5.3.2017 | 08:59
Stórfelld repjuræktun
Repjuræktun gefur meira af sér nú en áður vegna hærri lofthita og aukinnar eftirspurnar afurðanna. Þær eru aðallega olía, t.d. á dísilvélar, og kjarnfóður, sem hentar laxeldinu o.fl. vel. Ávinningurinn við þessa ræktun hérlendis er binding koltvíildis á nægu landi, jafnvel óræktarlandi, og gjaldeyrissparnaður vegna minni innflutningsþarfar dísilolíu og kjarnfóðurs. Ræktun og vinnslu má líklega stunda á samkeppnishæfan hátt hérlendis með lítilsháttar ívilnunum fyrstu 10 árin í nafni gjaldeyrissparnaðar, byggðastefnu og umhverfisverndar. Það getur varla talizt goðgá.
Kunn eru áform Evrópusambandsins (ESB) um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda innan sinna vébanda um 40 % m.v. árið 1990. Þar er Ísland samferða varðandi stóriðju og flug. Nú áforma menn þar á bæ (Brüssel) að setja ESB markmið um 80 % minnkun árið 2050. Það hentar Íslandi ágætlega að taka þátt í því vegna þess, að orkukerfi landsins er nánast kolefnislaust og nægt landrými er til ræktunar og bindingar kolefnis. Ísland nýtur að þessu leyti sérstöðu og náttúrulegs forskots til að verða kolefnishlutlaust árið 2050. Það mun þó ekki gerast áreynslulaust.
Aðalstjórnvaldstækið til að beina starfsemi á kolefnisfríar brautir verður álagning koltvíildisskatts á fyrirtæki, sem losa gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Þann 15. febrúar 2017 samþykkti ESB-þingið, að hann skyldi fyrst um sinn verða 30 EUR/t af CO2. Til að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja innan og utan ESB er ætlunin að leggja koltvíildisskatt á innflutning til ESB-landa. Þá verður kolefnisspor vörunnar áætlað og lagt á sama kolefnisgjald og gildir innan ESB á hverjum tíma, og það mun sennilega hækka á næstu árum.
Hér er um hagsmunamál fyrir íslenzk útflutningsfyrirtæki að ræða, t.d. sjávarútveg og áliðnað. Þau geta jafnað út sín kolefnisspor með ódýrari hætti en að borga kolefnisskatt með samningum um landgræðslu, t.d. við Skógrækt ríkisins eða Héraðsskóga, en olíunotendur á borð við útgerðirnar geta einnig með hagkvæmum hætti fyrir þær samið um kaup á "kolefnishlutlausri" repjuolíu, sem ræktuð yrði á Íslandi. Minna kolefnisspor en hjá öðrum mun veita samkeppnisforskot. Með langtíma sölusamninga í farteskinu yrði fjármögnun repjuolíuverksmiðju ódýrari en ella (minni vaxtakostnaður).
Eins og fram kemur í viðtali Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu 23. febrúar 2017 við verkfræðingana Jón Bernódusson og Gylfa Árnason undir fyrirsögninni: "Repjuræktun heppilegur kostur",
þá er raunhæft að áforma hérlendis framleiðslu á 50 kt/ár af repjuolíu. Til þess þarf að rækta 150 kt af repju á 50 kha (50 þúsund ha = 500 km2), sem er allt að þúsundföldun á núverandi framleiðslu. Skiptiræktun er æskileg, þar sem repja er ræktuð á 2/3 ræktunarlandsins í einu, svo að leggja þarf 75 kha (750 km2) undir þessa ræktun. Þetta er aðeins rúmlega fimmtungur af öllu þurrkuðu og óræktuðu landi hérlendis, svo að hér er aðeins um lítið brot af öllu óræktuðu, ræktanlegu landi að ræða, þegar t.d. sandarnir eru teknir með í reikninginn.
Af hverjum hektara lands fást um 3,0 t af repjufræjum. Í repjuverksmiðju verða m.a. til afurðirnar repjuolía: 1,0 t og repjumjöl: 2,0 t. Olíuna, 50 kt/ár, má bjóða útgerðunum, sem nota um þessar mundir tæplega þrefalt þetta repjuolíumagn sem flotaolíu á skipin.
Fiskeldisfyrirtækin framleiddu árið 2016 um 15 kt af markaðshæfum fiski og nota líklega núna um 50 kt/ár af fóðri. Ekki er ósennilegt, að framleiðsla þeirra muni hafa tvöfaldazt árið 2025. Það verður góður markaður fyrir kjarnfóðurafurð verksmiðjunnar, 100 kt/ár, hjá innlendum landbúnaði og laxeldisfyrirtækjunum. Þau gætu þannig að langmestu leyti sneitt hjá kolefnisskatti ESB eða annarra fyrir sinn útflutning frá Íslandi, en laxeldisfyrirtækin flytja nánast alla sína framleiðslu utan.
Eru þetta loftkastalar eða arðsöm starfsemi ? Um það er fjallað á sama stað og stund í Morgunblaðinu í viðtali við Vífil Karlsson, hagfræðing hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, undir fyrirsögninni:
"Hugað verði að eldsneytisöryggi":
"Áætlað er, að stofnkostnaður verksmiðju, sem gæti framleitt 5000 t af lífdísli á ári, verði um 500 MISK. Samkvæmt viðskiptaáætlun, sem Ólöf Guðmundsdóttir, ráðgjafi, og Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, hafa gert fyrir Samgöngustofu, myndi verksmiðjan skila 15 % hagnaði m.v. gefnar forsendur."
Þetta er ágætis arðsemi fyrir verksmiðju af þessu tagi, og tífalt stærri verksmiðja, sem henta mundi vel innanlandsmarkaði, ætti að verða enn arðsamari vegna meiri framleiðni. Gylfi Árnason hefur hins vegar orð á því í téðu viðtali, að hagkvæmni olíuframleiðslu úr repju sé tvísýn hérlendis m.v. núverandi verð á jarðefnaeldsneyti, en hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu mundi breyta stöðunni.
Blekbóndi hefur lauslega reiknað út heildarframleiðslukostnað og heildartekjur 50 kt/ár repjuolíuverksmiðju og fundið út, að m.v. jarðolíuverð (crude oil) 55 USD/tunnu og koltvíildisskatt 30 EUR/tonn CO2 (=3600 ISK/t olíu), þá stendur reksturinn í járnum. Það er þess vegna áhugavert fyrir hagsmunaaðila að safna saman meiri upplýsingum um þetta verkefni og reikna hagkvæmnina nákvæmar.
Slíka verksmiðju væri kjörið að staðsetja í Húnavatnssýslu við hafnaraðstöðu, því að beggja vegna við sýsluna eru öflugir útgerðarstaðir og útgerðir yrðu líklega aðalviðskiptavinirnir. Repjan kæmi hvaðanæva að af landinu, og raforkan kæmi eftir jarðstreng frá næstu aðveitustöð. Vegna nálægðarinnar við Blönduvirkjun, ætti Byggðalínan að vera aflögufær á þessu svæði.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Samgöngur, Umhverfismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Góð og fróðleg samantekt. Þakka þér fyrir hana.
Mögulega væri hægt að koma skiptiræktun upp í 3/4 hluta, ellegar rækta aðrar olíuríkar plöntur á móti. Engar eins hentugar og Repju en það myndi samt auka nýtni landsins ef það væri mögulegt. Eins er hægt að nýta þá dýrafitu sem fellur til.
Axel Þór Kolbeinsson, 5.3.2017 kl. 19:28
Enn sniðugra..https://www.facebook.com/hemp4future2O16/photos/a.351119001604967.88729.351116751605192/1433449320038591/?type=3
Guðmundur Böðvarsson, 6.3.2017 kl. 06:15
Það leynast áreiðanlega mörg tækifæri í stórfelldri ræktun á Íslandi til olíu- og mjölvinnslu. Loftslagsbreytingar fela ekki einvörðungu í sér ógnanir, heldur einnig arðsama möguleika á ýmiss konar bindingu koltvíildis og fjölbreytilegri framleiðslu samfara henni.
Bjarni Jónsson, 6.3.2017 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.