Orkuöflun og -flutningar

"Þegar kyndugur kemur til kæns, hefur kænn ekki við", segir máltækið.  Kyndug frásögn birtist í Morgunblaðinu, 7. febrúar 2017, skrifuð af Þorsteini Ásgrímssyni undir fyrirsögninni:

"Aðgerða þörf í orkumálum",

um skýrslu erlendra sérfræðinga fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet.  Af frásögninni að dæma spannar skýrslan aðallega "selvfölgeligheder", einföld, vel þekkt sannindi, og meira eða minna hæpnar niðurstöður höfundanna.  Frásögnin hófst þannig:

"Haldi almennur vöxtur í raforkunotkun áfram hér á landi á næstu árum án þess, að fjárfest verði í frekari orkuframleiðslu, munu Íslendingar standa frammi fyrir mögulegum vanda varðandi orkuöryggi á komandi árum.  Þetta kemur fram í skýrslu, sem unnin var af sérfræðingum frá háskólastofnununum MIT í Bandaríkjunum og IIT Comillas á Spáni um orkuöryggi fyrir Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsnet."

Það lýsir ótrúlegu ráðleysi og vandræðagangi á raforkumálasviðinu hérlendis, að talin skuli vera þörf á því að semja sennilega rándýra skýrslu í útlöndum um framboð og eftirspurn raforku á Íslandi.  Það blasir við, að vegna rafvæðingar samgöngutækja á landi einvörðungu muni almenn raforkunotkun á Íslandi vaxa um 40 % á næstu 20 árum, og er þá ótalin rafvæðing skipaflotans og flugflotans á árunum 2030-2050.  Þessu til viðbótar blasir við í nánustu framtíð álagsaukning upp á 525 MW vegna rafvæðingar framleiðsluferla og nýrra verksmiðja til kísilframleiðslu. Þetta nýja álag, 525 MW, jafngildir fjórðungsaukningu núverandi vetrarálags.  Á móti þessu virðast aðeins vera á döfinni virkjanir að aflgetu 480 MW (Þeistareykir, Búrfell 2, Tungufljót, Reykjanes, Hvammsvirkjun, Bjarnarflag, Krafla 2, Blönduveita), svo að staðan er óbjörguleg. Þessar viðbætur fela í sér nánast enga aukningu miðlunargetu sunnan heiða. Um það er hægt að vera skýrsluhöfundunum sammála, að orkuskortur blasir við, en dugir ekki heilbrigð skynsemi til að segja mönnum það.  Ef heilbrigð skynsemi hefur ekki hrifið, þá gerir útlend skýrsla það varla heldur. 

Ætlar Landsvirkjun kannski að halda uppteknum hætti og fæla menn frá rafvæðingu, eins og hún hefur hagað sér gagnvart fiskimjölsverksmiðjunum með þreföldun raforkuverðsins ?  

Eigandinn verður að grípa í taumana, þegar viðhaldið er orkuskorti með litlu framboði til þess að spenna upp verðið á ótryggðu rafmagni.  Þessi bolabrögð ná engri átt.  

Ritstjórn Morgunblaðsins hefur áhyggjur af varasamri og viðkvæmri stöðu raforkumálanna, og það er góðra gjalda vert, en áhyggjurnar þurfa að ná til æðstu stjórnar ríkisins og krystallast í raunhæfum viðbrögðum.  Forystugrein Morgunblaðsins,

"Orkuöryggi er forgangsmál",

þann 10. febrúar 2017, endar þannig:

"Sjálfsagt er orðið að leggja ríka áherzlu á að bæta bæði flutningskerfi og framleiðslu orku hér á landi.  Það felur óhjákvæmilega í sér, að leggja þarf línur og byggja virkjanir.  Slíkt þarf að gera, svo að vel fari í umhverfinu, en orkuöryggið verður að vera forgangsmál."

Allt er þetta satt og rétt, og blekbóndi getur auk þess fullyrt, að það er tæknilega mögulegt og fjárhagslega viðráðanlegt að sameina þetta tvennt, þ.e. að sjá öllum landslýð fyrir nægri orku af beztu gæðum án stórkarlalegra inngripa í ásýnd landsins á viðkvæmum stöðum.  Vilji og pólitísk forysta er allt, sem þarf.

Eitt af vandamálunum er, að það er enginn ábyrgur að lögum gagnvart því, að hér verði ekki afl- og orkuskortur.  Það væri engin goðgá að fela stærsta leikaranum á sviðinu, Landsvirkjun, þetta hlutverk með lagasetningu, um leið og fyrirtækinu væri mörkuð eigendastefna, en hana vantar sárlega núna, enda örlar á vindhanahegðun í æðstu stjórn fyrirtækisins.

"Ignacio J. Perez-Arriaga, prófessor við MIT, kynnti skýrsluna og sagði vandamálið hér á landi vera rafmagnskerfi, sem er einangrað og geti þar af leiðandi lent í vandræðum, ef upp koma vandamál við orkuframleiðslu, t.d. ef vetur er hlýr og lítið um vatn til að fylla miðlunarlón.  Sagði hann einnig flutningskerfið hér ekki vera nægilega gott, þar sem stífla gæti myndazt á milli vestur- og austurhlutans." 

Blekbóndi er helzt á því, að téður prófessor við MIT í Boston taki hér rangan pól í hæðina.  Með auknum hlýindum á Norður-Atlantshafi búast flestir við aukinni úrkomu á eyjunum þar.  Ef frá er talin veiking Golfstraumsins, virka loftslagsbreytingarnar til aukinnar vinnslugetu raforku í vatnsaflsvirkjunum og fremur minna álags en hitt vegna hlýinda, þegar lónsstaðan er lægst. 

Öllum var ljóst fyrir útkomu þessarar skýrslu, að Akkilesarhæll íslenzka raforkukerfisins er flutningskerfi Landsnets.  Fyrirtækið kemst hvorki lönd né strönd með nauðsynlegar framkvæmdir sínar, af því að skilningsleysi er of útbreitt í þjóðfélaginu á mikilvægi þeirra og gríðarlegum þjóðhagslegum kostnaði af því, að Byggðalínan skuli vera fulllestuð árum saman og geti þannig ekki flutt afl að viðbótar álagi.   Fyrirtækið ber þó vafalaust sína sök á því framkvæmdaleysi, sem leitt hefur til stórtjóns í samfélaginu.  Kannski hefur það ekki verið í stakkinn búið stjórnkerfislega og fjárhagslega til að leysa málin.  Því verður að breyta strax, enda fer hættan á hagsmunaárekstrum vegna óeðlilegs eignarhalds Landsnets ekkert á milli mála.

 Ef ætti hins vegar að tengja rafkerfið við útlönd, mundi það þýða gríðarlegar línubyggingar frá virkjunum og niður að landtökustað sæstrengs eða sæstrengja. Að koma í veg fyrir orkuskort á Íslandi með því að leggja sæstreng til Skotlands er "overkilling", sem líkja má við að skjóta gæs með eldflaug. Slíkt er algert óráð, og er betur látið ógert. Ef erfitt er að fá leyfi til að styrkja núverandi stofnkerfi fyrir innanlandsnotkun, þá mun nú seint sækjast að fá leyfi fyrir línulögnum þvers og kruss að landtökustað sæstrengs.  Um hann er algerlega tómt mál að tala.  Því fyrr sem stjórnvöld átta sig á því, þeim mun betra. 

Hvað er til ráða með Landsnet ?  Fyrirtækið er á milli steins og sleggju og eiginlega á milli vita, því að það er í eigu 4 stærstu raforkufyrirtækja landsins, Landsvirkjunar (64,7 %), RARIK (22,5 %), OR (6,8 %) og OV (6,0 %), en "stjórn Landsnets skal vera sjálfstæð gagnvart öðrum fyrirtækjum, sem stunda vinnslu, dreifingu eða sölu raforku".  Þessi tvískinnungur hefur verið við lýði frá stofnun fyrirtækisins árið 2005, og gæti hafa staðið því fyrir þrifum. Mál er að linni, enda aldrei ætlað að vara til frambúðar. 

Landsnet starfar samkvæmt sérleyfi á markaði, þar sem engin samkeppni er leyfð.  Við slíkar aðstæður er eðlilegast, að ríkissjóður yfirtaki eignarhaldið hið fyrsta á fyrirtækinu með samningum við gömlu eigendurna um afsal eigna og fjármögnun kaupanna á 10 árum með arðgreiðslum frá orkufyrirtækjum, sem það á eða á hlut í. 

Það þarf að efla fjárhag Landsnets samhliða þessu og veita því jafnframt svigrúm til skuldabréfaútgáfu og lántöku, svo að hægt verði að auka fjárfestingar verulega og borga þær niður á löngum tíma í stað gegndarlausra hækkana á gjaldskrá, eins og verið hafa, sem eiga ekki úr þessu að verða umfram byggingarvísitölu, til almennings.

Með þessum hætti fær fyrirtækið fjárhagslegt svigrúm til að semja við heimamenn um raunhæfar lausnir á flutningaleiðum raforku, sem nú eru meira og minna strandaðar.  Það verður ekki hægt að leysa flutningsvandamálin án meira af jarðstrengjum á 132 kV og 220 kV en verið hafa á döfinni, og slíkt kostar meira fé í bráð, en afhendingaröryggi gæti vaxið í kjölfarið og viðhaldskostnaður minnkað. 

Byggðalínan verður að fara  víða í jörðu í byggð, og tæknilega og fjárhagslega verður hægt að koma á nauðsynlegri tengingu á milli Norður- og Suðurlands með jafnstraumsstreng "undir" hálendið á næsta áratugi.  Leysa má fyrst úr bráðum vanda Eyjafjarðar og Norð-Austurlands með meiri orkuvinnslu í Þingeyjarsýslum og flutningi orku þaðan í vestur, norður og austur með nýjum loftlínum og jarðstrengjum.  Þar með verður létt á flutningsþörf eftir Byggðalínu frá Vesturlandi til Norðurlands. Vestfirðir með hratt vaxandi laxeldi og íbúafjölgun þarfnast hringtengingar innan 5 ára á 132 kV.  

Ennfremur er haft eftir prófessor Perez-Arriaga

""En með vaxandi eftirspurn þurfið þið að framleiða meira rafmagn", segir hann og vísar þar til lítilla og meðalstórra notenda.  [Þetta er eins víst og 2x2=4 og mikils vert að fá staðfestingu á því eða hitt þó-innsk. BJo]  "Vandamálið með uppbygginguna hér er að hans sögn, að það vantar oft frumkvæðið, auk þess sem engin opinber orkustefna er til um, hvert stefna skuli í þessum efnum, þ.e. hvort auka eigi framleiðslu og þá hversu mikið, og hvernig orkuvinnsla eigi að vera í forgangi.""

Þetta er hárrétt athugað hjá skýrsluhöfundum og má þá segja, að glöggt sé gests augað.  Orkustofnun veitir virkjanaleyfi, en ræður ekki tímasetningu virkjunar.  Hún ætti að fá slíka þvingunarheimild gagnvart Landsvirkjun, ef stefnir í óefni með orku- eða afljafnvægið.  Orkustefnu ríkisins er brýnt að móta nú á kjörtímabilinu að beztu manna yfirsýn og í kjölfarið, einnig á kjörtímabilinu, eigendastefnu ríkisins fyrir Landsvirkjun, svo að þeir gríðarlegu fjármunir ríkisins, sem þar eru bundnir, nýtist á þjóðhagslega hagkvæmastan hátt. Er það með sæstrengsdaðri og vindmyllulundum ? 

Það er tvennt af því, sem þarf að leiða til lykta með ofangreindri vinnu.  Þegar orkustefna landsins verður mótuð, er brýnt að taka Verkefnastjórn Rammaáætlunar til endurskoðunar, svo að meira faglegt jafnvægi verði í mati á röðun virkjanakosta.  Orkustofnun gæti hæglega yfirtekið þessa vinnu. 

Prófessor Perez-Arriaga skriplar á skötunni í lok frásagnarinnar:

"Perez-Arriaga segir, að miðað við stöðuna í dag og áætlaða þróun í raforkunotkun ættu Íslendingar að geta stundað "business as usual" áfram til 2020 og að ekki sé hætta á skertu orkuöryggi, nema í algerum undantekningartilvikum, t.d. ef komi mjög hlýir vetur eða þurrir og ef ekki næst að safna nægjanlegu miklu í miðlunarlónin yfir sumartímann."

Þetta er mjög vafasöm framsetning á stöðu raforkuafhendingar og jafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar til 2020.  Í fyrsta lagi fara ekki saman hlýir vetur og vatnsskortur, eins og áður er bent á, í öðru lagi er atvinnulífið á öllu norðanverðu landinu nú þegar svelt af völdum flutningsfyrirtækisins og Landsvirkjunar (allt of dýr ótryggð orka) og í þriðja lagi verður afljafnvægið í járnum á veturna eftir að Thorsil kemur inn með fyrri áfanga sinn, 87 MW, þangað til næsta heilsársvirkjun á eftir Þeistareykjum kemst í gagnið. (Búrfell 2 er bara sumarvirkjun.) 

Nýr iðnaðarráðherra og þar með orkuráðherra þarf að láta hendur standa fram úr ermum og brjóta blað að hálfu ríkisvaldsins í málaflokki, þar sem ríkið er beinn gerandi og örlagavaldur um mikla hagsmuni.   

 Aflmestu spennar landsins

 h_my_pictures_falkinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband