5.10.2017 | 11:08
Skýr og yfirvofandi hætta
Gekk ekki amerísk bíómynd hér fyrir allmörgum árum undir heitinu, "Clear and present danger" ? Nú vofir yfir landsmönnum augljós hætta á, að við ríkisstjórnarborðið muni bráðlega eftir Alþingiskosningar 28. október 2017 ríkja sams konar óstjórn og í Ráðhúsi Reykjavíkur. Munurinn verður sá einn, að í Ráðhúsinu er Samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson í oddvitasætinu, en við enda ríkisstjórnarborðsins mun sitja "litla stúlkan með eldspýturnar", Katrín Jakobsdóttir, ef fer fram sem horfir. Ef kjósendur fá henni eldfæri í hendurnar, þá mun hún setja púðurtunnu undir ríkiskassann og kveikja í öllu saman. Þetta sést af tillögum vinstri grænna um hrikalegar útgjaldahækkanir ríkissjóðs tímabilið 2018-2022.
Reykjavík stefnir á að lenda í höndum fjárhagslegs tilsjónarmanns vegna skuldasöfnunar. Ekkert sýnir betur ábyrgðarleysi vinstri grænna, samfylkinga og pírata við meðferð annarra manna fjár. Með hliðsjón af tillögum VG við gerð fjárhagsáætlunar ríkisins í vor munu matsfyrirtækin neyðast til að lækka lánstraustsmatið á ríkissjóði, og Seðlabankinn mun sjá sig knúinn til að hamla gegn lausung ríkisfjármálanna með hækkun stýrivaxtanna. Afleiðing lausungarinnar verður vaxtastökk á verðtryggðum og á óverðtryggðum lánum. Að sukka er alltaf dýrkeypt, og aðalfórnarlömb vinstri vingulsháttarins verða þeir, sem sízt skyldi.
Þegar rúmlega 900 manns höfðu í skoðanakönnun, sem upplýst var um 23. september 2017, svarað efnislega, hvaða stjórnmálaflokk þau hygðust kjósa í komandi Alþingiskosningum og 30 % þeirra lýstu yfir stuðningi sínum við Vinstri hreyfinguna grænt framboð, þá var "litla stúlkan með eldspýturnar" strax tilbúin að stjórna íkveikju ríkissjóðs. Hún lýsti því yfir, að hún vildi leiða vinstri stjórn, sem nyti meirihluta á Alþingi. Fyrir hana er þó ekki sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að það á eftir að renna upp fyrir mörgum, að hag þeirra verður verst komið undir vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Þegar ólánsferill vinstri stjórnarinnar 2009-2013 er hafður í huga og með hliðsjón af óstjórninni á öllum sviðum í Reykjavík, má gera því skóna, að vinstri grænka við stjórnvölinn í Stjórnarráðinu muni:
- gera fyrirtækjum landsins erfiðara fyrir með aukinni skattheimtu. Nú er kólnun hagkerfisins hafin, sem þýðir minnkandi þörf á að fjölga starfsfólki. Ef skattbyrði fyrirtækja verður á sama tíma aukin, þá munu þau flest neyðast til að fækka hjá sér starfsfólki. Fyrirtækin verða að bregðast við með tvenns konar hætti: Á sviðum takmarkaðrar samkeppni, verður kostnaðaraukningunni velt út í verðlagið, sem er ávísun á versnandi lífskjör almennings, því að verðbólga er næstversti óvinur launamannsins. Annars neyðast fyrirtækin til að draga saman seglin og fækka starfsfólki, og atvinnuleysi er versti óvinur launamannsins. Af þessu má draga þá ályktun, að skattbyrði fyrirtækjanna kemur harðlega niður á lífshagsmunum launþega. Við kólnun hagkerfa ber að forðast "harða lendingu" með því að létta skattbyrðina. Vinstri grænir eru í senn fúskarar á sviði hagfræði og gösslarar á sviði stjórnsýslu, því að þeir lifa í eigin veruleikafirrta heimi, þar sem kenningar Marx og Leníns eru öllu ofar.
