25.10.2017 | 10:02
Af skattheimtu og réttlæti
Vindmylluriddara-gengið, VG, vinnur nú samkvæmt kenningu formannsins, Katrínar Jakobsdóttur, um "hliðrun skattbyrðanna". Það fer vart á milli mála, hvað hún á við, þótt orðalagið sé álappalegt. Spurð um það, hverjir eiga að bera byrðar hennar, svarar hún því til, að það verði ekki almenningur. Athyglivert væri að heyra skilgreiningu hennar á þeim, sem ekki eru hluti almennings.
Ef hún ætlar að hafa eitthvað upp í kosningaloforðin, sem nema 200 miaISK/ár, verður hún að gera a.m.k. 3 efstu tekjutíundirnar að fórnarlömbum sínum, svo og fyrirtæki landsins, stór og smá, sparendur og fasteignaeigendur.
Það þýðir, að hún mun stórhækka jaðartekjuskattheimtuna, sem nú nemur rúmlega 46 % á tekjur yfir 10 MISK/ár, og fara með hana yfir 50 % á tekjur yfir 7,0 MISK/ár (583 kISK/mán) og jafnvel í 75 % að hætti franskra sósíalista á tekjur efstu tveggja tekjutíundanna með tekjur yfir 10 MISK/ár. Þar með fara yfirvöld ránshendi um veski landsmanna. Er það vilji stórs hluta almennings ?
Þar sem sossarnir íslenzku búa í afbökuðum og firrtum veruleika, átta þeir sig aldrei á viðbrögðum raunveruleikans. Sossarnir eru eins og fiskar á þurru landi, þegar kemur að viðbrögðum fólks við hækkun þeirra á skattheimtu. Þau munu verða atgervisflótti, nokkuð sem Ísland má allra sízt við nú eftir að hafa nýendurheimt marga þá, sem flýðu á dögum síðustu vinstri stjórnar, 2009-2013, er hún sló skjaldborg um fjármálastofnanirnar, eins og flestum ætti að vera í fersku minni, og lét sér í léttu rúmi liggja, þótt bankar í eigu vogunarsjóða o.fl. beittu atvinnulíf og einstaklinga harkalegum innheimtuaðferðum og innheimtu miklu meira en Fjármálaeftirlitið reiknaði með við endurreisn bankanna með ríkisframlögum.
Um kosningaloforð skrifaði Elías Elíasson í Morgunblaðið, 11. október 2017, undir fyrirsögninni:
"Kosningaloforðin í dag eru skattar morgundagsins":
" Mönnum er væntanlega enn í fersku minni flótti heilbrigðisstétta úr landi fyrir fáum árum vegna lágra launa. Atvinnurekendur og fjárfestar geta líka flúið, með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið, en þetta er bara ein ástæðan fyrir því, að stilla verður skattlagningu í hóf og trúa loforðum varlega."
Vinstri grænir taka lítið sem ekkert mark á fræðum um skattheimtu, sem fara nærri um það við hvaða skattheimtu (%) hámarks samfélagslegur ávinningur fæst. Sú skattheimta er lægri en núverandi jaðarskattheimta efra tekjuskattsþrepsins á Íslandi, 46,24 %, en líklega í grennd við lægra þrepið, 36,94 %. Þess vegna hefur formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, boðað, að hann vilji lækka jaðartekjuskattsheimtuna niður í 35 %. Þessi stefnumörkun hans markar þáttaskil í sögu skattheimtu seinni ára á Íslandi.
Sennilega mundi þessi stefnumörkun í verki hámarka s.k. "mögulega velferð", sem tekjuskattur getur yfirleitt staðið undir, með einu slíku skattþrepi og tvöföldun persónuafsláttar, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur líka nefnt, ef blekbónda skjátlast ekki.
Vinstri grænir ætla hins vegar í þveröfuga átt, enda hafa þeir legið á því lúasagi að ala á öfund í garð þeirra, sem um hríð njóta tiltölulega hárra launa. Það, sem skiptir máli í þessu sambandi, eru ævitekjur manna, og það tekur langskólagengna sérfræðinga langan tíma að ná uppsöfnuðum meðalráðstöfunartekjum launamanna á Íslandi. Að ala á öfund vegna tímabundinna hárra tekna fyrir að sinna miklum ábyrgðarstöðum er lágkúruleg framkoma forkólfa Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Þar fiska þeir í gruggugu vatni sem endranær, og heilbrigð skynsemi kemst hvergi nærri, þar sem fordómar og þröngsýni svífa yfir vötnunum.
Um skattheimtuna (%) skrifar Elías:
"Hér [í ræðu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, við eldhússdagsumræður 29.09.2017] er ótæpilega lofað og án allra takmarkana og greinilegt, að ræðumaður reiknar með, að aukinni skattheimtu fylgi ætíð meiri þjónusta og meiri samhjálp. En er það svo ?
Svarið er nei. Ef skattprósentan er núll, fást auðvitað engar tekjur. Þegar skattprósentan vex og stefnir á 100 %, hætta fleiri og fleiri að vinna, og við 100 % eru allir hættir. Þá fást heldur engar tekjur. Mestar tekjur hljóta þá að fást einhvers staðar þarna á milli, og í grennd við þann stað getur þjóðfélagið veitt þegnum sínum þá mestu velferð, sem það megnar."
Hér má bæta því við, að nettó skatttekjur fást, þegar kostnaður við innheimtu og eftirlit hefur verið dreginn frá brúttóskatttekjunum. Til einföldunar má reikna með, að þann kostnað megi draga upp sem beina línu frá upphafspunkti, sem sker síðan öfuga parabólu skattteknanna í einum punkti. Þar eru skatttekjur lækkandi og orðnar jafnar innheimtu- og eftirlitskostnaði, og þess vegna er ljóst, að nettó skatttekjur lækka hratt með hækkun skatttheimtu umfram þá prósentu, sem hæstar gefur skatttekjurnar. Nettó skatttekjur eru mismunur tekna og kostnaðar og ná hámarki við lægri skattheimtu en gefur hámarks brúttó skatttekjur. Það er líklegt, að "kjörskattheimta" í skilningi hámarks nettóskatttekna jafngildi jaðarskatti á bilinu 30 % - 35 %.
Nú er formaður vinstri grænna tekinn að draga í land varðandi nýja skatta og skattahækkanir. Þá kemur upp sú staða, að himinn og haf er á milli kosningaloforða hennar og skattahækkunaráforma, sem hún hefur gefið í skyn, þegar á hana er gengið, að séu á döfinni. Hún hefur sem sagt hvorki reiknað eitt né neitt í þessu sambandi, og það er ekki vitað, hvort hún kann litlu margföldunartöfluna, en hún reiknar samt með að njóta leiðsagnar Indriða H. Þorlákssonar við ákvörðun skattheimtu nýrrar vinstri stjórnar á gömlum belgjum. Vituð þér enn, eða hvað ?
Í viðtali við Katrínu Jakobsdóttur eftir seinni fréttir í Ríkisútvarpinu 11. október 2017 mátti skilja á henni, að hún vildi þrepskiptan eignarskatt ofan við nettó eign MISK 150 á einstakling. Þá verður nú ekki feitan gölt að flá, því að meðaltals nettó eign í efstu eignatíundinni er um MISK 100. Það má telja líklegt, að þegar Indriði, skattaráðgjafi Steingríms á sinni tíð, hefur útskýrt fyrir Katrínu, að þessi skattheimta svari varla kostnaði, þá muni hún endurskoða afstöðu sína og breikka skattstofninn. Þess má geta, að vinstri stjórnin 2009-2013 skattlagði nettó eign einstaklinga allt niður í MISK 75. Vinstri vítin eru til að varast þau.
S.k. "auðlegðarskattur" er mjög ósanngjarn, t.d. af því, að hann felur í sér margsköttun. Það hafa verið greiddir skattar af tekjum til að afla eignarinnar, og síðan eru árleg fasteignagjöld til sveitarfélaganna af þessu skattaandlagi. Hér er um hægfara eignaupptöku að ræða, sem sennilega stríðir gegn Stjórnarskrá. Þess vegna var um tímabundin lög á sínum tíma að ræða, sem runnu sitt skeið á enda árið 2015.
Um fasteignagjöldin skrifaði Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, í Fréttablaðið, 10. október 2017:
"Fasteignaskattur á Íslandi grundvallast á jafnundarlegum skattstofni [áætlað verðmæti eignar myndar skattstofn]. Það er talið réttlæta skattahækkun, að eign hafi hækkað í verði, þótt not af eigninni hafi ekkert breytzt og skattþegninn hafi ekki bætt við sig tekjum. Opinberum stofnunum er falið að áætla söluverðmæti eignar, og síðan er stjórnvöldum gefið veiðileyfi í samræmi við það. Það er undir duttlungum sveitarstjórna komið, hvort og hvernig þær útfæra veiðileyfið, t.d. með því að skattleggja mismunandi eftir aldri eigenda."
Sama má segja um væntanlegan "auðlegðarskatt" Katrínar Jakobsdóttur, sem væntanlega verður að mestu fasteignaskattur. Þetta gefur einnig tilefni til að leiða hugann að þætti fasteignaverðs í neyzluvísitölunni. Það gengur ekki að láta villtar sveiflur á húsnæðismarkaði hafa mikil áhrif á vísitölu verðlags. Við útreikning vísitölunnar ætti bæði að draga úr vægi húsnæðiskostnaðar og deyfa verulega allar skammtíma sveiflur samhliða því, sem fasteignagjald verði miðað við brunabótamat og þak sett við 0,15 % af brunabótamati. Sennilega er skynsamlegast að taka upp samræmda neyzluvísitölu að evrópskri fyrirmynd.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Fjármál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.