Forstjóri gripinn glóðvolgur

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ötulasti boðberi fagnaðarerindisins um gull og græna skóga Íslendingum til handa, ef þeir bara ganga draumsýninni á hönd um að selja hluta af orku landsins beint um sæstreng til Bretlands, hefur jafnan haldið þeirri firru blákalt að landsmönnum, að ekki þyrfti að virkja mikið af nýjum vatnsvirkjunum til að fullnægja hugsanlegum orkusölusamningi við Breta.  Slíkur samningur fyrir 1000 MW sæstreng gæti þó numið 8,0 TWh/ár, sem er um 40 % aukning á núverandi raforkuvinnslugetu landsins.  

Téður boðberi, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur haldið því blákalt fram, að sæstrengsviðskiptin mundu gera kleift að auka nýtingu íslenzka vatnsorkukerfisins umtalsvert.  Hvernig honum gat dottið það í hug án þess að auka miðlunargetuna, þ.e. að stækka núverandi miðlunarlón og/eða taka ný í notkun, hefur alltaf verið þeim blekbónda, er þetta ritar, hulin ráðgáta, og það hefur margoft komið fram á þessu vefsetri.  Nú hefur galdrakarlinn verið afhjúpaður opinberlega.  Það gerði rækilega Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, í ágætri grein í Morgunblaðinu 20. júní 2017,

"Aflaukning í vatnsaflsvirkjunum". 

Lítum fyrst á firrur forstjórans.  Þær komu t.d. fram í viðtali við hann í Fréttablaðinu, 14. júlí 2016, 

"Þarf ekki stórvirkjun fyrir sæstrenginn":

"Orkuþörf sæstrengs frá Íslandi til Bretlands verður að miklu leyti uppfyllt með bættri nýtingu á núverandi kerfum.  [Þessi fullyrðing forstjórans er ótrúlega bíræfin, og hann hefur aldrei borið það við að rökstyðja hana, enda er hún bull, eins og Skúli Jóhannsson, verkfræðingur, sýndi fram á í tilvitnaðri grein sinni - innsk. BJo.]  

Gert er ráð fyrir, að einungis komi 250 MW úr hefðbundnum virkjanakostum [væntanlega vatnsafls- og jarðgufuvirkjanir - innsk. BJo], ígildi innan við helmings Kárahnjúkavirkjunar."

Aflinu, 250 MW, má umbreyta í líklega orkuvinnslugetu á ári með því að reikna með nýtingartíma toppsins 90 % [=hlutfall meðalafls og toppafls].  Þá fæst, að 250 MW hefðbundnar virkjanir geta framleitt 2,0 TWh/ár eða fjórðung þess, sem sæstrengsorkusamningur væntanlega krefst af forgangsorku.  

"Hörður segir, að orkuþörfin fyrir sæstreng komi að mjög miklu leyti út úr nýjum smærri kostum, eins og litlum vatnsaflsvirkjunum, vindorku og lághita jarðhita, sem ekki er verið að nýta í dag.  "Þetta er ekki fyrst og fremst stór virkjanaframkvæmd.""

Þetta er alveg stórfurðulegur málflutningur, enda órökstuddur og þess vegna óboðlegur.  Niðurstaða Skúla, sem rakin verður hér á eftir, er, að svo kölluð bætt nýting á núverandi vatnsorkuverum muni þýða innan við 0,1 TWh/ár (< 100 GWh/ár) í viðbótar orkuvinnslugetu landskerfisins, og í núverandi jarðgufuver er ekkert að sækja; þvert á móti þyrfti að létta á þeim sumum, t.d. hinni stærstu, Hellisheiðarvirkjun, til að stöðva hraðan niðurdrátt í jarðgufugeyminum og ná nokkurn veginn sjálfbærum rekstri.  

Samtíningur smávirkjana, þ.m.t. vindrafstöðva, þarf þá að gefa orkuna E=8,0-2,0-0,1=5,9 TWh/ár.  Er manninum ekki sjálfrátt ?

Til að vinna þessa orku úr vindi í slitróttum rekstri á Íslandi þarf eigi færri en 350 stk 5,0 MW vindmyllur, og slíkur vindmyllureitur mundi þekja um 10 km2.  Hvar á að finna þeim vindmyllum stað ?  Fyrirhugaður vindmyllulundur á Hafinu ofan Búrfells var Skipulagsstofnun ekki þóknanlegur, þegar hann og umhverfisáhrif hans voru kynnt, og var hann þó aðeins fjórðungur af þessum ósköpum.  Setjum svo, að ákveðið verði að þriðjungur af 5,9 TWh/ár verði látinn koma frá vindmyllum, eða 2,0 TWh/ár.  Þar sem vindmyllur geta ekki látið í té forgangsorku af veðurfarslegum ástæðum, verður að setja upp varaafl fyrir þær, 250 MW.  Virkjanir af hefðbundna taginu verða þá að vera að uppsettu afli 750 MW.  

