Um hvað eiga þingkosningarnar í haust að snúast ?

Landsmenn hafa nú fengið smjörþefinn af því, hvað það getur kostað þá að leiða smáflokka til valda.  Það er enginn veigur í þeim, þeir leggjast marflatir við goluþyt.  Að leiða þá til öndvegis kallar á óstöðugt stjórnarfar í landinu.  

Fyrst lengir það stjórnarmyndunartilraunir, ef fleiri en tvo flokka þarf til að mynda ríkisstjórn, þingstörf smáþingflokka verða í skötulíki við að manna ráðherrastóla, og mannvalið er sjaldnast beysið, eins og dæmin sanna.  Úthaldið í valdastólunum er takmarkað, og baklandið í flokkunum getur fyrirvaralaust á valdi tilfinninganna snúið baki við samstarfsflokkunum með furðulegum og ósvífnum hætti, eins og varð síðustu ríkisstjórn að aldurtila, langt um aldur fram.  

Vilji kjósendur láta tilfinninguna ráða því, hvaða stjórnmálaflokkur hlýtur atkvæði þeirra í komandi Alþingiskosningum, ætti sú tilfinning að vera trauststilfinning.  Hvaða stjórnmálaflokki treystir þú bezt til að sýna festu og ábyrgð við landsstjórnina á næsta kjörtímabili ?  Það er ábyggilegt, að festa og ábyrgð á æðstu stöðum verður í askana látin hjá almenningi, en ákvarðanafælni, upphlaup og sýndarmennska ekki.  

Ef kjósendur vilja láta rökhyggjuna ráða ferð um það við hvern er krossað á kjörseðlinum, má t.d. spyrja sig þeirrar spurningar, hvaða stjórnmálaflokkur er líklegastur til, m.v. reynsluna, að varðveita bezt þau hámarks lífskjör, sem landsmenn njóta nú ?  

Sjálfstæðisflokkurinn hefur langflesta félaga innanborðs, félaga, sem mynda grasrót flokksins um allt land og kjölfestu allra sveitarfélaga á Íslandi.  Þingmenn flokksins gjörþekkja lífsbaráttu íslenzku þjóðarinnar, eru flestir alþýðufólk og vinna í anda hinna gömlu slagorða flokksins:

"Stétt með stétt" og "Eign handa öllum". 

Það er þess vegna engin hætta á öðru en þingmenn og ráðherrar flokksins séu með gott jarðsamband og stjórni með hagsmuni alþýðunnar fyrir augum. Fámenn klíka, 40-50 manns, eins og hjá smáflokkunum í ríkisstjórninni, getur ekki tekið völdin í Sjálfstæðisflokkinum og steypt ríkisstjórninni upp úr þurru, sízt af öllu að næturþeli á valdi tilfinninganna og án þess að ræða ágreiningsefnið við samstarfsflokkana.  Ótrúleg hegðun BF er einstæð, enda lítilmótleg, og verður í annála færð sem slík, því að Umboðsmaður Alþingis hefur lýst því opinberlega yfir, að hann sjái alls ekkert tilefni til rannsóknar á leyndarhyggju, yfirhylmingu eða trúnaðarbresti.  Ekkert af þessu var fyrir hendi í raun og veru, en grasseraði í heilabúum taugaveiklaðs pólitísks smælkis.   

Margir þingmanna Sjálfstæðisflokksins, og má benda á Óla Björn Kárason í kjördæmi blekbónda til vitnis um það, eru þeirrar skoðunar, að "litli atvinnurekandinn" sé kjarninn í sínu byggðarlagi og að þeir saman séu kjölfesta miðstéttarinnar í landinu.  Þetta getur verið Jódýnus, vinnuvélaeigandi og verktaki, Björn, bóndi, Njörður, útgerðarmaður, Eldon, rafvirkjameistari, Smiður, byggingarmeistari, Pétur, prentsmiðjueigandi eða Kristín, tannlæknir, svo að fáein dæmi séu nefnd, sem margir þekkja.  

Lítil og meðalstór fyrirtæki veita langflestum launamönnum vinnu, og þau eru oft í harðri samkeppni við mun stærri fyrirtæki, sem hafa aðgang að ódýru fjármagni á hlutabréfamarkaði, meira að segja frá lífeyrissjóðum.  Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um hagsmuni litlu og meðalstóru fyrirtækjanna, launþeganna, sem hjá þeim starfa, og allra neytenda með því að jafna samkeppnisskilyrðin og lækka alla skatta í kjölfar niðurgreiðslu ríkisskulda, jafnt beina sem óbeina. Báðar gerðir skattheimtu hafa verið lækkaðar að tilstuðlan sjálfstæðismanna á undanförnum árum, en með lækkun vaxtakostnaðar og drjúgum hagvexti skapast skilyrði til að gera enn betur.  Sjálfstæðismenn eru einir um þessa skoðun á Alþingi.

Í fjármálaráðherratíð Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili var gerð gangskör að þessu með afnámi tolla og vörugjalda á allt, nema jarðefnaeldsneytisknúna bíla, og með afnámi miðþreps tekjuskatts einstaklinga.  Þá var bilið á milli VSK þrepanna stytt með því að færa þau nær hvort öðru, og ríkisstjórn þessa kjörtímabils ætlaði að lækka efra þrep VSK enn meir eða niður í 22,5 % með breikkun skattstofns. 

Hins vegar setti fjármálaráðherrann, Benedikt Jóhannesson, í fjárlagafrumvarp 2018 inn gríðarlega hækkun á eldsneytisálögum, sem ekki njóta stuðnings allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þótt honum hafi verið leyft að leggja frumvarpið fram með fyrirvörum um breytingar í meðförum þingsins.  Þannig átti dísilolíuverð að hækka um 18 kr/l + kolefnisgjald + VSK og benzínverð um 8 kr/l + kolefnisgjald + VSK.  Þetta er mjög íþyngjandi hækkun fyrir fjölskyldurnar og atvinnulífið, sem rýrir kaupmáttinn og hlýtur að enda úti í verðlagi vöru og þjónustu.  Hækkanirnar eru skaðlegar og óverjandi með vísun til orkuskipta, því að innviðir orkuskipta eru enn í skötulíki hérlendis og víðast hvar erlendis.  

Það er óheppilegt fyrir stöðugleika stjórnarfarsins að fylgi kjósenda dreifist á marga flokka.  Þriggja flokka stjórnir, hvað þá með fleiri flokka innanborðs, eru veikar, eins og dæmin sanna, og vilji kjósenda birtist ekki sem skyldi í stjórnarstefnunni vegna mikillar útþynningar og málamiðlana.  Í raun og veru spanna 3,5 flokkar öll meginsjónarmið, þ.e. frjálslyndra borgaralegra viðhorfa hægra megin við miðju, xD, einn flokkur, spannar miðjuna, xB, og sá þriðji spannar vinstri stefnu, xV.  Þessi hálfi, xC, með fáfróða ráðgjafarráðið með ranghugmyndir um starfsstjórn o.fl, getur spannað þá, sem eindregið vilja, að Alþingi afsali fullveldi landsins til leiðtogaráðs ESB í Brüssel.

Þeir kjósendur, sem vilja ráðdeild og skilvirkni í ríkisrekstri með fjölbreytni rekstrarforma á þjónustu ríkisins, velja Sjálfstæðisflokkinn.  Þeir, sem vilja háskattastefnu, stöðvun á lækkun skulda ríkissjóðs og hraðfara útþenslu ríkisbáknsins, þeir kjósa vinstri græna.  Síðan ræðst framhaldið af því, sem upp úr kjörkössunum kemur, en verði kaupin þessi á eyrinni, þá verður a.m.k. fræðilega hægt að mynda tveggja flokka ríkisstjórn.  Það er heimskulegt fyrirfram að útiloka nokkurn stjórnmálaflokk til samstarfs, eins og t.d. píratar hafa verið gjarnir á að gera.  Slíkt ber ekki vitni um virðingu fyrir lýðræðinu, enda eru þeir vargar í véum.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er greinilegt að þú ert sjálfstæðismaður;

fyrir hvað stendur þessi RAUÐI TEXTI  í þinni kynningu? 

Höfundur er rafmagnsverkfræðingur og starfaði í tæplega 35 ár við að breyta raforku í útflutningsvöru, en lét af þeim störfum 28. febrúar 2015.  Hann er fylgjandi einstaklingsfrelsi til orðs og æðis, þjóðfrelsi og markaðsbúskap með félagslegu ívafi (Sozial-Marktwirtschaft). 

Jón Þórhallsson, 25.9.2017 kl. 12:11

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þú átt kollgátuna, og ég fer ekki dult með það.  Þvert á móti er ég stoltur af.  Í textanum er á knappan hátt drepið á lengstum hluta starfsferilsins og síðan lýst í stuttri málsgrein höfuðatriðum stjórnmálaskoðana vefritarans.  Þær fara prýðilega við stefnumið Sjálfstæðisflokksins.  Geta fleiri stjórnmálaflokkar tileinkað sér þau ?  Er ástæða til að auka nákvæmni lýsingarinnar ?

Bjarni Jónsson, 25.9.2017 kl. 13:10

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Blátt er aðal litur sjálfstæðisflokksisn en fyrir hvað stendur RAUÐI LITURINN? 

Jón Þórhallsson, 25.9.2017 kl. 14:45

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Rautt er fallegur litur finnst mér þótt minn uppáhalds sé blár.  Af hverju þarf endilega að tengja litasmekk við pólitískar skoðanir? 

Kolbrún Hilmars, 25.9.2017 kl. 14:58

5 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er rétt að fólk getur notað allskyns liti í sínu lífi án þess að það þurfi að endurspegla stjórnmál eða gaypride-fánann. 

Þetta var bara smá forvitni hjá mér.

Jón Þórhallsson, 25.9.2017 kl. 15:23

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ætli litavalið þarna hafi ekki verið skírskotun til "blóðs, svita og tára" ?

Bjarni Jónsson, 25.9.2017 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband