Sjávarútvegur í stórsjó

Stjórnendur í sjávarútvegi horfast nú í augu við óhagstæð viðskiptakjör vegna sterkrar krónu, ISK, fremur lágs fiskverðs, að neikvæðum áhrifum  hásetaverkfalls ógleymdum, og aukins kostnaðar við mannahald í kjölfar sama tveggja mánaða verkfalls. Að geta ekki sinnt föstum viðskiptavinum um langa hríð tekur tíma að bæta fyrir á erlendum mörkuðum. 

Til að létta lundina eru þó fremur jákvæð tíðindi af lífríki hafsins um þessar mundir, sem gefa von um lækkaðan tilkostnað á sóknareiningu og fleiri þorskígildistonn á fiskveiðiárinu 2017/2018 en á yfirstandandi fiskveiðiári. Um þetta segir í Morgunblaðsfrétt, 19. apríl 2017, undir fyrirsögninni:

"Þorskstofninn hefur ekki mælst sterkari":

"Verkefnastjóri [Hafrannsóknarstofnunar í marzralli 2017] var Jón Sólmundsson, fiskifræðingur, og segir hann í samtali við Morgunblaðið, að í heildina séu niðurstöður rallsins jákvæðar.  Þær megi einkum þakka góðu ástandi í sjónum við landið, og að skynsamlega sé staðið að veiðum, þar sem byggt er á aflareglu í mörgum tegundum."

Sem kunnugt er hefur aflamark í þorski og fleiri tegundum iðulega frá miðjum 9. áratug síðustu aldar verið skorið stórlega niður með lækkandi stofnvísitölum samkvæmt mælingum og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, frá því að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp, og á fiskveiðiárinu 2016/2017 er ráðgjöfin enn undir því marki, sem ráðlagt var fyrir 40 árum. 

Uppbygging stofnanna hefur kostað langvinnar fórnir, en það er tvímælalaust heillavænlegt að ganga ekki of nærri hrygningarstofnunum með því að beita aflareglu á hverja tegund samkvæmt viðurkenndri vísindalegri þekkingu.  Hitt er annað mál, að þessi þekking er enn gloppótt og efla þarf mjög vísindarannsóknir á lífríki hafsins til að skjóta traustari stoðum undir veiðiráðgjöfina. Eyrnamerkja á hluta veiðigjaldanna rannsóknarverkefnum og fjárfestingum í búnaði hjá Hafrannsóknarstofnun, eins og ætlunin var við setningu laga um þessa umdeilanlegu gjaldtöku.

Samkeppnin knýr fyrirtækin til frekari hagræðingar; ekki sízt á tímum minnkandi tekna og lakari framlegðar.  Það blasir t.d. við hjá HB Granda að sameina þurfi bolfiskvinnslu í Reykjavík og á Akranesi á einum stað.  Nú er lagt upp í Reykjavík og ekið með óunninn fisk þaðan til vinnslu á Akranesi, og tilbúinni vöru er ekið til baka eða til Keflavíkurflugvallar.  Þessi akstur bætir ekki gæði vörunnar, er óumhverfisvænn, eykur við mikla vegumferð og er kostnaðarsamur.  Þar sem aðstaða fyrir alla starfsemina er ófullnægjandi á Akranesi, en fullnægjandi í Reykjavík, er eðlilegt, að fyrirtækið kjósi að sameina alla starfsemina í Reykjavík. 

Akranes er ekki "brothætt byggð", heldur kaupstaður með mikla atvinnustarfsemi og nýtur góðs af mikilli iðnaðarstarfsemi á Grundartanga.  Fyrirtæki, sem starfa á frjálsum markaði, verða að hafa svigrúm til þeirrar hagræðingar, sem þau telja gagnast bezt til lengdar starfsemi sinni.  Reykjavík, Akranes og Grundartangi eru í raun eitt atvinnusvæði vegna Hvalfjarðarganga, og nú eru jafnvel ferjusiglingar yfir til Reykjavíkur í bígerð. 

Ef Faxaflóahafnir ætla að byggja samkeppnishæfa bryggjuaðstöðu á Akranesi til að þjóna HB Granda þar, er fyrirtækið komið með mjög sterka samningsstöðu og getur í raun "deilt og drottnað".  Er það ákjósanleg staða fyrir Akranes og Reykjavík ?  Hefur málið verið hugsað til enda ?

