8.6.2017 | 11:20
Einstaklingurinn gagnvart ríkisvaldinu
Stjórnmálaafstaða okkar mótast af grundvallarviðhorfum um hlutverk og hlutverkaskiptingu einstaklinga og hins opinbera í þjóðfélaginu. Þeir, sem vilja frelsi einstaklingsins til athafna eins mikið og kostur er, þeir vilja jafnframt virða eignarréttinn í hvívetna, og þar með réttinn til að ráðstafa eigin aflafé, að því gefnu, að hann stangist ekki á við almannahag og að yfirvöld gæti laga, jafnræðis og meðalhófs, við skattheimtu. Af þessu leiðir, að skattheimtu ber að stilla í hóf, svo að jaðarskattur tekna dragi hvorki úr hvata til verðmætasköpunar sé hvetji til undanskota; sé t.d. undir þriðjungi og af fjármagni helmingi lægri til að efla sparnað (og auðvitað sé hann ekki reiknaður af verðbótum). Einkaframtaksmenn eru jafnframt hliðhollir hvers konar einkaeign, t.d. á húsnæði og bílum, og telja fasteign undirstöðu fjárhagslegs öryggis í ellinni.
Sósíalistar eða jafnaðarmenn eru á öndverðum meiði á öllum þessum sviðum. Þeir vilja mjög umsvifamikið ríkisvald og hika ekki við að hvetja til og verja einokunaraðstöðu þess með kjafti og klóm. Einkaeignarréttur er sósíalistum lítils virði, og þetta hafa þeir opinberað hérlendis t.d. með því að segja og skrifa, að hið opinbera, ríki eða sveitarfélag, sé að afsala sér tekjum með því að draga úr skattheimtunni. Þannig geta aðeins þeir tekið til orða, sem líta á vinnulaun, vaxtatekjur, fasteign eða gjaldstofn fyrirtækja, sem eign hins opinbera áður en skipt er, sem sjálfsagt sé að hremma eins stóran skerf af og hugmyndaflug jafnaðarmannanna um útgjöld útheimtir. Þar með er litið á einstaklinginn sem tannhjól í vélbúnaði hins opinbera. Þar sem slík sjónarmið ná fótfestu, er stutt í stjórnkerfi kúgunar í anda skáldsögunnar 1984 eftir George Orwell.
Í stað þess að líta á skattkerfið sem fjármögnunarkerfi fyrir lágmarks sameiginlegar þarfir samfélagsins að teknu tilliti til jafns réttar allra til heilbrigðis og menntunar, þá lítur sósíalistinn á skattkerfið sem refsivönd á þá, sem meira bera úr býtum, langoftast með því að leggja meira á sig en aðrir í námi og/eða í starfi, af því að ójöfn öflun fjár sé óréttlát. Þannig geta aðeins grillupúkar hugsað, en með slíkar grillur að vopni hefur verið gengið mjög langt á eignarréttinn.
Mismunurinn á hugarfari hægri manna og vinstri manna á Alþingi kom auðvitað berlega fram í afstöðunni til 5-ára Fjármálaáætlunar ríkisins 2018-2022. Óli Björn Kárason, Alþingismaður, ÓBK, gerði áformaða aukningu ríkisútgjalda samkvæmt áætluninni og samkvæmt viðbótar útgjaldatillögum vinstri manna, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, að umræðuefni í Morgunblaðsgreininni, 31. maí 2017,
"Kennedy, Reagan og íslenskir vinstrimenn":
"Að minnsta kosti tveir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hefðu átt erfitt með að skilja hugmyndafræði íslenzkra vinstri manna og stefnu þeirra í skattamálum og harða samkeppni [um yfirboð-innsk. BJo]; John F. Kennedy og Ronald Reagan.
Reagan hélt því [réttilega] fram, að því hærri sem skattarnir væru, þeim mun minni hvata hefði fólk til að vinna og afla sér aukinna tekna [t.d. með því að afla sér meiri menntunar]. Lægri skattar gæfu almenningi tækifæri til aukinnar neyzlu og meiri sparnaðar, hvatinn til að leggja meira á sig og afla tekna yrði eldsneyti hagkerfisins. "Niðurstaðan", sagði Reagan, "er meiri hagsæld fyrir alla og auknar tekjur fyrir ríkissjóð.""
