Lestarstjórar á hliðarspori

Þeir, sem halda því fram, að járnbrautarlest á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLR) og Umferðarmiðstöðvarinnar (UMS) í Vatnsmýri geti í fyrirsjáanlegri framtíð orðið arðbær, vaða reyk, og þeir eru á villigötum bæði varðandi kostnað verkefnisins og tekjur af lestinni.  Kveður svo rammt að þessu, að afskrifa þyrfti meira en 60 % kostnaðarins við verklok, svo að reksturinn stæði undir öllum kostnaði m.v. 9,0 %/ár ávöxtunarkröfu fjármagns, sem bundið er í þessu verkefni.  Það eru alls engin þjóðhagsleg eða umhverfisleg rök fyrir svo fráleitum gerningi, sem að öllum líkindum væri þá afskrifaður á kostnað skattborgaranna, eins og rakið er í lok þessa pistils.  

Hér er um að ræða "offjárfestingu dauðans", því að megnið af leið lestarinnar liggur hún samhliða vegi, sem mun geta flutt 100´000 manns á sólarhring, þegar hann hefur verið tvöfaldaður alla leið og tengdur gatnakerfi allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, nema Seltjarnarness, með mislægum gatnamótum við stofnæðar. Þetta þarf að framkvæma sem fyrst af öryggisástæðum, t.d. vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna á bílaleigubílum og kostar smáræði m.v. lestarkostnaðinn.   

Umferðarþunginn á Reykjanesbraut frá Njarðvíkum til Hafnarfjarðarfjarðar (2x2 brautir) um þessar mundir er að jafnaði vel innan við fimmtungur af flutningsgetu vegarins, og er nauðsynlegt að vinda bráðan bug að 2x2 braut alla leið.  Ef þessi flutningsgeta verður einhvern tíma fullnýtt, þá er hægurinn á að bæta við akrein í sitt hvora átt fyrir kostnað, sem nemur rúmlega tíunda hluta lestarkostnaðarins.    

"Lestarstjórarnir" (fluglestarfélagið) áætla, að flutningsgeta lestarinnar muni verða um 10´000 farþegar á sólarhring. Að leggja út í gríðarlega fjárfestingu, miaISK 175, til að bæta 10 % við flutningsgetu, þar sem nýtingin er nú minni en 20 %, er það, sem átt er við með "offjárfestingu dauðans" í þessu sambandi. Hvernig stendur á því, að stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, ljá máls á, að viðkomandi sveitarfélög taki þátt í að undirbúa þessa endileysu ?

Forsvarsmaður undirbúningsfélags "fluglestarinnar" hefur upplýst, að farmiði með lestinni muni kosta ISK 5000 aðra leið.  Farþeginn borgar þá 100 ISK/km, en til samanburðar nemur rekstrarkostnaður rafmagnsbíls (orka, viðhald, tryggingar, opinber gjöld) um 6,0 kr/km.  Það eru einmitt rafmagnsbílar, sem lestin mun þurfa að keppa við, bílaleigubílar, rútur, leigubílar og einkabílar. 

Lestin getur ekki keppt á tíma, þótt hún verði einungis 20 mín í förum, nema við rúturnar, vegna biðtíma á endastöðvunum og millibiðstöðvum, og ferðatíma að og frá þeim öllum, nema flugstöðinni.  Hún mun heldur ekki geta keppt á verði, eins og kom fram hér að ofan. 

Járnbrautarlest á milli FLR og UMS hefur ekkert samkeppnisforskotHvernig á hún þá að ryðja sér til rúms á markaðinum ?

Jónas Elíasson, prófessor emeritus og áhugamaður um betri borg, ritaði fróðlega grein í Morgunblaðið 19. júní 2017, um þessa járnbrautarlest, og þar er hann ómyrkur í máli um þetta gæluverkefni.  Fyrirsögn greinarinnar var,

"Illa grundað gæluverkefni": 

Um kostnaðaráætlun verkefnisins reit hann eftirfarandi:

"Einnig upplýsti forsvarsmaðurinn [fluglestarfélagsins í útvarpsviðtali - innsk. BJo], að engar rannsóknir hefðu farið fram vegna 12 km af jarðgöngum, sem gert er ráð fyrir frá Straumsvík inn á BSÍ. Reyndar er heill hellingur af rannsóknum til, en sem dæmi þá er vitað, að grunnberg í Straumsvík er á 20 m dýpi.  Ofan á því liggja míglek hraun og Reykjavíkurgrágrýti, og það er því nokkuð ljóst, að áætlun félagsins upp á 100 milljarða fær vart staðizt.  Um 150-200 milljarðar eru nær lagi."

Í arðsemisútreikningum blekbónda, sem raktir  verða hér að neðan, er farið bil beggja og reiknað með stofnkostnaðinum A=miaISK 175.

Gert er ráð fyrir viðhaldskostnaði, VHA=miaISK 1,0, starfsmannakostnaði, STA=miaISK 1,0 og orkukostnaði, ORK=miaISK 0,2.  Alls verður þá árlegur rekstrarkostnaður, B=miaISK 2,2, sem er lágmark til þessara þarfa.  

Verkefnið er áhættusamt, og þess vegna má reikna með, að fjárfestar sætti sig ekki við minni ávöxtun en 9,0 % á ári.  Einhvern tímann nefndi forsvarsmaður undirbúningsfélags fluglestarinnar reyndar, að hún mundi skila 15 % ávöxtun.  

Eimreið og vagnar endast e.t.v. í 15 ár, spor í 40 ár og jarðgöng í 60 ár án verulegs viðhalds.  Á þessum grunni er valinn afskriftatími verkefnisins 40 ár.

Með núvirðisreikningum má finna út, að árlegur fjármagnskostnaður verkefnisins, KF=miaISK 16,3, og árlegur rekstrarkostnaður er samkvæmt ofangreindu a.m.k., B=miaISK 2,2.  Þetta saman lagt gefur heildarkostnað af verkefninu á ári: K=miaISK 18,5. 

Þá er auðvitað næsta spurning, hvort árlegar tekjur af járnbrautarlestinni muni hrökkva fyrir þessum kostnaði.  Áætlanir "lestarstjóranna" munu snúast um að flytja 10´000 manns á sólarhring fyrir 5000 kr/mann að jafnaði.  Gangi þessi ofurbjartsýnisspá eftir, þá gengur dæmið upp, því að árlegar tekjur munu þá nema: T=10k x 5 kISK x 0,365k = miaISK 18,3.

Það er hins vegar nánast alveg útilokað, að járnbrautarlestin hreppi svona stóran skerf af heildarfarþegafjöldanum á milli FLR og höfuðborgarsvæðisins, sem m.v. 3,0 M erlenda ferðamenn, 1,0 M innlenda ferðamenn (í báðar áttir) og 10 % íbúa Reykjanesbæjar og nágrennis í förum til vinnu eða skóla eru tæplega 8,0 M/ár eða tæplega 22 k á sólarhring að meðaltali.

Meginástæðan fyrir því, að nánast útilokað er, að lestin hreppi 10/22=0,45=45 % heildarfarþegafjöldans,  er sívaxandi notkun erlendra ferðamanna á bílaleigubílum.  Þegar þeir verða rafvæddir (drægni rafbíla á einni rafgeymahleðslu er nú þegar meiri en meðalakstursvegalengd erlendra ferðamanna á dag), þá verður orkukostnaður þeirra aðeins 1/3 af núverandi eldsneytiskostnaði, og verðið á rafmagnsbílum er að verða svipað og á sambærilegum eldsneytisbílum vegna niðurfellingar ríkissjóðs á vörugjöldum og virðisaukaskatti og sívaxandi framleiðslufjölda rafmagnsbílanna.  

Þann 17. marz 2017 birtist í Morgunblaðinu frétt undir fyrirsögninni, "Stóraukin notkun bílaleigubíla".

Þar var vitnað í skýrsluna "Akstur og öryggi erlendra ferðamanna 2016", sem fyrirtækið "Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf" samdi með tilstyrk Rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar.

"Áætlað er, að árið 2016 hafi um 960 þúsund erlendir ferðamenn nýtt sér bílaleigubíla á Íslandi (56 % gestanna) samanborið við um 480 þúsund árið 2014 (48 %) og 166 þúsund árið 2009 (33 %)."

Af þessu sést, að það er stígandi í hlutfalli erlendra ferðamanna, sem skiptir við bílaleigurnar.  Þetta hlutfall stefnir vel yfir 60 %, og hér verður gert ráð fyrir, að 60 % erlendra ferðamanna leigi sér bíl í FLR og skili honum þar, og 20 % þeirra noti aðra ferðamáta en bílaleigubíl og lest.  Þannig verður hlutdeild lestarinnar í flutningum erlendra ferðamanna úr og að FLR aðeins 20 %, sem er innan við helmingur þess, sem "Fluglestin-þróunarfélag" hefur gefið út. 

Þá verður gert ráð fyrir, að sem svarar 5 % íbúa í Reykjanesbæ taki lestina 200 daga á ári og 50 þúsund íslenzkir ferðamenn taki hana fram og til baka á ári.  

M.v. 3,0 M erlendra ferðamanna verður farþegafjöldinn með fluglestinni samkvæmt þessu: FÞF=4700 manns/ár.

Þetta er innan við helmingur þess farþegafjölda, sem lestarstjórarnir reikna með, og með meðalmiðaverði ISK 5000 verða árlegar tekjur 8,5 miaISK/ár.

Árlegur kostnaður er sem sagt ríflega tvöfaldar árlegar tekjur í þessu dæmi.  Hér hefur þó kostnaður sízt verið ofáætlaður og tekjurnar ekki verið vanáætlaðar, nema síður sé.  Fluglestarhugmyndin er annarleg og sem viðskiptahugmynd hreint glapræði, sem opinberir aðilar á Íslandi, ríki og sveitarfélög, verða að halda sig frá, þótt a.m.k. sum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hafi hug á að tengja hugarfóstur vissra stjórnmálamanna þar, Borgarlínuna, við Fluglestina.  Hvað hefur Jónas Elíasson að segja um þessi mál ?:

"Í þeim borgum, sem lestir eru reknar, er það undantekningarlaust vegna þess, að vegasamgöngur hafa ekki undan.  Vegir anna með öðrum orðum ekki einir sér þeim fjölda fólks, sem þarf til að komast inn í London, París, Tokyo, New York og Kaupmannahöfn, svo að algeng dæmi séu nefnd.  Engum slíkum rökum er þó hér til að dreifa.  Vegirnir í Reykjavík hafa þrátt fyrir allt við, og tiltölulega litlu þyrfti að kosta til, svo að umferð á höfuðborgarsvæðinu komist í gott lag.  

Næsta mannsaldurinn eða svo (rúmlega 30 ár) er búizt við 70 þúsund manna fjölgun á höfuðborgarsvæðinu.  Mannfjöldinn verður þar samt um eða undir kvartmilljón, sem er fátt m.v. mannfjöldann í ofangreindum borgum og færra en alls staðar, þar sem talið hefur verið nauðsynlegt að létta á vegumferð með járnbrautarlest.  Járnbrautarlest til að tengja höfuðborgarsvæðið við stærsta alþjóðaflugvöll landsins er þess vegna verkefni án fordæma erlendis frá að teknu tilliti til aðstæðna.  Þetta er sérvizkugrilla, sem ekki er reist á raunverulegri þörf eða vandaðri þarfagreiningu.

  Mislægu gatnamótin, sem nú er verið að byggja á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði kosta "aðeins" miaISK 1,2.  Það þarf að byggja allt að 10 slík mislæg gatnamót á höfuðborgarsvæðinu og fjölga akreinum á stofnæðum til að greiða úr umferðarhnútunum.  Slík fjárfesting fyrir e.t.v. miaISK 25 leysir umferðarvandann fyrir einvörðungu þriðjung af kostnaði við Borgarlínu, sem þó mun alls engan vanda leysa.  

"Svo virðist sem gylliboð um erlent fjármagn hafi sannfært ráðherrann og sýnt honum fram á, að ríkissjóður væri þar með úr allri hættu.  Það er reyndar á töluverðum misskilningi byggt.  Með hliðsjón af þeim neikvæða hagnaði (tapi), sem lestarreksturinn stefnir að óbreyttu í, er afar ólíklegt, að fjárfestar komi að málinu öðruvísi en með því skilyrði, að ríki og borg ábyrgist eins og 50-100 milljarða króna lán[reyndar líklega 60%x175miaISK = miaISK 105 - innsk. BJo] til einkahlutafélags, sem byggja á lestina.  Fjárfestar, og alls ekki erlendir, eru ekki þekktir að því að hætta eigin fjármagni í framkvæmdir með litla sem enga hagnaðarvon.  

Að umsömdum byggingartíma liðnum, þegar hin gamalkunnuga Vaðlaheiðarstaða verður komin upp með öllum sínum forsendubrestum, hvaða tryggingu hafa skattgreiðendur fyrir því, að fjárfestarnir verði ekki farnir og fjármagnið með; að ríki og borg sitji ekki eftir með lestarrekstur í fanginu ?

Að erlendir fjárfestar taki fjárhagslega ábyrgð á umræddri lest með eigin peningum - menn geta rólega gleymt því.  Það er því harla ólíklegt, að einkahlutafélag sveitarfélaga fái svo mikið sem krónu af innviðagjaldi í svona lestarrekstur, jafnvel þó að gjaldið verði sett á (sem verður þó vonandi ekki), enda er málið tóm vitleysa frá upphafi, sprottið upp af óstjórninni í Reykjavík."

Hugmynd um að leggja járnbrautarteina á milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Umferðarmiðstöðvarinnar er afspyrnu léleg viðskiptahugmynd, sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi og vitnar um meira en litla veruleikafirringu.  Þegar mun hafa verið varið MISK 200 til skýrsluskrifa, sem ætlað er að tæla einfalda stjórnmálamenn og aðra auðtrúa til fylgilags við fluglestina.  Hver hefur verið svo ábyrgðarlaus að ljá máls á þessum blekkingum ?  Eru það sveitarstjórnarmenn ?  Jónas Elíasson heldur því fram, að þetta vitlausa mál sé "sprottið upp af óstjórninni í Reykjavík".  Þar eru menn, eins og þeir eru, gaddfreðnir á lestarspori til heljar, en í öðrum sveitarfélögum ættu menn ekki að láta hafa sig að ginningarfíflum með því að veita fluglestarfélaginu ádrátt um að taka frá verðmætt land undir teina og biðstöðvar, sem að öllum líkindum aldrei munu verða að veruleika.

Nýjustu fregnir herma þó, að undirbúningur að "Lava Express" sé að komast á flugstig að tilstuðlan viðkomandi sveitarfélaga á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu.  Þannig birtist kortskreytt frétt af legu jarðganganna eftir Baldur Arnarson í Morgunblaðinu á Jónsmessunni, 24. júní 2017, undir hinni ískyggilegu fyrirsögn:

"Nýr kafli að hefjast í þróun fluglestar":

"Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu [SSH] og Fluglestin - þróunarfélag hafa gert með sér samstarfssamning um þróun skipulagsmála vegna hraðlestar, sem ætlað er að tengja saman Keflavíkurflugvöll og höfuðborgarsvæðið.  Hann bíður nú samþykkis sveitarfélaga."

Íbúar eiga heimtingu á því að fá að vita, hvað hér er verið að bralla.  Er þessu ævintýrafélagi, Fluglestinni - þróunarfélagi, veittur ádráttur um að taka dýrmætt land frá undir gríðarlegan hávaðavald meðfram ströndinni á Suðurnesjum í samningum þess við sveitarfélög þar og land fyrir biðstöðvar og op niður í lestargöngin í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og Reykjavík ?  Af fréttum að dæma eru yfirvöld einum um of leiðitöm; sumir mundu jafnvel kveða svo rammt að orði, að þau láti ævintýramenn teyma sig á asnaeyrunum.  Ef þessi sömu sveitarfélög ætla að samþykkja að taka þátt í fjármögnun undirbúningsfélags, sem á að fá miaISK 1,5 til ráðstöfunar í rannsóknir, umhverfismat og frumhönnun, þá er of langt gengið, og munu þá væntanlega margir kjósendur sýna hug sinn í verki á vori komanda.  

Í fréttinni var þetta haft eftir Runólfi Ágústssyni, framkvæmdastjóra Fluglestarinnar - þróunarfélags um nýgerðan samning á milli félags hans og SSH:

"Runólfur segir samninginn mikinn áfanga.  "Þetta hefur þá þýðingu, að við getum farið í næsta fasa, og farið að fjármagna hann, sem eru skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum, frumhönnun og rannsóknir, sérstaklega á berglögum í gangastæðinu.  Þessi fasi kostar í heild 1,5 milljarða [ISK] og tekur 3 ár.  Við stefnum á að fjármagna þennan pakka í haust.""

Það væri synd að segja, að þær sveitarstjórnir og hugsanlega aðrir stjórnmálamenn, sem við þessa fluglest eru riðnir, hafi ekki verið varaðir rækilega við.  Allur kostnaður, beinn og óbeinn, sem af þessum skýjaborgum hlýzt, mun fara í súginn.  Í þeim tilvikum, að um skattfé verði að ræða, verða viðkomandi stjórnmálamenn látnir standa umbjóðendum sínum reikningsskil gerða sinna.  

 

 

 

 

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Bjarni.

Í ítarlegri færslu þinni tekst þér ágætlega að færa rök fyrir hversu arfavitlaus þessi lestar hugmynd er, hvernig sem á hana er litið.

Sem dæmi nefni ég að ef ég væri að koma hlaðinn farangri til landsins, þá væri aðeins fræðilegur möguleiki á að ég færi að bíða eftir og troðast með töskurnar um borð í næstu lest í bæinn, þá og því aðeins að ég væri illa blankur og lestarferðin væri ókeypis.

Að mínu mati þá væri ekki óeðlilegt að upplýst og vakandi yfirvöld tækju lyfja prufur af embættismönnum þeim er sóa skattfé borgaranna í ruglaðar óraunhæfar þvælu hugmyndir á borð við þessa, líkt og segja má sömuleiðis um fyrirhugaða Borgarlínu, lokun Reykjavíkur flugvallar, byggingar Landspítala við Hringbraut og auðvitað Vaðlaheiðarganga, svo eitthvað sé nefnt.

Jónatan Karlsson, 25.6.2017 kl. 07:34

2 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Sjálfkeyrandi strætisvagnar ( rafmagns)eru að koma til Osló og verða prófaðir þar á næsta ári. Tækninni fleygir fram hraðar en " lestarstjórar" geta hugsað.

Jósef Smári Ásmundsson, 25.6.2017 kl. 11:04

3 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Ekki gleyma því að um leið og ríkið er búið að skrifa undir skuldina 105 milljarðana í erlendri mynt þá kemur hrun og skuldin dettur í 210+ milljarða.

Einnig, í flestum tilvikum er fólk ekki eitt á ferð, um leið og það eru komnir 2 aðilar þá er jafn dýrt að taka leigubíl (15þ) beint heima frá sér og út á völl frekar en að borga leigubíl (3-5þ) á lestarstöðina + 10þ í lestina sjálfa, ferðatíminn með leigubíl ca 35mín heimafrá, ferðatími heima frá í lest + bið eftir lestinni og lest út á völl er alveg klárlega meiri en 35mín.

Ég sem skattgreiðandi hef engan áhuga á að borga svona fúlgu fyrir eitthvað sem ég mun aldrei nota....

Halldór Björgvin Jóhannsson, 25.6.2017 kl. 13:21

4 Smámynd: Elle_

Góð grein, Bjarni, þú skrifaðir:

Forsvarsmaður undirbúningsfélags "fluglestarinnar" hefur upplýst, að farmiði með lestinni muni kosta ISK 5000 aðra leið.  Farþeginn borgar þá 100 ISK/km . . .

Það kostar kr. 2.5000 að fara með FLYBUS-rútu frá BSÍ Reykjavík út á Keflavíkurflugvöll. Það er ekki dýrt og fargjaldið hefur lítið hækkað, ekkert hækkað allavega síðan í febrúar eða fyrr.

Elle_, 25.6.2017 kl. 18:00

5 Smámynd: Elle_

Það kostar kr. 2.500, með 2 núllum ;)

Elle_, 25.6.2017 kl. 18:00

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jónatan;

Það er þannig t.d. á Kloten flugvelli, að þar er lestin einfaldlega ódýrasti kosturinn að komast til Zürich.  Hún stoppar víða á leiðinni, þannig að hún hentar mörgum.  Á viðskiptaferðum eru menn yfirleitt með lítinn farangur, og þá geta menn valið hótel tiltölulega stutt frá lestarstöð.  Orlofsferðamenn eru hins vegar með meiri farangur, og þá er erfitt að komast gangandi frá lestarstöð, eins og þú bendir á.  

Bjarni Jónsson, 25.6.2017 kl. 18:04

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jósef Smári;

Það verður fróðlegt að fylgjast með, hvernig ökumannslausum strætisvögnum vegna á veturna í Ósló.  Þar hlóð iðulega niður snjó í "den".  Árekstravarinn á bílnum mínum er næmur fyrir snjó, og gefur þá "falska" aðvörun.   

Bjarni Jónsson, 25.6.2017 kl. 18:10

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Halldór Björgvin;

Það er hárrétt athugað, að séu tveir eða fleiri á ferð, sem er reglan, nema á viðskiptaferðalögum, þá er ódýrara og fljótlegra að taka leigubíl en að taka fluglestina.  

Bjarni Jónsson, 25.6.2017 kl. 18:15

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Elle;

Guðmundur Tyrfingsson er búinn að kaupa til landsins, að ég hygg, fyrstu rafknúnu rútuna.  Ég hygg, að styttist í rafknúnar flugrútur, og þá mun verða unnt að lækka verðið á farmiðanum.  Lest, sem hvorki getur keppt við leigubíla né rútur, er dauðadæmd. 

Bjarni Jónsson, 25.6.2017 kl. 18:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband