13.9.2017 | 13:15
"Villta vestrið" ?
Hérlendis hefur því verið haldið fram, að Norðmenn væru komnir að þolmörkum norskra fjarða fyrir laxeldi. Þeir hafa mest framleitt 1,3 Mt/ár (M=milljón), en í fyrra minnkaði framleiðslan við Noregsstrendur í 1,2 Mt vegna sjúkdóma og laxalúsar. Verðið er hátt um þessar mundir, svo að markaðurinn mun taka við meiru.
Norðmenn eru ekki af baki dottnir frekar en fyrri daginn. Nú hafa borpallahönnuðir þeirra hannað risavaxna eldiskví, sem ætlunin er að staðsetja utan fjarða við strendur Noregs. Þar með hefst nýtt "marnám" fyrir fiskeldi. Fimm slíkar kvíar eru nú í smíðum í Kína fyrir SalMar, og ein á leiðinni frá Kína til Noregs. SalMar er hluthafi í Arnarlaxi á Íslandi.
"Ocean Farm 1" eldisstöð mun líklega samanstanda af 6 slíkum risakvíum. Með þessum hætti hyggjast Norðmenn tvöfalda framleiðslu sína innan áratugar, og ráðagerð starfsleyfisveitenda í Noregi er, að framleiðsla eldislax við Noreg muni nema 5 Mt/ár innan tveggja áratuga. Framleiðsla Íslendinga verður þá et.v. 2 % af norsku framleiðslunni, því að tæplega verður staðsetning risakvía leyfð hérlendis utan fjarða.
Þetta er djarfhuga ráðagerð Norðmanna, sem er reist á beztu tækni á öllum sviðum, sem að þessu koma. Aðeins 3-7 starfsmenn verða staðsettir við eldisstöðina, og munu þeir fylgjast með 20´000 nemum og sæg myndavéla. Þarna verður minni hætta á mengun og minni hætta á sjúkdómum og lús vegna sterkari strauma og lægra sjávarhitastigs, en flutningar munu verða kostnaðarsamari. Framleiðnin verður hins vegar gríðarleg.
Aflúsunarlyfin eru varasöm, og Hafrannsóknarstofnunin íslenzka telur, að notkun aflúsunarlyfja í fiskeldi geti haft skaðleg áhrif á rækjustofna og lagði eðlilega til bann við notkun þeirra á rækjusvæðum í frummatsskýrslu um laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Ætti það alls staðar að verða við lýði í a.m.k. 5 km fjarlægð frá rækjusvæðum.
Hins vegar er ekki hægt að segja, að áhættugreining á sjókvíaeldi lax í Ísafjarðardjúpi réttlæti ákvörðun um að fresta um óákveðinn tíma leyfisveitingum um þetta eldi í Ísafjarðardjúpi. Þar vegast einfaldlega á miklir almannahagsmunir og litlir sérhagsmunir. Það er ósiðlegt að láta almannahagsmunina víkja í ljósi þess, að það er hægt að skilyrða leyfisveitingu við skaðabótaábyrgð, ef illa fer. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun hafa 59 hnúðlaxar og 8 regnbogasilungar bitið á agn stangsveiðimanna í sumar. Um þetta hefur Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva eftirfarandi að segja samkvæmt Fréttablaðinu, 8. september 2017:
"Þessar tölur gefa það til kynna, að íslenzkt sjókvíaeldi sé ekki vandamál fyrir íslenzkar ár. Í tölunum er enginn lax úr íslenzku sjókvíaeldi. Einnig eru mjög fá tilvik um veiddan regnbogasilung. Þessar tölur gefa því vísbendingar um, að vel sé haldið á spöðunum í fiskeldi á Íslandi og slysasleppingar ekki vandamál þar."
Að enginn eldislax skuli veiðast í ánum nú, þegar framleiðslan nemur 10 kt í ár, bendir til, að ný tækni og ný vinnubrögð samkvæmt ströngum norskum staðli, standi undir mestu væntingum, sem til þeirra voru gerðar, þ.e. strokhlutfall undir 5 ppm. Þar með stafar náttúrulegum löxum í Ísafjarðardjúpi ekki hætta af kynblöndun við eldislaxa í 15 kt laxeldi þar m.v. varúðarreglu Hafrannsóknarstofnunar um hámark 4 % eldislax í laxveiðiá.
Í ljósi aðstæðna væri rétt að stíga þegar í stað skrefið til hálfs í Ísafjarðardjúpi og veita leyfi fyrir 15 kt sem upphafsmagni fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra talar digurbarkalega um viðkvæm mál, sem varða lífshagsmuni fólks:
"Með tillögunum [Starfshóps um stefnumörkun í fiskeldi] er leitazt eftir því að að útrýma því villta vesturs ástandi, sem ríkt hefur í greininni",
hafði Fréttablaðið eftir ráðherranum 24. ágúst 2017. Ekki verður betur séð en þetta sé afar ósanngjarnt orðalag í ljósi þess, að síðasta árið hefur ríkt stöðnun í útgáfu starfsleyfa til laxeldisfyrirtækjanna, sennilega að undirlagi þessa sama ráðherra, því að hún ætlar sjálf að koma á stjórnleysi á þessu sviði, með því að leiða auðvaldið til öndvegis og láta peningana ráða því, hverjir fá starfsleyfi. Í því felst stjórnunarleg uppgjöf hennar sem fulltrúa almennings, sem á að stjórna með almannahag í fyrirrúmi, en ekki að draga taum ríkustu fyrirtækjanna, sem hug hafa á að færa út kvíarnar við Ísland. Hvers vegna ekki að leyfa öllum, sem áhuga hafa og fullnægja hæfnisskilyrðum, að stunda laxeldi við Ísland og gera það á landfræðilega skipulegan hátt ?
Mogginn hefur eftir þessum angurgapalega ráðherra, 24. ágúst 2017, að "tillaga um nýtt fyrirkomulag við útgáfu leyfa sé um leið gríðarlega mikilvæg".
"Þetta er svolítið eins og villta vestrið í dag, og við þurfum að koma böndum á það."
Sá ráðherra, sem viðhefur þetta groddalega orðalag um núverandi fyrirkomulag leyfisveitinga, sem óneitanlega hefur verið hægvirkt að undanförnu, ætlar sjálf að koma hér á öngþveiti með því að bjóða starfsleyfin hæstbjóðanda. Hún mun neyðast til að binda útboðið alls kyns skilyrðum og takmörkunum, svo að því fer fjarri, að frjáls markaður fái að ráða vali á fyrirtækjum. Hins vegar getur hún endað með kraðak fyrirtækja í sama firði, og það hentar engum. Uppboð starfsleyfa við fiskeldi geta leitt til færri fyrirtækja í þessari starfsemi, sem er ekki hagfellt m.t.t. samkeppni þeirra á milli um starfsfólk og þjónustu, svo og fyrir eftirsóknarverða áhættudreifingu. Uppboðsleiðin er algerlega vanhugsuð aðferðarfræði á þessu sviði.
Fjárhagslega er uppboðsleið ofaukið í starfsemi, þar sem aðilar hafa komið sér saman um, að fiskeldisfyrirtækin skuli greiða árlegt auðlindargjald. Ráðherrann fer offari í skattheimtu af fyrirtækjunum að ætla bæði að bjóða út leyfi og að taka árlegt auðlindargjald. Hún stórskaðar ekki aðeins starfsemina, heldur einnig starfsfólkið og byggðirnar með þessari skattpíningu. Þingið verður að koma vitinu fyrir ráðherrann. Svona gera menn ekki.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Flottur, Bjarni, eins og venjulega, glöggur og skarpur.
Ég var farinn að hallast að landeldi á laxi, en sé nú, að þessu ætti að vera óhætt. Tillaga þín um 15 kt ársframleiðslu er í raun hófsöm og góð sem upphafstilraun til að læra af.
Og ég tek undir orð þín um ofurskattheimtuna.
En nú er sem betur fer þessi ríkisstjórn fallin og þar með skammsýni sjávarútvegsráðherrann, hjúkk!
Jón Valur Jensson, 15.9.2017 kl. 04:34
Þakka þér fyrir ofangreint innlegg þitt, Jón Valur. "Homo sapiens" væri skammt kominn á veg nú, ef hann hefði við hver vegamót á þróunarferli sínum farið í áhættugreiningu án þess að taka tillit til afleiðinganna fyrir sjálfan sig af því að heykjast á að fara ótroðnar slóðir. Í þessu tilviki er ekki verið að finna upp hjólið, tæknin er þekkt og vel þróuð og vinnubrögðin niður njörvuð með ströngum norskum staðli. Að stíga skrefið til hálfs í reynsluskyni í Ísafjarðardjúpi er eðlilegast í þessari stöðu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra minnir í afstöðu sinni til málaflokka ráðuneytis síns meira á námuhest (með svartar hliðarblöðkur við augun) en á víðsýnan foringja, sem vissulega þarf í þetta embætti. Meira um það síðar.
Bjarni Jónsson, 15.9.2017 kl. 10:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.