Skólakerfi í úlfakreppu

Í fersku minni er slök og versnandi frammistaða íslenzkra 15 ára nemenda á 6. PISA (Programme for International Student Assessment) prófunum árið 2015. Ætlunin með þessum prófum er að veita skólayfirvöldum í hverju landi innsýn í árangur grunnskólastarfsins með alþjóðlegum samanburði. 

Ekkert hefur þó enn verið látið uppskátt um úrbótaviðleitni íslenzkra yfirvalda og legið er á upplýsingum um frammistöðu einstakra skóla sem ormur á gulli.  Þessi fælni við að horfast í augu við vandann og doði í stað þess að ganga til skipulegra úrbóta er einkennandi fyrir þrúgandi miðstýringu og fordóma gagnvart einkaframtaki í þessum geira og reyndar fleiri.  Samkeppni er þó einn þeirra hvata, sem bætt geta árangur skólanna. Er keppnisandi ekki hluti af manneðlinu og þar af leiðandi öfugsnúið að forðast hann ?  Það vantar nýja stefnumörkun í skólamálin til að snúa af þeirri óheillabraut, sem PISA-prófin 2015 sýndu, að íslenzkir grunnskólar eru á.  Vandi grunnskólanna flyzt auðvitað með nemendunum upp í framhaldsskólana eða út í þjóðlífið. Það er í verkahring nýs mennta- og menningarmálaráðherra að hafa forgöngu um  stefnumörkun í menntakerfinu, sem hafi að markmiði bættan árangur eigi síðar en 2021.

Framkvæmd grunnskólastarfs er í verkahring sveitarfélaganna, en ríkisvaldið samræmir starfið með Aðalnámskrá, sem öllum ber að fara eftir.  Hvernig skyldi nú vera staðið að skólamálum í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavík, sem oft á árum áður gaf tóninn, en er nú orðin eftirbátur annarra sveitarfélaga í mörgu tilliti ?  Um það skrifar Áslaug María Friðriksdóttir í Morgunblaðsgreininni:

"Þreyttar áætlanir og lævís leikur", þann 22. apríl 2017:

"Gott samfélag býr að góðu menntakerfi.  Matið er einfalt.  Gott menntakerfi er samanburðarhæft við menntakerfi annarra ríkja [þ.e. stenzt samjöfnuð-innsk. BJo].  Árangur íslenzkra nemenda í lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði hefur hins vegar versnað síðastliðinn áratug og er verri en í samanburðarlöndum okkar.  Um þetta er enginn ágreiningur.  Því hefði mátt halda, að helzta áherzla meirihluta borgarinnar yrði að líta á málið sem algjört forgangsmál og leggja allt á vogarskálarnar [rangt orðalag, ef átt er við að leggja allt í sölurnar-innsk. BJo] til að gera betur.  Því miður blasir annað við.

Að skerða fjármagn til skólanna hefur verið helzt á dagskrá meirihlutans.  Skólastjórnendur hafa þurft að standa í karpi og mikilli baráttu við að fá skilning um, að ekki sé hægt að ná meiri árangri með slíkum hætti.  Hvergi hefur orðið vart við, að skólafólk fái hvatningu til að vinna að breytingum til að mæta slökum árangri.  Meirihlutinn hefur einnig staðið í vegi fyrir, að upplýsingum um árangur verði miðlað á þann hátt til skólanna, svo að þeir geti notað þær til að efla eigið starf.

Ljóst er, að hér verður að gera betur.  Vinna verður að því að fá fram breytingar á kennsluháttum og breytingar á aðbúnaði.  Menntastofnanir verða fyrst og fremst að geta sinnt kennsluhlutverki sínu.  Nauðsynlegt er að skýra línurnar og verja menntaþáttinn."

Hér er kveðinn upp þungur áfellisdómur yfir viðbrögðum borgaryfirvalda við niðurstöðum PISA 2015.  Ljóst er, að annaðhvort skilja borgaryfirvöld ekki til hvers PISA er eða þau nenna ekki að fara í nauðsynlega greiningarvinnu og úrbótaverkefni í kjölfarið.  Ríkjandi meirihluta vantar sem sagt hæfileika til að veita leiðsögn í þessu máli.  Borgaryfirvöld eru stungin svefnþorni, þau eru ófær um að veita nokkra vitræna forystu.  Stjórnendur af þessu tagi eru á rangri hillu og eiga skilda falleinkunn fyrir frammistöðu sína, sem jafngildir brottrekstri úr starfi eigi síðar en við næstu borgarstjórnarkosningar. 

Það er nauðsynlegt að fylgjast með því, hvað í ósköpunum fer fram í skólastofunum og gefur svo slakan námsárangur sem raun ber vitni um.  Af lauslegum viðræðum blekbónda við 15 ára nemendur virðist honum, að þekkingarstig þeirra komist ekki í samjöfnuð við þekkingarstig jafnaldra nemenda, sem þreyttu og náðu Landsprófi á sinni tíð, en það var þá inntökupróf í menntaskóla. Þetta er aðeins óformleg og lausleg athugun, sem e.t.v. veitir vísbendingu, og þekking 15 ára nemenda nú og fyrir hálfri öld er jafnvel ekki sambærileg. Í hvað fer tími nemenda nú um stundir ?

  Það þarf að beina sjónum að kennurunum, menntun þeirra og færni, og veita þeim umbun fyrir árangur í starfi, sem er að vissu marki mælanlegur sem einkunnir nemenda þeirra.  Standa kennarasamtökin e.t.v. gegn aðgerðum, sem bætt gætu árangur nemenda, ef hægt er að kenna slíkar aðgerðir við samkeppni á milli kennara ?  Hvers vegna er heilbrigð samkeppni á milli nemenda, kennara og skóla eitur í beinum sumra kennara og jafnvel stéttarfélagsins ?  Er ekki tímabært að losa sig við fordóma, sem standa skjólstæðingum kennara og hag kennara fyrir þrifum ?  Til að virðing kennara á Íslandi komist í samjöfnuð við virðingu stéttarsystkina þeirra í Finnlandi, sem hafa náð góðum árangri með nemendur sína á PISA, þarf mælanlegur árangur íslenzkra kennara að batna til muna.

Það vantar ekki fé í málaflokkinn, því að samkvæmt OECD batnar árangur óverulega við að setja meira en nemur 50 kUSD/nemanda alla hans grunnskólatíð í skólastarfið, að teknu tilliti til kaupgetu í hverju landi (purchasing power parity 2013), og hérlendis er varið mun hærri upphæð á hvern grunnskólanemanda. Það, sem vantar, er skilvirkni, mælanlegur árangur fjárfestingar í þekkingu ungviðisins.

 Bretland, Bandaríkin, Austurríki, Noregur, Sviss og Lúxemborg vörðu meira en tvöfaldri þessari upphæð samkvæmt athugun OECD árið 2013 í kennslu hvers nemanda, en nemendur þeirra náðu þó aðeins miðlungsárangri, um 490 stigum, á PISA 2015.  Íslenzkir nemendur voru undir þessu meðaltali í öllum prófgreinum, og árangur þeirra fer enn versnandi. Þetta er svo hraklegur árangur, að furðu má gegna, hversu lítil og ómarkviss viðbrögðin urðu. Það er pottur brotinn í grunnskólanum, og það er einfaldlega ekki í boði að stinga hausnum í sandinn gagnvart vandamálinu, því að framtíð landsins er í húfi.  Vendipunktur þarf að verða nú þegar, en mælanlegra framfara er þó ekki að vænta fyrr en 2021.   

Góður efnahagur og meiri jöfnuður hérlendis en í öllum 72 löndum þeirra 540´000 þúsund nemenda, sem þreyta PISA-þrautirnar, gera að verkum, að lélegur árangur Íslands á PISA er með öllu óeðlilegur.  Í OECD eru "fátækir" nemendur nærri þrisvar sinnum líklegri en nemendur í góðum efnum til að búa yfir minna en grunnfærni í raungreinum (science).  Nemendur, hverra foreldrar eru fæddir erlendis, koma jafnvel enn verr út.  Engu að síður eru 29 % fátækra barna á meðal 25 % hæstu nemendanna innan OECD.  Í Singapúr, Japan og Eistlandi, sem öll fengu yfir 525 stig árið 2015 og eru jafnan á meðal hinna beztu, er nálægt 50 % fátækra nemenda í efsta kvartili stiga (meðaleinkunnar).  Í þessu er fólginn hinn mikli og æskilegi þjóðfélagsjöfnunarkraftur skólakerfisins, þar sem hæfileikar fá að njóta sín án tillits til efnahags, en með dyntóttri doðastefnu sinni eru skólayfirvöld á Íslandi mest að bregðast þeim skjólstæðingum sínum, sem sízt mega við slíku.  Viðkomandi starfsmenn bregðast þá jafnframt hlutverki sínu.  Menntamálaráðherra verður að beita valdi sínu og beita áhrifavaldi, þar sem boðvald skortir.  Annars lendir hann í súpunni. 

Framhaldsskólarnir eru háðir fjárframlögum ríkisins.  Rektor Háskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, segir farir sínar ekki sléttar í baráttunni um hlutdeild í ríkisútgjöldum í grein í Fréttablaðinu 12. apríl 2017:

"Fjárfestum í framtíðinni:

"Það er óumdeilt meðal framsýnna ríkja í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu, að opinber fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun, hefur bein áhrif á framleiðni, hagvöxt og ný störf.  Þannig er í nýrri skýrslu Evrópusambandsins fullyrt, að rekja megi 2/3 hagvaxtar í Evrópu á tímabilinu 1995-2003 til þekkingarsköpunar, en áhrifin voru mest í Bretlandi (50 %) og Finnlandi (40 %) og minnst (innan við 10 %) í löndum á borð við Ungverjaland, Grikkland og Slóveníu.  Tölurnar tala skýru máli: opinber fjárfesting í menntun og rannsóknum er fjárfesting í samkeppnishæfni og farsæld til framtíðar."

Það er tvennt, sem ekki er skýrt í þessum texta rektors.  Annað er, hvernig 2/3 (67 %) hagvaxtar í ESB á tilteknu tímabili geti átt rætur að rekja til "þekkingarsköpunar", ef mestu áhrifin í einu landi voru 50 % ?  Hitt er, hvers vegna þessi áhrif eru bundin við opinberar fjárfestingar ?  Einkafjárfestingar eru venjulega hnitmiðaðri, markvissari og árangursríkari í krónum mældar. Um meginniðurstöðu rektors þarf þó ekki að deila.   

Háskóli Íslands er búinn að dreifa kröftunum mjög með ærnum tilkostnaði og má nefna doktorsnám í nokkrum greinum sem dæmi.  Honum væri nær á tímum aðhaldsþarfar að einbeita kröftunum að nokkrum greinum á borð við verkfræði, þar sem mjög mikið vantar upp á aðstöðu til verklegrar þjálfunar, t.d. í rafmagnsverkfræði, læknisfræði í samstarfi við Háskólasjúkrahúsið, lögfræði, sem sniðin er að íslenzkri löggjöf og íslenzk fræði og fornbókmenntir, sem hvergi er eðlilegra að rannsaka en hér. Í íslenzkum fræðum er óplægður akur innan háskólasamfélagsins að rannsaka, hvernig íslenzkar bókmenntir spruttu upp af hinum gelíska arfi landnámsmanna, og hvernig gelísk orð voru felld inn í íslenzkuna. Hvers vegna er verið að festa fé í monthúsi á borð við hús tungumálanna á undan góðum tilraunasölum á sviði verkfræði eða Húsi íslenzkra fræða, sem vinstri stjórnin skyldi við sem forarpytt ?

Grein háskólarektors er rituð til að brýna stjórnvöld til að breyta 5 ára fjármálaáætlun ríkisins þannig, að fjárveitingar úr ríkissjóði nái meðaltali OECD.  Slíkt er verðugt markmið í lok áætlunartímabilsins, en stúdentar hér eru margir á hvern íbúa landsins.  E.t.v. væri ráð að setja á hófleg skólagjöld, t.d. 100 kISK/önn ofan á innritunargjöld, samhliða styrkjakerfi lánasjóðsins á móti, sem tengt væri árangri í námi, til að bæta úr brýnasta fjárhagsvanda skólans.  

Það er einfaldlega svo, að mjög mikil fjárfestingarþörf er í öllum innviðum landsins núna eftir óþarflega langdregna efnahagslægð vegna rangra stjórnarhátta í kjölfar hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu 2007-2009, sem Íslendingar voru berskjaldaðir fyrir vegna oflátungslegrar hegðunar, sem aldrei má endurtaka sig. Á sama tíma ber brýna nauðsyn til að greiða hratt niður skuldir ríkissjóðs til að spara skattgreiðendum óhóflegan vaxtakostnað, auka mótlætaþol ríkisins í næstu kreppu og hækka skuldhæfiseinkunn ríkisins, sem lækka mun vaxtaálag í öllu hagkerfinu.  Kostnaðarbyrði fyrirtækja og einstaklinga áf völdum skattheimtu er nú þegar mjög há á mælikvarða OECD og litlu munar, að stíflur bresti og kostnaðarhækkanir flæði út í verðlagið.  Skattahækkanir eru þess vegna ekki fær leið.  Gríðarlegar raunhækkanir útgjalda ríkisins þessi misserin skjóta skökku við í þensluástandi, eins og nú ríkir, þannig að rekstrarafgangur ríkissjóðs þyrfti helzt að vera þrefaldur á við áætlaðan afgang til að treysta fjármálastöðugleikann. 

Rektor Háskóla Íslands verður að laga útgjöld skólans að tekjum hans á þrengingaskeiði, sem að óbreyttu mun standa í 2-3 ár enn.  Þetta verður hann að gera í samráði við menntamálaráðuneytið, eins og aðrir ríkisforstjórar verða að gera í samráði við sitt ráðuneyti.  Að æpa í fjölmiðlum á hærri peningaútlát úr ríkissjóði en rétt kjörin stjórnvöld hafa ákveðið og Alþingi hefur staðfest, verður þeim sízt til sóma. Ríkisstofnunum, eins og einkafyrirtækjum og einstaklingum, gagnast fjármálalegur stöðugleiki betur en há verðbólga.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Því miður stefnir allt í að núverandi meirihluti í Reykjavík muni halda völdum. Ekki vegna þess að hann standi sig vel, þvert á móti. Ástæðan liggur fyrst og fremst í því að minnihlutanum tekst ekki að nýta sér óstjórnina á borginni. Þó vissulega séu þetta allt ágætir einstaklingar sem mynda minnihluta í Reykjavík, er einna líkast því að þeir séu ekki á réttri hillu, hafa ekki það til að bera að verða leiðandi fyrir borgina. Þetta er frekar sorglegt.

Nú er það svo að stæðsti stjórnmálaflokkur landsins býr að mörgu góðu, réttsýnu og rökföstu fólki. Þarf ekki annað en fylgjast með þessari bloggsíðu til að staðfesta það. Það er því lífsspursmál fyrir borgina að flokknum auðnist að finna einstaklinga sem búnir eru kostum og forystuhæfileikum, til framboðs í Reykjavík að ári.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 27.4.2017 kl. 21:02

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég er alveg sammála þér, Gunnar Heiðarsson, um vandamálið í borgarstjórn.  Rök ein og sér duga ekki til að vinna kosningar.  Það þarf táknmynd andstæðunnar við afturhaldið, sem fólk treystir til að leiða nýjan meirihluta til breytingastjórnunar almenningi í vil.  Það þarf að gera róttækar breytingar á stefnu borgarinnar og á öllu stjórnkerfi hennar.

Bjarni Jónsson, 28.4.2017 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband