9.12.2017 | 11:37
Einangrunarhyggja er ekki í boði
Brexit-sinnar, þ.e. fylgjendur útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, ESB, boða margir hverjir, að þeir vilji sízt loka Bretland af í menningarlegu og viðskiptalegu tilliti, þegar Bretar munu hafa sagt skilið við ESB í marz 2019, heldur vilji þeir þvert á móti opna Bretland fyrir hvers konar löglegum viðskiptum um allan heim. Þeir hafa talað um, að Bretland ætti að gegna forystuhlutverki í þágu frelsis, þegar þeir losna úr viðjum og út fyrir múra meginlandsins, "Festung Europa", sem er þýzkt hugtak úr seinni heimsstyrjöldinni og Bretland vann þá með þrautseigju bug á.
Fyrir íslenzka hagsmuni ættu þetta að vera ágætis tíðindi. Bretar munu ekki að óbreyttu verða hluti af EES eftir marz 2019, nema þá sem einhvers konar bráðabirgða ráðstöfun. Ísland þarf þess vegna fyrr en seinna að ná fríverzlunarsamningi við Bretland um þær vörur og þjónustu, sem báðum ríkjum hentar. Í fljótu bragði er það allt, nema matvæli, sem talin eru í viðtökulandinu geta valdið heilsufarsskaða að mati tilkvaddra vísindamanna á sviði manna- og dýrasjúkdóma. Bretar sjálfir þekkja þetta vel, því að þeir hafa orðið fyrir miklu tjóni af völdum dýrasjúkdóma. Það verða varla alvarlegar hindranir á vegi Bretlands og Íslands að ná samkomulagi um þetta og helzt niðurfellingu allra opinberra innflutningsgjalda á hættulausum vörum og þjónustu. Fyrir Ísland mundi það þýða enn betri viðskiptakjör fyrir fiskafurðir en nú tíðkast innan EES.
Erfiðari viðgangs verður "Festung Europa", þ.e. Evrópska efnahgssvæðið-EES. E.t.v. verður að sprengja það upp, þar sem í ljós er komið varnarleysi íslenzkra stjórnvalda gagnvart lagasetningu ESB, sem varðar lífshagsmuni hérlendis. Með öðrum orðum er nú komið skýrar í ljós en áður, að fullveldisframsal Íslands með samþykkt EES-samningsins, sem aldrei fór í þjóðaratkvæðagreiðslu, var stórfelldara en samræmanlegt er Stjórnarskrá Íslands. Fyrir því að yfirgefa EES er einnig vaxandi vilji í Noregi, en blekbónda er ekki kunnugt um afstöðu Liechtenstein til framtíðar EES. Við Brexit verða vatnaskil, sem gefa kost á að endurskoða viðskiptasambönd Íslands við umheiminn með róttækum hætti.
Tvö hagspök lögðu saman í Morgunblaðsgrein, 20. júlí 2017, og varð útkoman,
"Niður með múrana",
sem er afar fróðleg og góð röksemd fyrir haftalausum viðskiptum, svo lengi sem öðrum og mikilvægari hagsmunum er ekki ógnað. Sennilega verður tvíhliða samningur Íslands og ESB ofan á sem endanlegt fyrirkomulag á samskiptum Íslands og ESB, því að ESB mun ekki að óbreyttu samþykkja undanþágur á frelsunum 4 eða 5 (raforkuflutningar gætu orðið 5. frelsið) og matvælalöggjöf sinni. Ísland getur ekki undirgengizt þessar kvaðir án þess að fórna fullveldisrétti sínum, eins og nánar verður vikið að í þessari vefgrein. Grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA (Samtaka atvinnulífsins) og Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns Efnahagssviðs SA, hófst þannig:
"Það er segin saga, að frjáls viðskipti bæta lífskjör landsmanna. Efnahagsleg velsæld Íslendinga byggist að grunni til á alþjóða viðskiptum. Hér sannast hið fornkveðna, að verðmætasköpunin er mest, þegar ríki sérhæfa sig í því, sem þau gera bezt og verzla það, sem þau vanhagar um, erlendis. [Stundum er styrkur ríkja fólginn í að nýta sérstakar náttúruauðlindir, t.d. endurnýjanlega orku, hreint haf og land, eins og hérlendis, - innsk. BJo.]
Milliríkjaviðskipti með fjármagn lúta sömu lögmálum og eru eftirsóknarverð frá sjónarhóli lánveitenda og lántaka, fjárfesta og frumkvöðla. Opnir fjármagnsmarkaðir stuðla að lægra raunvaxtastigi, auka framleiðslugetu og skjóta styrkari stoðum undir innlenda verðmætasköpun. Bætt aðgengi að fjármagni á betri kjörum leiðir til þess, að verkefni, sem áður borguðu sig ekki, verða arðbær, sem skapar forsendur fyrir bættri auðlindanýtingu. Fámenn ríki eiga sérstaklega mikið undir í samstarfi við erlenda aðila við að nýta þau tækifæri, sem fyrir eru í landinu, og skapa önnur, sem eru heimamönnum hulin.
Það er hagur lands og þjóðar að tryggja betra aðgengi að erlendu fjármagni.
Beinar erlendar fjárfestingar hafa gefizt vel hérlendis, enda eru þær áhættulausar fyrir innlenda fjárfesta. Slíkir erlendir fjárfestar færa landsmönnum, auk áhættufjármagns, nýja þekkingu á verkferlum og stjórnun á fólki og verkefnum, t.d. áhættustjórnun. Þannig hafa öll stóriðjuverkefnin markað framfaraspor að sínu leyti í sínu héraði, nema "United Silicon" í Helguvík, þar sem erlendir fjárfestar voru lítt eða ekki viðriðnir, og þekkingarleysi virðist hafa ráðið för. Það er afleitt vegarnesti.
Það eru hins vegar skuggahliðar á aðild landsins að Innri markaði ESB með frjálsa flutninga fjármagns. Ef Ísland hefði ekki haft þetta aðgengi að Innri markaðinum með fjármagn, er ólíklegt, að Hrun fjármálakerfisins íslenzka haustið 2008 hefði orðið jafnalgert og raun bar vitni um. Hið sama má segja, ef bönkunum hefði verið stjórnað af festu og ábyrgð, þótt landið væri á Innri markaðinum. Aðild að Innri markaðinum felur óneitanlega í sér fullveldisframsal, sem reyndist stórhættulegt á ögurstundu haustið 2008. Af því ber að draga lærdóm. Sú áhættutaka felur í sér skammtíma ávinning og langtíma hættu. Hvorki var að finna skjól né stuðning á EES-svæðinu né reyndar annars staðar, þegar á herti. Sú dapurlega sögulega staðreynd sýnir, að ríkisstjórnir huga aðeins að hag eigin lands, þegar á herðir, og að það er enginn vinur lands í raun. Eina úrræðið er að standa á eigin fótum í hvaða stórsjó, sem er. Eina vörn einnar þjóðar er óskorað fullveldi hennar til að ráða sínum málum sjálf í blíðu og stríðu, sbr Neyðarlögin haustið 2008, sem björguðu landinu frá langvarandi allsherjar áfalli.
Allt frá miðbiki 20. aldar hefur verið rekinn harðvítugur áróður gegn beinum erlendum fjárfestingum á Íslandi og svo er enn. Ástæðan tengdist hagsmunatogstreitu stórveldanna í Kalda stríðinu í upphafi, og hún hefur alla tíð verið af stjórnmálalegum einangrunartoga fremur en á viðskiptagrundvelli. Þessi neikvæða síbylja hefur haft áhrif á afstöðu landsmanna, sem reynslan ætti þó að hafa kennt annað. Um þetta skrifa hagspekingarnir:
"Þrátt fyrir kosti þess að búa í opnu hagkerfi þá er áhyggjuefni, hversu neikvæðir Íslendingar eru almennt gagnvart alþjóðavæðingu. Fyrr í vetur var gerð könnun á vegum Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Íslandsstofu um viðhorf landsmanna gagnvart erlendri fjárfestingu. Sláandi var, hversu ríkjandi neikvæðar hugsanir eru í huga fólks, þegar það heyrir orðið erlend fjárfesting. Þessari öfugþróun verður að hrinda með aukinni fræðslu og bættri málafylgju atvinnulífsins."
Þegar Bjarni Benediktsson var fjármála-og efnahagsráðherra 2013-2016, hafði hann forgöngu um að fella niður alla tolla og vörugjöld, nema af bifreiðum, eldsneyti og vissum matvælum. Þetta var einstæður gjörningur, sem skipaði Íslendingum einhliða í hóp þjóða með minnstar innflutningshömlur á vörum. Þessi gjörningur gerði viðskiptaumhverfið hérlendis heilbrigðara, lækkaði vöruverð í landinu, sem afnáminu nam, öllum til hagsbóta, og ruddi brautina fyrir beinar fjárfestingar erlendra verzlunarfyrirtækja á Íslandi, sem eflt hafa samkeppni, svo að verðhjöðnun er hér enn og hefur verið mánuðum saman, ef húsnæðislið neyzluverðsvísitölunnar er sleppt.
Hrá matvæli eru ásteytingarsteinn. Matvælalöggjöf ESB var illu heilli samþykkt á Alþingi í árslok 2009. Ísland lenti þar með á Innri markaði EES fyrir matvæli, og þar er engar undanþágur að finna. Alþingi þóttist þó reka varnagla gagnvart sjúkdómahættu með því að banna innflutning á fersku kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk. Þessi varnagli var illa ryðgaður og er dottinn í sundur með nýlegum dómi EFTA-dómstólsins. Við því verður ný ríkisstjórn að bregðast snöfurmannlega. Þar mun mæða á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, sem fara með landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og utanríkismál.
Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu kærðu varnagla Alþingis til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem taldi lagasetningu Alþingis brjóta í bága við EES-skuldbindingar Íslands, þótt landbúnaðarstefna ESB væri þar ekki meðtalin á sínum tíma, árið 1994, og hafnaði málið fyrir EFTA-dómstólinum. Hann hefur nú úrskurðað ESA í vil og gegn Alþingi um, að varnagli þingsins brjóti í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart EES.
Þar með er engum blöðum um það að fletta lengur, að framsal á fullveldi landsins til að verjast sjúkdómum hefur farið fram til EES. Þetta fullveldisframsal er óviðunandi með öllu og útheimtir endurskoðun á EES- samningi Íslands og uppsögn hans, ef téð fullveldi til sjúkdómavarna fæst ekki endurheimt úr klóm Berlaymont í Brüssel. Þessi afstöðubreyting markar þáttaskil í utanríkismálum Íslands og kemur á sama tíma og tengsl helztu viðskiptaþjóðar Íslands við EES eru að taka stakkaskiptum. Hér er óhjákvæmilega komið helzta utanríkispólitíska viðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Heilbrigðismál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þakka þér Bjarni Jónsson, góða og umfangsmikla umfjöllun.
Þarna virðist sem,
„Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu,
taki höndum saman við ESB, um að binda íslendinga í
landbúnaðarstefnu ESB.
þótt landbúnaðarstefna ESB væri þar ekki meðtalin á sínum tíma, árið 1994.
Er Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og þjónustu að taka fram fyrir hendur Alþingis, og kjörinna fulltrúa?
Er þetta ekki ólögleg aðgerð, þá ekki síst hjá EFTA dómstólnum.?
000
Hér fyrir neðan eru tvær setningar úr grein Bjarna Jónssonar
„Félag atvinnurekenda og Samtök verslunar og C kærðu varnagla Alþingis til ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA,
sem taldi lagasetningu Alþingis brjóta í bága við EES-skuldbindingar Íslands,
þótt landbúnaðarstefna ESB væri þar ekki meðtalin á sínum tíma, árið 1994, og hafnaði málið fyrir EFTA-dómstólinum.
Hann hefur nú úrskurðað ESA í vil og gegn Alþingi um, að varnagli þingsins brjóti í bága við skuldbindingar Íslands gagnvart EES.“
Egilsstaðir, 09.12.2017 Jónas Gunnlaugsson
Það hefur reynst okkur vel að erlendir aðilar eigi og reki stóriðju fyrirtæki hér á landi, með sérstökum samningum.
Aftur á móti er ekki hyggilegt að útlendingar geti keypt allar eignir á Íslandi.
Í einni stórborg er fjöldi einstaklinga, sem er mun betur stæður en flestir á Íslandi.
Við getum aldrei keypt nema smá part í stóru löndunum.
Stóru löndin geta keypt upp allt Ísland á viku.
Við verðum að semja þannig, að ef Íslendingar kaupa 1% af eignum í einhverju landinu, þá mega þeir lendingar, kaupa 1 % á Íslandi.
Þetta er jafnræði.
Það að láta einhvern kaupa upp eignirnar má alls ekki.
Eigandinn getur tekið eignirnar til nota fyrir sig,
Þá spyrð þú, hvert á ég að fara.
Svarið gæti verið, þú getur farið í þjóðgarðinn.
Egilsstaðir, 09.12.2017 Jónas Gunnlaugsson
000
Við þurfum að hætta að hugsa um peninga, sem "peninga."
Peningar eru aðeins bókhaldsnótur.
Bókhaldið, peningabókhaldið færum við sjálfir.
Það sýnist sem Trump Bandaríkjaforseti, sé að reyna að endurheimta fjármálabókhaldið til ríkisins, fólksins frá Einkaaðilum.
Þú og allir góðir, við erum og eigum að vera góðir menn, lesi sér til í youtube og reyndar allstaðar, og kenni okkur hinum.
Egilsstaðir, 09.12.2017 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 9.12.2017 kl. 16:38
Þú spyrð, Jónas Gunnlaugsson, hvort tvenn íslenzk hagsmunasamtök séu að taka fram fyrir hendur Alþingis, og hvort sú aðgerð ásamt ESA/EFTA úrskurði sé ólögleg aðgerð.
Téð hagsmunasamtök kærðu íslenzk stjórnvöld fyrir ESA og voru í rétti til þess. ESA taldi undanþágur Alþingis, sem gerðar voru í heilsuverndarskyni, brjóta í bága við EES-skuldbindingar Íslands, og EFTA-dómstóllinn kvað upp úr um, að matvælalöggjöf ESB, sem Alþingi innleiddi með undanþágum árið 2009 til að verjast hættulegum sýkingum manna og búfjár, væri hluti af EES-skuldbindingum Íslands, og þess vegna væru engar undantekningar leyfilegar.
Þar með hefur sannazt, að fullveldisafsal hefur átt sér stað frá Reykjavík til Brüssel í meiri mæli en Alþingismenn gerðu sér grein fyrir árið 2009 og sennilega líka 1992-1994. Það er búið að gera Alþingi valdalaust í lífshagsmunamáli landsmanna. Það er varla hægt að sýna fram á með skýrari hætti en þetta, að EES-aðild Íslands felur í sér Stjórnarskrárbrot. Við þessari stöðu ber stjórnvöldum skylda til að bregðast með róttækum hætti. Ég fæ ekki séð, að Íslandi sé lengur vært í EES, en þjóðin ætti að fá tækifæri til að tjá sig, þegar ríkisstjórnin verður búin að reyna samningaleiðina.
Með góðri kveðju austur á Hérað /
Bjarni Jónsson, 9.12.2017 kl. 21:14
Ég sé ekki betur en að þetta sé allt rétt hjá þér.
Við þurfum að gæta þess, að þjóðin, sé upplýst um málefnið, áður en hún fer að kjósa.
Eru allir fjölmiðlarnir komnir undir stjórn New World Order?
Flestar fréttir af til dæmis Trump Bandaríkja forseta eru í þeim anda að sagt er að einhver segi að hann hafi kastað þurrkurúllum í fólkið í Costa Ríka.
Þar var Trump að afhenda hjálpargögn í kirkju miðstöð.
Einhver konan hrópaði, kastaðu til mín, kastaðu til mín, og Trump sem var með rúllurnar í hendinni, tók flotta baseball sveiflu og kastaði þeim til konunnar.
Blöðin sem reyndu að velja þessa neikvæðu frásögn af atburðinum, virðast vera að ófrægja Trump.
Þá hugsum við, eru andstæðingar Trumps búnir að ná þessu blaði líka, er það New World Order?
Einhverjir verða að segja fólkinu satt, til að fólkið geti brugðist við vandamálunum.
Gangi þér allt í haginn.
Egilsstaðir, 10.12.2017 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 10.12.2017 kl. 00:36
Sæll, Jónas;
Ef málin þróast á svipaðan veg hér og á Bretlandseyjum, þ.e. að reynt verði með litlum árangri að semja um sérskilmála fyrir Ísland, eins og Cameron reyndi gagnvart ESB fyrir Bretland, og síðan verði niðurstöðunni varpað til þjóðarinnar til samþykktar eða synjunar, þá mun án efa verða hér lífleg kosningabarátta, þar sem uppi mun verða mikill vaðall um tjónið, sem úrsögn úr EES muni valda, en það verða auðvitað líka dregnar fram staðreyndir í málinu.
Fjölmiðlar spila á tilfinningar fólks, og fólkið er hrætt, því að Trump er ólíkindatól, og nú eru jihadistar að koma sér fyrir eftir hrun kalífadæmisins og hyggja á hefndir. Nýlegt glæpaverk í Egyptalandi, sem reyndar beindist að fólki á bæn í mosku, er forsmekkurinn að heygulslegum aðgerðum, sem beinast munu þangað, sem fólk er varnarlausast. Fólki finnst Donald Trump ekki auka öryggi þess.
Bjarni Jónsson, 10.12.2017 kl. 09:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.