- hækka beina skatta á einstaklinga með því að hækka skattheimtuna í núverandi hærra þrepi (46 %) og jafnvel með því að stofna til þriðja þrepsins þar fyrir ofan. Leiða má þá hugann til frönsku sossanna, sem bjuggu til 75 % tekjuskattsþrep. Þetta mun hafa afar slæm áhrif á kjör ungs fólks, sem leggur mikið á sig í vinnu og er með há útgjöld vegna fjárfestinga og ómegðar. Þetta bitnar líka hart á sérfræðingum, í mörgum tilvikum nýkomnum að utan með háa námsskuld á bakinu. Gæti leitt til gjaldþrota, ef hrun verður á húsnæðismarkaði vegna samdráttar í hagkerfinu.
- valda gríðarlegu verðmætatjóni í samfélaginu og glötuðum tækifærum, þar sem nýsköpun stöðvast. Þegar hefur markaðsvirði fyrirtækja lækkað um a.m.k. miaISK 50 frá stjórnarslitum og tækifæri fara í súginn vegna færri og minni fjárfestinga. Ísland verður ekki lengur jafnaðlaðandi til búsetu og áður fyrir unga og vel menntaða Íslendinga. Að kasta frá sér gullnum tækifærum með óvissu og öngþveiti í stjórnmálum í stað stöðugra og örvandi stjórnarhátta fyrir atvinnulífið yrði þjóðarhneisa.
- setja innflytjendamálin í algert öngþveiti, þar sem þúsundir innflytjenda frá "öruggum" löndum lenda á framfæri ríkisins. VG hefur á stefnuskrá sinni að taka árlega við 500 hælisleitendum. Slíkt mun leiða til öngþveitis á Íslandi. Nægur er húsnæðisskorturinn fyrir og vöntun á fé í þarfari málaflokka. Árlegur kostnaður hins opinbera af straumi fákunnandi fólks úr framandi umhverfi, oft í miðaldamyrkri múhameðstrúar, sem getur í fæstum tilvikum aðlagazt almennilega íslenzka þjóðfélaginu, gæti þrefaldazt m.v. núverandi kostnað og farið að nálgast miaISK 20. Á þremur árum væri búið að sóa jafnvirði nýs Landsspítala með einfeldningshætti og trúgirni um glæpsamlegt eðli innflytjendastraumsins (mansal, smygl á fólki), sem kemur hart niður á alþýðu manna. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera eini flokkurinn á Alþingi með bein í nefinu til að stemma stigu við stjórnlausu innflæði fólks, sem er þungur baggi á öllu velferðarkerfinu.
- vinna gegn öllum tilraunum til aukinnar samkeppni í opinbera geiranum. Vinstri stjórn mun grafa undan einkaframtaki á öllum sviðum, sem einfaldlega mun leiða til minna valfrelsis fyrir almenning, dýrari og verri þjónustu, sem einokun ætíð hefur í för með sér. Góður árangur einkaframtaksins í opinberri þjónustu sást nýlega í heilsugæzlugeiranum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem fólk flykktist til nýstofnaðrar einkarekinnar stöðvar, en flúði opinberar stöðvar. Þjónusta batnar og kostnaður hins opinbera lækkar, þegar dauð stjórnsýsluhönd er tekin af mikilvægri, flókinni og viðkvæmri starfsemi. (FRÚ kom með lygafrétt um kostnaðarhækkun hins opinbera í Svíþjóð vegna þjónustukaupa af heilbrigðisstarfsfólki í einkarekstri, eins og 2 læknar bentu á í aðsendri grein í Morgunblaðinu 05.10.2017.) Hugmyndafræði sósíalista yfirtrompar heilbrigða skynsemi í huga þeirra, þegar þeir komast til valda. Fólk er tilraunadýr í þjóðfélagstilraun sósíalista, sem alls staðar og alltaf hefur mistekizt, þar sem hún hefur verið reynd.
- iðka leyndarhyggju sem aldrei fyrr. Kommúnistar og arftakar þeirra, sósíalistar, hafa stundað það frá upphafi að ljúga eigin ávirðingum upp á pólitíska andstæðinga sína. Þegar kemur að leyndarhyggjunni, kasta þeir heldur betur steinum úr glerhúsi. Hver man ekki eftir leyndarmeðferðinni á fyrsta Icesave-samninginum, misheppnuðustu samningsniðurstöðu í þjóðarsögunni, þar sem sósíalistinn Svavar Gestsson stýrði för án þess að geta það. Samningurinn var lokaður inni í herbergi í Alþingishúsinu, sem þingmenn höfðu aðgang að í einrúmi, og þessu óbermi átti að þröngva gegnum þingið svo að segja ólesnu. Þetta var ekki aðeins hámark leyndarhyggjunnar, heldur nauðgun þingræðisins. Sem betur fór sat þá forseti á Bessastöðum með nægt bein í nefinu og taugar til þjóðarinnar til að synja Icesave-ólögunum samþykkis, og eftirleikurinn er kunnur.
- skapa úlfuð um utanríkismálastefnu landsins. Vinstri hreyfingin grænt framboð er andsnúin veru Íslands í varnarsamtökum vestrænna þjóða, NATO, og telja þau vera tímaskekkju, eftir að Varsjárbandalagið leið undir lok. Vilja Íslendingar, að stjórnvöld sái fræjum efasemda um heilindi okkar í vestrænu öryggissamstarfi ? Ekki nóg með þetta, heldur er Vinstri hreyfingin grænt framboð andsnúin fríverzlunarsamningum á milli ríkja, sem flestir hagfræðingar telja þó almenningi vera til hagsbóta. Er skemmst að minnast fríverzlunarsamnings Íslands og Kína, sem gerður var undir handarjaðri Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra, í vinstri stjórninni 2009-2013. Var VG á móti þessum samningi, eða er ekkert að marka stefnuskrá VG ? Má þá ekki gera fríverzlunarsamning við Breta, þegar þeir ganga úr ESB ? Þá veit nú enginn upp á hverju ný vinstri stjórn tæki gagnvart Evrópusambandinu. Sú síðasta sendi inn formlega umsókn um aðildarviðræður, en lagði umsóknina á ís, þegar í ljós kom, að engar undanþágur voru í boði frá sameiginlegri fiskveiði- og landbúnaðarstefnu ESB, eins og Össur hafði þó alltaf haldið fram hér heima. Þessi umsókn er enn ofan í skúffu í Berlaymont. Mun ný vinstri stjórn blása í glæðurnar og gera okkur að athlægi, á sama tíma og aðalviðskiptaþjóð okkar er á leið út úr sambandinu ? Utanríkismálin undir "leiðsögn" vinstri grænna, þar sem blindur leiðir haltan, gætu lent í algeru uppnámi og stórskaðað orðspor okkar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Fjármál | Breytt s.d. kl. 13:39 | Facebook
Athugasemdir
Clear add present danger, er að víst. ;)
Jón Steinar Ragnarsson, 5.10.2017 kl. 11:32
Rétt er það, Jón Steinar, "clear and present danger".
Bjarni Jónsson, 5.10.2017 kl. 13:38
Það var sem sagt engin "clear and present danger" þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók að sér brunarúsabjörgun í febrúar 2009?
Og kom þjóðarbúinu að nýju í hagvöxt aðeins tveimur árum síðar, hagvöxt, sem síðan hefur enst?
Ómar Ragnarsson, 5.10.2017 kl. 15:02
Ómar, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, gerði EKKERT til að bæta ástandið árið 2009. VAR ÞAÐ EINHVER BJÖRGUN AÐ AFHENDA ERLENDUM VOGUNARSJÓÐUM FÖLLNU BANKANA Á "SILFURFATI", HÆKKA ALLA SKATTA SEM HÆGT VAR OG FINNA NÝJA GJALDSTOFNA OG STANDA SVO VÖRÐ UM FJÁRMAGNSEIGENDUR Á KOSTNAÐ ALMENNINGS????? HÉR Á LANDI VAR HAGVÖSTUR EKKI FYRR EN 2012 OG KOM SÁ HAGVÖSTUR TIL MEÐ ÞVÍ AÐ MAKRÍLL GEKK Í LÖGSÖGUNA. ÆTLAR ÞÚ AÐ HALDA ÞVÍ FRAM AÐ MAKRÍLGANGAN SÉ RÍKISSTJÓRN JÓHÖNNU SIGURÐARDÓTTUR AÐ ÞAKKA?????
Jóhann Elíasson, 5.10.2017 kl. 15:56
Einmitt, stuðningsmenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þrástagast á því, að hún hafi staðið í "rústabjörgun". Það er ekki annað en skálkaskjól fyrir miklar skattahækkanir og "Icesave" samninga, sem troða átti í fyrstu óséðum gegnum þingið og kostað hefðu okkur hundruði milljarða ISK í vaxtakostnað. Eina raunverulega björgunin í þessu sambandi átti sér stað með Neyðarlögunum ríkisstjórnar Geirs Haarde, þegar innistæðueigendur voru settir skör framar en lánadrottnar föllnu bankanna. Þetta var ekki í anda ESB, sem lét ríkissjóðina, t.d. á Írlandi, hlaupa undir bagga með bönkunum. M.a. þess vegna eru flestir ríkissjóðir Evrópulandanna skuldugri en sá íslenzki sem hlutfall af VLF.
Bjarni Jónsson, 5.10.2017 kl. 17:33
Vel mælt, Bjarni.
Svo verður að vara við því að stefnuskrá VG kveður skýrt á um að taka hér við minnst 1.500 flóttamönnum og hælisleitendum (sem fái sömu réttarstöðu og þeir fyrrnefndu) á hverju ári, þ.e. að minnsta kosti 6.000 á kjörtímabilinu!! Ennfremur að stórauka fjárveitingar til þessara hluta!
VG er flokkur sem stefnir að því að skemma fyrir okkur landið, skaðræðisafl undir freistandi smæli frá hlaupatík Steingríms J. í Icesave-, ESB- og "skjaldborgar"-málum!
Jón Valur Jensson, 5.10.2017 kl. 22:34
Fróðlegt að sjá að ríkisstjórn Jóhönnu hefði ekki gert neitt. Sem sagt: Brunarústirnar byggðu sig bara upp sjálfar.
Ómar Ragnarsson, 5.10.2017 kl. 23:36
Var Samfylkingin ekki í Hrunstjórninni, eða er ég gjörsamlega búinn að tapa öllu sem ég á að muna?
Í Guðs bænum leiðréttið mig einhver! Þeir sem rústa einhverju, þekkja rústirnar yfirleitt betur en aðrir, Ómar.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 6.10.2017 kl. 02:37
Takk fyrir úttektina, Bjarni, ítarlegur að vanda. Nú er fróðlegt að sjá hvernig vinstra valminnið virkar, sigtar burt staðreyndirnar og eftir sitja glæstar minningar um afrek vinstristjórnanna.
Kosningarnar núna ráðast af 40% íslenskra kvenna, sem halda að þær kjósi einungis Katrínu fullkomnu. Steingrímur J. og Svandís Svavarsdóttir virðast hafa fengið syndaaflausn tímans. Hvílík örlög okkar!
Ívar Pálsson, 6.10.2017 kl. 10:22
Öflug kóræfing í gangi
Sigfús Ómar Höskuldsson, 6.10.2017 kl. 13:32
Hvers konar öfugmælasöngur er þetta eiginlega um "rústabjörgun" ? Hér gengu grunnatvinnuvegirnir hnökralaust áfram, en fjármálakerfið var að sjálfsögðu í lamasessi. Það var svo til að bæta gráu ofan á svart að afhenda tvo banka af þremur, sem ríkið hafði endurreist, Íslandsbanka og Arion, erlendum vogunarsjóðum á silfurfati, algerlega að þarflausu, og siga þar með blóðhundum bankanna á almenning í landinu á afar viðkvæmum tíma, enda hlauzt af þessum aðförum öllum mikið tjón og landflótti. Innheimta skuldanna varð með allt öðrum hætti og grimmúðlegri en FME hafði lagt upp með við stofnsetningu nýju bankanna.
Þá er það afar sérkennileg rústabjörgun að ætla að smeygja skuldasnöru óreiðumanna utan um háls þjóðarinnar af hreinum undirlægjuhætti við ESB og stórveldi Evrópu. Á sínum tíma var talið, að upphæðin gæti með vöxtum nálgast 1000 milljarða íslenzkra króna, en vextirnir einir, sem að lokum stóðu eftir, námu yfir 200 milljörðum ISK.
Satt að segja kunni vinstri stjórnin 2009-2013 ekkert til verka og var skipuð slíkum endemis amlóðum, að þau hefðu aldrei haft manndóm í sér til að bjarga einu né neinu.
Ekki hefur mannval vinstri flokkanna og pírata batnað frá þessum tíma. Katrín Jakobsdóttir upplýsti á flokksfundi hjá sér í dag, 06.10.2017, að hún hefur ekki græna glóru um hvað efnahagsstöðugleiki í landinu snýst. Hún mun tendra mikið bál undir ríkiskassanum, spreða í allar áttir og kveikja hér verðbólgubál, nái hún að læsa klónum í ríkisvaldið. Haft er á orði, að hún sé sakleysisleg, en hafa menn ekki veitt ygglibrúninni eftirtekt ?
Bjarni Jónsson, 6.10.2017 kl. 22:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.