Váboðar í vændum

Gott gengi íslenzks efnahagslífs stingur algerlega í stúf við bágborið efnahagsástand annars staðar á Vesturlöndum.  Þar ríkir víðast stöðnun, þ.e. sáralítill hagvöxtur, og barátta við hinn illa spíral verðhjöðnunar með stýrivöxtum um og undir 0. 

Þetta hefur valdið bönkum miklum rekstrarerfiðleikum, og jafnvel "klettar í hafinu" riða nú til falls.  Á sama tíma virðist andstaða við frjáls heimsviðskipti aukast víða samfara vaxandi einangrunarhyggju.  Þetta birtist t.d. í því, að samningaviðræður ESB og BNA um brotfellingu á viðskiptahömlum á milli þessara stóru viðskiptasvæða hafa stöðvazt vegna andstöðu beggja vegna Atlantshafs. 

Við þessar erfiðu aðstæður ákváðu Bretar að segja sig úr ESB og virðast nú stefna á fríverzlunarsamning við bæði þessi svæði og Brezku samveldislöndin. Reyndar sló Theresa May algerlega nýjan tón á nýafstöðnu flokksþingi Íhaldsmanna, þar sem hún kvað ákvörðun meirihluta kjósenda um að segja skilið við ESB eiga sér margvíslegar orsakir, sem ríkisstjórn Íhaldsflokksins ætlar að bregðast við með því að halda inn á miðju stjórnmálanna, enda er Verkamannaflokkurinn þar ekki lengur, heldur hefur gufað upp á leið sinni langt til vinstri.

 Það er rétt við þessar aðstæður að huga að þeim áhættuþáttum, sem helzt steðja að Íslendingum á vissum tímamótum í vályndum heimi.

Stjórnmálin: 

Í Alþingiskosningunum 29. október 2016 eru 13 stjórnmálaflokkar nefndir til sögunnar, hvernig sem framboðum þeirra verður háttað.  Dreifing atkvæða verður væntanlega mikil, svo að myndun tveggja flokka ríkisstjórnar verður vart í boði.  Þetta býður upp á langdregnar stjórnarmyndunarviðræður og að lokum stjórnarmyndun, kannski utanþings í boði forseta lýðveldisins eftir mikið japl og jaml og fuður, þar sem stefnumörkun verður óljós og ríkisstjórnarsamstarfið brothætt. 

Slíkt ástand býður ekki upp á efnahagslega festu og aðhald við stjórnun ríkisfjármálanna, eins og þó ríður á nú, heldur lausatök, gáleysislega aukningu ríkisútgjalda og skattahækkanir á fyrirtæki og einstaklinga, ef eitthvað er að marka málflutning núverandi stjórnarandstöðu.  Samfylkingin, sem er í útrýmingarhættu undir stjórn Oddnýjar Harðardóttur, hefur í örvæntingu sinni boðað fyrirfram greiddar bætur (vaxtabætur) úr ríkissjóði.  Þetta er eitt hæpnasta gylliboðið, sem heyrzt hefur á þessu hausti.

Stjórnkerfisástand af þessu tagi leiðir óhjákvæmilega til þess, að verðlagsstöðugleikanum verður kastað á glæ, og verðbólgan mun þess vegna hefja innreið sína á ný vegna skilningsleysis á efnahagsáhrifum skattahækkana og opinberra framkvæmda og getuleysis valdhafa við jafnvægisstillingu hagkerfisins.  Þetta ásamt ytra áfalli getur orðið upphafið að nýrri kreppu hérlendis eftir hagvaxtarskeið 2011-2016, sem leitt hefur til hærri VLF/mann nú en 2008 á föstu verðlagi, sem er meira en annars staðar frá hefur frétzt af.

Þá er afar ólíklegt, að fjölflokkastjórn, og þaðan af síður utanþingsstjórn, muni hafa þann innri styrk og bolmagn, sem þarf til að halda áfram vegferð mikilvægra kerfisbreytinga, sem núverandi ríkisstjórn hóf.  

Peningamálin:   

Seðlabankinn hefur ekki verið með á nótunum, heldur haldið verðbólguvæntingum við með of háum verðbólguspám í 2-3 ár. Líkön hans af hagkerfinu þarfnast endurbóta, t.d. áhrif innflutts vinnuafls á launaskrið.  Með þessu hefur hann valdið of háum breytilegum vöxtum á óverðtryggðum lánum, og með allt of háum stýrivöxtum hefur hann valdið ásókn spákaupmanna í ISK og þrýst upp gengi ISK, sem er til óþurftar fyrir hagkerfið við núverandi aðstæður.

Seðlabankinn hefur með óþarflega háum stýrivöxtum valdið miklum kostnaðarauka á öllum stigum samfélagsins og auðvitað aukið samtímis sparnaðinn, en hann hefði átt að nýta sér innflutta verðhjöðnun og lækkun innflutningsgjalda að hálfu ríkissjóðs til að feta vaxtalækkunarbraut niður fyrir 4 % í stað núverandi 5,25 %. 

Hann er nú að gefast upp við gjaldeyriskaup, sem aðallega eru ætluð til að vinna gegn hækkun ISK. Gengisvísitalan er núna a.m.k. 5 % of lág, og bankinn verður að lækka stýrivexti, þar til gengisvísitalan hækkar í 180-190 (er rúmlega 170 í byrjun október 2016). 

Hátt gengi ISK hefur nú þegar veikt samkeppnisstöðu íslenzkra útflutningsgreina um of.  Bretland er helzta viðskiptaland Íslands, og gengi sterlingspunds hefur á skömmum tímum lækkað úr 210 ISK/GBP í 140 ISK/GBP eða um 33 %.  Þetta hefur þegar haft mjög tekjurýrandi áhrif á fyrirtæki, sem flytja út á Bretlandsmarkað, t.d. í sjávarútvegi, og það hlýtur að fara að nálgast þolmörk brezkra ferðamanna hingað til lands.

Seðlabankinn notaði ekki tækifærið 5. október 2016 á vaxtaákvörðunardegi að lækka stýrivexti sína.  Það sýnir, að kominn er tími til að endurnýja Peningastefnunefnd, sem virðist vera í öðrum heimi. 

Alþingi hefur nú samþykkt verulegar tilslakanir á fjármagnshöftum.  Ætla má, að vinstri stjórn í landinu hefði ekki átt neitt frumkvæði að slíku, því að Samfylkingin hefur látið í ljós, að það væri ekki hægt, nema að ganga í ESB, og Vinstri hreyfingin grænt framboð er haftaflokkur, því að þannig halda stjórnmálamenn fleiri valdataumum í sínum höndum.  Ríkisforsjárflokkar losa aldrei um gjaldeyrishöft né önnur höft á einkaframtakið.

 

Verðlagsmálin:

Hjörtur H. Jónsson, forstöðumaður áhætturáðgjafar hjá ALM Verðbréfum, skrifaði Sjónarhól Morgunblaðsins, 22. september 2016,

"Hver er hræddur við verðbólgu ?":

"En hvað hefur stuðlað að lágri verðbólgu síðustu ár ?  Ef við skoðum þróunina frá 2014, t.d. með vísan til hrávöruvísitalna Deutsche Bank, hefur orka lækkað um 60 % [Nú er afkoma stærstu íslenzku orkufyrirtækjanna, LV og OR, orðin svo góð, að svigrúm hefur skapazt til að lækka raforkuverð og verð á heitu vatni, en ekkert hefur frétzt um, að slíkt sé í bígerð.  Þvert á móti hefur frétzt af áformum um auknar arðgreiðslur til eigendanna. - innsk. BJo], landbúnaðarvörur um á milli 20 % og 25 % og málmar um 20 %.  Og á sama tíma og innlend aðföng hafa lækkað umtalsvert í erlendri mynt, hefur krónan styrkzt um nærri 20 %. [Hún þarf að lækka aftur um 5 %, sjá "Peningamálin" að ofan. - innsk. BJo.] Þessar miklu lækkanir á innfluttri vöru [Hér má minna á afnám vörugjalda, oft 15 %, af öllu, nema jarðefnaeldsneyti og bifreiðum, sem knúnar eru slíku, afnám tolla af fötum & skóm og lækkun þeirra á öðru en matvælum.]  hafa unnið gegn innlendum hækkunum, en launavísitalan hefur t.d. hækkað u.þ.b. um 20 % frá 2014. 

Mikið hefur hins vegar dregið úr erlendum lækkunum að undanförnu, og orkuverð fer t.d. aftur hækkandi.  Þótt ekki sé útilokað, að ferðaþjónustan haldi áfram að vaxa og skila gjaldeyri inn í landið með tilheyrandi styrkingu krónu, er ólíklegt, að ytri aðstæður verði áfram jafnhagstæðar, þ.e. að innfluttar vörur haldi áfram að lækka jafnhratt og þær hafa gert að undanförnu, að því ógleymdu, að styrking krónu grefur undan vöruskiptajöfnuðinum og vinnur gegn vexti ferðaþjónustunnar.  Það er því líklega kominn tími til, að fyrirtæki, sem nota verðtryggð lán sem óbeina gengisvörn, hafi varann á." 

Af þessu er ljóst, að nú mun reyna meira á innlenda hagstjórn til að halda verðbólgunni í skefjum en á tíma erlendra verðlækkana.  Þá þarf að grípa til þeirra verðlækkunarleiða, sem færar eru.  Fjárfestingar heimila og fyrirtækja eru ekki þensluhvetjandi núna, þar sem nettó skuldastaða þeirra hefur lækkað.  Lækkun vaxtastigs í landinu mun valda kostnaðarlækkunum og þannig draga úr þenslu. Þetta virðist þó ekki fást út úr hagkerfislíkönum Seðlabankans.  Kannski er þetta bara almannarómur ?  

Hagvöxtur:

Hagvöxtur er nauðsynlegur hjá vaxandi þjóð til að tryggja kjarabætur, ný atvinnutækifæri og jöfnuð í samfélaginu.  Vinstri flokkarnir og Píratar hafa horn í síðu hagvaxtar, og þeir skilja þess vegna ekki mikilvægi þess, að valdhafar skapi grundvöll hagvaxtar.  Þeir virðast ekki átta sig á neikvæðum áhrifum skattahækkana á hagvöxtinn, eða þeim er alveg sama. Það er einmitt eitt áhættuatriðið núna fyrir velferðarþjóðfélag á Íslandi, að slíkt fólk komist til valda í Stjórnarráðinu í vetur, því að þá mun þar hefjast sama dæmalausa geðþóttastjórnun sérvizku og efnahagslegrar fávizku og nú blasir við í Reykjavíkurborg.  

Þar ríður  nú lestarsérvizka húsum, og er fjöldi manns sendur í heimsreisur til að kynna sér rekstur sporvagna, þótt kunnáttumaður um arðsemisútreikninga þyrfti aðeins eina klst til að sýna fram á glapræði slíkrar fjárfestingar í borginni yfir 100 miakr, og að miklu arðsamara er að verja fé borgarinnar og Vegagerðarinnar til að auka flutningsgetu núverandi gatnakerfis í Reykjavík.  Sérvizka vinstri manna ríður ekki við einteyming, og hún reynist skattborgurum jafnan dýrkeypt. 

Hagvöxtur 2016 verður um 4,5 %, sem er einn mesti hagvöxtur á Vesturlöndum, en hann er líklega svipaður á Írlandi.  Þar er hann knúinn áfram af beinum erlendum fjárfestingum í krafti lágs tekjuskatts á fyrirtæki eða um 12 %, en hér er hann enn 20 %.  Á Íslandi er hagvöxturinn líka knúinn áfram af fjárfestingum, en hér eru þær bæði innlendar og erlendar.  Nú horfir að vísu óbjörgulega fyrir erlendri fjárfestingu á Bakka við Húsavík og innlendri fjárfestingu á Þeistareykjum, og er það þyngra en tárum taki að sjá skemdarverkamenn komast upp með að kasta rýrð á orðspor Íslands sem áreiðanlegs lands, þar sem af öryggi má fjárfesta í trausti þess, að staðið verði við samninga.  Þetta er áhættuatriði fyrir framtíðar fjárfestingar í landinu. 

Atvinnuvegafjárfesting jókst um 15,1 % árið 2014 m.v. 2013, en þá var 6,7 % samdráttur í fjárfestingum.  Aukningin 2015 m.v. 2014 varð um 21 %, og spáð er 18 % vexti atvinnuvegafjárfestinga 2016.  Þar munar töluvert um innflutning skipa og flugvéla ásamt búnaði í stóriðjuver, virkjanir og flutningslínur.  Stóriðjuframkvæmdir munu ná hámarki 2016-2017, enda hörgull að verða á raforku, sem takmarka mun hagvöxtinn. 

Nú kann orðspor Íslands sem áreiðanlegt land varðandi umsamda raforkuafhendingu að vera í húfi vegna tafaleikja andstæðinga loftlínulagna, sem hefur neikvæð áhrif á samningsstöðu Íslands við erlenda fjárfesta.  Hætta ætti reyndar öllum skattalegum ívilnunum í þeirra garð og annarra fjárfesta, svo að allur atvinnurekstur sitji við sama borð gagnvart hinu opinbera hérlendis.  Andstæðingar hagvaxtar berjast með kjafti og klóm gegn framkvæmdum, þótt þær hafi farið í umhverfismat og framkvæmdaleyfi verið gefið.  Ábyrgðarlausar úrskurðarnefndir ættu ekki að geta stöðvað framkvæmdir.  Aðeins lögbann dómstóls ætti að geta stöðvað framkvæmdir, sem hlotið hafa framkvæmdaleyfi.     

Til að tryggja framtíðartekjur í þjóðfélaginu án þensluáhrifa á framkvæmdastigi þurfa fjárfestingar atvinnuvega að vera á bilinu 20 % - 25 % af VLF, og árið 2016 eru þær að öllum líkindum á þessu bili.  Það vitnar um styrk hagkerfisins, að þrátt fyrir miklar fjárfestingar og 4,5 % hagvöxt 2016, þá stefnir samt í yfir 4,0 % af VLF jákvæðan viðskiptajöfnuð . 

Þetta getur hratt snúizt við.  Hægt er að kyrkja fjárfestingargetu með hækkaðri skattheimtu, t.d. sértækri á sjávarútveginn, eins og nokkrir stjórnmálaflokkar hafa boðað, og gjaldeyristekjur geta hrapað með óhóflegri hækkun gengis eða náttúruhamförum (Katla).  Nú stefnir t.d. í mun minni hagnað sjávarútvegsfyrirtækja en á árabilinu 2012-2015 vegna óhóflegrar gengishækkunar, sem Seðlabankinn illu heilli heyktist á að vinna gegn með vaxtalækkun í byrjun október 2016.  Vitnar það um ótrúlegt sinnuleysi um hag atvinnulífsins og skrýtna forgangsröðun.  Er orðið brýnt að endurskoða lög um Seðlabankann, sem alræmdur vinstri meirihluti setti á síðasta kjörtímabili, og velja þangað nýtt fólk til forystu.  Núverandi Seðlabanki er áhættuþáttur fyrir hagkerfið. 

Skattheimta:

Miðað við umræðuna núna er líklegt, að á næsta kjörtímabili muni koma fram frumvarp á Alþingi um breytingar á skattalögunum.  Innihald slíks frumvarps er algerlega háð því, hvernig úrslit kosninganna verða.  Vinstri menn munu vilja færa allt í svipað horf og var hjá þeim á síðasta kjörtímabili, þar sem ekkert var hirt um einföldun og aukna skilvirkni skattkerfisins, heldur hlaupið eftir pólitískum duttlungum og sérvizku um að rífa sem mest af þeim, sem hærri hafa tekjurnar, og auðvitað urðu millistéttin, menntaðri hluti hennar aðallega, og gamlingjar, sem áttu nokkrar eignir, en voru jafnvel mjög tekjulitlir, helztu fórnarlömbin.  Þetta skilaði litlu í ríkiskassann, enda var ekkert hugað að hagvaxtarhvetjandi aðgerðum.  Það er miklu áhrifaríkara fyrir tekjustreymið til ríkissjóðs að stækka skattstofninn en að auka skattheimtuna. 

Borgaralega sjónarmiðið er það, að skattkerfið sé tekjuöflunarkerfi hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarsjóða, og það beri að gera þannig úr garði, að það virki sem minnst letjandi til vinnu og framtaks.  Góð laun, sem fengin eru á heiðvirðan hátt, skaða engan, og því ber alls ekki að refsa neinum löghlýðnum borgara fyrir háar tekjur. Það er misnotkun á valdi ríkisins að refsa fólki fyrir háar tekjur.

Nú hefur forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins viðrað hugmynd um skattkerfisbreytingu, sem felur í sér lækkun á neðsta þrepi tekjuskatts einstaklinga úr rúmlega 37 % í 25 % (vonandi er það að meðtöldu útsvari, því að annars er þetta engin lækkun), og lækkun efra þreps úr rúmlega 46 % í 43 %, og hækkun byrjunarupphæðar þess úr ISK 836´990  í ISK 970´000 .  Miðþrepið, 38,35 %, fellur brott í árslok 2016. 

Lækkun lægra þrepsins er sanngjörn fyrir alla, ekki sízt hina tekjulægri.  Við þetta mætti bæta að fella niður skattheimtu af greiðslum frá TR.  Það er einfalt, skilar sér að miklu leyti aftur í ríkiskassann og er sanngjarnt fyrir þá, sem ekki hafa aðrar tekjur. 

Jaðarskattheimtan, 43 %, er svo há, að hún hvetur til undanskota og virkar hamlandi á aukið vinnuframlag og framtak fólks.  Ef þessi tillaga er miðuð við lungann úr millistéttinni, ætti að lækka þetta jaðarskattstig niður í 35 %, enda ættu ekki að vera meira en 10 % á milli skattþrepa.  Annars verða jaðaráhrifin of tilfinnanleg.  

Ef ríkissjóður kveinkar sér undan þessu og ef hætt verður að heimta skatt af greiðslum frá TR, mætti jafnvel fella persónuafsláttinn á brott. 

Verkefnisstjórn um úttekt á íslenzka skattkerfinu undir formennsku Daða Más Kristóferssonar, hagfræðings, leggur til, að virðisaukaskattstigin tvö, 11 % og 24 %, verði sameinuð í eitt skattþrep, 18,6 %.  Þriðja skattþrepið er fyrir hendi, og það er 0.  Þar er menntastarfsemi, og þar ætti menningarstarfsemi og útgáfa hugverka líka að vera ásamt allri heilbrigðisþjónustu, nuddi, nálastungum, grasalækningum, smáskammtalækningum o.s.frv., lyfjum og bætiefnum. 

Til að draga úr hækkun matarkostnaðar við einföldunina í eitt þrep, er ráð að setja allar innlendar landbúnaðarvörur í núll virðisaukaskattsflokk.  Jafnframt yrðu tollar á erlendum mat, sem ekki er fáanlegur frá innlendum framleiðendum, felldur niður í áföngum, og lækkaður umtalsvert á öðrum gegn fríum aðgangi að erlendum mörkuðum fyrir ákveðið magn íslenzkra landbúnaðarvara. Algert skilyrði fyrir upplýst kaup neytenda er að upprunamerkja allar landbúnaðarvörur kyrfilega, svo að neytandinn fari ekki í neinar grafgötur um uppruna matfanganna, sem hann er að festa kaup á.  

Fjármálaþjónusta og tryggingastarfsemi eru erlendis undanþegnar virðisaukaskatti, og svo er einnig hérlendis, og hefur ekki verið gerð tillaga um annað, enda er þessi þjónusta nú í hæstu hæðum kostnaðarlega fyrir íslenzka neytendur. 

Núverandi ríkisstjórn hefur fækkað undanþágum ferðaþjónustu frá VSK, og afnema ætti unanþágur þessar með öllu.  Sérskilmála bílaleiga við innkaup á bílum á að fella niður, þó að þær verði þá að hækka leiguverðið.  Með yfir 20 þúsund bíla í útleigu lungann úr árinu eru slíkar ívilnanir tímaskekkja. 

Ferðaþjónustan:

Ofboðsleg árlega aukning á fjölda erlendra ferðamanna hefur komið öllum hérlendis í opna skjöldu.  Norðurslóðir njóta vinsælda um þessar mundir sem áfangastaður ferðamanna, af því að þar blasa afleiðingar hlýnunar andrúmsloftsins við, þar er náttúran tiltölulega óspillt og þar er friðsælt og tiltölulega öruggt. Þessi atvinnugrein er hins vegar viðkvæm gagnvart kostnaðarbreytingum, ekki sízt á stöðnunar- og samdráttartímum, eins og nú ríkja.

Yfir 21 þúsund launþegar eru árið 2016 starfandi að meðaltali yfir árið í ferðaþjónustu, en voru árið 2009 um 11 þúsund talsins, þ.e. 13 % aukning á ári að meðaltali.  Í greininni eru til viðbótar tæplega 3 þúsund verktakar.

Til samanburðar er fjöldi beinna starfa í málmframleiðslufyrirtækjunum 1900 eða 9 % af fjöldanum í ferðageiranum, sjómenn eru um 4400 talsins, 21 %, og í fiskiðnaði eru 4700 manns. Það er athyglivert, að fjöldi starfsmanna í hinum meginútflutningsgreinunum er aðeins um helmingur af fjölda starfsmanna í ferðageiranum, að verktökum meðtöldum í öllum geirum, og þar eru yfir 13 % starfanna í landinu. Ef eitthvað bregður út af í ferðageiranum, er voðinn vís fyrir atvinnustigið á Íslandi og gjaldeyristekjur landsins.

Eftirfarandi tilvitnun í Böðvar Þórisson, skrifstofustjóra fyrirtækjasviðs Hagstofunnar, í Viðskipta-Mogganum 13. ágúst 2015, sýnir mikil ruðningsáhrif ferðageirans í íslenzku atvinnulífi:

"Það hefur ekki orðið nein breyting að ráði á heildarfjölda starfa í landinu frá árinu 2008, og hafa því þessi nýju störf, sem hafa skapazt í ferðaþjónustunni, komið í stað starfa í öðrum atvinnugreinum."

Allt sýnir þetta, hversu gríðarlega er búið að magna umfang ferðaþjónustu í íslenzku samfélagi.  Þessu fylgir mikil fjárhagsleg áhætta, því að tekjustreymið, sem aðallega er háð fjölda erlendra ferðamanna, getur hæglega snarminnkað af völdum náttúruhamfara, t.d. Kötlugoss, eða vegna fjármála, t.d. mikillar lækkunar sterlingspunds, en fjölmennasta þjóðernið, sem hér gistir í orlofi, er brezkt.  Meiri hækkun ISK en þegar er orðin, gæti leitt til viðsnúnings í fjölgun ferðamanna.  Afleiðingarnar yrðu fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi.  Sem mótvægisaðgerð er tímabært að stofna jöfnunarsjóð ferðageirans, t.d. með komugjöldum, 2000 ISK per einstakling, 18 ára og eldri, yfir háannatímann. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband