14.6.2017 | 20:42
Höfin eru í hættu
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur nú efnt eitt kosningaloforða sinna, sem var um að hefja ferli, sem losar Bandaríkin (BNA) undan Parísarsáttmálanum frá desember 2015 um losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er mjög umdeild ákvörðun í BNA og áhrifin af henni verða líklega aðallega pólitísk og sparnaður fyrir ríkissjóð BNA um 3 miaUSD/ár í styrki til fátækra landa vegna orkuskipta. Bandaríkin eru, eins og aðrar þróaðar þjóðir, á óstöðvandi vegferð til kolefnisfrírrar tilveru. Þau eru leiðandi á ýmsum sviðum mengunarvarna, eins og nýlega kom fram í viðtali á RÚV við sérfræðing frá Cleveland um fínkornótt ryk undir 2,5 míkron í borgum.
Höfin spanna 3/4 yfirborðs jarðar og eru matarkista mannkyns. Þau sjá 3 milljörðum manna (af um 7 milljörðum) fyrir allt að fimmtungi próteinþarfar þeirra og eru þannig stærri uppspretta próteins (eggjahvítuefna) en nautakjöt. Meðalneyzla fiskmetis í heiminum er 20 kg/mann og hefur aldrei verið meiri, en aukningin kemur nánast öll frá fiskeldi, því að afli úr hafi stendur í stað. Helmingur neyzlunnar kemur frá fiskeldinu, sem er umsvifamest í Kína. Tíundi hluti jarðarbúa hefur framfæri sitt af veiðum úr sjó og af fiskeldi.
Þessum lífshagsmunum mannkyns er ógnað úr þremur áttum. Í fyrsta lagi af losun manna á gróðurhúsalofttegundum. Hafið sogar í sig hluta af koltvíildinu (CO2) og súrnar við það. Við lægra pH-gildi (aukna súrnun) eykst hættan á upplausn kalks, og þá verður öllum skeldýrum hætta búin. Vísindamenn búast við, að öll kóralrif verði horfin árið 2050, en þau eru mikilvægur hlekkur í lífkeðjunni, þar sem þau eru nú.
Hlýnun andrúmslofts væri mun meiri en sú u.þ.b. 1,0°C hlýnun frá iðnbyltingu (1750), sem raunin er núna, ef ekki nyti við hafanna, því að þau taka til sín yfir 90 % varmaaukningarinnar á jörðinni, sem af gróðurhúsalofttegundum af mannavöldum leiðir. Þetta hefur þegar leitt til meðalhlýnunar hafanna um 0,7°C. Afleiðingin af því er t.d. hækkun sjávarborðs og tilfærsla átu og annarra lífvera í átt að pólunum.
Önnur hætta, sem steðjar að höfunum, er mengun frá föstum og fljótandi efnum. "Lengi tekur sjórinn við" er orðtak hérlendis. Víðátta og gríðarlegt rúmtak hafanna gaf mönnum lengi vel þá tilfinningu, að í þau gæti allur úrgangur og rusl farið að ósekju og að frá höfunum mætti taka takmarkalaust . Nú vita menn betur. Rusl á alls ekki heima þar og skolp verður að hreinsa, fjarlægja eiturefni og föst efni niður í 0,1 míkron, ef þau leysast treglega upp.
Plastefni eru mikil ógn fyrir lífríki hafanna og fyrir a.m.k. 40 % mannkyns, sem neytir mikils fiskmetis úr sjó. Talið er, að 5 trilljónir (=þúsund milljarðar) plastagna séu í höfunum núna og 8 milljónir tonna bætist við árlega, Mt/ár. Áætlað er, að verði ekkert að gert, þá muni plastmassinn í höfunum verða meiri en massi fiskistofnanna fyrir 2050. Þetta er ógnun við allt lífríki, sem háð er höfunum, ekki sízt tegundinni, sem efst trónir í fæðukeðjunni. Fjölmargt annað mengar höfin, t.d. afrennsli ræktarlands, þar sem tilbúinn áburður og eiturefni eru notuð til að auka framleiðsluna. Þetta hefur þegar valdið mörgum lífkerfum hafanna skaða.
Þriðja ógnin við lífríki hafsins stafar af ofveiði. Á tímabilinu 1974-2013 hefur þeim stofnum, sem ofveiddir eru, fjölgað gríðarlega, eða úr 10 % í 32 %, og þeim fer enn fjölgandi. Að sama skapi hefur vannýttum tegundum fækkað úr 40 % í 10 % á sama tímabili. Fullnýttir eru þá 58 % stofnanna.
Ofveiði skapar ekki einvörðungu hættu á hruni fiskistofna og þar með minni afla, heldur er ofveiði fjárhagslega óhagkvæm. Nú nemur heimsaflinn um 95 Mt/ár, en væru veiðar allra tegunda rétt undir sjálfbærnimörkum þeirra, þá mundi veiðin geta aukizt um 16,5 Mt/ár eða um 17 %, og tekjur af veiðinni mundu aukast um 32 miaUSD/ár.
Í brezka tímaritinu The Economist birtist þann 27. maí 2017 grein um ástand hafanna undir heitinu,
"All the fish in the sea".
Þar stóð þetta m.a. um fiskveiðistjórnun:
"Með góðri stjórnun ætti fræðilega að vera hægt að stækka fiskistofnana með innleiðingu kvótakerfis tengdu eignarrétti ásamt öðrum takmörkunum á óheftri nýtingu. Kvótar og svipuð stjórntæki hafa virkað vel sums staðar. Á bandarísku hafsvæði voru 16 % nytjastofna ofveiddir árið 2015, og hafði ofveiddum stofnum fækkað úr 25 % árið 2000. En það eru annmarkar á kerfinu. Af því að útgerðirnar vilja koma með vænsta fiskinn í land, þá á sér stað brottkast minni eintaka, sem oft drepast í kjölfarið, og þar sem mismunandi tegundir eru hverjar innan um aðra, er meðafla fleygt fyrir borð, ef skipið er ekki með kvóta í þeirri tegund.
Þar að auki er ákvörðunartaka um kvótann oft með böggum hildar. Stofnanir og stjórnmálamenn gefa oft of mikið eftir gagnvart valdamiklum hagsmunaaðilum í sjávarútvegi samkvæmt Rainer Fröse hjá Helmholtz hafrannsóknarstofnuninni í Kiel í Þýzkalandi. Þrýstihópar, sem færa sér í nyt mikilvægi sjávarútvegs fyrir ákveðin byggðarlög, þrýsta á um skammtímaávinning í stað langtíma sjálfbærni. "Þeir ná í eplin með því að saga trjágreinarnar af", segir herra Fröse."
Hér er vakið máls á göllum, sem komið hafa í ljós eftir innleiðingu á kvótakerfi við fiskveiðar. Brottkast smáfiskjar er hins vegar ekki dæmigert fyrir kvótakerfi. Það tíðkast víða, þar sem lægra verð fæst fyrir slíkan. Bezta ráðið gegn brottkasti er, að ótímabundið eignarhald á afnotarétti auðlindarinnar festi sig í sessi. Þegar útgerðir og sjómenn taka að treysta á eignarhaldið, rennur upp fyrir þeim, að brottkast vinnur gegn langtíma hagsmunum þeirra. Þetta virðist hafa gerzt á Íslandi, því að brottkast smáfiskjar er talið hafa minnkað umtalsvert á þessari öld m.v. það, sem var.
Lýsingin að ofan er af of stífu kvótakerfi. Árangursríkt fiskveiðistjórnunarkerfi þarf að vera sveigjanlegt á milli tegunda, á milli ára, á milli skipa og á milli fyrirtækja og tegunda svo að nokkuð sé nefnt. Sé svo, hverfur hvati til að kasta meðafla fyrir borð, sem enginn kvóti er fyrir, enda er slíkt brottkast bæði kostnaðarsamt og felur í sér sóun á auðlindinni. Þessi sveigjanleiki er fyrir hendi hérlendis, svo að umgengni íslenzkra sjómanna og útgerðarmanna um auðlindina er talin vera til fyrirmyndar á heimsvísu.
Það, sem Rainer Fröse hjá hafrannsóknarstofnuninni í Kiel kvartar undan, er vel þekktur galli á fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins, ESB. Bretar hafa fundið þetta á eigin skinni, því að fiskveiðiflotar ESB-landanna hafa aðgang að fiskveiðilögsögu Bretlands upp að 12 sjómílum, og brezk fiskimið eru ekki svipur hjá sjón eftir ofveiði þessa mikla flota.
Árið 2019 munu Bretar losna úr viðjum ESB, öðlast fullveldi á ný og þar með ráða yfir allri fiskveiðilögsögu sinni. Þar með mun framboð fiskmetis af brezkum skipum stóraukast á Bretlandi, sem mun minnka spurn eftir fiski frá Íslandi og e.t.v. lækka fiskverð á Bretlandi. Þetta að viðbættu falli sterlingspundsins mun gera útflutning sjávarafurða til Bretlands óhagkvæmari héðan en áður. Aftur á móti mun eftirspurnin að sama skapi aukast fyrst um sinn á meginlandi Evrópu.
Sjávarútvegsyfirvöld á Bretlandi eru farin að íhuga, hvers konar fiskveiðistjórnunarkerfi hentar Bretum bezt, og einn valkostanna er aflahlutdeildarkerfi að íslenzkri fyrirmynd. Ef Bretar taka upp aflareglu í líkingu við þá íslenzku og fylgja henni stranglega eftir, þá mun þeim með tíð og tíma takast að reisa nytjastofna sína við, en þeir eru flestir illa farnir. Gangi þetta eftir, mun sjávarútvegur þeirra ekki aðeins verða rekinn með hagkvæmari hætti en nú og með minni niðurgreiðslum, heldur mun framboð fisks á brezkum fiskmörkuðum úr brezkri lögsögu aukast enn.
Fjárstuðningur við sjávarútveg úr ríkissjóðum er vandamál um allan heim. Niðurgreiðslurnar stuðla að ofveiði nytjastofna bæði á úthafsmiðum og innan lögsögu ríkja, og þær skekkja samkeppnisstöðuna. Hjá Alþjóða viðskiptamálastofnuninni, WTO, hyggjast menn leggja fram tillögur um nýjar reglur um opinberar niðurgreiðslur fiskveiða á ráðherrasamkomu í desember 2017. Þær eru taldar nema 30 miaUSD/ár í heiminum og 70 % þeirra koma frá vel stæðum ríkjum, sem væntanlega halda útgerðum á floti af byggðalegum ástæðum. Ísland, eitt örfárra ríkja, hefur ekki greitt niður sjávarútveg sinn frá innleiðingu aflahlutdeildarkerfisins. Þvert á móti greiðir íslenzkur sjávarútvegur mjög há opinber gjöld, sem hafa numið um 30 % af framlegð í góðæri. Veiðigjaldafyrirkomulagið á Íslandi er þeirrar náttúru, að það tekur tillit til afkomunnar með allt að þriggja ára töf, sem er alvarlegur galli.
Umræðan um sjávarútveginn íslenzka er með röngum formerkjum. Í stað þess að reyna að bæta rekstrarumhverfi hans og gera það sanngjarnara nú á tímum rekstrarerfiðleika vegna lágs fiskverðs í ISK, þá er rekinn áróður gegn honum með rangtúlkunum á lögum um stjórnun fiskveiða og því haldið blákalt fram, að honum beri og hann geti borgað enn meir til samfélagsins. Þetta eru þó fullyrðingar greinilega viðhafðar að órannsökuðu máli. Villtustu hugmyndirnar snúast jafnvel um að kollvarpa núverandi stjórnkerfi og taka upp bastarð, sem alls staðar hefur gefizt hroðalega, þar sem hann hefur verið reyndur og síðan fljótlega aflagður. Þetta er hin meingallaða hugmynd um uppboð aflamarks eða hluta þess. Sérfræðingar um auðlindastjórnun og uppboð segja þau ekki henta í greinum, sem þegar hafa vel virkandi stjórnkerfi reist á varanlegum og framseljanlegum afnotarétti. Nær væri stjórnvöldum að hanna auðlindamat og samræmt og sanngjarnt auðlindagjald fyrir allar nýttar náttúruauðlindir utan einkaeigna. Það á ekki að þurfa að vefjast fyrir stjórnvöldum. Það hefur birzt sitthvað á prenti um þann efnivið, t.d. á þessu vefsetri.
Þann 8. júni 2017 birtist fróðleg grein um fiskveiðistjórnun Íslendinga í Fréttablaðinu eftir Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðing SFS, sem bar heitið:
"Sjálfbær nýting íslenzka þorskstofnsins".
Hún hófst þannig:
"Vel heppnuð endurreisn íslenzka þorskstofnsins er að mínu mati langmikilvægasti árangur á sviði sjálfbærni, sem náðst hefur í stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum.
Þar sem sjávarútvegur er mikilvæg stoð efnahagslífs okkar, áttum við engan annan kost en að takast á við tvíþættan vanda ofveiði og óhagkvæmni af fullri alvöru. Þetta var gert með því að innleiða markvissa fiskveiðistjórnun með nauðsynlegri festu við ákvörðun leyfilegs heildarafla ásamt eftirfylgni með aflaskráningu og eftirliti. Þannig var kerfi aflakvóta við stjórn fiskveiða komið á í áföngum á níunda áratugi síðustu aldar, og það síðan þróað í átt til virkari stjórnunar heildarafla og aukins sveigjanleika með framsali á tíunda áratuginum og síðar.
Í kjölfar ráðgjafar frá árinu 1992 um alvarlega stöðu þorskstofnsins var dregið verulega úr veiðiálaginu. Um miðjan tíunda áratuginn voru Íslendingar síðan á meðal leiðandi þjóða í þróun langtíma aflareglna í fiskveiðum. Aflareglum er ætlað að tryggja, að veiðiálag sé hóflegt og nýtingin sjálfbær. Mikilvægt markmið með minnkun veiðiálags á þorskinn var að gera stofninum mögulegt að stækka og ná fyrri stærð, en stór veiðistofn gerir veiðar hagkvæmari, og stór og fjölbreyttur hrygningarstofn er talinn hafa meiri möguleika á að geta af sér stærri nýliðunarárganga.
Árið 2007 var veiðihlutfall þorsks samkvæmt aflareglu lækkað úr 25 % í 20 % af viðmiðunarstofni fiska fjögurra ára og eldri."
Frá því að "Svarta skýrslan" kom út hjá Hafrannsóknarstofnun árið 1975 hefur ástand og þróun þorskstofnsins löngum verið áhyggjuefni hérlendis. Þannig hafa Íslendingar horfzt í augu við hrörnun fiskistofna, eins og allir aðrir. Árið 1955 var viðmiðunarstofn þorsks um 2,4 Mt og hrygningarstofninn um 1,0 Mt. Viðmiðunarstofninn hrapaði á 35 árum um 1,8 Mt (51 kt/ár) niður í lágmark um 0,6 Mt. Hrygningarstofninn hagaði sér dálítið öðruvísi. Hann hrapaði úr um 1,0 Mt/ár árið 1955 og niður í varúðarmark, 0,15 Mt, árið 1980, en neðan varúðarmarks er þrautalendingin friðun stofnsins. Hrygningarstofninn sveiflaðist síðan á milli aðgerðarmarks, 0,2 Mt og varúðarmarks um aldamótin, en með hinni nýju aflareflu frá árinu 2007 hefur hrygningarstofninn rétt úr kútnum og er nú kominn í um 0,5 Mt, og í kjölfarið hefur viðmiðunarstofninn stækkað upp í um 1,3 Mt, sem þá gefur aflamark í þorski 260 kt/ár, sem er nálægt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar fyrir fiskveiðiárið 2017/2018. Það eru auðvitað strax komnir fram á sjónarsviðið beturvitringar, sem fullyrða að veiða megi umtalsvert meira af þorski hér við land. Brjóstvitið hefur mörgum reynzt notadrjúgt, þegar öðru var ekki til að dreifa, en það verður auðvitað að sýna fram á með rökum og tilvísunum í rannsóknir, að 20 % sé of lágt veiðihlutfall m.v. hámörkun afrakstrar til langs tíma. Annars eru upphrópanir gegn Hafró broslegar í bezta falli.
Á Íslandi var mikið í húfi, því að sjávarútvegur aflaði mests gjaldeyris allra atvinnuveganna, þegar þorskstofninn hrundi. Hann hrundi vegna langvarandi ofveiði innlendra og erlendra togara, og við lok síðustu landhelgisdeilunnar 1976 voru með opinberri hvatningu og tilstyrk pöntuð yfir 100 öflug veiðiskip. Þessa miklu sóknargetu stóðu landsmenn uppi með, þegar viðmiðunarstofninn hafði hrapað niður fyrir 1,0 Mt og hrygningarstofninn niður í varúðarmörk.
Neyðin kennir nakinni konu að spinna, og stjórnmálamönnum 9. áratugar 20. aldar tókst með aðstoð hæfra sérfræðinga að setja á laggirnar fiskveiðistjórnunarkerfi, sem leysti samtímis 2 meginviðfangsefni: að endurreisa þorskstofninn og nýta sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti og að fénýta hana með arðbærum hætti. Það er þó vert að gefa því gaum, að þorskstofninn er fjarri því að hafa endurheimt stærð sína frá miðjum 6. áratuginum, heldur er hann nælægt því, sem hann var á miðjum 7. áratugi 20. aldar. Með 20 % aflareglunni gæti hann stefnt í hámark sitt, ef náttúruleg skilyrði fyrir hann hafa ekki versnað, sem hætt er við. Með 25 % aflareglu gerði hann það ekki.
"Á nýliðnum árum hafa stjórnvöld sett aflareglur um veiðar þriggja tegunda botnfiska - ýsu, ufsa og gullkarfa - til viðbótar við þorskinn. Þessar veiðar hafa síðan fengið vottun eftir alþjóðlegum sjálfbærnikröfum samkvæmt fiskveiðistjórnunarstaðli Ábyrgra fiskveiða, sem gerir kröfu um formlega nýtingarstefnu (aflareglu) stjórnvalda, byggða á svokallaðri varúðarleið [varúðarleið er reikniaðferð fyrir viðmiðunarstofn, sem t.d. var beitt við ákvörðun aflamarks á loðnu í vetur - innsk. BJo]. Sömu veiðar, auk annarra, hafa einnig hlotið vottun samkvæmt MSC-staðli.
Ábyrg, sjálfbær og hagkvæm nýting fiskistofna er nauðsynleg undirstaða öflugs sjávarútvegs. Mikilvægt er, að nýting fiskistofna á Íslandsmiðum byggi ávallt á þessum grunni."
Ljóst er, að íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið nýtur virðingar og trausts erlendis, bæði á vettvangi fræðimanna á sviði sjávarlíffræði/sjávarútvegs og á markaði sjávarafurða. Að hækka aflaregluna núna gæti stefnt þessari viðurkenningu í tvísýnu. Það skýtur mjög skökku við, að hjáróma raddir innanlands skuli enn heyrast um að bylta þessu kerfi eða að auka opinbera gjaldtöku af útveginum. Til þess standa engin haldbær rök, hvorki sanngirnis- né efnahagsleg rök.
Að auka auðlindargjaldið enn frekar er einhvers konar lýðskrum af ómerkilegasta tagi, sem er bæði efnahagslegt og byggðalegt óráð. Nær væri að finna sameiginlegan grundvöll fyrir verðmætamat á öllum nýttum náttúruauðlindum, sem ekki eru í einkaeign, og taka hóflegt (innan við 5 % af framlegð og ekkert, fari hún undir 20 %) auðlindargjald af þeim öllum. Núverandi ráðherra sjávarútvegsmála virðist því miður vera stödd á algerum villigötum (eða hafvillu), hvað þetta varðar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Umhverfismál, Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.