Forstjórinn ætlar reyndar ekki að láta vindmyllur fylla alfarið upp í skarðið, heldur verða þær þá eitthvað færri, en í staðinn koma smávirkjanir. Þær þurfa þá ekki aðeins að framleiða upp í samning, þegar vindar blása og gefa fullt afl, heldur einnig, þegar lygnt er, og fylla þá í skarð vindmyllnanna. Varla hefur téðum forstjóra þó komið til hugar að leita eftir virkjunarleyfi í bæjarlæknum hjá bændum landsins, en hann hefur e.t.v. í huga virkjanir 50-100 MW að stærð.  Sá er hængurinn á, að þar er um rennslisvirkjanir að ræða, nema hann ætli í meiri háttar rask með gerð fjölda miðlunarlóna, eitt fyrir hverja litla virkjun. 

Það er meiriháttar annmarki á bæði rennslisvirkjunum og vindmyllum.  Á hvorugri virkjanagerðinni er unnt að grundvalla samning um sölu á forgangsorku vegna slitrótts rekstrar, og það hefur komið fram, að öðru hafa Englendingar ekki hug á frá Íslandsstreng, enda dettur engum vitibornum manni í hug að leggja 1300 km sæstreng án þess að ætla að nýta hann til fullnustu.  Bilanir setja svo strik í reikninginn, eins og dæmin sanna.

Það rekur sig hvað á annars horn í málflutningi forstjóra Landsvirkjunar um sæstreng til Skotlands, og orkuöflunarhugmyndir hans fyrir strenginn ganga engan veginn upp.  Það er ekki nóg fyrir hann að segja, að talsmenn stóriðju hafi rétt á að setja fram gagnrýni sína.  Það er tímabært, að hann setji fram haldbæra röksemdafærslu, tæknilega, umhverfislega og viðskiptalega. Að íslenzk raforkufyrirtæki leggi í risafjárfestingar fyrir sölu um sæstreng, sem getur ekki borið sig án mikilla niðurgreiðslna úr brezka ríkissjóðnum, er algerlega fjarstæðukennd hugdetta.

Þá að grein Skúla Jóhannssonar, verkfræðings.  Hann hefur greinina þannig:

"Komið hafa fram upplýsingar um, að með aflaukningu í núverandi vatnsaflsvirkjunum væri hægt að auka orkugetu landskerfisins um samtals 840-960 GWh/ár.  Óhætt er að fullyrða, að stækkun Búrfellsvirkjunar er ekki hluti af þessu mati."

Hér á hann sennilega við ósundurliðaðar upplýsingar frá Landsvirkjun um 900 GWh/ár +/- 60 GWh/ár = 0,9 TWh/ár.  Þetta á sennilega að vera eitt af því, sem fyllir upp í 6,0 TWh/ár skarð í orkusölusamningi inn á sæstreng, en er það raunhæft ?: 

"230 MW uppsett afl í Kárahnjúkavirkjun II [til að  hindra yfirfall á Kárahnjúkastíflu í fossinn Hverfanda ofan í árfarveg Jöklu, Kárahnjúkavirkjun I er 690 MW - innsk. BJo] mundi auka orkugetu kerfisins um 50 GWh/ár.  Aukning á afli Kárahnjúkavirkjunar um 33 % eykur því orkugetu virkjunarinnar aðeins um 1 %. Nýtingartími uppsetts afls í stækkuninni verður aðeins 220 klst/ár og nýting á aflinu því aðeins um 2,5 %.  Hin lága nýting mundi örugglega leiða til þess, að stækkunin væri langt frá því að vera hagkvæm.  Ekki eru tök á að fara nánar út í þá sálma hér, enda þyrfti að hanna útfærslu á hinni nýju virkjun og reikna stofnkostnað."

Að óreyndu gætu menn haldið, að mestu mundi muna um aflaukningu Kárahnjúkavirkjunar, og það er sennilega rétt, en bæði er, að um hana munar sáralítið, og hún er svo dýr, að kostnaður við hverja unna orkueiningu verður svo hár, að valkosturinn er ósamkeppnishæfur.  Ekki verður því að óreyndu trúað, að sérfræðingar Landsvirkjunar og ráðgjafar hennar hafi ekki fyrir löngu gert sér grein fyrir þessu.  Samt hamrar forstjóri fyrirtækisins á því sem viðskiptaávinningi sæstrengsins, að hann geri kleift að bæta nýtingu þeirra orkulinda, sem þegar eru virkjaðar í landinu.  Þessa meinloku virðist hann hafa borið með sér inn í Landsvirkjun, nýgræðingur á orkusviði, og sennilega reynt að selja stjórn fyrirtækisins sæstrengshugmyndina út á þessa vitleysu.  Það er löngu kominn tími til, að stjórn fyrirtækisins ásamt ráðherrum ríkisstjórnarinnar, iðnaðar-, ferðamála- og nýsköpunar og fjármála- og efnahagsráðherra, sem fer með hlut ríkisins í fyrirtækinu, kveði skýrt upp úr um afstöðu sína til þessa máls.  Málið hefur allt of lengi valdið óþarfa misklíð í þjóðfélaginu og óvissu um, hvert yfirvöld stefna með íslenzkar orkulindir.

"Hugmyndir um Kárahnjúkavirkjun II geta enn þá varla talizt meira en létt hjal.  Niðurstöðurnar hér að framan benda eindregið til þess, að borin von sé að koma þarna upp hagkvæmum virkjunarkosti.

Aukning á uppsettu afli í öðrum vatnsaflsvirkjunum skilar sáralítilli aukningu í orkugetu fyrir hina hefðbundnu markaði, sem eru í gangi allt árið. Hér er átt við Sogsvirkjanir, Sultartangavirkjun, Búðarhálsvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun, Vatnsfellsvirkjun og Blönduvirkjun.

Sæmileg stækkun á afli hverrar virkjunar fyrir sig mun leiða til aukningar í orkugetu kerfisins á bilinu 0-10 GWh/ár, í flestum tilvikum nær núllinu.  Það vantar vatn til að knýja viðbótaraflið, þegar þess er þörf.  

Eins og vikið hefur verið að í greininni, er fjarstæða að halda því fram, að hægt sé að fá aukningu í orkugetu upp á 840-960 GWh/ár með aflaukningu í núverandi vatnsaflsvirkjunum.

Engu að síður hefur þessi orka verið í boði bæði fyrir orkuskipti á bílaflota og í fiskimjölsverksmiðjum og fyrir sæstreng til Bretlands.

Er ekki þarna verið tvíbjóða einhverja orku, sem því miður er bara ekki til ?"

Það er með ólíkindum, að þessi umræða skuli vera uppi.  Það er vel rökstutt, að talsmaður Landsvirkjunar fer með fleipur eitt og hefur með óvönduðum málatilbúnaði tekizt að rugla umræðuna um hinn mikilvæga málaflokk, orkumál.  Það er brýnt, að stjórnvöld rétti kúrsinn af, komist út úr þoku sæstrengsumræðunnar og móti landinu orkustefnu til langs tíma, sem setji orkuskipti á oddinn og innlenda notendur, fjölskyldur og fyrirtæki hérlendis, í forgang.  Það hefur verið sýnt fram á, t.d. á þessu vefsetri, að vegna verndunarsjónarmiða og umhverfisverndar verða orkulindirnar ekki til skiptanna á milli innanlandsnotkunar og orkuútflutnings um sæstreng, nema til Færeyja, ef Færeyingar telja sér hag í að kaupa raforku á því verði héðan, sem spannar kostnað allra mannvirkjanna að sæstreng meðtöldum.  Það er hins vegar líklegt, að hagkvæmara verði fyrir þá að setja upp lítil þóríum-kjarnorkuver á eyjunum á næsta áratugi.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það mætti halda að lesendur láti sér fátt um finnast - eða nenni ekki að lesa allan pistilinn - eða séu allir í sumarfríi!

En þetta var nú mitt fyrsta verk á netinu í morgun að lesa þennan frábæra pistil þinn, Bjarni, og nokkru seinna að segja frá honum í innhringingu á Útvarp Sögu og mæla með lestri hans.

Það er makalaust þakkarvert að þú skulir gefa þig að því að fjalla um þessi tæknilegu, en um leið þjóðhagslega mikilvægu mál, sem sumir fyrir vanþekkingu gætu komið okkur í klandur út af.

En skrifin innirðu af höndum eitilskarpur og tjaldar allri orkumála- og stærðfræðiþekkingu til.

Veigur er líka að því að þú vísar oft í upplýsandi greinar annarra verkfræðinga, eins og hans Skúla hér. Hann þekki ég að góðu, en á þá ánægju væntanlega eftir að hitta þig einhvern tímann, snillingur, og þakka þér öll greinaskrifin!

Jón Valur Jensson, 5.7.2017 kl. 03:30

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Ekki lýst mér á ef forstjórinn er ennþá með sæstrenginn til UK á heilanum.Ég nefndi þetta við frænda minn,verkfræðing (síðastl sumar) hjá Landsvirkjun,en hafði auðvitað ekkert í hann sem vill afsalútt að þetta nái fram að ganga.- Púnta hjá mér það sem ég næ í hér sem mælir á móti,því ég á örugglega eftir að reyna mig af veikum mætti í rökræðum um,en bendi þá á grein Skúla Jóhanssonar frá því í júní.Mb.Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 5.7.2017 kl. 03:43

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þakka enn eina góða greinina frá þér Bjarni. Forstjóri Landsvirkjunar vinnur eftir þeirri kennisetningu, að því oftar sem sama dellan, já eða lygin, er endurtekin, því meiri líkur eru á að einhverjir fari að trúa óskapnaðinum. Verst er að þeir sem fyrstir falla fyrir þessu rugli eru yfirleitt frétta og stjórnmálamenn. Þær stéttir ættu, samkvæmt öllu eðlilegu, að spyrja mest og kynna sér málin til botns, en virðast hinsvegar opinmynntar og algerlega gagnrýnislaust kyngja hvaða þvælu sem er, ef hún er aðeins endurtekin nógu oft, af "réttum" aðilum.

Rafstrengur til Bretlands er á svipuðu "kaliberi" og borgarlína og fluglestin. Algert rugl, frá A til Ö. Fjárhagslegt harakiri, hvernig sem á það er litið.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 5.7.2017 kl. 04:37

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Tek algerlega undir með Halldóri Agli hér -- vel mælt!

Gangi þér líka vel við að minna á þetta mál, Helga!

Jón Valur Jensson, 5.7.2017 kl. 10:43

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir stuðninginn, Jón Valur.  Hann er mér eðlilega mikils virði og andlegt fóður, því að skrifin eru auðvitað innt af hendi af einskærum áhuga á málefninu og þeirri sannfæringu, að öndverð sjónarmið við þau, sem telja réttast að binda þjóðinni þunga fjárhagsbagga með von um mjög vafasaman ábata, eigi erindi á opinberan vettvang.  Almennt fyllist ég tortryggni, þegar embættismenn og/eða stjórnmálamenn leggja til, að farið verði í rándýrar framkvæmdir, kostaðar af almenningi þessa lands, án þess að gerð hafi verið vönduð þarfagreining eða traust viðskiptaáætlun lögð fram.  Í tilviki Landsvirkjunar er hér um að ræða fjárfestingar í virkjunum, sem gætu staðið lítt notaðar og óarðbærar vegna langvinnra strengbilana, breyttra markaðsaðstæðna á Englandi eða ákvörðunar Westminster um að draga úr eða hætta niðurgreiðslum á "raforku frá útlöndum".  

Bjarni Jónsson, 5.7.2017 kl. 10:53

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga.

Téður sæstrengur er svo dýr í hönnun, framleiðslu og lagningu, ásamt afriðli og áriðli í hvorum enda, að eigandi hans, hver sem sá yrði, þyrfti að taka um 90 USD/MWh fyrir orkuflutning um hann til að fá viðunandi arðsemi m.v. áhættu verkefnisins, að teknu tilliti til 10 % orkutapa um mannvirkin.  Virkjana- og flutningsfyrirtækin þurfa a.m.k. 35 USD/MWh fyrir sinn snúð.  Kostnaður orkunnar, þegar hún er komin til Englands (Skotar hafa enga þörf fyrir hana) verður þá ekki undir 125 USD/MWh.  Þetta er meira en tvöfalt heildsöluverð á Englandi, og nánast útilokað, að stjórnmálalegur vilji verði fyrir því á Bretlandi að láta brezka ríkissjóðinn borga mismuninn.  Hver hérlendis vill eiga afkomu a.m.k. 1000 MW virkjana hérlendis undir vilja brezkra stjórnmálamanna, þegar brezki ríkissjóðurinn berst í bökkum.

Nú hefur þú vonandi fengið nokkurt fóður í samræðurnar við frænda þinn.  Gangi þér vel. 

Bjarni Jónsson, 5.7.2017 kl. 11:17

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Halldór Egill;

Ef menn hafa tengt trúverðugleika sinn við málstað, sem reynist standa á brauðfótum, svo að notað sé pent orðalag, þá geta þeir ekki bakkað með hann, þótt þeir "hangi í köðlunum" í hringnum.  Það er fátt orðið eftir annað en einhver hendi handklæðinu inn í hringinn.  Sá, sem hér er til umræðu, átti aldrei neitt erindi inn í þennan hring, og því fór sem fór.  

Bjarni Jónsson, 5.7.2017 kl. 11:26

8 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Já þakka þér Bjarni minn.

Helga Kristjánsdóttir, 7.7.2017 kl. 00:47

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hafið öll bestu þakkir fyrir!

Árni Gunnarsson, 7.7.2017 kl. 08:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband