Lausbeizlaður ríkissjóður eða aðhaldsstefna

Formaður Sjálfstæðisflokksins lýsti því yfir á ræsfundi (kick-off meeting) kosningabaráttu flokksins á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu laugardaginn 23. september 2017, að hann vildi móta landinu nýja heilbrigðisstefnu, þar sem skilgreint væri, hver ætti að gera hvað, og þar með væri unnið samkvæmt markmiðum (management by objectives).  Hann lýsti því líka yfir, að hann vildi tvöfalda persónuafsláttinn upp í 100 kISK/mán á næsta kjörtímabili.  Það hefur komið fram, að umtalsvert meiri hækkun frítekjumarks yrði ríkissjóði mjög dýr.  Það er nauðsynlegt vegna jafnræðissjónarmiða, að þessi hækkun spanni allar tekjur, hvaða nafni sem þær nefnast.

Umsvif hins opinbera eru nú þegar mjög mikil á Íslandi og á meðal þess hæsta, sem gerist innan OECD. Það er ljóst, að forkólfar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, Samfylgingar, Píratahreyfingarinnar og annarra, sem hækka vilja skattabyrðarnar enn meir, gera sér enga grein fyrir, hvað það þýðir að hafa skattheimtuna hér í hæstu hæðum.  Þau munu spenna bogann um of, þar til bogstrengurinn brestur. Landið er stórt og þjóðin fámenn, og þar af leiðandi er dýrt að halda hér uppi nútímaþjóðfélagi.  Það er þess vegna mjög auðvelt að fara offari á útgjaldahlið.  Öllu verra er, að þessir flokkar hafa ekki minnsta skilning á nauðsyn þess að afla fyrst og eyða svo, þ.e. fyrst að skapa aukin verðmæti í einkageiranum áður en hið opinbera tekur til við að útdeila gæðunum. Það er fyrirkvíðanlegt, að flokkar, sem nú virðast stefna í meirihluta á Alþingi, hafa nánast engan skilning á atvinnurekstri, heldur virðast frambjóðendur flestir  vera úr opinbera geiranum eða vinna fyrir hann.  Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Það skín í gegn um allan málflutning Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, að fólk í þeim flokki hefur engan áhuga á skilvirkni í rekstri opinberra stofnana, hvorki m.t.t. þjónustugæða né kostnaðar, heldur er formið fyrir þeim aðalatriðið, þ.e.a.s. að að hið opinbera bæði kaupi þjónustuna og sjái um reksturinn.  Þetta heftir framþróun á viðkomandi sviðum, tefur fyrir tækniþróun, kemur í veg fyrir samkeppni og girðir fyrir aukna skilvirkni og bætt gæði, sem samkeppni tryggir.  Þetta er mjög slæmt fyrir starfsfólkið, því að það hefur þá aðeins einn vinnuveitanda á sínu fagsviði, sem er sjaldnast hollt fyrir starfsánægju og laun.  

Það virðist vera, að þeir, sem festast í þessu fari hinnar sívaxandi opinberu þjónustu, verði hallir undir þá stjórnmálaflokka, sem boða útþenslu ríkisbáknsins og sem mesta einokun.  Þetta er vítahringur, sem nauðsynlegt er að rjúfa, því að þetta rekstrarform er þjóðhagslega óhagkvæmt. 

Þegar nánar er að gætt, kemur í ljós, að opinberi geirinn hérlendis notfærir sér í minni mæli þjónustu einkaframtaksins en annars staðar tíðkast.  Þetta á við um báða stóru geirana, heilbrigðisgeirann og menntageirann.  Það hefur gefizt vel annars staðar, t.d. á hinum Norðurlöndunum, að úthýsa þjónustu til einkaaðila, t.d. á sviði heilsugæzlu og skóla.  Hið opinbera greiðir hið sama fyrir veitta þjónustu, óháð rekstrarformi, en rekstraraðilarnir keppa sín á milli um "viðskiptavini".  Þetta hefur gefizt vel á sviði heilsugæzlu hérlendis, þar sem einkareknar heilsugæzlustöðvar hafa reynzt vera vinsælar á meðal "viðskiptavina" og hafa staðið sig vel í samkeppninni.

Hér er sem sagt leið til að slá tvær flugur í einu höggi, bæta þjónustuna og halda kostnaðaraukningu við þjónustu hins opinbera í skefjum.  Hið sama er uppi á teninginum með sérfræðilæknana.  Þjónusta þeirra utan spítalanna er sjálfsögð og dregur úr álagi á yfirlestuð sjúkrahús.  Að leyfa einkareknum lækningasofum að stunda aðgerðir, sem krefjast legu í kjölfarið, ætti að vera sjálfsagt mál, ef öllum gæða- og kostnaðarkröfum hins opinbera er fullnægt.  

Að fordómafullir og í sumum tilvikum ofstækisfullir stjórnmálamenn nái að leggja stein í götu sjálfsagðrar frelsisþróunar í atvinnulegu tilliti, sem einnig sparar skattfé, er gjörsamlega ólíðandi, en nú stefnir í, að slíkir hafi sitt fram um skeið.  Það verður áreiðanlega ekki lengi, því að gallar kerfisins þeirra eru svo yfirþyrmandi, að það mun fljótlega ganga sér til húðar.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband