9.4.2017 | 20:45
Kolefnisgjald hér og þar
Að hálfu ríkisstjórnar Íslands hefur verið boðuð tvöföldun kolefnisgjalds á jarðefnaeldsneyti. Það er stórt stökk og ósanngjarnt, nema neytendur hafi skýran valkost til að beina orkunotkun sinni á umhverfisvænni braut. Hið sama þarf helzt að vera fyrir hendi, þar sem fjármagna á samgöngubætur neð veggjaldi, t.d. ýmis jarðgöng, Sundabraut o.s.frv.
Svo er ekki, á meðan flutningskerfi og jafnvel dreifikerfi raforku er með þeim hætti í landinu, að það annar nánast engri viðbótar raforkunotkun. Jafnvel fiskimjölsverksmiðjur, sem fjárfest hafa stórfé í rafmagnskötlum, fá ekki rafmagn, og aðrar fá það með afarkostum vegna skorts á nýjum virkjunum. Framboð raforku er of lítið, og svo mun iðulega verða, á meðan virkjunaraðilar græða meira á skorti en auknu framboði. Þarna verða neytendur fórnarlömb, og stjórnvöldum ber að breyta þessu með hvötum til nýrra virkjana, þegar hillir undir orku- eða aflskort. Slíkt ætti að setja fram í orkustefnu ríkisins, sem nú er í smíðum.
Helztu raforkufyrirtæki landsins eru alls ekki á sömu blaðsíðunni í þessum efnum. Forstjóri stærsta fyrirtækisins, Landsvirkjunar, hefur lýst því yfir, að hækka verði raforkuverðið, og hann beitir alls konar meðulum í þá átt. Forstjóri þess næststærsta segir, að ekkert þurfi að virkja fyrir orkuskiptin, hvað þá fyrir aðra almenna notkun á næstunni. Forstjóri HS Orku segir aftur á móti, að orkuskortur sé og að nauðsynlegt sé að virkja. Tveir hinir fyrrnefndu, fulltrúar fyrirtækja í opinberri eigu, hafa rangt fyrir sér, en sá þriðji, fulltrúi einkafyrirtækis, hefur rétt fyrir sér. Með orkustefnu ríkisins þarf að stilla saman strengi, svo að allir haldi í sömu átt, þangað sem er nægt framboð á orku án raunverðhækkana m.v. núverandi verðlag, og þangað sem allir geta fengið þá orku, sem þá lystir, á samkeppnishæfu verði.
Það verður að gera þá sanngirniskröfu til stjórnvalda, að þessi mikla hækkun á kolefnisgjaldi, sem er réttlætanleg við réttar aðstæður, komi ekki til framkvæmda fyrr en flutnings- og dreifikerfið hefur verið styrkt, svo að fullnægjandi sé fyrir orkuskiptin, og virkjað hefur verið nægjanlega fyrir rafkatlamarkaðinn og önnur orkuskipti.
Kanada er gríðarlegt vatnsorkuland, sem Ísland á í samkeppni við um orkuverð til stóriðju, en Kanada er líka mikið eldsneytisland, sem brennir kolum til raforkuvinnslu og vinnur olíu með "sóðalegum" hætti úr tjörusandi og sendir hana til risans sunnan landamæranna, sem er eldsneytishít.
Kanadamönnum hefur gengið illa með skuldbindingar sínar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og sögðu sig þess vegna frá Kyoto-samkomulaginu. Íslendingar fengu hins vegar sérákvæði þar um 10 % aukningu m.v. 1990 vegna stóriðju, sem knúin væri endurnýjanlegri orku. Það hefur sparað andrúmsloftinu a.m.k. 10 Mt/ár af gróðurhúsagösum. Samt setja sumir upp þröngsýnisgleraugun og gagnrýna þetta ákvæði samningsins. Þeir munu seint verða taldir vera lausnarmiðaðir.
Nú eru Kanadamenn að snúa þróuninni við og ætla í fyrsta sinn að mynda landsstefnu í stað einvörðungu fylkjastefnu um leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hér verður endursagður hluti af greininni "Walking the walk" (ekki "Walking the Talk") í The Economist 17. desember 2016, sem fjallar á áhugaverðan hátt um þetta:
"Að tala er auðvelt. Síðan 1997 hefur Kanada staðfest 5 alþjóðlega samninga og lofað að minnka losun gróðurhúsagasa. Samt hefur aldrei verið mynduð ríkisstefna um málefnið. Þess í stað hafa fylkin 10 og svæðin 3 haft frelsi til athafna að eigin vild.
Fylki, sem auðug voru af fossorku, s.s. Quebec og Ontario, lögðu sig í framkróka, og í Brezku Kólumbíu, BC, var jafnvel lagður á kolefnisskattur. Aftur á móti sátu miklir framleiðendur jarðefnaeldsneytis á borð við Alberta aðgerðalausir.
Niðurstaðan var fyrirsjáanlega slæm. Á árinu 1990, viðmiðunarári Kyoto, nam losun landsins 613 Mt af koltvíildisígildum og hafði árið 2014 hækkað upp í 732 Mt, sem var 9. mesta losun í heiminum. Kanada dró sig út úr Kyoto-samkomulaginu 2011, þegar ljóst var, að landið næði ekki áformum sínum.
Eftir nærri tvo áratugi aðgerðaleysis gæti Kanada nú hafa náð vendipunkti í þessum efnum. Þann 9. desember 2016 lýstu forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, og 11 af 13 forsætisráðherrum fylkja og svæða, því yfir, að þeir hefðu náð samkomulagi um loftslagsáætlun.
Áætlunin felur í sér mismunandi leiðir fyrir fylki og svæði og tvö forgangsatriði ríkisins: árið 2018 verður hvert fylki að hafa innleitt annaðhvort kolefnisgjald eða framseljanlegt kvótakerfi á koltvíildi að verðgildi CAD 10 (USD 7,5, EUR 7,0, ISK 849) á tonnið, sem skuli hafa hækkað upp í CAD 50 (USD 37,5, EUR 35,0, ISK 4245) árið 2022. Árið 2030 verður ekki lengur heimilt að brenna kolum í raforkuverum. Verði þetta raungert, þá mun landið eiga möguleika á að ná markmiði sínu 2030 um losun að hámarki 523 Mt."
Það eru nokkur atriði, sem vekja athygli í þessari frásögn af gangi loftslagsmála í Kanada. Í fyrsta lagi lausatök ríkisstjórnarinnar í Ottawa fram að þessu, sem eru dæmigerð um kæruleysi flestra ríkisstjórna frá Kyoto-samkomulaginu um 1995 til Prísarsamkomulagsins 2015. Þessi léttúð getur orðið afdrifarík fyrir hitastig lofthjúpsins, þó að öll nótt sé ekki úti enn.
Þá er athyglisvert, að aðferð Kanadamanna til að knýja fram minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda er tvíþætt, þegar þeir loksins taka við sér. Annars vegar fara þeir markaðsleiðina með kvótaviðskiptum, stigminnkandi úthlutunum á losunarheimildum til fyrirtækja, sem þeir búast við, að leiði til 5-földunar kvótaverðs á 5 ára tímabilinu 2018-2022, og hins vegar beita þeir skattlagningu á jarðefnaeldsneytið og ætla að banna kolabrennslu árið 2030. Hið síðast nefnda eru stórtíðindi í Vesturheimi. Reyndar hefur nýting kolavera í Kína minnkað úr 60 % árið 2010 og undir 50 % 2017 og á Indlandi úr 75 % og í 55 % á sama tímabili vegna samkeppni frá öðrum orkugjöfum.
Sunnan landamæranna ætlar Bandaríkjaforseti að aflétta hömlum af kolaiðnaðinum. Hann mun ekki geta snúið þróuninni við. Hann er eins og fornaldareðla að þessu leyti, og áhrif hans munu ekki marka nein framtíðarspor, heldur verða Bandaríkjunum tímabundið til trafala og minnkunar og aðeins tefja fyrir nauðsynlegri þróun í átt til kolefnisfrírrar framtíðar; þó ekki einu sinni um 4 ár, því að sum ríki BNA munu einfaldlega halda sínu striki í þessum efnum, sbr Kalifornía og Nýja Jórvík.
Það vekur jafnframt athygli, að markmið Kanadamanna er um aðeins 15 % minni losun árið 2030 en 1990, sem er helmingurinn af hlutfallslegu markmiði EES-ríkjanna. Þetta sýnir, að ESB ætlar að ganga á undan með góðu fordæmi á pappírnum, en hver reyndin verður er önnur saga, því að t.d. brennsla kola í orkuverum Evrópu hefur vaxið á undanförnum árum vegna misheppnaðrar orkustefnu, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri.
Íslendinga bíða mikil tækifæri í hlýnandi loftslagi og við að fást við hlýnun andrúmslofts. Grænkustuðull landsins, þ.e. magn græns gróðurs, hefur á 30 ára tímabili, 1980-2010, aukizt um 80 %, og vaxtarhraði birkis hefur 8-faldazt m.v. árin í kringum 1970. Þetta hefur góð og marktæk áhrif á framleiðni og samkeppnishæfni íslenzks landbúnaðar og gerir kleift að rækta með góðum árangri tegundir, sem áður var undir hælinn lagt með, s.s. korntegundir og repju. Boðuð hækkun kolefnisgjalds mun sennilega gera það að verkum, að stórfelld repjuræktun til framleiðslu á t.d. 50 kt/ár af eldsneyti og 100 kt/ár af mjöli verður arðsöm. Markaður verður fyrir alla þessa framleiðslu innanlands, þar sem eru olíufélögin og laxeldisfyrirtækin o.fl.
Þá mun binding koltvíildis á hvern ha skóglendis hérlendis vaxa, sem gerir íslenzka skógarbændur vel samkeppnishæfa um verð á koltvíildiskvóta á Evrópumarkaði, ef hann þróast með svipuðum hætti og ráðgert er í Kanada, en m.v. bindingu á 5,0 t/ha CO2 var kostnaðurinn hérlendis 2015 undir 30 USD/t, og hefur lækkað síðan vegna gengisstyrkingar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Umhverfismál, Utanríkismál/alþjóðamál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni. Hvaða leikur er þetta með kolefnisskatt og mengun á hvern íbúa. Reikna þessir reiknimeistarar okkar með heildar íbúafjölda með öllum flóttamönnum og verkamönnum eða taka þeir æ´gstu tölur hverju sinni og kannski aftur í tíman s.s. 2013 eða svo. Það væri gaman að sjá þessar formúlur sen notaðar eru til að mikla mengun á hvert mannsbarn. Nánast öll hús eru hituð með umhverfisvænni orku. Hér koma heilu flotarnir og taka olíu a bæði skip og flugvélar.Blæðum við fyrir það. Ég hef alltaf haldið að það væri maðkur í misunni í þessum efnum.
Valdimar Samúelsson, 10.4.2017 kl. 10:39
Þegar heildarstærðum er deilt á íbúa, er miðað við ríkisborgara í viðkomandi landi, tel ég vera. Það er auðvitað mikil losun hér vegna metfjölda bíla á íbúa, m.a. vegna um 20 þús bílaleigubíla, og mikils iðnaðar. Flugið slær hins vegar allt út og losar álíka mikið af CO2 og allt hitt til samans vegna gegndarlauss ferðamannafjölda, en yfir 90 % þeirra koma flugleiðis. Það er verið að þróa rafhreyfla fyrir flugvélar, en þeir komast ekki mikið í umferð næstu 20 árin.
Bjarni Jónsson, 10.4.2017 kl. 13:20
Þakka Bjarni. Mér finnst þetta ekki sanngjörn formúla og það er líka skrítið að fiskibátar/togarar sem skaffa milljónum manna fæðu í öðrum löndum skulu lenda í þessari CO2 súpu.
Það vantar að viðkomandi akademía hafi okkur í huga en ekki hve mikið hægt er að leggja á okkur kolefnis skatta.
Valdimar Samúelsson, 10.4.2017 kl. 13:57
Millilandaskipin eru ekki með í landsbókhaldinu frekar en millilandaflugvélar, og aðeins olía, sem fer á fiskiskip, sem skráð eru hér á landi, telst með olíunotkun sjávarútvegsins auk þess, sem landvinnslan notar, aðallega í fiskimjölsverksmiðjum.
Íslenzki sjávarútvegurinn stendur mjög vel að vígi í alþjóðlegum samanburði, hvað olíunotkun varðar á hvert veitt eða unnið tonn, og einnig í samanburði við aðrar atvinnugreinar hérlendis. Hann getur notfært sér tiltölulega lítið og minnkandi kolefnisspor sitt við markaðssetningu afurðanna.
Jafnvel fiskur, sem flogið er héðan með farþegaflugvélum til meginlands Evrópu eða Bandaríkjanna, er með minna kolefnisspor á endanum en norskur fiskur, sem ekið er alla leið til meginlandsins frá Noregi (og siglt á bílaferjum).
Bjarni Jónsson, 10.4.2017 kl. 15:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.