Þetta er mergurinn málsins. Þegar skattheimta er í hæstu hæðum, eins og nú á Íslandi, í sögulegum og í alþjóðlegum samanburði, þá er alveg áreiðanlegt, að við skattalækkun stækkar skattstofninn, og hann skreppur saman við skattahækkun m.v. óbreytta skattheimtu. Þess vegna getur lægri skattheimta þýtt auknar skatttekjur fyrir ríkissjóð, eins og Reagan sagði. Þetta eru ekki lengur tilgátur hagfræðinga og stjórnmálamanna. Þetta er raunveruleiki, eins og reynslan sýnir. Vinstri mönnum eru hins vegar allar bjargir bannaðar. Þeir átta sig hugsanlega á þessari leið til að auka opinberar tekjur, en þeir hafna henni samt, því að í þeirra huga er refsihlutverk skattkerfisins mikilvægara.
Tilvitnun ÓBK í JFK hér að neðan á greinilega við stöðu ríkisfjármála á Íslandi nú um stundir:
"Á blaðamannafundi í nóvember 1960 sagði Kennedy [þá nýkjörinn forseti BNA]:
"Það er mótsagnakenndur sannleikur, að skattar eru of háir og skatttekjur of lágar og að til lengri tíma litið er lækkun skatta bezta leiðin til að auka tekjurnar."
Kennedy lagði áherzlu á, að lækkun skatta yrði til þess að auka ráðstöfunarfé heimilanna og hagnað fyrirtækja og þar með kæmist jafnvægi á ríkisfjármálin með hækkandi skatttekjum. Á fundi félags hagfræðinga í New York árið 1962 sagði forsetinn m.a.:
"Efnahagskerfi, sem er þrúgað af háum sköttum, mun aldrei skila nægilegum tekjum til að jafnvægi náist í ríkisfjármálum, alveg eins og það mun aldrei búa til nægilegan hagvöxt eða nægilega mörg störf.""
Það, sem JFK sagði þarna um ofurháa skattheimtu, voru ekki orðin tóm, heldur hafa margsannazt bæði fyrr og síðar. Á Íslandi er nú há skattheimta, því að hún er enn á meðal þess hæsta, sem þekkist á meðal þróaðra þjóða Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Verði hún hækkuð umtalsvert, breytist hún umsvifalaust í ofurskattheimtu með þeim afleiðingum, að skattstofninn rýrnar og halli verður á rekstri ríkissjóðs, hagvöxtur koðnar niður og atvinnuleysi heldur innreið sína á ný. Skattahækkunarleið vinstri flokkanna leiðir þess vegna beint út í ófæruna. Þegar halla mun undan fæti eftir núverandi mikla hagvaxtarskeið, ætti að lækka skattheimtuna til að örva hagvöxt, og má nefna tryggingagjaldið fyrst.
Í nýsamþykktri Fjármálaáætlun ríkisins 2018-2022 er ekki reiknað með aukinni skattheimtu, heldur lækkun tryggingagjalds á síðari hluta skeiðsins og lækkun virðisaukaskatts eftir samræmingu VSK á atvinnugreinar, en samt eiga tekjur ríkisins að verða miaISK 185 hærri árið 2022 en árið 2017 í lágri verðbólgu. Af þessari hækkun ríkistekna koma 57 % frá sköttum af vörum og þjónustu og 41 % frá tekjusköttum. Þessi fjórðungshækkun skatttekna á 5 árum á einvörðungu að koma frá stækkuðum og breikkuðum skattstofnum, þ.e. tekjuáætlunin er reist á öflugum hagvexti allt tímabilið. Síðan er útgjaldaramminn sniðinn við þetta og miðað við 1,3 % tekjuafgang á ári. Ef meðalhagvöxtur á ári verður undir 3,5 %, þá verður halli á ríkisrekstrinum m.v. þessa áætlun. Boginn er þannig spenntur til hins ýtrasta, og það vantar borð fyrir báru. Í góðæri ætti tekjuafgangur ríkisins að vera yfir 3 % af tekjum til að draga úr þenslu og til að draga úr þörf á niðurskurði, þegar tekjur minnka.
Vinstri flokkarnir vilja samt meiri hækkun tekna, sem óhjákvæmilega þýðir þá skattahækkanir, þótt þeir hafi ekki útfært þær. Þannig vill Samfylkingin miaISK 236 hækkun skatttekna árið 2022. Mismunur hækkana er miaISK miaISK 51, sem þýðir skattahækkun 0,6 MISK/ár á hverja fjagra manna fjölskyldu.
Hugmyndir Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs um skattahækkanir keyra þó um þverbak. Formaður VG hefur verið nefnd "litla stúlkan með eldspýturnar"; ekki af því að hún þurfi að selja eldspýtur á götum úti loppin af kulda, eins og í ævintýri H.C. Andersens, heldur af því að umgengni hennar við ríkisfjármálin þykir minna á brennuvarg, sem hótar að bera eld að opnum benzíntunnum. Þannig mundi efnahagskerfi Íslands kveikja á afturbrennaranum um stund eftir valdatöku "litlu stúlkunnar með eldspýturnar", og síðan stæði hér allt í björtu verðbólgubáli, sem fljótt mundi leiða af sér stöðnun hagkerfisins, skuldasöfnun, vinnudeilur og atvinnuleysi.
"Litla stúlkan með eldspýturnar" vildi, að í Fjármálaáætlun yrði gert ráð fyrir miaISK 334 hærri skatttekjum árið 2022 en árið 2017. Mismunur þessa og samþykktrar Fjármálaáætlunar er 149 miaISK/ár, sem þá nemur skattahækkun vinstri grænna. Hún jafngildir aukinni skattbyrði hverrar 4 manna fjölskyldu um 1,75 MISK/ár. Með þessu mundu vinstri grænir vafalítið senda Ísland á skattheimtutopp OECD ríkja, sem mundi eyðileggja samkeppnisstöðu Íslands um fólk og fjármagn. Launþegahreyfingarnar mundu gera háar launahækkunarkröfur í tilraun til að endurheimta kaupmátt launa, sem nú er einn sá hæsti innan OECD, og allt mundi þetta leggjast á eitt um að senda hagkerfi landsins niður þann óheillaspíral, sem lýst er hér að ofan sem afleiðingu ofurskattlagningar.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, japlar á því bæði sýknt og heilagt, að með úrslitum síðustu Alþingiskosninga hafi kjósendur verið að biðja um aukna samneyzlu, og þess vegna sé sjálfsagt að gefa nú hraustlega í ríkisútgjöldin. Þetta er fullkomin fjarstæða hjá "litlu stúlkunni með eldspýturnar", enda mundu aukin ríkisútgjöld í þegar þöndu hagkerfi losa skrattann úr böndum með hræðilegum afleiðingum fyrir kaupmátt og skuldastöðu almennings. Ef þetta væri rétt hjá Katrínu, þá hefðu vinstri flokkarnir auðvitað aukið fylgi sitt hraustlega, en það lá hins vegar við, að annar þeirra þurrkaðist út. Almenningur skilur þetta efnahagslega samhengi ósköp vel, en "litla stúlkan með eldspýturnar" kærir sig kollótta, því að flokkur hennar nærist á óstöðugleika, þjóðfélagsóróa og almennri óánægju.
Það, sem þarf að gera við núverandi aðstæður, er að leggja áherzlu á aukna skilvirkni ríkisrekstrar og bætta nýtingu fjármagns, sem ríkissjóður hefur úr að moða. Tækifæri til þess eru vannýtt. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, SA, ritaði grein í Viðskiptablaðið 4. maí 2017, þar sem hann tíundaði útgjaldaaukningu ríkissjóðs til heilbrigðismála 2010-2015, sem nam þriðjungi, 33 %, á verðlagi 2015, þ.e. útgjöldin 2015 voru miaISK 39,3 hærri en árið 2010. Svipuð aukning er ráðgerð í Fjármálaáætlun 2018-2022. Landsspítalanum þykir samt ekki nóg að gert, þótt til reiðu sé fjárfestingarfé upp á miaISK 50 og sé þarna fyrir utan. Þá er lausnin ekki að ausa í spítalann meira fé, heldur að virkja einkarekstrarformið til að stytta biðlistana og að slást í hóp hinna Norðurlandanna við útboð, t.d. á lyfjum. Þar þarf atbeina Alþingis við að brjóta á bak aftur hagsmunapotara. Halldór Benjamín skrifar:
"Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti á Íslandi. Fjölmörg dæmi er þó að finna um jákvætt framlag einkarekinna íslenzkra heilbrigðisfyrirtækja, sem hafa sýnt fram á, að þau geta veitt jafngóða eða betri þjónustu en hið opinbera með hagkvæmari rekstri fyrir þjóðfélagið."
Heilbrigðisgeirinn, meðferð og umönnun sjúklinga, er stærsti einstaki kostnaðarþáttur ríkissjóðs og virðist vera botnlaus hít. Þar eru þess vegna fjölmörg sparnaðartækifæri fyrir ríkissjóð, þar sem er nauðsynlegt að fá meira fyrir minna, og það er vel hægt, eins og dæmin sanna.
Þá bregður hins vegar svo við, að forysta Landsspítalans ásamt Landlækni rekur upp angistarvein sem stunginn grís væri og dengir yfir landslýð, að með auknum einkarekstri til að stytta allt of langa biðlista sjúklinga verði spónn dreginn úr aski háskólasjúkrahússins. Þetta er með ólíkindum.
Það er öfugsnúið að halda því fram, að með því að létta á yfirlestuðu sjúkrahúsi, þar sem yfirvinnustundir nema 15 % af venjulegum vinnutíma, muni það skaðast, þegar þjónustan er bætt við langhrjáða sjúklinga á biðlista. Jafn réttur sjúklinga er orðinn að réttleysi til lækninga, þegar á þarf að halda. Fullyrðing forystunnar er svo mótsagnakennd, að óþarft er fyrir fulltrúa fólksins að taka mark á henni, enda virðast ríkjandi hagsmunir á sjúkrahúsinu ekki hér að öllu leyti fara saman við almannahagsmuni.
"Hugmyndafræðileg afstaða á ekki að koma í veg fyrir, að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta stytt biðlista eftir aðgerðum. Mun betur mætti gera, ef krafa um hagkvæmni og árangur væri höfð að leiðarljósi og ríkjandi stefna um einokun opinberrar heilbrigðisþjónustu yrði endurskoðuð.
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu byggist á því, að ríkið greiði sömu framlög til einkaaðila til að framkvæma sömu aðgerðir af jafnmiklum eða meiri gæðum. Það er ekki einkavæðing, heldur stefna um að bæta nýtingu skattfjár og auka þjónustu og að bæta lífsgæði sjúklinga."
Það mun reyndar vera þannig, að Klínikin Ármúla býðst til að taka að sér bæklunaraðgerðir á 95 % af kostnaði Landsspítalans, svo að hreinn sparnaður næst fyrir ríkissjóð. Í risafyrirtæki á borð við Landsspítalann (á íslenzkan mælikvarða) er mörg matarholan, og hætt er við, að margir maki krókinn með þeim hætti, sem ekki ætti að viðgangast. Dæmi um það eru lyfjakaupin, en fjármálastjóri Landsstítalans lýsti því nýlega í fréttaskýringarþætti á RÚV, að spítalann skorti skýlausa heimild frá Alþingi til að taka þátt í stóru útboði á lyfjum með norrænum sjúkrahúsum. Samt yrðu íslenzk fyrirtæki á bjóðendalista í þessu útboði. Felast ekki í því tækifæri fyrir þau og fyrir ríkissjóð ?
Hagsmunapotarar lyfjaiðnaðar- og innflytjenda hérlendis hafa komið ár sinni svo fyrir borð hjá Viðskiptanefnd þingsins, að spítalinn verður af líklega yfir eins milljarðs ISK sparnaði við lyfjakaup. Þarna er Landsspítalinn hlunnfarinn og þar með skattborgararnir. Er þetta ekki málefni fyrir heilbrigðisráðherra til að setja upp "gula gúmmíhanzkann" og skera upp herör ?
"OECD komst að þeirri niðurstöðu árið 2008, að hagræðing í heilbrigðiskerfinu [íslenzka] geti skilað tugprósentustiga lækkun kostnaðar. Þar starfi of margt fólk í samanburði við önnur lönd, hlutur einkaaðila sé of lítill, þjónusta sé í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum og samkeppni sé ekki nægjanleg."
Ef OECD hefur komizt að því árið 2010, að spara megi um 20 % í íslenzka heilbrigðiskerfinu, þá er hægt að losa þar um 30 miaISK/ár, sem nota má til að leysa úr brýnum vanda skjólstæðinganna. Hvers vegna í ósköpunum snúa menn sér ekki að slíkum alvöruviðfangsefnum í stað þess að setja reglulega á grátkór í fjölmiðlum um, að meira fé vanti úr ríkissjóði í reksturinn ?
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Fjármál, Heilbrigðismál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:13 | Facebook
Athugasemdir
HVERS VEGNA ER RÍKISVALDIÐ GEGN ALMENNINGI ?
Erla Magna Alexandersdóttir, 8.6.2017 kl. 21:15
Góð spurning, Erla Magna. Veldur hver á heldur, en þróunin hefur orðið sú alls staðar á Vesturlöndum, að ríkisvaldið, sem flestir eru sammála um, að á að sinna ytra og innra öryggi ríkisins, lögum og rétti, tryggja jafna aðstöðu þegnanna til náms og mynda félagslegt öryggisnet, ef/þegar heilsan bilar, hefur þanizt út og er orðið þegnunum þungt í skauti fjárhagslega. Kerfið er þungt í vöfum og ver sig með kjafti og klóm, ef leitazt er við að hagræða með því að leita skilvirkari lausna fyrir skjólstæðinga og skattgreiðendur. Þannig hefur ríkisreksturinn orðið ofvaxinn og í stað þess að létta undir almenningi í lífsbaráttunni, tekur það tilfinnanlega stóran skerf af tekjum almennings með beinum og óbeinum sköttum, og vöxturinn er illviðráðanlegur, eins og fram kemur í vefgreininni hér að ofan.
Þetta er ófullkomið svar við mikilvægri spurningu.
Með góðri kveðju /
Bjarni Jónsson, 8.6.2017 kl. 21:59
"The individual vs. the Collective"
Það er engin meðal punktur þarna á milli ... en "the Collective" er svar einstaklinga gegn "sterkum einstaklingi". "The collective", "mafía", "ríkisstjórn", sem að baki sér hefur þá undirstöðu að ræna einstaklinginn. Þetta á sér undirrót í fornöld ... sterkur einstaklingur, getur unnið bug á veikari mönnum ... þeir veikari mynda því "samstarf" sín á milli, til að ráða bug á þeim sterka.
Þetta er undirrótin ... síðan gengur hún lengra, hvað gera menn við það sem þeir "unnu" við að sigra þennan sterka einstakling? Jú, skipta því á milli sín ... hér er komin undirstaða fyrir "Robber barons". Allir kastalar og virki sem til eru, eru víggirt svæði "hópa", sem höfðu það fyrir sið að ríða út úr virkinu, og "ræna" almenning. Þetta var náttúrulega þreytandi, svo næsta stig kom á ... "skatturinn". Það voru að sjálfsögðu margir hópar, ekki bara einn ... svo "almenningur", gaf féð til eins, til að verja sig gegn þeim næsta ... þetta var líka í hag ræningjanna ... því lítið varð eftir af fénu, eftir að fyrsti hópurinn hafði gengið berserks gang um á svæðinu ...
þetta eru miðaldirnar, víkingarnir, barónarnir, konungarnir ...
Síðan fer þetta inn á "stærra" stig, því maurahrúgan stækkar ... drottninginn verður stærri, og fleiri maurar í hrúgaldinu.
Undirstaða þessa er, að ríkið og allir sem að því standa ... lögreglan líka ... eru glæpamenn. Starf þeirra, er að ræna fólk.
Andstæðan hér, er "chaos" ... sem er undirstaða nútíma "fjölmenningar". Hugmyndin er, að ef "allir" í samfélaginu hafa hóp ... þá sé einstaklingurinn alltaf með "bakhjarl" og vernd. vandamálið við þessa hugmynd, að þetta er "Mao Tze Dong" uppfærsla á kommúnisma. Hann fékk líka "Chaos" út úr þessu, og Kína er að verða sterkt ríki aftur ... vegna þess að það er ALLTAF sterkir hópar ... ALLTAF. Eina sem "fjölmenningin" hefur í för með sér, er að "kollvarpa" núverandi hóp.
Síðan er "Socialismi", "kommunismi", "lýðræði" ... bara titill, og einskis nýtur titill ... sem er svona svipad eins og að setja orðið "góður" við hliðina á orðinu "glæpamaður" eða "heiður", við hlið orðsins "morð". Orðið "glæpur" er subjektivt ... fer eftir "skilyrðum" hvers hóps ... og einn einstaklingur í hópi A, getur litið á aðför B. sem glæp, meðan aðili úr hópi B, lýtur ekki svo á. Því löggjöf þessarra hópa, stangast oft á.
Niðurstaðan er, að einstaklingur er ALLTAF berskjaldaður gegn "the Collective". Og á sér einungis möguleika, þegar eitthvað annað "Collective" sér hag í að vernda hann.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 9.6.2017 kl. 05:52
Mannlegt eðli hefur lítið breytzt í árþúsundanna rás. Til að skilja nútímann er þess vegna oft gagnlegt að líta aftur, jafnvel mjög langt aftur, til steinaldar, því að líkamsgerð, tilfinningalíf og undirstaða hugsunarinnar þurfa mjög langan tíma til þróast að nýjum aðstæðum, e.t.v. 100 þúsund ár. Núverandi umhverfi manna er mjög óeðlilegt, ónáttúrulegt, fyrir "homo sapiens", og hann þreifar sig áfram, meira og minna í myrkri, eftir hentugum samfélagsformum.
Bjarni Jónsson, 9.6.2017 kl. 09:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.