25.11.2016 | 11:41
Hvað er tromp ?
Kjör Donalds Trump sem 45. forseti Bandaríkjanna (BNA) hefur valdið úlfaþyt á vinstri vængnum. Sumpart er það vegna þess, að sigur hans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þvert á skoðanakannanir og umsagnir álitsgjafa um frammistöðu frambjóðenda í sjónvarpseinvígjum, viðtölum og á fundum. Sumpart stafar úlfaþyturinn af róttækri stefnu Trumps þvert á viðtekna stefnu ráðandi afla í Washington, á "Wall Street" og víðar. Víxlararnir á "Wall Street" hafa verið stefnumarkandi á stjórnarárum demókrata og lengra aftur. Donald Trump ætlar að velta við borðum víxlaranna. Slíkt þýðir óhjákvæmilega mikla drullu í viftuspaðana.
Ótta hefur gætt víða um, hvað valdataka svo róttæks manns muni hafa í för með sér, t.d. á sviði hernaðar, viðskipta og umhverfisverndar. Þessar áhyggjur eru óþarfar, nema á þeim sviðum, þar sem stefna tilvonandi forseta og meirihluta í hvorri þingdeild fara saman.
Donald Trump var vanmetinn frambjóðandi í forkosningum og í forsetakjörinu sjálfu. Hann beitti annarri tækni en andstæðingarnir og uppskar vel. Hann var ekki með fjölmargar kosningaskrifstofur hringjandi í fólk með hvatningu um að skrá sig í kosningarnar og kjósa sig. Hann hélt hins vegar fjöldafundi, þar sem hann blés stuðningsmönnum og hugsanlegum stuðningsmönnum kapp í kinn. Hann var með á sínum snærum greinendur, sem beittu nýrri tækni við að finna út, hverjir gætu hugsanlega kosið Donald Trump, og hvað hann þyrfti líklega að segja eða gera, lofa, til að slíkir kjósendur tækju af skarið og styddu Trump.
Minnir þetta á baráttuaðferð Húnvetningsins Björns Pálssonar á Löngumýri, er hann vann þingsæti fyrir Framsóknarflokkinn í Húnaþingi 1959 með því að einbeita sér að Sjálfstæðismönnum. Var hann spurður að því, hvers vegna hann heimsækti bara Sjálfstæðismenn, en vanrækti Framsóknarmennina. Sagðist hann þá vita, hvar hann hefði hefði Framsóknarfólkið, það þekkti hann vel, en hann yrði að snúa nokkrum Sjálfstæðismönnum á sitt band til að komast á þing. Fór svo, að Björn felldi Sjálfstæðismanninn, höfðingjann Jón á Akri, þingforsetann,m.a. með þessari aðferðarfræði.
Repúblikanaflokkurinn hefur um langa hríð stutt heimsvæðingu viðskiptanna, "globalisation", og á því hefur engin breyting orðið með sigri Trumps. Trump mun ekki skrifa undir neina nýja fríverzlunarsamninga, eins og t.d. við Evrópusambandið, ESB, enda er sá samningur strandaður nú þegar á andstöðu og tortryggni Evrópumanna. Hann mun líklega binda enda á fríverzlunarsamning yfir Kyrrahafið til Asíu, en þingið mun tæplega leyfa honum að rifta samningum við Kanada í norðri og Mexíkó og fleiri ríki í suðri. Kínverjar hafa þegar tekið frumkvæði um að bjarga Asíusamninginum, þótt BNA dragi sig út. Vísar það til þess, sem koma skal, ef/þegar Bandaríkjamenn draga sig inn í skel sína.
Hins vegar mun hann líklega fá fjárveitingu í vegg/girðingu á landamærunum við Mexíkó til að draga úr straumi eiturlyfja og ólöglegra innflytjenda til BNA. Talið er, að þeir séu 11 milljónir talsins í BNA eða 3 % af fjölda bandarískra ríkisborgara. Slíkir undirbjóða bandaríska launþega og verktaka og eru undirrót víðtækrar óánægju í BNA.
Finnur Magnússon, lögmaður og aðjunkt við Lagadeild HÍ, birti grein á Sjónarhóli Morgunblaðsins, 20. október 2016,
"Blikur á lofti", um hnattvæðinguna, "globalisation":
"Undanfarin 30 ár hefur orðið "hnattvæðing" verið einkennandi fyrir pólitíska umræðu á Vesturlöndum. Stjórnmálamönnum, embættismönnum, verkalýðsleiðtogum o.fl. hefur orðið tíðrætt um síaukna hnattvæðingu. Árið 2000, í síðustu stefnuræðu sinni í bandaríska þinginu, fullyrti Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna,að ekki yrði hægt að vinda ofan of hnattvæðingu þess tíma - hún yrði varanleg.
Einungis rúmum áratug síðar hefur aftur á móti átt sér stað þróun, sem bezt verður lýst sem bakslagi í viðhorfum kjósenda vestrænna ríkja til hnattvæðingar."
Það er næsta víst, að hinn síkáti Bill hafði rangt fyrir sér, þegar hann taldi hnattvæðinguna hafa fest sig í sessi. Hún er ekki varanlegt fyrirkomulag í sinni núverandi mynd, heldur hljóta agnúar hennar að verða sniðnir af, svo að flestir geti samþykkt hana. Hún hefur gagnast Þriðja heiminum vel og lyft hundruðum milljóna manna úr örbirgð til bjargálna. Neikvæða hliðin er gjaldþrot fyrirtækja á Vesturlöndum, sem ekki hafa getað lagað starfsemi sína að breyttum aðstæðum. Fólk hefur þá orðið atvinnulaust eða orðið að samþykkja lægri laun við sömu eða önnur störf. Í sumum tilvikum er endurhæfing og/eða endurmenntun lausn á þessum vanda, en slíkt krefst vilja og getu starfsmanna til að gangast undir slíkt og nýrra atvinnutækifæra, sem hörgull er á í stöðnuðum þjóðfélögum.
Íslendingar hafa orðið áþreifanlega varir við þetta ástand hjá málmframleiðslufyrirtækjunum, álverum og járnblendiverksmiðju, en mikil verðlækkun hefur orðið á mörkuðum þeirra vegna offramleiðslu Kínverja, sem fyllt hafa markaðina af ódýrri og jafnvel niðurgreiddri vöru frá kínverskum ríkisverksmiðjum. Erlendis hefur komið til minni framleiðslu fyrirtækjanna af þessum sökum eða jafnvel lokun, en á Íslandi hefur afleiðingin orðið mikið aðhald og sparnaður í rekstri þessara fyrirtækja og litlar fjárfestingar ásamt tapi í þeim tilvikum, þar sem raforkuverðið hefur ekki fylgt afurðaverðinu. Um það eru dæmi hérlendis, t.d. í elzta álverinu. Þjóðhagslega hefur þetta ekki komið að sök vegna ótrúlegrar fjölgunar erlendra ferðamanna á Íslandi, sem sumir koma frá Kína og hefðu ekki haft ráð á slíku ferðalagi án hnattvæðingarinnar. Síðan 2009 hefur aukning gjaldeyristekna ferðageirans verið tvöföld saman lögð aukning sjávarútvegs og orkukræfs iðnaðar.
Hnattvæðingin hefur lækkað verð á iðnaðarvörum og hækkað verð á matvælum, af því að fleiri hafa nú ráð á að kaupa matvæli. Fyrir íslenzka hagkerfið er litlum vafa undirorpið, að frjáls viðskipti þjóna almennt hagsmunum fyrirtækjanna, hagsmunum almennings og efla hagvöxtinn. Hin pólitíska mótsögn Trumps er sú, að hægri menn eru mun hrifnari af hagvexti en vinstri menn, sem tala margir hverjir niðrandi um hann, og ofstækisfullir umhverfisverndarsinnar telja jörðina ekki þola hagvöxt. Trump er reyndar hrifinn af hagvexti, en ætlar að beita öðrum aðferðum en frjálsum utanríkisviðskiptum honum til eflingar. Hugmyndafræði bókarinnar "Endimarka vaxtar" eða "Limits to Growth" lifir enn góðu lífi í vissum kreðsum, en það eru ekki kreðsar Donalds Trump, og nú óttast menn, að hann muni losa BNA undan skuldbindingum Parísarsamkomulagsins frá desember 2015, en það yrði þeim ekki til vegsauka.
Tæknivæðingin hefur gert hnattvæðinguna í sinni núverandi mynd mögulega. Tæknivæðingin og hnattvæðingin í sameiningu hafa knúið framleiðniaukningu undanfarinna áratuga um allan heim. Framleiðniaukning er undirstaða sjálfbærs hagvaxtar og varanlegra kjarabóta almennings. Donald Trump mun sem forseti hafa nokkuð víðtæk völd í utanríkismálum og getur þess vegna með fyrirvara afturkallað skuldbindingar Bandaríkjamanna í samningum við erlend ríki. Þar sem hann er sjóaður viðskiptamaður, mun hann væntanlega aðeins gera það að vel athuguðu máli, ef hann er t.d. sannfærður um, að slíkt sé nauðsynlegt til að draga úr miklum halla Bandaríkjanna á viðskiptum við útlönd.
Lítum á, hvað Finnur Magnússon skrifar meira um hnattvæðingu:
"Hvað er hnattvæðing ? Í bók sinni, "Hnattvæðing og gagnrýni hennar", útskýrir Joseph Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, hugtakið þannig, að um sé að ræða nánari samskipti ríkja og einstaklinga í heiminum, sem eru afleiðing af lækkun flutningskostnaðar og aukinna samskipta og útrýmingar á hindrunum, sem standa í vegi fyrir frjálsum vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum, fjármagnsviðskiptum og skoðanaskiptum á milli fólks í ólíkum löndum. - Það er einmitt brottfall þessara hindrana, sem gerir fólki kleift að auka lífsgæði sín. Svo að dæmi sé nefnt, lækkaði kostnaður vegna 3 mín símtals á milli New York og London úr USD 300 árið 1930 niður í USD 1 árið 1997. Þessi lækkun á kostnaði getur af sér aukin samskipti, þar sem allur almenningur hefur ráð á að notfæra sér þessa þjónustu, og leiðir það ekki síður til aukinna viðskipta á milli landa, sem skapa gífurleg efnahagsleg gæði."
Af þessum sökum eru miklir hagsmunir í uppnámi í Evrópu eftir Brexit. Það er mjög mikið í húfi fyrir Breta og hin ríkin í Evrópusambandinu, ESB, að frjáls viðskipti haldist við Breta. Heyrzt hefur, að brezka ríkisstjórnin kjósi helzt að gera sjálfstæðan fríverzlunarsamning við ESB, BNA, Brezka samveldið, Kína og önnur mikilvæg viðskiptasvæði Breta. EES, Evrópska efnahagssvæðið, freistar ríkisstjórnarinnar ekki sérstaklega, af því að þá situr hún uppi með frjálsa för EES-þegna til Bretlands, þótt Bretar séu ekki aðilar að hinu alræmda Schengensamkomulagi um opin innri landamæri aðildarlandanna. Skotar eru með þreifingar í Brüssel og Reykjavík um aðild að ESB eða EES. Í ríkjasambandi við Englendinga er hvorugt mögulegt. Skeri þeir á böndin við Lundúni, verður aðild ekki samþykkt í Brüssel vegna óvinsæls fordæmis, en yrði samþykkt í Reykjavík, Ósló og Liechtenstein, ef að líkum lætur.
Jafnframt hefur framkvæmdastjórn ESB látið út berast, að hún vilji hörkulegt Brexit til að önnur aðildarlönd ESB falli ekki í freistni og yfirgefi ESB líka. Því verður samt ekki að óreyndu trúað, þótt því sé trúandi upp á búrókratana í Brüssel, að ESB muni stofna til viðskiptastríðs innan Evrópu.
Lars Christensen, alþjóðahagfræðingur, ritar áhugaverða pistla í "Markaðinn", sem er hluti af Fréttablaðinu á miðvikudögum. Greinin, 16. nóvember 2016, heitir:
""Trumpbólga" er yfirvofandi":
"...., en ég hef lagt áherzlu á, að ég byggist ekki við, að verðbólgan færi yfir 2,0 % í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu í náinni framtíð. Það var hins vegar áður en Donald Trump vann óvæntan sigur í bandarísku forsetakosningunum 8.11.2016. Með Trump sem forseta Bandaríkjanna mun verðbólgan stefna hærra.
Næstum öll stefnumál Donalds Trump munu ýta upp verðlagi í BNA - bæði frá framboðshliðinni (kostnaður) og frá eftirspurnarhliðinni (aukning). Ef við byrjum á framboðshliðinni, þá munu fyrirætlanir Trumps um um að herða innflytjendastefnuna og jafnvel að reka ólöglega innflytjendur úr landi örugglega leiða til hækkunarþrýstings, hvað launakostnað varðar. Auk þess mun afstaða Trumps til verndartolla hækka innflutningsverð. Sem betur fer virðist ekki vera meirihluti fyrir því að koma öllum stefnumálum Trumps, hvað varðar innflytjendur og verndartolla, gegnum þingið, en honum mun sennilega takast að koma einhverjum þeirra í gegn.
Hvað eftirspurnarhliðina varðar, hefur Trump sagzt vilja "tvöfalda hagvöxt" - við aðstæður, þar sem vöxtur vergrar landsframleiðslu að raunvirði er sennilega nú þegar farinn að nálgast mögulegan vöxt. Hann hyggst auka hagvöxt með því, sem bezt verður lýst sem gamaldags stefnu Keynes - miklum vanfjármögnuðum skattalækkunum og umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum."
Meginvandi hagkerfis heimsins hefur verið stöðnun og verðhjöðnun. Donald J. Trump mun setja bandaríska hagkerfið á fullan snúningshraða og fá öllum vinnufúsum höndum betur launuð verk að vinna en fáanleg hafa verið lengi í BNA. Væntingar um þessa stefnubreytingu hófu þegar um 10.11.2016 að hækka bandaríkjadalinn, USD, og hann er nú t.d. orðinn verðmætari en CHF og mun vafalítið árið 2017 sigla fram úr EUR. Ástæðan fyrir því er aukið fjárstreymi til BNA í væntingu um hækkun stýrivaxta bandaríska seðlabankans til að sporna við verðbólgu vegna aukins peningamagns í umferð af völdum hugsanlegs tímabundins aukins hallarekstrar ríkissjóðs BNA.
Ef Donald ætlar að girða fyrir aukinn innflutning til BNA af völdum aukins hagvaxtar og kaupmáttar almennings með innflutningshömlum, þá verða áhrif Trump-sveiflunnar í BNA takmörkuð á umheiminn, en annars er aukinn kraftur í bandarísku hageimreiðinni einmitt það, sem hagkerfi flestra landa heimsing þarf á að halda núna. Það eru spennandi tímar framundan, eins og alltaf, þegar jákvæðra breytinga er að vænta með nýjum leiðtogum. Er óskandi, að Evrópumenn og aðrir láti af fordómum og sleggjudómum um væntanlega embættistíð nýkjörins Bandaríkjaforseta, en dæmi hann, ríkisstjórn hans og Bandaríkjaþing af verkum sínum í fyllingu tímans. Slíkt er siðaðra manna háttur.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Ætli yfirlýsingar og "skoðanakannanir" helstu fjölmiðla Bandaríkjanna hafi ekki haft þau áhrif að ýta við þeim sem ekki gátu hugsað sér Hillary Clinton sem forseta. Þrátt fyrir mikið kosningasvindl Demókrata upp á milljónir atkvæða, sumir segja 18 til 20 milljónir, þá vann Trump samt. Hillary hefur keppst við að kenna einum og öðrum um ófarir sínar en gleymir að benda á sjálfa sig. Fyrir kosningar sýndu kannanir að hátt í 70% treystu henni ekki og álitu hana spillta.
Tómas Ibsen Halldórsson, 25.11.2016 kl. 12:11
Sæll, Tómas Ibsen;
Hjarðáhrif skoðanakannana eru tvímælalaust fyrir hendi. Í þessum kosningum skiptist fólk í tvö horn, þótt aðrir frambjóðendur en þau tvö fengju reyndar óvenju mikið fylgi. Sumir kusu, af því að þeir höfðu megna óbeit á öðrum frambjóðandanum. Samt var minni kosningaþátttaka en 2012 í viðureign Romney og Obama.
Tómas, Donald sagði kosningasvindl vera í gangi að hálfu demókrata, "the system is rigged", en hvernig í ósköpunum eiga þeir að framkvæma svo stórfellt svindl sem þú nefnir ? Ég man, að talið var víst, að Mafían hefði ráðið úrslitum í Illinois 1960, þegar Kennedy sigraði Nixon, en svindlið var þá talið bundið við fáeinar borgir.
Bjarni Jónsson, 25.11.2016 kl. 18:01
Það hefur verið bent á að hafi kosningasvik verið framin, þá fóru þau fram í kjörklefunum. Hvernig þá, hljóta - eða verða - viðkomandi yfirvöld að geta svarað fyrir.
Kolbrún Hilmars, 25.11.2016 kl. 18:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.