Óviðunandi staða Seðlabanka Íslands

Bankastjóri Seðlabankans og nokkrir æðstu stjórnendur bankans hafa nú að upp kveðnum sýknudómi yfir Samherja í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. apríl 2017, þar sem allur málflutningskostnaður var felldur á Seðlabankann, orðið uppvísir að mestu afglöpum embættismanna í starfi á landi hér um langa hríð.  Kostnaður brambolts Gjaldeyriseftirlitsins fyrir Seðlabankann fer að slaga í miaISK 2,0 án nokkurs árangurs.  Kostnaður og miski fjölmargra fórnarlamba er allt of mikill og algerlega óþarfur.  Þetta kallar á ávítur og brottvikningu.

Það er með öllu óviðunandi fyrir almenning í þessu landi að búa við það, að peningamálastjórnun landsins sé í höndum fólks, sem hefur verið dæmt óhæft til að fara með mikil völd.  Peningamálastjórnunin sjálf sætir víðtæku ámæli, og hér kom dropinn, sem fyllir mæli Seðlabankans. Traust almennings er Seðlabanka nauðsyn, eigi hann að virka vel. Hvarvetna mundu hausar fjúka eftir slíkan dóm í tilraun til að endurvinna glatað traust. Hér eru mikil firn á ferð, sem ástæða er til að reifa í pistli.

Óðinn á Viðskiptablaðinu gerir þetta alræmda mál að umfjöllunarefni sínu 27. apríl 2017, og hefst greinin þannig:

"Fyrir rétt rúmum 5 árum, nánar tiltekið í lok marz 2012, lét Seðlabanki Íslands framkvæma húsleit á skrifstofum útgerðarfélagsins Samherja í Reykjavík og á Akureyri.  Starfsmenn Seðlabankans ásamt lögreglufulltrúum frá embætti Sérstaks saksóknara höfðu flogið norður daginn áður og fóru leynt áður en þeir gerðu atlögu að fyrirtækinu daginn eftir.  Þó ekki það leynt, að fjölmiðlar væru ekki ræstir út á sama tíma, og voru [þeir] mættir á staðinn rétt áður en húsleitin hófst.  Reyndar voru það ekki fjölmiðlar í fleirtölu, heldur aðeins fréttastofa RÚV-en húsleitin var gerð í nánu samstarfi við RÚV, svo eðlilegt sem það er."

Þetta er lýsing á kommúnistískri tilraun Seðlabankans til að knésetja öflugt einkafyrirtæki. Már, bankastjóri, kom fram í fjölmiðlum við þetta tækifæri, og gaf í skyn, að bankinn hefði rökstuddan grun um sök á alvarlegu gjaldeyrismisferli. Varaði hann erlenda viðskiptavini fyrirtækisins við samskiptum við þetta fyrirtæki með yfirlýsingu á ensku. Íslendingar máttu eftir allar þessar aðfarir halda, að Hrói höttur hefði nú haft hendur í hári auðmannsins og mundi senn rýja hann inn að skinninu og dreifa gullinu á meðal fátækra.  

Aðförina sjálfa reyndist samt við rannsókn annarra embætta skorta allan lagalegan grundvöll, og sú ákvörðun bankans að gera aðförina í beinni útsendingu Sjónvarps og gefa í kjölfarið út fréttatilkynningu á ensku fyrir alþjóðlegar fréttaveitur sýnir algert dómgreindarleysi forystu Seðlabankans. Hún er heillum horfin, enda Trotzky slæmur lærifaðir.   

Seðlabankaforystan kann með þessum fréttasendingum að hafa ætlað að nýta aðgerðina til að fæla aðra í brotahugleiðingum frá að brjóta lög og reglur gjaldeyrishaftanna, en forysta bankans hafði ekki siðferðilegan rétt til að ganga þar með svo freklega gegn hagsmunum hins grunaða.  Í þessu birtist mikið ofríki og sannarlega fór Seðlabankinn þarna offari.

Seðlabankinn sýndi svo einbeittan brotavilja gegn téðu fyrirtæki, að óbeit vekur, og aðfarirnar á öllum stigum málsins sýna óyggjandi, að seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og yfirmenn gjaldeyriseftirlits og lögfræðisviðs bankans, verða að víkja úr embættum, ef dómur Héraðsdóms mun standa.  Að öðrum kosti verður girt fyrir, að Seðlabankinn öðlist traust á ný á næstunni, og það er nokkuð borðleggjandi, að höfðað verður skaðabótamál á hendur bankanum, ef þessi forysta nýtur stuðnings bankaráðs og ríkisstjórnar. 

Bankaráð Seðlabankans og ríkisstjórnin verða að gera sér grein fyrir, að enginn friður fæst um bankann án þess, að ráðamenn hans verði látnir axla ábyrgð með því að axla sín skinn.  Að öðrum kosti sitja bankaráðið og viðkomandi ráðherrar uppi með Svarta-Pétur. 

Ferill málsins var í grófum dráttum þannig:

  1.  Dómari þurfti að veita húsleitarheimildina, og það væri fróðlegt að lesa rökstuðning dómara fyrir henni.  Dómarar eiga ekki að veita sjálfsafgreiðsluþjónustu. Gögn málsins voru eftir rannsókn Seðlabankans send til Sérstaks saksóknara, af því að, Guði sé lof, Seðlabankanum hefur ekki verið veitt ákæruvald.  Sérstakur stöðvaði rannsókn málsins, þegar starfsmönnum embættisins þótti orðið ljóst, að engar líkur væru á sakfellingu.  Þess vegna var engin ákæra gefin út eftir allt brambolt, reykbombur og skothríð Seðlabankans út í loftið.  Seðlabankinn mótmælti frávísuninni, en Ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun Sérstaks.  Þegar svo var komið, mundi dómgreind segja stjórnendum Seðlabanka með heilbrigða skynsemi að láta málið niður falla, en þar á bæ er hvorugu til að dreifa.
  2. Seðlabankinn var ekki af baki dottinn og sendi nú hluta rannsóknargagna til Skattrannsóknarstjóra, þótt húsleitirnar hefðu ekki verið gerðar vegna gruns um skattalagabrot.  Þetta hálmstrá Seðlabankans brást líka, því að Skattrannsóknarstjóri fann ekkert athugunarvert við skattframtöl og skattskil Samherja á grundvelli rannsóknargagnanna, endursendi gögnin og gaf enga ákæru út.  Hernaðurinn leiddi ekki til neinnar ákæru. Hvers konar lögfræði er eiginlega stunduð í Seðlabanka Íslands ?  Á meðan þessi staða er uppi, og enginn er dreginn til ábyrgðar, verður að kenna vinnubrögðin við fúsk. Þjóðin getur ekki setið uppi með fúskara í fílabeinsturni við Arnarhól.
  3. Nú var hverju barni orðið ljóst, að engin ákæra yrði gefin út á hendur nokkrum starfsmanni hins ofsótta fyrirtækis. Þá bauð Seðlabankinn fram "sátt" í málinu, sem fælist í greiðslu MISK 8,5 til bankans.  Heilbrigð skynsemi segir þó, að tjónþoli hefði átt að fá greiðslu í sáttaskyni, reyndar miklu hærri en þetta, enda var þessari "sátt" hafnað.  Þá setti bankinn upp á sig snúð og lagði á stjórnvaldssekt að upphæð MISK 15 á fyrirtækið.  Hún var kærð, og þann 24. apríl 2017 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur sektina úr gildi, m.a. með þeirri röksemd, að Seðlabankinn hafi ekki heimild til að leggja á stjórnvaldssekt vegna máls, sem hann hefur áður fellt niður.  Enn kemur í ljós, að annaðhvort er lögfræðisvið bankans hunzað af yfirmönnum hans eða þar er allsendis ófullnægjandi lagaþekking fyrir hendi. Embættisdrýld og hroki tröllríður Seðlabankanum um þessar mundir.  

Hér er stórmál á ferðinni fyrir persónuvernd og einstaklingsfrelsi í landinu gagnvart ríkisvaldinu. Einstaklingurinn á undir högg að sækja gagnvart útblásnu ríkisvaldi, þar sem offors við að knésetja fórnarlambið ræður of oft för.  Út yfir allan þjófabálk tekur, þegar þetta sama ríkisvald verður uppvíst að svo bágborinni lagaþekkingu, að það er gert afturreka með allar kröfur sínar á hendur einstaklingum og félögum þeirra.  Þá er búið að draga hið sama ríkisvald niður í svað götustráka, sem stunda einelti gegn þeim, sem þeir telja sig eiga í fullu tré við.  Mál er að linni. 

Jóni Steinari Gunnlaugssyni, hrl., er einnig nóg boðið og fær ekki orða bundizt.  Hann ritar í Morgunblaðið 1. maí 2017:

"Aðför án ábyrgðar":

"Nýjasta dæmið er löglaust framferði stjórnenda Seðlabankans gegn útgerðarfyrirtækinu Samherja, sem staðið hefur yfir um nokkurra ára skeið.  Komið er í ljós, að þar var valdi gróflega misbeitt.  Nú ætlar Már, bankastjóri, bara að sitja þetta af sér, og þá helzt án þess að þurfa að segja mikið.  Og hann mun komast upp með það, því að þeir, sem um eiga að þinga, munu ekkert gera."

Því skal ekki trúa fyrr en á verður tekið, að "þeir, sem um eiga að þinga", láti kyrrt liggja.  Heiður Seðlabankans og alls stjórnkerfis ríkisins er í húfi.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Samherji ætti að stefna þeim upp á einhverja milljarða í skaðabætur, þá tækju menn við sér. 

Jón Steinar Ragnarsson, 6.5.2017 kl. 23:27

2 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Við vitum að banki lánar ekkert, skrifar aðeins bókhald.

Ef öll fyrirtækin á Íslandi græða, þá minnka lántökurnar, og þá tekjur bankana.

Til að eignir bankana rýrni ekki of mikið, þá varð að hækka gengið á íslensku krónunni,

þá fá útflutningsfyrirtækin ekki eins margar krónur fyrir gjaldeyrinn sinn og fara þá að auka lántökur í bönkunum.

Tekjur fólksins, aukast að sama skapi, til að kaupa vörur og þjónustu frá útlandinu.

Og þá verður frekar halli í viðskiptunum við útlönd.

Þessi eyðsla öll, verður til þess að fyrirtækin og Ríkið verða að taka meiri lán.

Svona fer Seðlabankinn að því að sjá um að bankaeigendurnir, eignist allt sem gert er á Íslandi.

Vextirnir eru hafðir háir, til að hægt sé að flytja gjaldeyri til Íslands, og fá hærri vexti en í útlandinu.

Þá fyllist allt af gjaldeyri, sem við eigum ekki, og þurfum að greiða af háa vexti.

Látið er í veðri vaka að þessi mikla gjaldeyriseign, sé merki um grósku svo að hægt sé að auka eyðsluna.

Það er nær engin umræða er um fjármálasvindl bankanna á Íslandi, og í útlandinu, og er það skiljanlegt.

Fjármálakerfið á alla fjölmiðlana, eða allir fjölmiðlarnir eru háðir fjármagninu.

Bandaríkjamenn verða að laga fjármáls kerfi hjá sér, vegna þess að Federal Reserve, sem hefur lánað Bandaríkjunum er búinn að lána svo mikið að Bandaríska þjóðin getur ekki greitt af skuldunum, nema að kerfinu verði breytt, kerfið lagfært.

Federal Reserve, lánaði Bandaríkjunum aldrei neitt, skrifaði aðeins tölu og sagðist vera að lána.

Vonandi fer menntakerfið á Íslandi að mennta fólkið í Ríkis, fjármála, bókhaldi.

Gangi ykkur allt í haginn.

Egilsstaðir, 07.05.2017  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 7.5.2017 kl. 01:37

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er áreiðanlega hægt að tína saman kostnað og glataðar tekjur ásamt bótakröfum vegna miska í garð starfsmanna og stjórnenda téðrar alþjóðlvonaegu samsteypu, sem fljótt hleypur á milljörðum ISK.  Nú hillir undir, að oflátungar í fílabeinsturni embættishroka fái að finna til tevatnsins.  Það er löngu kominn tími til.

Jónas: þótt öll fyrirtæki á Íslandi mundu græða, þyrftu þau samt mörg hver á lánum að halda vegna fjárfestinga.  Nú eiga mörg fyrirtæki fjárhagslega undir högg að sækja vegna mikilla kostnaðarhækkana, t.d. launahækkana og hækkunar lífeyrisiðgjalda.  Það dylst engum, að vextir þurfa að vera háir á þensluskeiði, eins og núna, þegar atvinnuþátttaka er í hæstu hæðum, en fyrr má nú rota en dauðrota.  Beztu kveðjur austur á Hérað. 

Bjarni Jónsson, 7.5.2017 kl. 09:37

4 Smámynd: Sigurður Antonsson

Í mannheimi  vinna ákveðnir hópar eins og úlfar, hýenur og ljón til að ná í fórnarlambið. Annað sem mér finnst standa upp úr við lestur þinnar  greinar er eftirfarandi spurningar þínar: 

"Dómari þurfti að veita húsleitarheimildina, og það væri fróðlegt að lesa rökstuðning dómara fyrir henni.  Dómarar eiga ekki að veita sjálfsafgreiðsluþjónustu."

"Hvers konar lögfræði er eiginlega stunduð í Seðlabanka Íslands ?  "

Björn Jón Bragason sagnfræðingur og lögfræðingur hefur skrifað athyglisverða bók um málið;  Gjaldeyriseftirlið -Vald án eftirlits,  þar sem málinu  eru gerð góð skil.

Sigurður Antonsson, 7.5.2017 kl. 11:18

5 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Við erum á fullu í að stoppa í, reyna að laga misskilning, án þess að hætta að misskilja.

Við erum á fullu í  að dæma einhvern, fyrir að vera að starfa við okkar misskilning.

Við eigum að taka okkur til og laga misskilninginn.

slóð

Prosperity - uk

slóð

Learn, learn, learn. Læra, læra, læra.

Vextirnir, verða alltaf misskilningur, á meðan skipulagið á fjármálakerfinu er misskilningur.

Peningurinn, er ekki peningur, eða það sem okkur var talin trú um.

Peningurinn, er aðeins bókhald.

slóð

Nótur, kvittanir, peningur er færanlegt bókhald.

Slóð

Og það besta, ég lánaði þér ekki neitt.

Klikka á mynd

gamla-sagan-05

Ég ber mikla virðingu fyrir menntaða fólkinu okkar.

Það hefur mikla þekkingu, getur staðið upp á heimsvísu, og þess vegna leitt veröldina.

Verum óhræddir við að hafa forgöngu í að laga peningakerfið, peningabókhaldið.

Hættum að ásaka hver annan.

Í hverju skrefi í endurbótunum, gerum við lagfæringu, ef þörf er á.

Aðal  atriðið er að heimilin séu í lagi, án undantekninga.

slóðir

 Kreppufléttan, endurtekið

Íbúðalánasjóður, Hinn nýi.

Íbúðalánasjóður, láttu ekki plata þig.

****

  ENGLISH

Paper money  ----

Central-banks ----

Try to understand the money masters 

Learn, learn, learn. Læra, læra, læra.

ENGLISH

  http://www.herad.is/y04/1/2011-10-05-Central-banks-05.htm

Egilsstaðir, 07.05.2017  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 7.5.2017 kl. 16:15

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Björn Jón Bragason skynjaði fljótt, að maðkur var í mysunni á Svörtuloftum.  Hann varð fyrstur til að rannsaka framkvæmd gjaldeyriseftirlitsins og skilaði merku verki þar um, sem staðizt hefur tímans tönn. Seðlabanki Íslands er meiri háttar "batterí" í stjórnsýslu landsins, og það verður að gera þá kröfu, þegar þannig háttar til, að valinn maður sé í hverju rúmi og kapteinninn sé lítt umdeildur stjórnandi, a.m.k. ekki dæmdur strandkapteinn.   

Bjarni Jónsson, 7.5.2017 kl. 17:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband