Þýzkaland á tímabili Trumps

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, á ættir að rekja til Þýzkalands og Bretlandseyja.  Afi hans, Friedrich Trump, var frá Kallstadt í Pfalz. Nú hafa ummæli ráðamanna í Washington, þar sem köldu hefur blásið til Þýzkalands, NATO og Evrópusambandsins, ESB, valdið Þjóðverjum miklum vonbrigðum, jafnvel hugarangri.  Ástæðan er sú, að auk Þjóðverja sjálfra áttu Bandaríkjamenn mestan þátt í vel heppnaðri endurreisn Vestur-Þýzkalands, Sambandslýðveldisins, eftir heimsátökin og hildarleikinn 1939-1945, og Bandaríkjamenn eiga heiðurinn af traustri staðsetningu þýzku þjóðarinnar í samtökum vestrænna lýðræðisþjóða, þótt Bandaríkjamenn hafi þar auðvitað verið að gæta eigin hagsmuna ekki síður en annarra Vesturlanda í baráttunni við Jósef Stalín og eftirmenn hans í Kreml.  Þjóðverjar hafa síðan vanizt því að njóta skjóls af Bandaríkjamönnum, og nægir að nefna loftbrúna miklu til Vestur-Berlínar og ræðu Johns Fitzgeralds Kennedys við Berlínarmúrinn, "Ich bin ein Berliner", þegar allt ætlaði um koll að keyra af hrifningu í Þýzkalandi.  "Þá var öldin önnur, er Gaukur bjó á Stöng."

Nú hefur efnahagsráðgjafi Trumps, Peter Navarro, ásakað þýzku stjórnina um að möndla ("manipulate") með gengi evrunnar og þannig að misnota Bandaríkin og aðra, af því að evran sé veikari en þýzka markið væri, ef það væri enn í brúki.  Þetta er í raun og veru óboðlegur málflutningur frá æðstu stöðum í BNA.

Þessari gagnrýni úr Hvíta húsinu kunna Þjóðverjar gizka illa, enda er hún afar ósanngjörn.  Þetta kemur í kjölfar hótunar Trumps um að setja 35 % toll á BMW og lítilsvirðandi ummæla um NATO og ESB. Berlín stjórnar brúðuleikhúsinu í Brüssel og hefur undirtökin í Evrópu á öllum sviðum, nema hernaðarsviðinu, en verður nú að hækka framlög sín til varnarmála upp í 2,0 % af VLF eða upp í 60 miaEUR/ár að kröfu Hvíta hússins.  Þetta höfðu aðildarríkin reyndar skuldbundið sig til, þegar ógnin úr austri jókst, en flestir hunzað.  Ef Íslendingar þyrftu að gera hið sama, mundu slík útgjöld ríkissjóðs nema 50 miaISK/ár, sem er talsvert lægra en árlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Íslendingar gætu þetta, en það mundi vissulega koma niður á öllu öðru, sem ríkissjóður fjármagnar.   

Þjóðverjar telja, að Trump eigi sjálfur "sök" á hækkun bandaríkjadals með því að lofa skattalækkunum og auknum fjárfestingum í innviðum, sem hafi leitt til vaxtahækkana Seðlabanka BNA og þar af leiðandi styrkingar bandaríkjadals, USD.  Mikill halli er á viðskiptum BNA við útlönd, og ætlar Trump að breyta þeim halla í afgang.  Þá mun bandaríkjadalur styrkjast enn.  Donald Trump siglir hins vegar ekki lygnan sjó, og virðast demókratar stefna á að koma honum frá völdum ("impeachment"), eins og Richard Nixon, en þó strax á fyrra kjörtímabilinu.  Ef þeir ná meirihluta á þingi árið 2018, gætu þeir rekið karlinn frá völdum í kjölfarið. Þá  verður líf í tuskunum. 

Forseti bankastjórnar Seðlabanka evrunnar, Ítalinn Mario Draghi, heldur stýrivöxtum bankans við núllið og kaupir alls konar skuldabréf, rusl segja sumir, til að örva efnahagslífið utan Þýzkalands.  Fjármálaráðherra Þýzkalands, Wolfgang Schäuble, varaði Draghi við að halda út á þessa braut, en af virðingu við sjálfstæði Seðlabankans lofaði hann Draghi því að gagnrýna hann ekki opinberlega fyrir tiltækið.  Það hafa hins vegar mikilsvirtir þýzkir hagfræðingar gert, t.d. einn af hugmyndafræðingum evrunnar, dr Otmar Issing.

Ein af ástæðum andstöðu Þjóðverja við þessa slökun á peningamálastefnunni var einmitt, að þá mundi viðskiptajöfnuður Þjóðverja vaxa mjög. Fyrirsjáanlegt var, að slíkt mundi skapa óstöðugleika í álfunni og óánægju víða. Nú gera Bandaríkjamenn Þjóðverja að blóraböggli fyrir stefnu, sem hinir síðar nefndu eru andsnúnir, þó að þeir virðist hafa grætt mest á henni.  Það er ekki öll vitleysan eins.  Hinir lágu vextir eru eitur í beinum Þjóðverja, því að þá minnkar ávöxtun af sparnaði þeirra hjá bönkum og líftryggingafélögum, sem starfa líka sem lífeyrissjóðir. Fjármögnun ellilífeyris þýzkrar alþýðu er í uppnámi, því að framlög þýzka ríkissjóðsins til sívaxandi fjölda ellibelgja munu líklega lækka, því að þýzkur vinnumarkaður mun senn skreppa saman, af því að Þjóðverjum hefur brugðizt bogalistin við að fjölga sér.

Viðskiptajöfnuður Þjóðverja er stærri en viðskiptajöfnuður Kínverja, og þar með sá mesti í heimi, og nemur 9,0 % af landsframleiðslu þeirra.  Þetta eru um 3375 EUR/íb eða 412 kISK/íb, og til samanburðar nam viðskiptajöfnuður Íslendinga árið 2016 um 7,1 % af landsframleiðslu, en þar sem landsframleiðsla á mann er hér hærri en í Þýzkalandi, þá var viðskiptajöfnuður á mann hér hærri eða 507 kISK/íb. Ísland og Þýzkaland skera sig að þessu leyti úr í Evrópu með jákvæðum hætti, og þótt víðar væri leitað.

Stærðarmunur þjóðanna gerir það hins vegar að verkum, að Íslendingar liggja ekki undir ámæli fyrir sinn góða árangur, en Þjóðverjar hafa mátt sæta gagnrýni fyrir vikið að hálfu Framkvæmdastjórnar ESB í Brüssel, AGS í Washington, fjármálaráðuneyti BNA og OECD síðan árið 2005, er þeir tóku ákvörðun um að bæta samkeppnishæfni Þýzkalands.  Aðilar vinnumarkaðarins beggja vegna borðsins tóku þá ákvörðun um að halda mjög aftur af umsömdum launahækkunum. Vegna þess að laun í öðrum evrulöndum hækkuðu meira en í Þýzkalandi eftir þetta, virkaði ákvörðun verkalýðssambanda og samtaka atvinnurekenda í Þýzkalandi sem gengislækkun á efnahagskerfið, þýzkar vörur hækkuðu minna en aðrar í verði, eða jafnvel ekkert vegna framleiðniaukningar, og atvinna jókst í Þýzkalandi. Árið 2005 var atvinnuleysi í Þýzkalandi 10,3 %, en árið 2015 aðeins 4,3 %.  Stefnan kennd við Peter Hartz undir forystu jafnaðarmanna við stjórnvölinn í Berlín svínvirkaði. Nú hafa laun tekið að hækka í Þýzkalandi á ný, og árið 2016 hækkuðu þau að jafnaði um 2,3 %, sem er þó innan við þriðjungur raunlaunahækkunar á Íslandi í fyrra. 

Þar sem Ísland er orðið eitt dýrasta land Evrópu, er nú höfuðnauðsyn að fylgja fordæmi Þjóðverja og spenna bogann lágt í komandi kjarasamningum, því að annars brestur strengurinn með þeim afleiðingum, að verðbólgan losnar úr læðingi, öllum til tjóns, og veldur þar mestu tjóni, sem minnst borð er fyrir báru nú. 

Það eru váboðar framundan hjá Þjóðverjum, eins og fleirum. Framleiðnin frá árinu 2008 hefur aðeins aukizt um 0,5 % á ári m.v. 3,25 %/ár áður í vöruframleiðslugeiranum. Í flestum þjónustugeirum hefur framleiðniaukning verið svipuð, og í fjármálageiranum og í opinbera geiranum hefur hún minnkað.  Hið sama er uppi á teninginum víðast hvar í OECD, og þar með í aðalviðskiptalöndum Íslands. 

Mikil skuldsetning dregur úr fjárfestingargetu, sem hægir á tækniframförum, sem yfirleitt leiða til aukinnar framleiðni.  Óðinn í Viðskiptablaðinu var hins vegar 9. febrúar 2017 með merkilega kenningu í ljósi stefnu Trumps um "America First" og innvistun framleiðslunnar, sem hefur þegar átt sér stað í Þýzkalandi.  Fylgir Trump bara strauminum ?:

"Annað, sem gerzt hefur á síðustu árum, er, að viðsnúningur hefur orðið í úthýsingu verkefna til annarra ríkja.  Undanfarna áratugi hafa þróaðri ríki, einkum Vesturlönd og Japan, flutt stóra hluta af frumframleiðslu til ríkja á borð við Kína.  Lengi vel var talað um Kína sem vinnustofu heimsins.  Undanfarin ár hefur orðið viðsnúningur á þessari þróun, og töluvert af framleiðsluferlum, sem áður fóru fram erlendis, hafa verið fluttir heim aftur til Þýzkalands [heim ins Reich - gamalt orðalag - innsk. BJo].  Má sem dæmi nefna, að í málmiðnaði jókst hlutur innlendra aðila í vergri virðisaukningu úr 34 % árið 2008 í 37 % í fyrra.  Í framleiðslu á raftækjum hefur hlutfallið aukizt úr 31 % í 34 % á sama tíma.  Þegar afkastaminni þættir í framleiðsluferlinu eru fluttir heim, kemur það niður á framleiðni í geiranum í heild sinni."

Þrátt fyrir hærri launakostnað heima fyrir, taka framleiðendur þetta skref til baka af ótta við þróun stjórnmála og efnahagsmála erlendis.  Kommúnisminn í Kína gæti verið kominn að leiðarlokum.  Mikið er um uppþot í Kína og fjöldamótmæli vegna spillingar og ódugnaðar embættismanna og svakalegrar loft- og vatnsmengunar.  Að lokum skrifaði Óðinn:

"Hér á landi er vandinn vissulega ekki fólginn í of lágum vöxtum, heldur er þvert á móti æskilegt að lækka vexti verulega.  Þetta [lágir vextir - innsk. BJo] undirstrikar hins vegar þann vanda, sem sem evrusvæðið - og reyndar Vesturlönd almennt, standa frammi fyrir.  Skýrsluhöfundar Commerzbank klykkja svo út með því að benda á, að verði ekki gripið inn í þessa þróun, sé hætt við því, að Þýzkaland stefni í japanskar aðstæður - þ.e. mjög lítinn hagvöxt til lengri tíma litið."

Útlitið í Evrópu er óbeysið.  Í Þýzkalandi sparar fólk mjög til elliáranna með því að leggja fyrir á banka.  Þar er mun minna um fjárfestingar fólks í íbúðarhúsnæði til eigin nota.  Neyzlustigið er tiltölulega lágt, enda Þjóðverjar nýtnir og sparneytnir frá fornu fari.  Þar er sparsemi dyggð.  Þegar gamlingjar Þýzkalands verða orðnir enn fleiri en nú eða um 2035, verður þó enn meira tekið út úr þýzkum bönkum en lagt verður fyrir, og þá mun hagkerfi landsins hafa veikzt svo mjög, að nágrannarnir þurfa ekki lengur að kvarta.  Þá verður margt annað líka með öðru móti en nú.  Framtíðin virðist vera ósjálfbær, en hver veit, nema Eyjólfur hressist.     

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband