn konum, flestir hafa væntanlega haft góða blöndu fólks á sínum prófkjörsseðli. Í Kraganum stóð mikið úrval fólks af báðum kynjum flokksmönnum til boða til að velja á milli, og valið var erfitt.  Lögmál tölfræðinnar eru miskunnarlaus, og í næstu atrennu, fyrir kosningar á eftir þessum, getur skipting atkvæða á milli kynja fallið með öðrum hætti. 

Andstæðingar Sjálfstæðisflokksins skreyta sig með stolnum fjöðrum lýðræðisástar sem iðkendur beins lýðræðis.  Það eru ósannindi, eins og hér hefur verið rakið, og ekki tekur því að minnast á forræðisflokkinn Vinstri hreyfinguna grænt framboð, garminn Viðreisn eða aðra "uppstillingarflokka".  Sjálfstæðisflokkurinn einn ástundar beint lýðræði, þ.e.a.s. meginaðferð hans við val á framboðslista til Alþingis er prófkjör, þar sem dómur flokksmanna hefur verið endanlegur í hvert skipti án tillits til kosningaþátttöku.  Hvernig halda menn, að þátttakan yrði, ef vikið yrði frá þessu ?   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sem óákveðinn kjósandi, hvergi flokksbundin, mun ég krossa við þann lista sem mér líst best á í næstu þingkosningum.  En aldrei mun ég kjósa þann sem hefur hafnað vilja EIGIN flokksmanna með hringli á framboðslistanum. 

Kolbrún Hilmars, 12.9.2016 kl. 14:33

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Kolbrún; þetta er nútímaleg og rökrétt afstaða til stjórnmálaflokkanna.  Þú mælir þarna örugglega fyrir munn margra.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 12.9.2016 kl. 15:17

3 identicon

Tek undir með henni Kolbrúnu. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að fara að hringla með niðurstöðu kosninganna og troða einhverjum kellum upp fyrir þá karla sem voru löglega kosnir  þá mæti ég ekki á kjörstað í haust.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.9.2016 kl. 17:26

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Rafn Haraldur;

Það er lóðið.  Á Vesturlöndum er tilhneigingin sú, að kosningaþátttaka fer minnkandi.  Það gæti verið vegna þess, að fólki finnst engu máli skipta, hvort það kýs, eða hvað það kýs.  Á Íslandi hafa samsteypustjórnir ýtt undir þessa tilfinningu.  Þó vitum við, að miklu skiptir fyrir þróun þjóðfélagsins og hag okkar allra, hvort hér ríkir vinstri stjórn eða borgaraleg ríkisstjórn.  Við eigum að hvetja til þess í okkar umhverfi, að fólk geri sér grein fyrir, að það getur haft áhrif á það, í hvaða átt þjóðfélagið þróast.  Það, hvernig stjórnmálaflokkar standa að vali fólks á framboðslista, hefur ekki minni áhrif á kosningaþátttöku en fólkið á listunum. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 12.9.2016 kl. 20:58

5 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Forseti Hæstaréttar Íslands er víst alræðisvald Íslands. Og það sem verra er, hann virðist af einhverjum undarlegum ástæðum vera, ÆVIRÁÐIÐ ALLSHERJARSTJÓRNSÝSLU-KÚGUNARVALD ÍSLANDS?

Svo kosningar á Íslandi eru bara sýndarleikur og til þess gerðar, að geta logið því úti í hinum stóra heimi, að Ísland sé siðmenntað og lýðræðisstýrt réttarríki.

Allir sem vilja vita í hinum stóra heimi, vita að Ísland er þjónustuokrandi verkafólks-réttindasvíkjandi bankaræningjaríki.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 13.9.2016 kl. 02:48

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég sé, Anna Sigríður, að síðunni þinni hefur verið lokað.  Ætli það tengist orðbragðinu ?  Þvílíkt svartagallsraus !

Bjarni Jónsson, 13.9.2016 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband