19.11.2017 | 11:45
Marteinn Lúther, 1483-1546
Upprifjun á ævi þýzka guðfræðiprófessorsins Marteins Lúthers í sjónvarpi undanfarið í þýzkum og íslenzkum fræðsluþáttum hefur kastað ljósi á, hvílíkur eldhugi og byltingarmaður Marteinn Lúther var. Ævistarf hans bylti samtíð hans á trúmálasviðinu og lagði grunninn að þróun Evrópu og Vesturlanda allra í átt til upplýsts sjálfsákvörðunarréttar einstaklingsins og andlegs frelsis hans, einstaklingshyggju með samfélagslegri ábyrgð í anda kristilegs kærleika. Án starfa Lúthers og samverkamanna hans væru Vesturlönd líklega að mörgu leyti lakar sett en reyndin er á okkar dögum.
Lúther var Saxi og fæddist og dó í Eisleben í Saxlandi, en starfaði aðallega í Wittenberg í Saxlandi, sem þá var sennilega miðstöð frjálslyndis og fróðleiksleitar þar um slóðir. Lúther gerðist ungur að árum munkur af reglu Ágústínusar og einhvern tímann á árabilinu 1513-1517 varð hinn rúmlega þrítugi munkur fyrir vitrun Guðs og fannst hann vera "endurborinn og hafa gengið gegnum opnar dyr inn í paradís". Þessi upplifun hans breytti vafalaust sjálfsmynd hans og sjálfstrausti og varð honum sennilega eldsneyti til mikilla afreka sem baráttumaður gegn valdakerfi kaþólsku kirkjunnar og fyrir andlegu frelsi og þekkingu lýðnum til handa. Hann var hins vegar ekki slíkur hefðbundinn byltingarforingi, sem berst fyrir auknum hlut alþýðunnar af auði aðalsins og annarra stóreignamanna.
Lúther einbeitti sér alla tíð að trúmálum, og honum ofbauð spilling rómversk-kaþólsku kirkjunnar, sem hann kynntist sem munkur, og fann sig knúinn til þess 31. október 1517 að tjá opinskátt hneykslun sína á framferði kirkjunnar manna. Dropinn, sem fyllti mælinn, var sala sendimanna páfans á aflátsbréfum, sem voru eins konar skuldabréf, sem endurgreidd voru með ríkulegum vöxtum hinum megin með því að létta og stytta veru breyskra manna og kvenna í hreinsunareldinum, jafnvel löngu framliðinna. Í krafti fræða sinna sem Biblíufræðingur sá Lúther í gegnum þennan viðurstyggilega blekkingarvef og fjárplógsstarfsemi, því að hvergi var í Biblíunni minnzt á neinn hreinsunareld, svo að ekki sé nú minnzt á aflátsbréf eða eitthvað keimlíkt. Páfastóllinn hafði innleitt hreinsunareldinn í kenningakerfi sitt til að ná tangarhaldi á lýðnum og beitti ógnarstjórn með því að skapa skelfingu syndugs lýðsins gagnvart dauðanum. Var þetta hinn lúalegasti gjörningur Rómverjanna gagnvart fávísum og fátækum almúga.
Mótmæli Marteins Lúthers, sem hann negldi upp á aðalhurð hallarkirkjunnar í Wittenberg í Saxlandi, vafalaust með samþykki kjörfurstans, voru í 95 liðum, sem voru einn samfelldur reiðilestur út af andlegri kúgun og spillingu kirkjunnar manna. Æðsti veraldlegi valdhafinn í Saxlandi var á þeim tíma tiltölulega frjálslyndur og hafði stofnað tiltölulega frjálslyndan háskóla í Wittenberg. Þar stundaði Lúther fræðistörf á sérsviði sínu, Biblíunni. Kirkjunnar mönnum líkaði ekki alls kostar við þau fræðistörf, sem í þessum háskóla voru stunduð, m.a. útleggingar Lúthers á Nýja Testamentinu og rök hans fyrir því, að "hið heilaga orð" yrði að ná beint til fólksins, með því að boðskapurinn væri á móðurmáli þess, og hann þýddi sjálfur Biblíuna á alþýðumál Saxa, sem síðan varð grundvöllurinn að ritmáli allra þýzkumælandi manna, sem tala fjölbreytilegar mállýzkur. Nokkru seinna vann Oddur Gottskálksson andlegt þrekvirki við grútartíru í fjósinu í Skálholti í óþökk þáverandi Skálholtsbiskups, Ögmundar Pálssonar, og myndaði að sama skapi grundvöll íslenzks ritmáls með verki sínu.
Það er óvíst, að Lúther hefði opinberað andúð sína á gjörðum kirkjunnar þjóna og útleggingum þeirra á fagnaðarerindinu með jafnögrandi hætti og raunin varð, ef hann hefði ekki verið hvattur áfram af veraldlegum höfðingjum í Saxlandi, þ.á.m. téðum kjörfursta. Þar, eins og á Íslandi, hafði lengi verið togstreita á milli kirkjuvaldsins og veraldlegra höfðingja um veraldlegar eignir, t.d. jarðnæði. Veraldlegir höfðingjar Saxlands sáu sér nú leik á borði, er sterkrar gagnrýni á kirkjuna gætti innan hennar, að grafa undan áhrifamætti hennar með beinum og óbeinum stuðningi við harðvítuga og fræðilega gagnrýni á störf kirkjunnar þjóna frá munkum og prelátum og upp í páfastól sjálfan. Sennilega voru Siðaskipti samt ekki ætlun höfðingjanna, en fljótlega varð ekki aftur snúið, og úr varð alger viðskilnaður við rómversk kaþólsku kirkjuna, og höfðingjarnir tóku við hlutverki páfastóls sem verndarar kirkjunnar. Þar með sópuðu þeir gríðarlegum verðmætum kirkna og klaustra í gullkistur sínar, og höfðu þá hvorir um sig í hópi mótmælenda, trúmennirnir og auðmennirnir, nokkuð fyrir sinn snúð, og alþýðan uppskar sem sáð var með tíð og tíma.
Höfðingjar Saxlands horfðu auðvitað blóðugum augum eftir háum fjárhæðum, sem runnu frá þeim og almúganum til Rómarborgar í formi skattheimtu, og steininn tók úr, þegar páfinn tók að fjármagna byggingu stórhýsis í Róm, Péturskirkjuna, með sölu fyrrnefndra aflátsbréfa. Leiða má getum að því, að megnið af fjármögnun þessa stórhýsis hafi komið frá Þýzkalandi, enda stöðvaðist bygging kirkjunnar um tíma, þegar áhrifa andmælanna 95 á kirkjuhurðinni í Wittenberg tók að gæta um allan hinn þýzkumælandi heim fyrir tilstyrk mestu tækninýjungar þess tíma.
Fullyrða má, að áhrifa róttækrar fræðilegrar gagnrýni og réttlátrar reiði Marteins Lúthers á andlega kúgun kirkjunnar, vafasamar útleggingar preláta og biskupa á Biblíunni, m.a. í krafti þess, að fáir utan prelátastéttar voru í færum að kynna sér Biblíuna af eigin raun á latínu, hefðu orðið miklu staðbundnari, minni og hægvirkari, ef Lúther og baráttufélagar hans í hópi guðfræðinga og höfðingja hefðu ekki tekið í gagnið byltingarkenndustu hönnun og nýsmíði þess tíma, prentsmiðju Jóhannesar Gútenbergs, 1400-1468, frá 1439, sem þá var búið að setja upp og þróa enn frekar í 70 ár á nokkrum stöðum í Þýzkalandi og víðar í Evrópu. Auðvitað var prentun rándýr í árdaga prenttækninnar, en bandamenn Lúthers hafa vafalaust fjármagnað fyrirtækið með glöðu geði, því að áhrifamáttur boðskapar á móðurmálinu hefur verið orðinn vel þekktur.
Andmælin 95 og rit Lúthers, þ.á.m. Biblíuþýðing hans á þýzku, sem varð grundvöllur háþýzku, þýzka ritmálsins, dreifðust eins og eldur í sinu um Þýzkaland og tendruðu þar frelsisbál. Bændur landsins sáu nú kjör sín og aðstöðu í nýju ljósi; þeir þyrftu ekki um aldur og ævi að búa við þrældóm, harðýðgi, kúgun og gripdeildir að hálfu landeigenda og kirkju og gerðu uppreisn gegn yfirvöldunum og kröfðust frelsis fyrir sig og fjölskyldur sínar auk eigin landnæðis.
Sundrung hefur frá upphafi einkennt lútherska söfnuði, enda vantaði söfnuðina miðstjórnarvald í líkingu við páfadóminn til að úrskurða um deilumál og halda hjörðinni saman. Einn fyrsti klofningurinn í röðum fylgismanna Lúthers var vegna afstöðunnar til vopnaðrar uppreisnar bænda í Þýzkalandi 1524-1525, sem var innblásin af andlegri byltingu Lúthers. Sumir baráttufélaga Lúthers tóku einarða afstöðu með almúga sveitanna og blönduðu sér beinlínis í baráttuna, en Marteinn Lúther var hins vegar eindregið á móti því að reyna að rétta hlut almúgans snögglega gagnvart aðlinum með ofbeldi og blóðsúthellingum, enda ætti slíkt að verða friðsamlegt þróunarferli. Hér verður fernt nefnt, sem kann að hafa ráðið afstöðu Lúthers til bændauppreisnarinnar:
- Biblíufræðingurinn, Lúther, fann því hvergi stað í boðskap biblíunnar, að Guði væri það þóknanlegt, að almúginn gripi til vopna gegn valdhöfum og raskaði þar með gildandi þjóðfélagsskipan.
- Lúther vildi að sönnu rétta kjör almúgans, en taldi skyndilausn á borð við vopnaða uppreisn ekki vænlega leið til þess, heldur þyrftu réttarbætur og bættur hagur að fylgja auknum þroska og menntun alþýðu, sem hann vissulega hafði hrundið af stað og vann alla tíð að.
- Lúther gerði sér grein fyrir því, að við ofurefli var að etja á vígvellinum, þar sem voru brynjaðir riddarar aðalsins og vel vopnum búnir og þjálfaðir fótgönguliðar gegn óþjálfuðum og illa búnum bændunum. Uppreisn myndi aðeins leiða til blóðbaðs og auka enn við sára neyð og eymd bænda, hvað og á daginn kom.
- Lúther var í bandalagi við saxneska höfðingja, sem vernduðu hann gegn hefndaraðgerðum kaþólsku kirkjunnar, enda vildu þeir losna undan andlegri og skattalegri kúgun kaþólsku kirkjunnar. Annars hefði Lúther líklega ekki kembt hærurnar. Hagsmunir höfðingjanna og Marteins Lúthers sköruðust, og hann taldi réttilega óráðlegt að rjúfa bandalagið við þá, því að þá stæði hann á berangri. Lúther leit jafnan svo á, að hagsmunir mótmælendasafnaðanna og veraldlegu höfðingjanna færu saman. Þeir urðu síðan verndarar hinnar lúthersku kirkju, og þaðan höfum við í raun núverandi tengingu ríkis og kirkju á Norðurlöndunum, þar sem ríkisvaldið er bakhjarl lúthersku kirkjunnar, þótt fullt trúfrelsi ríki.
Lúther var agndofa yfir þeim frelsisöflum, sem hann hafði leyst úr læðingi, og sama hefur vafalaust átt við um höfðingjana, sem studdu hann með ráðum og dáð í skefjalausri valdabaráttu sinni við kirkjuvaldið í Róm. Þeir stóðu að mörgu leyti í pólitískri þjóðfrelsisbaráttu fyrir sjálfstæði lands síns og hagsmunum þjóðar sinnar gagnvart fornu drottinvaldi hins gíruga Rómarvaldis.
Þessir umbrotatímar minna á okkar eigin tíma, þegar megn óánægja er víða að brjótast út með Brüssel-valdið, sem reisir valdheimildir sínar gagnvart aðildarþjóðunum einmitt á Rómarsáttmálanum og síðari sáttmálum Evrópusambandsríkjanna. Brüssselvaldið grípur nú þegar inn í daglegt líf almennings án þess að hafa hlotið til þess lýðræðislegt umboð eða bera lýðræðislega ábyrgð gagnvart almúganum. Þessi óánægja almennings brauzt síðast út í þjóðaratkvæðagreiðslu á Bretlandi í júní 2016, þegar meirihluti kjósenda fól þingi og ríkisstjórn að draga Bretland undan stofnanavaldi og skattheimtu ESB. Nú sýnir Brüsselvaldið samningamönnum Bretlands um útgönguna klærnar, og enginn veit enn, hvernig samskiptum útgönguríkisins við ESB-ríkin verður háttað.
Lúther skrifaði bók til að reyna að stöðva ofbeldið, en það var þá um seinan. Bókin hét: "Gegn gripdeildum og drápum bændamúgs". Lúther var augsýnilega enginn lýðskrumari, og hann var ekki lýðræðissinni í okkar skilningi hugtaksins. Lýðurinn lét ekki segjast við þetta andóf Lúthers. Hann hafði verið leystur úr andlegum viðjum aldalangrar kúgunar Rómarkirkjunnar. Úr því að Guð hafði talað beint til hans með hinu ritaða orði Biblíunnar, hvað var þá að óttast frá hendi kónga og biskupa ?
Það er óyggjandi, að andleg bylting Marteins Lúthers lagði grunninn að einstaklingsfrelsi, einkaframtaki, mannréttindum og upplýsingastefnunni, sem þróaðist í Evrópu, einkum í löndum mótmælenda. Upplýsingastefnan lagði grunninn að grunnmenntun almennings í lestri, skrift og reikningi, sem var stærsta einstaka skrefið í átt að auknum lýðréttindum, jafnræði og lýðræði. "Kirkjur [mótmælenda] voru skólar lýðræðis", hefur The Economist eftir brezkum trúar þjóðfélagsfræðingi í ítarlegri umfjöllun um Martein Lúther 4. nóvember 2017, sem blekbóndi hefur stuðzt við í þessari umfjöllun um þann mann, sem mestum vatnaskilum olli á miðöldum um þróun vestrænnar menningar, svo að ekki sé nú skafið utan af því.
Blekbóndi hafði frá grunnskólaárum sínum frekar horn í síðu Marteins Lúthers, því að stráksi kenndi honum hálft í hvoru um meinleg örlög Jóns, biskups, Arasonar í Skálholti í nóvember 1550 ásamt tortímingu menningarverðmæta klaustranna og ránsferðum Dana þangað. Í kjölfarið fór hagur landsmanna versnandi og við tóku hindurvitni og lögleysa með galdraofsóknum. Ómögulegt er hins vegar að segja um, hvernig þróunin hefði orðið hér á landi, ef kaþólikkar hefðu náð að koma í veg fyrir Siðaskiptin hér á landi. Eitt er víst, að eftir mikla óáran hérlendis vegna "Litlu ísaldar", eldgosa og landlægs afturhalds í atvinnulegum efnum, náðu Íslendingar að hrista af sér andlega og stjórnarfarslega hlekki og beinlínis að rísa úr öskustó í krafti "upplýsingarinnar", einkaframtaks og einarðrar stjórnmálaforystu í anda Jóns Sigurðssonar, forseta, og var ekki linnt látunum fyrr en fullveldi var endurheimt og fullt frelsi með stofnun lýðveldis á Þingvöllum 1944.
Í krafti dugnaðar og þekkingaröflunar í útlöndum með innleiðingu nýjustu tækni á hverju sviði tókst landsmönnum að bæta hag sinn á um 150 árum frá því að vera ein bágstaddasta þjóð Evrópu í efnalegu tilliti í það er vera ein sú bezt stæða um þessar mundir. Ekki er þó sopið kálið, þótt í ausuna sé komið, því að veldur hver á heldur, og varðveizla gæðanna er líka vandasöm.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Trúmál | Facebook
Athugasemdir
Heldur þú að Lúther myndi blessa hjónabönd samkynhneigðra ef að hann væri á lífi í dag?
Jón Þórhallsson, 19.11.2017 kl. 12:06
Marteinn Lúter var vissulega stórmenni, en samkv. þessum heimildaþætti átti hann sínar dökku hliðar, sem ekki má "sópa undir teppið": Luther einmal anders - Die Dunkle Seite Martin Luthers - Dokumentation
Hörður Þormar, 19.11.2017 kl. 12:45
Þessi heimildarþáttur, Hörður Þormar, er vissulega sláandi um grimmdarhliðar Marteins Lúthers. Boðskapur Lúthers var í þeim tilvikum auðvitað andstæða boðskapar meistarans frá Nazaret, eins og frá honum er greint í Nýja Testamentinu. Þjóðernisjafnaðarmenn vísuðu ótæpilega til fordæmingar Lúthers á ýmsum minnihlutahópum samtímans, þ.á.m. Gyðingum. Ef kenningar Lúthers hefðu verið mannúðlegri en þær voru, hefði sennilega ekki gosið upp stækt galdrafár og ofsóknaræði í garð minnihlutahópa í löndum mótmælenda á 17. öldinni.
Vegna spurningar Jóns Þórhallssonar hér að ofan efast ég um, að Marteinn Lúther hefði náð eyrum nokkurs manns á okkar dögum, og ég efast um, að núverandi þjóðfélagsaðstæður hefðu knúið hann til að gerast slíkur uppreisnarmaður, sem hann sannarlega var á sinni tíð. Fordómafullur sem hann öðrum þræði var mundi ég gizka á, að hann hefði horn í síðu samkynhneigðra nú á dögum.
Bjarni Jónsson, 19.11.2017 kl. 15:44
Vitað er um fordæmingu hans á samkynja mökum, Bjarni, sjá hér: http://www.kirkju.net/index.php/luther_gegn_hjonabandi_samkynhneigera?blog=10
Ekki skrifa ég upp á orð þín um hreinsunareld og um mótívasjónina að baki þeirri kenningu.
Lúther var svæsinn í árásum sínum á Gyðinga (sjá t.d. Siðskiptamenn og trúarstyrjaldir eftir Sverri Kristjánsson sagnfræðing). Siðlegt var það alls ekki.
Jón Valur Jensson, 19.11.2017 kl. 18:16
Takk fyrir Bjarni Jónsson, hef misst af þessum þáttum.
Vegna spurningar Jóns Þorlákssonar hér í athugasemdum Nr. 1. Þá segir síðuhafi efnislega, að hann efist um að núverandi þjóðfélags aðstæður hefðu knúið Lúter til að gerast þvílíkur uppreisnar maður sem hann varð á sinni tíð.
Ekki er mér kunnugt um að Lúter hafi drepið nein. En menn geta velt fyrir sér hvernig þjóðfélags aðstæður væru nú hefði Lúter ekki verið eins og hann var og hver staða kirkjunnar væri hefði hann ekki verið eins og hann var. Það er svo næsta víst að Jesú hefur verið mun meiri uppreisnarmaður heldur en sú mynd sýnir, sem okkur birtist af honum í dag.
Hrólfur Þ Hraundal, 20.11.2017 kl. 09:44
Marteinn Lúther var fjölbreytilegur persónuleiki, hugsuður og talsvert framsýnn, en það er einkennandi fyrir hann, hversu langt frá og þvert á, í sumum tilvikum, boðskapur hans og málflutningur var frá kenningum og boðskap Jesú, Krists. Var þetta hentistefna hjá honum ? Var hann að ganga í augun á valdsmönnum þess tíma í Saxlandi með fordæmingu ýmissa minnihlutahópa. Þetta veit ég ekki, en það hefur vafalítið verið rannsakað. Ég sá tilraun til útskýringar í þýzka heimildarþættinum, "Luther einmal anders - Die dunkle Seite Martin Luthers", að taumlaust líferni hans og mikil vín- og bjórneyzla hefði ýtt undir fordóma hans og gert hann hömlulausari við skriftirnar.
Enginn stöðvar tímans þunga nið. Ég held, að andstæður Norður- og Suður-Evrópu hefðu á 16. öldinni klofið kaþólsku kirkjuna, þótt Marteins Lúthers hefði ekki notið við. Hann var "búinn til" af höfðingjum Saxlands á sinni tíð, en þýzki aðallinn hefði vafalaust fundið aðrar leiðir til að losna undan andlegu drottinvaldi og skattheimtuvaldi Rómar. Lúther setti þó vissulega mark á samtíma sinn og á söguna fram á okkar dag með skrifum sínum og þýðingum. Framlag hans til þýzkrar menningar var gagnmerkt, og síðari tíma stefnumörkun var auðveldara að vinna hylli eða samþykki með vísunum til rita upphafsmanns mótmælendahreyfingarinnar.
Bjarni Jónsson, 20.11.2017 kl. 10:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.