3.10.2017 | 13:31
Verðmætasköpun og draumóramenn
Öll verðmætasköpun samfélagsins á sér stað í fyrirtækjum landsins. Stjórnmálamenn, ríkisvald, embættismenn og sveitarstjórnir, sjá svo um að eyða jafngildi tæplega helmings vergrar landsframleiðslu af verðmætasköpun fyrirtækjanna.
Skýjaglópar og harðsvíraðir vinstri menn virðast enga grein gera sér fyrir því, hvernig verðmæti verða til. Verknaðir og umræður sýna þetta ljóslega. Þeir slátra mjólkurkúnni og éta útsæðið, ef þeir komast í aðstöðu til þess. Þetta lá í augum uppi á dögum vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, og málflutningur ríkisstarfsmannsins, Tómasar Guðbjartssonar, læknis á Landsspítalanum, ber dálítið keim af blindu á það, hvernig verðmæti verða til, og þeirri rörsýn, að eitt útiloki annað, þegar mismunandi verðmætasköpun er annars vegar. Þetta hefur einnig verið nefnt naumhyggja. Sem dæmi þá finnast engin tilvik um það í heiminum, að vatnsaflsvirkjanir hafi haft neikvæð áhrif á ferðaþjónustu; þvert á móti, vatnsaflsvirkjanir hafa verið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, enda hefur vegalagning fyrir virkjanir víða auðveldað ferðamönnum að komast leiðar sinnar.
Tómas, læknir, skrifar enn eina tilfinningaþrungnu greinina í Fréttablaðið, 21. september 2017. Ber þessi grein heitið:
"Þarfnast móðir náttúra umboðsmanns ?
Í greininni svarar ríkisstarfsmaðurinn spurningu sinni játandi; það sé þörf á að bæta í báknið og auka ríkisútgjöldin til þess eins að auka tvíverknað í kerfinu og skörun embætta. Blekbóndi vill aftur á móti halda því fram, að fyrir sé meira en nóg af silkihúfum á ríkisjötunni, sem geri fátt gagnlegt til að létta landanum lífsbaráttuna, en verji of miklum tíma í að fægja á sér klærnar.
Téð grein Tómasar hefst þannig:
"Það er flestum ljóst, sem fylgzt hafa með umræðunni um fyrirhugaða Hvalárvirkjun og stóriðju í Helguvík, að náttúra Íslands á undir högg að sækja. Orkufyrirtæki og erlend stóriðja ásælast vatnsföll okkar og jarðhitasvæði til raforkuframleiðslu."
Hér er gamalkunnug klisja á ferð, fimmtug afturganga frá orðafari Einars, heitins, Olgeirssonar, kommúnistaforingja, í eldheitri umræðu á Alþingi um Búrfellsvirkjun og Alusuisse, fyrsta eiganda ISAL í Straumsvík. Þá var málið samsæri erlends auðvalds og innlendrar borgarastéttar gegn verkalýð landsins um að ræna hann arðinum af orkulindunum á "hausaskeljastað".
Þessi áróður læknisins er alger tímaskekkja, því að nú erum við reynslunni ríkari og vitum, að vatnsaflsvirkjanirnar mala alþýðu landsins gull og knýja fyrirmyndar vinnustaði, hvað aðbúnað starfsmanna, launakjör og mengunarvarnir snertir. Svartagallsraus af þessu tagi sæmir illa háskólaborgara. Honum væri nær að vara við mestu umhverfisvá nútímans, ferðamanninum, og taka upp baráttu til eflingar gróðurþekju lands með stærstu eyðimörk Evrópu. Það gerir hann ekki; þvert á móti ráðleggur hann Vestfirðingum að hætta við Hvalárvirkjun, sem þó verður grundvöllur að uppbyggingu fjölbreytilegs atvinnulífs og orkuskiptum á Vestfjörðum, og einbeita sér að ferðaþjónustu. Það hefur aldrei þótt ráðlegt að setja öll eggin í eina körfu. Þetta er afleit ráðgjöf læknis í Reykjavík til Vestfirðinga.
"Nú eru á teikniborðinu 8 stórvirkjanir á Íslandi. Þær eiga alls að framleiða 419 MW af orku (sic), sem að langmestu leyti (80 %) er hugsuð til stóriðju, ekki sízt kísilvera í Helguvík. Þessar virkjanir kosta gríðarlegt fé, og arðsemi þeirra er umdeild, enda virðist hagnaður af starfseminni, sem þær þjóna, oft á tíðum færður með bókfærslubrögðum til útlanda."
Þessi málflutningur læknisins orkar tvímælis og þarfnast skoðunar:
Á Íslandi er það Verkefnisstjórn Rammaáætlunar, sem gerir tillögu til Alþingis um flokkun orkunýtingarkosta í nýtingu, bið eða vernd. Samkvæmt gildandi Rammaáætlun eru 18 virkjanakostir í nýtingarflokki að aflgetu alls 1421 MW. Þar af eru 6 virkjanir yfir 100 MW og mega e.t.v. kallast stórvirkjanir á íslenzkan mælikvarða. Þær eru (JG=jarðgufa, VA=vatnsafl, VM=vindmyllur):
- Kröfluvirkjun, JG, 150 MW
- Austurengjar, JG, 100 MW
- Sandfell, JG, 100 MW
- Sveifluháls, JG, 100 MW
- Urriðafoss, VA, 140 MW
- Blöndulundur, VM, 100 MW
- Alls 690 MW
Það er áreiðanlega ofsögum sagt, að 4 þessara stórvirkjana séu á hönnunarstigi, hvað þá að búið sé að semja um orkusölu frá 4 stórvirkjunum. Hvaðan í ósköpunum kemur þá lækninum sú vizka, að "arðsemi þeirra [sé] umdeild" ? Hagkvæmniathugun fer ekki fram fyrr en verkhönnun er langt komin og söluverð orku er ljóst.
Lækninum verður tíðrætt um stóriðju og ætíð í niðrandi tóni. Hér skal benda þessum lækni á tvær staðreyndir í sambandi við stóriðju og raforkufyrirtæki á Íslandi:
- Raforkukerfi landsins væri aðeins svipur hjá sjón án stóriðjunnar, enda mundi þá einingarkostnaður (ISK/kWh eða ISK/MW) vera mun hærri en nú er.
- Íslendingar búa við eitt lægsta raforkuverð í heimi. Það stafar af því, að markaður var í landinu fyrir raforkuvinnslu og raforkuflutning í stórum stíl. Stóriðjan hefur gert meira en greiða fyrir sína hlutdeild í raforkukerfiskostnaðinum. Með öðrum orðum: lægsta raforkuverð í heimi væri ekki mögulegt á Íslandi án mikillar raforkusölu samkvæmt langtímasamningum við öflug fyrirtæki, sem njóta trausts lánastofnana, og þar með getur virkjunarfyrirtækið notið hagstæðari lánakjara.
Dylgjur læknisins um bókhaldssvindl og skattaundanskot alþjóðlegra fyrirtækja hér eru í anda annarra einangrunarsinna, sem horn hafa í síðu erlendra fjárfesta hérlendis. Allar vestrænar þjóðir keppast þó um að laða til sín beinar erlendar fjárfestingar, því að þær hafa góð áhrif á hagvöxt og þekkingarstig í þjóðfélaginu og draga úr lánsfjárþörf atvinnulífsins. Viðurkennd endurskoðunarfyrirtæki rýna og árita bókhald þessara fyrirtækja, og það er ótrúlegur barnaskapur hjá lækninum að væna öll þessi fyrirtæki um svindl og svínarí. Gengur hann heill til skógar ?
Að einu leyti hefur blekbóndi samúð með sjónarmiðum læknisins, en það er, þegar hann gagnrýnir hugmyndina um sæstreng á milli Íslands og Skotlands. Hann virðist þó halda, að viðskiptahugmyndin sé sú að senda Skotum "græna orku" til notkunar í Skotlandi. Það er engin þörf á því. Skotar eiga nóg af endurnýjanlegum orkulindum. Hugmyndin er að selja Englendingum íslenzka orku og kaupa af þeim raforku, þegar þörf krefst hérlendis. Slík tenging mun óhjákvæmilega hækka raforkuverðið hérlendis, og íslenzkar orkulindir hrökkva fyrirsjáanlega ekki til fyrir vaxandi þjóð, orkuskipti og sæstreng. Þessi rök nefnir læknirinn þó ekki.
Það slær hins vegar alveg út í fyrir lækninum, þegar hann kveður "tímabært að setja á stofn nýtt embætti; Umboðsmann náttúrunnar, sem gjarna mætti vera kona, því að þær virðast iðulega víðsýnni en karlar, þegar kemur að náttúruvernd." Það væri augljóst brot á jafnréttislögum að auglýsa eftir öðru kyninu í þessa stöðu, en aðalatriðið er, að stöðunni yrði algerlega ofaukið í íslenzku stjórnsýslunni við hliðina á Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytinu, og að stofnsetja það væri aðeins til að þenja út báknið og að fjölga silkihúfunum. Hver veit, nema það verði eitt af gæluverkefnum nýrrar vinstri stjórnar að stofna þetta þarflausa embætti til þess eins að koma skattpeningum í lóg. Samkvæmt lögmáli Parkinsons yrði þarna komið 10 manna starfslið innan tíðar, sem mundi ekkert annað gera en að tefja afgreiðslu stjórnsýslunnar, og er hún þó nógu hæg fyrir.
Læknirinn gerist skáldlegur á köflum, en þó flækist alltaf rörsýnin fyrir honum, sem t.d. fyrirmunar honum að skilja slagorðið:"nýtum og njótum": "Ég tel ljóst, að unaðsstundir í náttúru Íslands séu í huga flestra Íslendinga og erlendra gesta dýrmætari en kílovattstundir."
Þetta á ekki að vera spurning um annaðhvort eða, heldur hvort tveggja. Tæknin leyfir slíkt nú á dögum. Sjálfbær kílowattstund er unaðsleg í heimi rafmagnslegrar ósjálfbærni, og hún fer vel með unaðsstundum í faðmi náttúrunnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Ferðalög, Lífstíll, Umhverfismál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.