Morgunblaðið gerði skilmerkilega grein fyrir þessum hagræðingarmálum HB Granda 29. marz 2017 undir fyrirsögnunum:

"Vildu flutning til Akraness 2007" og "Sameina vinnslurnar til að hagræða".

Undir þeirri seinni skrifaði Guðni Einarsson:

"HB Grandi er að setja upp botnfiskvinnslu á Vopnafirði.  Vilhjálmur [Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda] sagði það gert til að skapa vinnu allt árið fyrir fólk, sem starfar þar í uppsjávarvinnslu.  Stefnt er að því að vinna þar um 700 t af þorski í ár á milli uppsjávarvertíða.  Um 40 starfsmenn uppsjávarfiskvinnslunnar munu starfa við botnfiskvinnsluna.  Til samanburðar voru unnin um 7300 t af þorski á Akranesi í fyrra. 

HB Grandi keypti í haust veiðiheimildir upp á 1600 þít, og verður hluti heimildanna unninn á Vopnafirði. HB Grandi keypti hátt í 4000 t af botnfiski á mörkuðum í fyrra [2016].  Þar af voru rúm 3000 t af ufsa, sem unnin voru í Reykjavík.  Félagið ætlar að hætta að kaupa fisk á mörkuðum.  Vilhjálmur sagði, að gengju áform félagsins eftir, yrði vinnsla 7300 t flutt frá Akranesi til Reykjavíkur.  Heildarvinnslan þar mundi þá aukast úr um 21 kt í 24 kt á ári."

Stefna HB Granda er af þessu að dæma að styrkja tvær vinnslustöðvar í sessi hérlendis; aðra á suðvestur horninu og hina á norðaustur horninu.  Það er verið að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins með því að auka framleiðnina og framleiðsluna á báðum stöðunum, tryggja virðiskeðjuna frá veiðum til viðskiptavinar í sessi og draga úr áhættu varðandi landshlutatengd áföll og bæta gæðatryggingu vörunnar.  Allt rímar þetta vel við heilbrigða skynsemi, og yfirvöld ættu ekki að reyna með yfirlýsingum út í loftið eða skammsýnum aðgerðum að reyna að hafa áhrif á þá óhjákvæmilegu og að mörgu leyti jákvæðu atvinnuþróun, sem hér fer fram. 

Þegar stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja standa frammi fyrir eða hafa tekið erfiðar, en að sínum dómi nauðsynlegar ákvarðanir í hagræðingarskyni, þá skal ekki bregðast, að upp hefjist ógeðfelld umræða, oft pólitískt lituð, um sérgæzku og jafnvel mannvonzku þeirra, sem ábyrgðina bera, svo að ekki sé nú minnzt á hinn sígilda blóraböggul þeirra mannvitsbrekkna, sem hér eiga í hlut, fiskveiðistjórnunarkerfið.  Þessi umræða minnir að mörgu leyti á löngu úreltan stéttastríðstalsmáta, sem er ekkert annað en innantómt glamur nú á dögum.  Þetta varð Gunnari Þórðarsyni, viðskiptafræðingi, að umritunarefni í Fiskifréttum 21. apríl 2017 undir fyrirsögninni,

"Óábyrg umræða":

"Í raun er aðeins verið að benda á þá staðreynd, að með hækkun krónunnar aukast líkurnar á, að fiskvinnslan flytjist úr landi, alla vega ef gengið er út frá því, að íslenzkur sjávarútvegur sé rekinn á markaðslegum forsendum.  Hér er engin hótun á ferðinni, heldur aðeins bent á þá staðreynd, að fiskvinnsla verður ekki rekin á landinu, nema hún standist samkeppni við erlenda keppinauta.  Ekki er langt síðan óunninn gámafiskur var fluttur til vinnslu í Evrópu í miklu magni, sem hefur nánast verið óþekkt undanfarin ár.  Fullvinnsla hefur hins vegar aukizt mikið á Íslandi undanfarin ár, bæði í bolfiski og uppsjávarfiski.  Íslenzkur sjávarútvegur hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni og brugðizt við hækkun á innlendum kostnaði með aukinni hagræðingu og tæknivæðingu."

Þarna er drepið á þá gríðarlegu ógn, sem atvinnu og verðmætasköpun í landinu stafar af gengisþróun ISK, sem er um 20 % of há að verðgildi m.v. okkar helztu viðskiptamyntir um þessar mundir. Þetta hágengi vinnur gegn hagsmunum landsins, því að það mun senn svipta fólk atvinnu og kippa stoðunum undan verðmætasköpun.  Seðlabankinn og núverandi peningastefnunefnd hafa brugðizt hlutverki sínu, sem er varðveizla peningalegs stöðugleika í bráð og lengd. 

Norska krónan, NOK, hefur fallið um helming, 50 %, frá 2014 til 2017 gagnvart ISK, þrátt fyrir miklar gjaldeyristekjur af olíu- og gassölu og varasjóð frá þeim tekjum, sem nemur um miaUSD 800.  Hvers vegna er ekki beitt sömu ráðum hér til að stemma stigu við skaðlegum áhrifum mikils gjaldeyrisinnstreymis á íslenzka hagkerfið, þ.e. með því að taka þetta fé tímabundið út úr innlenda hagkerfinu og fjárfesta erlendis þar til slaki eða jafnvel kreppa ógnar því ? Þess í stað hleður Seðlabankinn undir ISK með því að safna gildum gjaldeyrissjóði, sem er honum svo dýrkeyptur, að bankinn er búinn að glutra niður nánast öllu eigin fé sínu.

Evra er augljóslega ekki svarið við þessum erfiðleikum, því að Seðlabanki evrunnar er að berjast við hagkerfissamdrátt, en hér er hagkerfisþensla núna.  Þannig er það iðulega, að hagkerfissveifla á Íslandi er í mótfasa við hagkerfissveiflu á meginlandi Evrópu.  Íslandi hentar þannig engan veginn að gerast aðili að þessu myntbandalagi.  Ekkert okkar helztu viðskiptalanda er á svipuðum stað, þ.e. á toppi hagsveiflunnar, eins og Ísland um þessar mundir.  Okkar bezta úrræði er að stjórna efnahagskerfinu og peningamálunum af skynsamlegu viti.  Þekking, geta og vilji er það, sem þarf, eins og venjulega.  Skussar ráða ekki við viðfangsefni af þessu tagi.

"Stór fyrirtæki, sem ráða yfir allri virðiskeðjunni frá veiðum til heildsölu, munu einfaldlega yfirtaka smærri fyrirtæki, sem ekki hafa borð fyrir báru til að standa undir íþyngjandi skattlagningu.  Þetta er í sjálfu sér ekki alvont, þar sem það eykur framleiðni og verðmætasköpun, en rétt, að menn geri sér grein fyrir þessu og láti það ekki koma sér á óvart, þegar það raungerist. Séu þá með áætlun um, hvernig bregðast eigi við t.d. byggðaröskun, sem óumflýjanlega fylgir slíku róti í atvinnugreininni.  Það veldur vonbrigðum að heyra sjávarútvegsráðherra hóta hækkun á veiðigjöldum til að neyða sjávarútveginn til að uppfylla það, sem honum finnst vera samfélagsleg ábyrgð.  Það er mikilvægt, að ráðamenn geri sér grein fyrir áhrifum veiðigjalda, og hækkun á þeim verður varla gerð í sátt við atvinnugreinina."

 Það er kunnara en frá þurfi að segja, að snarast hefur á merinni, þegar afkoma sjávarútvegsins í ár er borin saman við árið 2015.  Vegna mjög afturvirkrar álagningar veiðigjalda og brottfalls tímabundins afsláttar á veiðigjöldum munu útgerðarfélögin þurfa að bera hækkun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2017/2018.  Það er brýnt að endurskoða þessa skattheimtu, svo að ekki sé horft lengra aftur í tímann en eitt ár, og að sett verði þak á veiðigjöldin, t.d. 5 % af framlegð og að engin veiðigjöld verði innheimt af fyrirtækjum með framlegð undir 20 % af tekjum.  Núverandi skattheimta er flókin, ósanngjörn og meðalhófs er ekki gætt.

Jafnframt þarf auðvitað að samræma álagningu auðlindagjalds af öllum fyrirtækjum, sem nýta náttúruauðlindir, t.d. virkjanafyrirtækin, flutningsfyrirtækið Landsnet, ferðaþjónustan og fiskeldið.  Það er hægt að beita samræmdri aðferðarfræði á allar þessar greinar.  Spangól sjávarútvegsráðherra um nauðsyn hækkunar á eina þessara greina í einhvers konar refsingarskyni er algerlega út í loftið og sýnir í senn ábyrgðarleysi og getuleysi hennar við að leggja eitthvað uppbyggilegt að mörkum sem ráðherra.

Tækniþróun í flestum greinum atvinnulífsins leiðir til aukinnar afkastagetu og aukinnar sjálfvirkni.  Þetta er nú um stundir að stækka og fækka vinnslustöðvum fiskiðnaðarins.  Það væri glapræði að reyna að sporna við þessari þróun og ekki gæfulegra en að hverfa aftur í torfkofana.  Um þessa þróun skrifaði Gunnar Þórðarson í téðri grein:

"Með nýrri tækni, eins og vatnsskurðarvélum og þjörkum, aukast afköst á manntíma, og þannig mun starfsmönnum og vinnsluhúsum fækka.  Slíkri þróun geta þó fylgt mikil tækifæri, þar sem í stað erfiðisvinnu verða til betur launuð tæknistörf.  Það ætti að vera forgangsmál hjá sveitarfélögum og launþegahreyfingunni að taka þátt í slíkum breytingum með sjávarútvegsfyrirtækjum og tryggja hlutdeild starfsmanna í aukinni framleiðni í framtíðinni.  Það er hin raunverulega samfélagslega ábyrgð, að fyrirtæki, starfsmenn og samfélög leggist á eitt til að viðhalda samkeppnishæfni og verðmætasköpun í íslenzkum sjávarútvegi til framtíðar.  Að taka þátt í þróuninni og hafa áhrif á hana á jákvæðan hátt er einmitt samfélagsleg ábyrgð."

Það er hægt að taka heils hugar undir þessa þörfu hugvekju Gunnars Þórðarsonar, og ályktun hans um hvað felst í samfélagslegri ábyrgð á fullan rétt á sér.  Hið sama á við um flestar atvinnugreinar og sjávarútveginn, að þær auka framleiðni sína með sjálfvirknivæðingu.  Þetta er þeim einfaldlega nauðsyn til að standast samkeppnina.  Það er óviturlegt af sveitarfélögum og launþegafélögum að reyna að stöðva "tímans þunga nið".  Mun gæfulegra er, eins og téður Gunnar bendir á, að vinna með fyrirtækjunum að þessari þróun sjálfum sér og umbjóðendum sínum til hagsbóta.  Á stéttabaráttuvindgangi tapa allir, en græða að sama skapi á stéttasamvinnu.  Það er líka eðlilegt og almenningi til hagsbóta, að sveitarfélög keppi upp að vissu marki um hylli fyrirtækja og fólks, t.d. með góðri fjármálastjórnun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Kvóti var settur á til að vernda fiskistofna,en af hverju fer ekki allur fiskur á markað? 

Tryggvi L. Skjaldarson, 30.4.2017 kl. 22:09

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi;

Hér hefur þróunin orðið sú, að stærsta hluta aflans er aflað af fyrirtækjum, sem bæði reka útgerð og vinnslu og selja afurðirnar yfirleitt til heildsala erlendis.  Sagt er, að þá sé "virðiskeðjan" órofin.  Þetta er ekki tilviljun, heldur hefur þetta fyrirkomulag gefizt bezt við nútíma aðstæður, þar sem veitt er eftir pöntun viðskiptavinar, svipað og okkar gamla fyrirtæki, ISAL, framleiddi ál einvörðungu samkvæmt pöntun og fékk og fær enn fyrir vikið umtalsverðan virðisauka, premíu, ofan á LME-verð, enda fer varan beint í áframhaldandi vinnslu, en ekki í endurbræðslu, eins og framleiðsla sumra álvera.

Til samanburðar kerfa má taka Noreg.  Þar er aðskilnaður veiða og vinnslu.  Einingarverð, sem Íslendingar fengu fyrir þorsk árið 2015, var 40 % hærra en einingarverð Norðmanna.  Að hluta er það rakið til órofinnar "virðiskeðju" Íslendinga.

Þetta hefur auðvitað verið umræðuefni í kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarmanna, og í verkfallinu í vetur náðist samkomulag um að taka verulegt tillit til "fiskmarkaðsverðs" við ákvörðun skiptaverðs. 

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 30.4.2017 kl. 23:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband