Sterkt gengi ISK ógnar stöðugleika

Gengisvísitalan er nú komin undir 164 vegna mjög hagstæðs viðskiptajafnaðar og of hárra vaxta í landinu.  Greiningardeildir bankanna hafa varað við því, að framleiðnin í landinu aukist ekki í takti við gengishækkunina og að hún sé þess vegna ósjálfbær.  Krónan (ISK) þarf að lækka strax aftur og Seðlabankinn þarf að halda gengisvísitölunni á bilinu 175-185 til að tryggja jafnvægi í hagkerfinu til lengdar. Til þess að Seðlabankinn bregðist almennilega við þeirri ógn, sem að landinu stafar vegna tímabundinnar styrkingar krónunnar þarf að breyta lögum um Seðlabankann, svo að Peningastefnunefnd hans taki tillit til fleiri þátta en nú og horfi til lengri tíma en nú virðist raunin.  Nú dugar ekki að horfa í baksýnisspegilinn, því að þjóðfélagið er á nýju breytingaskeiði.

Þetta þýðir, að gengisskráningin er farin að ógna samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna, að ferðaþjónustunni meðtalinni, og ýta undir gjaldeyrisnotkun landsmanna í meiri mæli en góðu hófi gegnir.  Ef ekkert verður að gert, stefnir í, að Ísland verði dýrasta land í heimi, erlendum ferðamönnum fækki, útflutningsfyrirtæki leggi upp laupana og viðskiptajöfnuður verði neikvæður árin 2018-2019.  Þá mun gengið hrapa og valda hér verðbólgu yfir efri þolmörkum Seðabankans, 4,0 %, með öllum þeim neikvæðu keðjuáhrifum, sem há verðbólga hefur í verðtryggingarsamfélagi skulda. 

Nú er starfsstjórn við völd, sem ekkert frumkvæði tekur í stefnumarkandi málum, enda skortir hana þinglegan stuðning.  Seðlabankinn hefur hins vegar frelsi til athafna, eins og áður, og hann verður að taka nú niður námuhesta blöðkurnar, sem hann sjálfur hefur sett upp, og lækka stýrivextina í 0,5 % skrefum þar til gengishækkunin stöðvast í nafni stöðugleika til lengri tíma litið.  Það er ólíklegt við núverandi aðstæður, þrátt fyrir fulla nýtingu tiltæks vinnuafls, að vaxtalækkun muni valda verðlagshækkun.  Þvert á móti lækkar hún tilkostnað fyrirtækjanna, sem hafa þá minni tilhneigingu til að ýta hækkunarþörf sinni út í verðlagið.  Aðstreymi erlends vinnuafls dregur úr þenslu á vinnumarkaði. 

Hættulega hátt verðlag:

Samkvæmt Hagspá Greiningardeildar Arion-banka frá 1. nóvember 2016 var gengi íslenzku krónunnar þá þegar orðið 8 % - 10 % hærra en sjálfbært má telja fyrir hagkerfi landsins.  Þetta þýðir, að nú er grafið undan arðsemi útflutningsatvinnuveganna og viðskiptajöfnuðinum.  Með sama áframhaldi er hætta á því, að viðskiptajöfnuðurinn verði neikvæður á árunum 2018-2019, ef ekki verður þegar gripið í taumana.  Afleiðingin verður fjöldagjaldþrot, atvinnuleysi og há verðbólga, og allt verður vitlaust á vinnumarkaði.  Þar sem við erum nú þegar á feigðarsiglingu, hlýtur Stöðugleikaráð að verða að koma þegar saman og snúa þjóðarskútunni við á þessari siglingu.

Sem dæmi um óefnið, sem verðlagið hér séð frá buddu útlendinga er komið í, má nefna, að það er orðið hærra en í Noregi, sem lengi var dýrasta land í heimi.  Það var ósjálfbært ástand þar, af því að hátt olíuverð gaf Norðmönnum gríðarlegar útflutningstekjur, en aðrir atvinnuvegir landsins dröbbuðust niður. Olían tekur enda. Sem dæmi um ósjálfbærnina er, að útflutningur norska sjávarútvegsins er niðurgreiddur þrátt fyrir gjöful fiskimið úti fyrir langri ströndu. Hér má ekki verða "norskt ástand", sem lýsir sér með 30 % falli gjaldmiðilsins, m.v. stærstu myntir, og verðbólgu, sem gæti orðið enn meiri hér en í Noregi, ef samtímis verður uppsveifla í heimshagkerfinu.

Nú munar aðeins 7 % á verðlagi Íslands og Sviss, sem er dýrasta land í heimi, en þar er framleiðnin hærri en á Íslandi, enda eru ríkisumsvifin þar mun minni en hér þrátt fyrir svissneska herinn. 

Konráð Guðjónsson hjá Greiningardeild Arion leggur til, að hluti gjaldeyrisinnflæðisins verði settur í "sérstakan auðlegðarsjóð":

"Það eru dæmi um, að ríki hafi safnað í stóran gjaldeyrisforða til að halda aftur af styrkingu gjaldmiðilsins og lagt í sérstakan sjóð.  Þessi aðferð er vissulega umdeild, en í löndum eins og Singapúr hefur safnazt upp andvirði MISK 6-7 á mann í slíkan sjóð.  Sú fjárhæð hefur að megninu til komið í gegnum gjaldeyriskaup Seðlabankans."

Á Íslandi mundi þessi sérstaki auðlegðarsjóður svara til miaISK 2100, sem er 2/3 af núverandi stærð lífeyrissjóðanna.  Nú er spurningin, hvort stjórnmálamennirnir hafa bein í nefinu til slíkra heilbrigðra aðhaldsaðgerða, eða hvort þeir ætla að verða jólasveinar án búnings og hleypa þessu fé lausu, þannig að það kveiki í púðurtunnu hagkerfisins. 

Vöruútflutningurinn:

Það er nú þegar dúndrandi halli eða miaISK 120/ár á vöruskiptum við útlönd, ef fyrstu 9 mánuðir 2016 eru framreiknaðir til áramóta.  Þetta er 22 % af útflutningsverðmætum, sem er hættulega hátt.  

Alþjóðabankinn spáir versnandi viðskiptakjörum, t.d. 28 % verðhækkun á olíu árið 2017, og hækkun á verði hrávöru og matar.  Jákvætt er fyrir íslenzkar útflutningstekjur, að verð á málmum er nú tekið að þokast upp á við úr langvinnri, djúpri lægð, og er t.d. álverð komið upp fyrir 1700 USD/t Al og hefur þá hækkað á einum mánuði um a.m.k. 5 %, en það er ekki fyrr en við a.m.k. 1850 USD/t Al, sem allur íslenzki áliðnaðurinn fer að skila hagnaði. Þangað til eiga álframleiðendur án orkuverðstengingar við álverð mjög undir högg að sækja.

Framlegð sjávarútvegsins árið 2015 var viðunandi m.v. íslenzk fyrirtæki almennt.  Hún nam þá miaISK 71, og opinber gjöld hans námu þá miaISK 28, sem er 39 % af framlegð, sem er tiltölulega hátt hlutfall og afsannar með öllu, að sjávarútvegurinn skili óeðlilega lágum upphæðum til samfélagsins.  Þvert á móti skilar hann mestu í sameiginlega sjóði allra atvinnugreina, og ofangreind upphæð er t.d. ferföld opinber gjöld áliðnaðarins í landinu 2014, en þá áraði reyndar ekki vel á álmörkuðum. 

Skattlagningarvaldinu er reyndar beitt gegn útgerðinni á fölskum forsendum, eins og þar sé auðlindarenta í starfseminni, en því fer fjarri, þar sem aflahlutdeildir ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði og íslenzki sjávarútvegurinn á í harðvítugri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum við sumpart niðurgreiddan sjávarútveg, þar sem engum dettur í hug að leggja á veiðigjöld, svo að ekki sé nú minnzt á fyrningarhörmungina og uppboð fyrntra eigna, sem dæmd hefur verið ónothæf aðferð til skattheimtu á þeim fáu stöðum, þar sem tilraunir með hana hafa verið gerðar. 

Nú eru blikur á lofti hjá sjávarútveginum vegna loðnubrests, verðlækkunar á makríl og gengishækkunar ISK og mikillar lækkunar sterlingspundsins, en frá Englendingum hefur fimmtungur tekna sjávarútvegsins  komið.  Spáð er 30 % minni framlegð sjávarútvegs árið 2016 en árið á undan m.v. gengið 1.11.2016.  Þetta jafngildir rúmlega miaISK 20 tekjutapi eða rúmlega 8 % m.v. árið á undan.  Ef gengið styrkist um 10 % til viðbótar, þá verður framlegðin aðeins 54 % af því, sem hún var 2015, og fer niður í miaISK 38.  Þetta er svo lítil framlegð, að fjárfestingargeta sjávarútvegsins og opinber gjöld hans munu stórlækka.  Skuldalækkun hans mun stöðvast, og fjárhagsafkomu veikburða fyrirtækja verður stefnt í voða.  Þessa óheillaþróun verða stjórnvöld að stöðva og snúa henni við í tæka tíð. Slíkt mun gagnast samkeppnishæfni landsins almennt.

Ferðaþjónustan:

Stigullinn í straumi erlendra ferðamanna til Íslands hefur komið öllum í opna skjöldu eða sem "julen på kjerringa", eins og Norðmenn orða það.  Á 4 árum hefur fjöldinn tvöfaldazt og nær líkla 2 milljóna markinu árið 2017.  Ísland er nú þegar mesta ferðamannaland Evrópu að tiltölu með yfir 5 erlenda ferðamenn á íbúa. Þessi snöggi vöxtur hefur valdið alls konar vandkvæðum, sem landsmenn hafa enn ekki náð tökum á, og hann veldur hér óstöðugleika og áhættu, því að það sem vex hratt, getur yfirleitt líka fallið hratt með alvarlegum afleiðingum:

Hagræn áhrif:

Mjög jákvætt er, að gjaldeyrisvarasjóðurinn skuli nú nema miaISK 800 eða þriðjungi af VLF/ár. Á sama tíma og erlendur gjaldeyrir streymir til landsins að mestu frá ferðamönnum, magnar Seðlabankinn vandann, sem af þessu leiðir, með því að halda hér uppi himinháum vöxtum í samanburði við viðskiptalönd okkar, svo að útstreymi gjaldeyris til fjárfestinga er lítið, en of mikil hækkun gengisins hefur þrefaldað vöruskiptahallann síðan 2015 og auðvitað aukið ferðagleði landans til útlanda.  Brýnt er að stöðva gengishækkun og lækka gengið niður í það, sem talið er langtíma jafnvægisgengi í kringum USD/ISK = 125. Þetta er t.d. gert með mikilli vaxtalækkun og fjárbindingu í jöfnunarsjóð, sem þá mætti líkja við s.k. olíusjóð Norðmanna, sem reyndar er þeirra framtíðar lífeyrissjóður, því að þeir eiga ekki söfnunarsjóði, eins og við. 

Álag á ferðamannastaði:

Sigurður Sigurðsson, byggingaverkfræðingur, ritaði greinina:

"Hrollkaldur veruleiki ferðaþjónustunnar á Íslandi"

í Morgunblaðið 13. október 2016.  Þar segir m.a. af varnaðarorðum Önnu Dóru Sæþórsdóttur, ferðamálafræðings við Háskóla Íslands í viðamiklum skýrslum og sorglega litlum viðbrögðum við þeim.  Hvers vegna hafa yfirvöld stungið hausnum í sandinn að hætti strútsins varðandi ferðaþjónustuna ?  Líklega er hún, eins og ýmislegt annað, dreifð um smákóngaveldi embættismannakerfisins, báknsins, og full þörf á að sameina málefni stærstu atvinnugreinar landsins í eitt ráðuneyti:

"Að lokum kom yfir 200 bls. skýrsla fræðimannsins á vegum Háskóla Íslands og Ferðamálastofu um allt þetta efni saman tekið.  Tugir eða hundruð skýrslna um þessi ferðamál hafa verið birt án þess, að það hafi borið neinn árangur til úrbóta.  Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferðamálaráðherra, gat þess á þingi Samtaka atvinnulífsins nú í september, að skúffur hennar væru fullar af skýrslum um ferðaþjónustuna. 

Niðurstöður í skýrslum Önnu Dóru Sæþórsdóttur eru mjög sláandi.  Ráðamenn hafa ekki hlustað á vísindalegar ábendingar um það í hvað stefndi, eins og fagleg rannsóknarvinna og skýrslur þessa fræðimanns og Háskóla Íslands hafa bent á ár eftir ár og Ferðamálastofa hefur gefið út á undanförnum árum."

Það hefnir sín alltaf að hunza beztu þekkingu á hverju sviði, og við svo búið má alls ekki standa.  Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi, og undirstöður stærstu tekjulindarinnar geta hæglega hrunið vegna vanrækslu og skipulagsleysis.  Hvorki þessi né önnur starfsemi má einkennast af gullgrafaraæði. 

Samgöngumál:

Fólksbílafjöldinn eykst um yfir 2 % á ári, og fjöldi bílaleigubíla og langferðabíla enn meira, og er nú fjöldi hinna fyrr nefndu um 20´000 í landinu.  Umferðin eykst hlutfallslega enn meir en bílafjöldinn vegna mikils hagvaxtar, 4 %-5 %, gríðarlegrar aukningar ráðstöfunartekna heimilanna, um 10 %/ár þessi misserin, og lágs eldsneytisverðs. Á höfuðborgarsvæðinu hefur umferðin aukizt 6,5 % fyrstu 10 mánuði ársins 2016 m.v. sama tímabil 2015. Nú ríkir "framkvæmdastopp" stórframkvæmda til gatnakerfisbóta í Reykjavík eftir samning Reykjavíkurborgar og Vegagerðar um, að Vegagerðin setti í staðinn "stórfé" í strætisvagnasamgöngur á milli Reykjavíkur og fjarlægra staða.  Rafvæðing bílaflotans mun framkalla aukningu á umferð, af því að orkukostnaður á hvern ekinn km minnkar um 2/3 m.v. núverandi orkuverð. 

Við þessari þróun er bráðnauðsynlegt að bregðast við af myndarskap, en þá vill svo óheppilega til, að í Reykjavík ræður afturhald ríkjum, sem vill synda á móti straumnum og er með kenningar um, að yfirvöld eigi að vinna gegn umferðaraukningu af völdum einkabílsins með því að halda nýjum umferðarmannvirkjum í lágmarki og tefja för vegfarenda með þrengingum gatna og öðru ámóta. Á sama tíma eru gælur gerðar við "Borgarlínu".  Þetta nær engri átt. 

Höggva þarf á þennan hnút og setja nú þegar í gang verkefni við Sundabraut og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Spölur mun afhenda Vegagerðinni Hvalfjarðargöngin í árslok 2018, og allt bendir til, að árið 2019 verði meðalumferð þar í gegn yfir 8000 farartæki á sólarhring, sem er viðmiðunar hámark.  Strax þarf að hefja undirbúning tvöföldunar, og þessi 2 nefndu verkefni eru upplögð í einkaframkvæmd og vegtollheimtu, af því að leiðirnar verða valfrjálsar.  Fjárveitingu til Vegagerðarinnar þarf jafnframt að auka um 40 % upp í a.m.k. 35 miaISK/ár.

Fjármögnun innviðaframkvæmda:

Ferðamennskan hefur ekki aðeins valdið auknu álagi á vegakerfið, heldur líka á heilbrigðiskerfið og löggæzluna, svo að eitthvað sé nefnt.  Hér gæti verið um 10 % aukningu álags að ræða af völdum ferðamanna, sem bregðast verður við með auknum fjárveitingum úr ríkissjóði að sama skapi.  

Þetta kallar á nýja fjármögnun, og er álagning gistiskatts í stað gistináttagjalds, e.t.v. 1000 kr/fullorðinn per nótt, og hækkun virðisaukaskatts upp í 24 % og afnám undanþága, leið til að fjármagna hin auknu útgjöld. 

Jafnframt þarf að fara að huga að útjöfnun hinna gríðarlegu gróðurhúsaáhrifa af völdum flugsins, sem fyrir 2,0 milljónir gesta til Íslands gæti numið 2,3 Mt, sem er helmingur af allri losun  á landi og sjó hérlendis.  Til þess mætti leggja á hóflegt komugjald, t.d. 2´000 kr á hvern fullorðinn, og leggja þetta fé til skógræktar og landgræðslu. 

Náttúruhamfarir:

Ferðaþjónustan getur beðið mikinn hnekki af völdum goss undir jökli, eins og dæmin sanna.  Flutningar í lofti að og frá landinu geta teppzt um tíma, og jökulflóð geta rofið hringveginn, og verulegar truflanir geta orðið á afhendingu rafmagns.  Aðrar atvinnugreinar en ferðaþjónustan munu að vísu verða fyrir meira tjóni af völdum rafmagnsleysis, en hætt er við stóráfalli í ferðaþjónustunni, því meiru þeim mun fleiri ferðamenn, sem eru staddir á landinu, þegar ósköpin dynja yfir, fyrirvaralítið.  Þess vegna er bráðnauðsynlegt að fjölga áfangastöðum erlendra ferðamanna utan gosbeltisins, t.d. á Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Austurlandi. 

Samantekt:

Ferðaþjónustan stendur að baki núverandi hagvexti og velmegun á Íslandi að miklu leyti.  Hún er hins vegar afar viðkvæm atvinnugrein, og með afturkippi í henni er efnahagsstöðugleika á Íslandi ógnað.  Veldisvöxtur greinarinnar er ekki einvörðungu blessun, heldur getur hann leitt til hruns þessarar stærstu atvinnugreinar landsins með fjöldagjaldþrotum og fjöldaatvinnuleysi sem afleiðingu.  Sumu er hægt að stemma stigu við, en öðru ekki með góðu móti.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Ómar Höskuldsson

Fínasta greining á ástandinu.

Finnst hinsvegar vanta að setja fram þá ókosti sem "íslensk króna" hefur sem gjaldmiðinn þjóðar.

Auðvitað átti að vera búið að skipta þessum minnsta sjálfstæða gjaldmiðli út og það fyrir löngu, enda greiðir samfélagið á bilinu 22 til 85 milljaðra fyrir halda gjaldmiðlinum.

Einnig finnst mér það persónulega vanta að nú þegar gjaldmiðillinn er ná sér á strik og hinn venjulegi launamaður loks að fara njóta "kostanna", þá á að horfa sérstaklega til atvinnuvega, sem mjólkuðu kúnna vel og nutu nytanna hér þegar krónan féll, þeir meira að segja þáðu innkomu í einum miðli en greiddu laun í krónum. 

Mín niðurstaða, hræsni að fara líta til gengisfellingar. Það eru andfélagslegar skoðanir og liggur við landráðshugsanir að setja slíkt fram.

Sigfús Ómar Höskuldsson, 8.11.2016 kl. 21:34

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hér þarf að hvetja til sparnaðar til að vega á móti neikvæðum viðskiptajöfnuði. Það er í höndum seðlabankans og bankanna. Nú eru bankarnir hinsvegar að lækka vexti á innlánum að mér sýnist og kasta olíu á eldinn. Fjárfesting á húsnæðismarkaði er í núverandi bólu verra úræði og mínus avöxtun til komandi framtíðar. Ég er að velta fyrir mér hvaða úræði folk hefur til ávöxtunnar eigna sem hvetja til sparnaðar. Sé ekki nein. Folk mun í núverandi stöðu eyða og spandera áður en aurinn brennur upp í höndum þeirra.

Ef einhver hefur lausn á því hvernig hægt verður að fá fólk til að sýna aðhald og sparnað, þá á hann orðu skilið. Eins og er er allt riggað fyrir þenslu og sóun. 

Jón Steinar Ragnarsson, 9.11.2016 kl. 12:07

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sigfús Ómar;

Það, sem þetta mál snýst um, er samkeppnishæfni.  Undirstaða velgengni hagkerfisins síðustu ár var aðlögun gjaldmiðilsins að getu hagkerfisins eftir fjármálakreppuna, sem fól í sér stórfellda gengislækkun.  Með auknum styrk hagkerfisins fór svo gengi ISK hækkandi, og þetta sama hagkerfi með sinn gjaldmiðil hefur síðustu misseri verið í færum til að skapa góðan hagvöxt og mestu kaupmáttaraukningu, sem um getur í Evrópu, og þótt víðar væri leitað.  Óþarft að taka fram, að kaupmátturinn er nú meiri á Íslandi og jöfnuður reyndar líka samkvæmt GINI en áður hefur mælzt.

Nú er hækkun gjaldmiðilsins hins vegar orðin meiri en framleiðniaukning atvinnuveganna leyfir, og styrkur gjaldmiðilsins kemur þá niður á samkeppnishæfni landsins.  Viðskiptaafgangur dregst þá saman og verður fyrirsjáanlega neikvæður fyrir árið 2020.  Til þess að kollsteypu íslenzka efnahagskerfisins, sem af þessu mun leiða, verði afstýrt, eru þessi varnaðarorð sett fram.  Eigi veldur sá, er varar.  Að skrifa um hræsni, andfélagslegar skoðanir og landráðahugsanir lýsir aðeins skilningsleysi þínu á málefninu og dómgreindarleysi um, hvað er rétt og rangt að gera í þessari stöðu.

Bjarni Jónsson, 9.11.2016 kl. 13:30

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Steinar;

Það er alveg rétt, að hin þjóðræknislega rétta hegðun almennings nú væri að spara og að Seðlabankanum ber að hvetja til þess, en Seðlabankinn er núna á milli steins og sleggju, því að hans tæki til þess eru stýrivextirnir.  Ef hann hækkar þá, vex sparnaðarhvatinn, en hraði gengishækkunar eykst þá líka, og gengið er nú orðið 10 % hærra en útflutningsatvinnuvegirnir ráða við m.v. núverandi framleiðni í landinu.  Ég tel, að þjóðhagslega sé hið síðar nefnda hærra á metunum en hið fyrr nefnda.  Fólkið notar auðvitað núverandi stöðu til að endurnýja dýra hluti, sem jafnvel hafa setið á hakanum.  Það bætir samt skuldastöðu sína og eigið fé fjölskyldna eykst, enda hækkar íbúðaverð mikið, allt of mikið, vegna tilbúins skorts á lóðum. 

Skyldusparnaði var beitt hér í den, en það er nú líklega tómt mál að tala um það nú.  Hins vegar fer aukinn, þvingaður sparnaður fram með stórauknum iðgjöldum í almenna lífeyrissjóði landsmanna, sem er hið bezta mál. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 9.11.2016 kl. 13:47

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Má ekki segja nú að afnám tolla og vörugjalda hafi verið skot í fótinn. Þessir gjaldaliðir eru stjórntæki sem ættu að vinna gegn þenslu og slá á halla í vöruskiptajöfnuði.

Mér finnst annars furðulegt að það séu ekki til nein vitræn vopn til að vega gegn þessu önnur en gengisfelling upp á gamla móðinn. Menn spá hér auknum túrisma en virðast ekki fatta að túrismi er útflutningsiðnaður. Ef heldur áfram sem horfir þá ættu menn að endurskoða áætlanir sínar um aukningu í þeirri grein.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.11.2016 kl. 10:24

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Steinar;

Afnám tolla og vörugjalda á flestar vörur var viðleitni til að lækka vöruverð í landinu og færa verzlun inn í landið, sem jafnframt jafnar aðstöðu fólks. 

Ég mundi fremur kalla nauðsynlega gengisleiðréttingu aðgerð til að stemma stigu við ofrisi gjaldmiðilsins, því að markaðurinn verður væntanlega látinn ráða verðlagningu hans áfram.  Gallinn er sá, að Seðlabankinn hefur skekkt þennan markað með því að halda vöxtum allt of háum m.v. verðbólguvæntingar og vaxtamun við útlönd. 

Ef ekki semst strax við sjómenn, verður þjóðarbúið fyrir miklu tjóni í bráð og lengd, og þá mun gengið lækka, e.t.v. um meira en 10 %, sem áður var talið, að væri jafnvægisgengi hagkerfisins, þ.e. u.þ.b. 125 ISK/USD. 

Bjarni Jónsson, 11.11.2016 kl. 11:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband