21.12.2016 | 13:17
Lækkun raforkuverðs
Á það hefur verið bent á þessum vettvangi og víðar, að raunlækkun raforkuverðs sé orðin tímabær og sé í raun réttlætismál almenningi til handa. Ástæðurnar eru viðsnúningur til hins betra í afkomu helztu raforkuvinnslufyrirtækjanna í landinu og hlutfall orkuverðs til almennings og stóriðjufyrirtækjanna í hlutfalli við vinnslukostnað raforku til þessara aðila. Þetta er einnig kærkomið mótvægi við hækkunartilhneigingu flutningskostnaðar raforku, sem gæti orðið framhald á, ef hlutdeild jarðstrengja í nýframkvæmdum flutningskerfisins eykst.
Nú hafa þau gleðilegu tíðindi orðið, að Landsvirkjun hefur tilkynnt raunlækkun á 10 % af orkusölu sinni, sem er um helmingur af orkusölu hennar til almennra sölufyrirtækja raforku. Þetta segja talsmenn Landsvirkjunar, að jafngildi 2,6 % raunverðlækkun á verði hennar til sölufyrirtækjanna. Þar sem orkuverðið er aðeins um 30 % af heildarverði per kWh, því að flutningur og dreifing nema um 50 % og opinber gjöld um 20 %, þá munu almennir notendur sjá lækkun innan við 1,0 %. Boðuð hefur verið hækkun flutningsgjalda (Landsnets) og lækkun dreifingarkostnaðar t.d. hjá OR-Veitum. Neytendur munu þá e.t.v. sjá 1 %-2 % lækkun einingarverðs, sem er lítil, en góð byrjun. Afkomuþróunin í raforkugeiranum gefur fulla ástæðu til að hefja nú verðlækkun á raforku til almennings.
Landsvirkjun útskýrir þessa lækkun með bættri nýtingu uppsetts afls í virkjunum vegna sveigjanlegri orkusölusamninga. Þetta þýðir, að Landsvirkjun getur frestað næstu virkjun að öðru óbreyttu og mun þá reka núverandi virkjanir á afli, sem er nær málraun (ástimplaðri aflgetu) virkjananna, og mun þess vegna nýta fjárfestingar sínar í virkjunum betur en áður, sem styttir endurgreiðslutíma virkjananna, þar sem árleg sala vex. Þetta er ágætt, ef það eykur ekki líkur á orkuskorti í þurrkaárum. Hér ber að hafa í huga, að engu er líkara en löggjafinn hafi reiknað með tiltæku neyðarafli af einhverju tagi, ef orkuskortur verður í kerfinu. Ekkert er fjær sanni, og enginn virkjunaraðili er skuldbundinn að viðlagðri refsingu til að sjá til þess, að hér komi ekki upp forgangsorkuskortur. Þetta er óviðunandi og er efni í sérpistil.
Þróun rafbúnaðar er m.a. í þá átt, að við notkun hans verða minni afltöp en í eldri búnaði til sömu nota. Þetta á t.d. við um ljósabúnað og eldunarbúnað. Þessi búnaður kemur inn af fullum þunga á háálagstímum, og bætt nýtni hans leiðir þá til lægri toppaflsþarfar. Lækkun toppálags af þessum völdum gæti numið yfir 100 MW, þegar t.d. LED-perur hafa leyst af hólmi glóperur og gasfylltar perur í inni- og útilýsingu á heimilum, í fyrirtækjum, opinberum stofnunum og dreifiveitum (götulýsing). Kostnaðarlega munar talsvert um þessa tæplega 5 % lækkun toppsins.
Á móti þessu mun koma nýtt álag hleðslutækja rafbílanna, þar sem samtímaálag þeirra um miðja 21. öldina getur numið 400 MW. Það er brýnt að forða því, að þetta nýja álag ásamt álagi frá hleðslutækjum skipanna bætist ofan á núverandi toppálag. Ef tekst að færa þetta væntanlega viðbótar álag yfir á tíma núverandi lágmarksálags, þ.e. næturnar, þá batnar nýting alls raforkukerfisins enn frá því, sem nú er, þ.e. fjárfestingar til að framleiða, flytja og dreifa 1 kWh af öryggi allan sólarhringinn allan ársins hring, minnka, öllum til hagsbóta, og næturtaxti ætti þá að endurspegla mun minni fjárfestingar en ella, en hins vegar þarf að virkja fyrir aukna orkusölu. Sú orka verður þó innan við helmingur af orkuinnihaldi þess eldsneytis, sem raforkan leysir af hólmi, vegna mun hærri orkunýtni rafmagnsbíla en bíla, sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti.
Í Morgunblaðinu þann 30. nóvember 2016 birtist Baksviðsgrein Helga Bjarnasonar um nýja kerfisáætlun Landsnets, sem hann nefndi:
"Raforkukerfið ræður ekki við orkuskipti framtíðar:
"Ekki er hægt að ráðast í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni eða í orkuskipti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, nema [að] byggja upp flutningskerfi raforku í landinu. Landsnet áætlar, að þörf sé á flutningi 660-880 MW til viðbótar, ef farið yrði í öll þau orkuskipti, sem rætt er um, en það myndi minnka losun um 1,5 Mt/ár, sem er um þriðjungur af árlegri losun landsmanna."
Hér er því lýst yfir, að landsbyggðinni sé haldið í raforkusvelti. Hér er aðallega átt við Vestfirði, Norðurland og Austurland. Landsnet hefur ekki verið í stakk búið til að uppfylla skyldur sínar við landsmenn, og það er grafalvarlegt og að sumu leyti áfellisdómur yfir fyrirtækinu, sem hefur ekki ráðið við ytri aðstæður og þannig brugðizt hlutverki sínu. Tafir eru á Suð-Vesturlínu, línum frá Kröflu-Þeistareykjum til kísilvers PCC við Húsavík og styrkingu Byggðalínu, svo að ekki sé nú minnzt á nýja og nauðsynlega samtengingu Norður- og Suðurlands. Meginástæðan fyrir töfunum er, að Landsnet hefur ekki náð góðu samkomulagi við alla landeigendur og náttúruverndarsamtök. Samskiptum virðist hafa verið áfátt, en sjaldan á einn sök, þá tveir deila.
Fjölda fyrirtækja er haldið í gíslingu raforkuleysis af nokkrum sérhagsmunaaðilum, sem Landsnet virðist ekki hafa lag á eða lagaleg úrræði til að tjónka við. Landsnet verður nú að söðla um, því að höggva verður á hnútinn áður en hundruða milljarða ISK þjóðhagslegt tjón hlýzt af.
Nokkurrar þvermóðsku hefur þótt gæta að hálfu Landsnets með að koma til móts við landeigendur, Landvernd o.fl. með jarðstrengjum í stað loftlína, en fyrirtækinu var vorkunn, því að lög skylduðu það til að velja jafnan fjárhagslega hagkvæmasta kostinn, en nú hefur löggjafinn veitt slaka í þeim efnum. Fyrirtækið þarf því að bregðast hratt við núna með lausnarmiðuðum tillögum um lagnaleiðir og jarðstrengi, þar sem slíkt getur leitt til sáttar í héraði og til að losa íbúa og fyrirtæki á norðanverðu landinu úr raforkusvelti, sem hefur í för með sér glötuð tækifæri til atvinnuuppbyggingar, eldsneytissparnaðar og minni mengunar.
Samkvæmt lögunum eiga nýir notendur að standa undir viðbótar kostnaði við flutningskerfið, en það getur ekki átt við hér, þar sem þeir báðu bara um rafmagn, en tóku ekki afstöðu til, hvernig flutningunum yrði háttað. Þess vegna verður Landsnet að fjármagna umframkostnaðinn með langtíma lánum og láta alla notendur standa undir viðkomandi afborgunum og vöxtum.
Um er að ræða þjóðhagslega hagkvæm verkefni, eins og fram kemur í eftirfarandi úrdrætti téðs "Baksviðs" úr umhverfismatsskýrslu Kerfisáætlunar 2016-2025:
"Í umhverfismatsskýrslunni eru hugleiðingar um hugsanleg frekari orkuskipti en fram koma í sviðsmyndum kerfisáætlunarinnar. Er þá miðað við þá framtíðarsýn, að einkabifreiðar, atvinnubifreiðar og bílaleigubifreiðar verði knúnar rafmagni í stað jarðefnaeldsneytis. Rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja verði lokið, og rafmagn komi í stað jarðefnaeldsneytis í iðnaði. Miðað er við, að skip verði tengd við raforkukerfi í höfnum og að Ísland verði sjálfbært [sjálfu sér nógt-skilningur BJo] með ræktun helztu grænmetistegunda. Þetta kallar á betri nýtingu virkjana og frekari uppbyggingu á endurnýjanlegum orkukostum, enda myndi notkun raforku aukast um 660-880 MW. Aflið ræðst af því, hversu vel tekst til við stýringu hleðslustöðva fyrir rafknúin farartæki [hversu vel tekst til við að beina nýju álagi á lágálagstíma, t.d. nóttina - innsk. BJo].
Blekbóndi telur þessa framtíðarsýn höfunda skýrslu Landsnets raunhæfa fyrir næsta áratug, og það er þessi jákvæða þróun, sem er í uppnámi vegna núverandi fulllestunar hluta stofnlínukerfisins, þ.e. Byggðalínu. Varðandi skipin verður ekki einvörðungu að reikna með hafnartengingu, á meðan þau liggja við festar, heldur munu rafknúin veiðiskip að líkindum sjá dagsins ljós undir lok næsta áratugar.
Það verður með stuðningi ríkisvaldsins, væntanlegs orkumálaráðherra, að höggva á núverandi rembihnúta, sem nú standa a.m.k. helmingi landsins fyrir þrifum, með því að ákveða lögn á jarðstrengjum, eins og tæknilega er unnt, þar sem slíkt getur leitt til sátta við hagsmunaaðila, þó að stofnkostnaður þeirra sé hærri en loftlínanna. Á móti hækkun flutningsgjalds vegur lækkun á verði orkuvinnslunnar sjálfrar, eftir því sem afskriftabyrði orkuvinnslufyrirtækjanna lækkar og nýting fjárfestinganna batnar, en hún er reyndar nú betri á Íslandi en annars staðar vegna tiltölulega mikils og jafns stóriðjuálags.
Landsnet hefur sjálft í nýrri kerfisáætlun kynnt til sögunnar nýja lausn á flutningi afls á milli Suðurlands og Norðurlands, sem gæti leyst úr langvinnum og harðvítugum deilum um kerfislega bráðnauðsynlega styrkingu stofnkerfisins.
"Baksviðs" er þannig greint frá henni:
"Kostirnir, sem velja þarf á milli, eru í aðalatriðum tveir: Tenging landshluta með styrkingu byggðalínuhringsins eða með háspennulínu yfir hálendið. Fjórar útfærslur eru af hvorum kosti. Eru þetta í aðalatriðum sömu kostir og í fyrri kerfisáætlun. Þó er tekinn inn möguleikinn á jarðstreng á allri hálendisleiðinni. Það yrði þá jafnstraumsstrengur (DC) með tilheyrandi umbreytistöðvum á endum. Áætlað er, að lagning slíks strengs mundi kosta um miaISK 40 samanborið við miaISK 13 í loftlínu."
Það er virðingarvert af Landsneti að geta um þessa tæknilega færu leið við nauðsynlega samtengingu landshluta. Hún hefur þann ókost að vera þrefalt dýrari en grunnkosturinn, loftlína yfir Sprengisand, en þá síðar nefndu skortir aftur á móti þann stjórnmálalega stuðning, sem nauðsynlegur er, svo að hún verði raunhæf. Millilausn er lögn riðstraumsjarðstrengs allt að 50 km á sjónrænt viðkvæmasta hluta leiðarinnar. Þrátt fyrir miklu flóknari búnað má ætla, að rekstraröryggi jafnstraumsstrengs og innanhúss AC/DC-DC/AC búnaðar verði meira en rekstraröryggi loftlínu á Sprengisandi vegna veðurfars, sandbylja og mögulegs öskufalls og eldinga í nágrenni virkra eldstöðva. Við kostnaðarútreikninga þarf að leggja s.k. ævikostnað til grundvallar samanburðar á valkostum. Þar ætti að reyna að leggja mat á "umhverfiskostnaðinn" og að sjálfsögðu að taka allan rekstrarkostnað með í reikninginn.
Ákvörðun um slíkan jarðstreng yrði í samræmi við tækniþróun á þessu sviði og viðhorfstilhneigingu í þjóðfélaginu. Kostnaðarmunurinn, miaISK 27, nemur u.þ.b. innheimtum virðisaukaskatti af rafmagni á tveimur árum. Það væri því engin goðgá að fjármagna helming mismunarins með hækkun á gjaldskrá Landsnets og helminginn beint úr ríkissjóði með framlögum til Landsnets á einum áratugi í nafni umhverfisverndar og rekstraröryggis.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.