15.1.2018 | 10:43
Lýðræði, gegnsæi og Stjórnarskráin
Í stjórnarsáttmálanum er kafli, sem ber heitið "Lýðræði og gagnsæi". Önnur grein hans byrjar þannig:
"Ríkisstjórnin vill halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar, og nýta m.a. til þess aðferðir almenningssamráðs."
Þessi aðferðarfræði hefur verið þrautreynd og er enn sem áður ólíkleg til árangurs. Mun vænlegra er, að Alþingi feli valinkunnum stjórnlagafræðingum að endurskoða tiltekna kafla eða tilteknar greinar Stjórnarskrárinnar. Afrakstur þessarar vinnu færi í umsagnarferli, þar sem þjóðinni allri gæfist kostur á að koma að athugasemdum á vefnum, og síðan mundi Alþingi vinna úr gögnunum og gera tilraun til að smíða nothæfan stjórnlagatexta, sem fer þá í ferli samkvæmt núgildandi Stjórnarskrá.
Það er vissulega þörf á að bæta íslenzku Stjórnarskrána á nokkrum sviðum, og skyldi engan undra. Blekbónda þykir einna mest þörf á að reisa skorður við framsali ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana. Það hefur síðan árið 1994 tíðkazt í mjög miklum mæli, að Alþingi sé breytt í stimpilstofnun fyrir lagabálka frá ESB með vísun til EES-samningsins, sem samþykktur var á Alþingi 13. janúar 1993. Frá gildistöku hans til ársloka 2017, eða á 24 árum, hafa um 11´000 tilskipanabálkar og reglugerðir hlotið afgreiðslu íslenzku ráðuneytanna og stór hluti "þeirrar hrúgu" komizt inn í íslenzka lagasafnið, þótt íslenzk sjónarmið eða íslenzkir hagsmunir hafi ekki komizt að við útgáfuna, svo að heitið geti. Ójafnræði á milli laga-og reglugerðaveitanda og -þiggjanda er himinhrópandi, svo að þetta fyrirkomulag nær í rauninni engri átt. Bretar eru í allt annarri stöðu, verandi "stórt" ríki innan ESB með talsvert vægi við mótun og ákvarðanatöku, en þeir eru samt búnir að fá sig fullsadda af tilskipana- og reglugerðaflóðinu frá Berlaymont og hafa nú ákveðið að losa sig undan því fargi öllu, þótt ekki gangi það þrautalaust.
Ef samstarfsnefnd ESB og EFTA-ríkjanna þriggja í EES kemst að þeirri niðurstöðu, að taka eigi nýjan lagabálk frá ESB upp í EES-samninginn, og ESB hefur alltaf haft vilja sinn fram í slíkum efnum, að því bezt er vitað, þá fær ríkisstjórn EFTA-lands bálkinn sendan með tímafresti, sem ESA- Eftirlitsnefnd EFTA með framfylgd EES-samningsins, fylgist með, að sé haldinn, og kærir síðan ríkið vegna of langs dráttar fyrir EFTA-dómstólinum. Sá fylgir alltaf dómafordæmi ESB-dómstólsins (kallaður Evrópudómstóll). Sjálfsákvörðunarréttur landsins er í orði, en ekki á borði. Langlundargeð Norðmanna með þetta ólýðræðislega fyrirkomulag er mjög þanið um þessar mundir, en hérlendis virðast flestir kæra sig kollótta enn sem komið er. Þeir kunna þó margir að vakna upp með andfælum, því að "sambandsríkistilhneiging" ESB vex stöðugt. Er ekki raunhæfur kostur að draga dám af Bretum og hreinlega að segja upp þeirri óværu, sem EES-samningurinn er ?
Að halda því fram, eins og sumir gera, að núverandi EES-samningur sé ekki fullveldisframsal, heldur sé það "viðtekin skoðun í þjóðarétti að líta svo á, að rétturinn til að taka á sig alþjóðlegar skuldbindingar sé einn af eiginleikum fullveldis, og að undirgangast slíkar skuldbindingar sé ekki afsal á fullveldi" , er lagaleg rangtúlkun eða hártogun á eðli þjóðréttarsamninga, eins og fram kemur við lestur neðangreindra greina úr norsku Stjórnarskránni. Þjóðréttarsamningur er samningur fullvalda ríkja um að fylgja tilteknum, skráðum reglum í samskiptum sínum á jafnræðisgrundvelli. Þetta á ekki við um síbreytilegan EES-samninginn, sem á hverju ári veldur meira framsali ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana.
Tilvitnunin er úr grein Bjarna Más Magnússonar, dósents í lögfræði við lagadeild HR, í Morgunblaðinu, 13. janúar 2018, "Enn meira um fullveldi".
Af greininni má ráða, að stjórnsýslulega leggi höfundurinn að jöfnu aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum-SÞ, Atlantshafsbandalaginu-NATO og Evrópska efnahagssvæðinu-EES. Hvern er höfundurinn að reyna að blekkja með þvílíkum skrifum ? Aðild Íslands að SÞ og NATO er dæmigerð um þjóðréttarlegar skuldbindingar ríkisins í alþjóðlegu samstarfi, þar sem Ísland er aðili á jafnræðisgrundvelli í því augnamiði að friðvænlegra verði í heiminum og til að tryggja eigið öryggi. Annað mál er, hvernig til hefur tekizt, en þessar tvær stofnanir hafa enga heimild til né hafa þær reynt að yfirtaka hlutverk ríkisins, nema NATO hefur yfirtekið hervarnarhlutverk ríkisins, sem íslenzka ríkið ekki er fært um með fullnægjandi hætti.
Allt öðru máli gegnir um aðildina að EES. Hún er alls ekki á jafnræðisgrundvelli, því að Ísland hefur engan atkvæðisrétt á borð við aðildarríki ESB, og í reynd hefur ESB ráðið því, hvaða gerðir þess eru teknar upp í EES-samninginn. Þar með eru hér lögleiddar gjörðir án efnislegrar aðkomu Alþingismanna að viðlögðum sektum eða brottvikningu úr EES. Sama má segja um reglugerðir og íslenzka embættismenn. Hlutverk þeirra er að þýða og innleiða þær. Lagasetningin og reglugerðirnar hafa bein áhrif á hagsmuni og jafnvel frelsi lögaðila og einstaklinga hérlendis, þannig að augljóst framsal til útlanda hefur átt sér stað á valdi, sem ríkið eitt á að hafa yfir þegnum sínum, íbúum lands í fullvalda ríki.
Nú skal vitna í téða Morgunblaðsgrein til að sýna á hvers konar refilstigu umræðan um fullveldi landsins hefur ratað í heimi lögfræðinnar:
"Hugtakið fullveldisframsal er oft á tíðum notað í umræðunni um alþjóðamál hérlendis um það, þegar ríki tekur á sig þjóðréttarlegar samningsskuldbindingar um ákveðnar athafnir eða athafnaleysi, sem í felst binding. Þetta er einkum áberandi, þegar rætt er um EES-samninginn og hugsanlega aðild Íslands að ESB"
Það er forkastanlegt að reyna að telja fólki trú um, að EES-samningurinn eða hugsanleg aðild að Evrópusambandinu-ESB hafi ósköp sakleysislegt þjóðréttarlegt gildi. Hér er um miklu djúptækari félagsskap að ræða, eins og ráða má af því, að ESB er á siglingu í átt frá ríkjasambandi að sambandsríki, þar sem æ fleiri stjórnunarsvið aðildarríkjanna eru felld undir einn og sameiginlegan hatt ESB.
"Heppilegra er að ræða um framsal ríkisvalds en fullveldisframsal. Það er hreinlega hluti af ytra fullveldi ríkja að geta framselt ríkisvald til alþjóðastofnunar. Það er svo alltaf spurning, hvort slík notkun á fullveldinu sé í samræmi við stjórnlög ríkis eða teljist þjóna hagsmunum þess."
Þessi málflutningur sýnir berlega, að nauðsynlegt er að setja í Stjórnarskrá Íslands varnagla við framsali ríkisvalds, þótt ekki verði það bannað. Norðmenn hafa í sinni stjórnarskrá ákvæði um, að minnst helming allra Stórþingsmanna þurfi til að ljá fullveldisframsali með víðtækum afleiðingum fyrir ríkið og íbúana lögmæti, þ.e. 75 % af viðstöddum Stórþingsmönnum, sem séu þó að lágmarki 2/3 af heild.
Í lauslegri þýðingu segir um þetta í norsku Stjórnarskránni:
Gr. 26.2: "Fullveldi á s.k. afmörkuðu sviði má láta af hendi, ef a.m.k. 50 % af þingmönnum í Stórþingssalnum samþykkja það, með vísun til venja varðandi mál, er varða Stjórnarskrá."
Það eru vissulega fordæmi í Noregi og á Íslandi fyrir framsali ríkisvalds, og í Noregi er það meirihluti í Stórþingssalnum, sem ákveður, hvort krefjast ber aukins meirihluta. Þetta má telja veikleika. Grein Stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta er þannig í lauslegri þýðingu:
Gr. 115: "Í þágu alþjóðlegs friðar og öryggis eða til að bæta alþjóðlegt réttarfyrirkomulag og samvinnu getur Stórþingið samþykkt með 75 % atkvæða viðstaddra Stórþingsmanna, sem að lágmarki séu 2/3 Stórþingsmanna, að alþjóðleg samtök, þar sem Noregur á aðild að eða Noregur styður, skuli hafa rétt til aðgerða á málefnalega afmörkuðu sviði, sem samkvæmt þessari Stjórnarskrá annars er í verkahring yfirvalda ríkisins. Þó fylgja þessu ákvæði ekki heimildir til að breyta þessari Stjórnarskrá.
Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við þátttöku í alþjóðasamtökum, ef ákvarðanirnar hafa einvörðungu þjóðréttarleg áhrif fyrir Noreg."
Það virðist t.d. einsýnt af þessum texta, að Stórþinginu ber að beita gr. 115 við atkvæðagreiðslu um upptöku Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.
Alþingi samþykkti þáverandi EES-samning naumlega í janúar 1993, en engin þjóðaratkvæðagreiðsla var þá haldin um þetta stórmál, þótt miklum vafa þætti undirorpið, að fullveldisframsalið stæðist ákvæði íslenzku Stjórnarskrárinnar um óskoraðan rétt Alþingis til löggjafarvalds á Íslandi, svo að eitthvað sé nefnt.
Setja þarf inn í íslenzku Stjórnarskrána ákvæði á þessa lund:
Þegar fyrir hendi er frumvarp á Alþingi um aðild Íslands að samtökum, sem eiga að einhverju leyti að taka við hlutverki Alþingis, dómstóla eða framkvæmdavalds, þá skal halda um málið bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluta atkvæðisbærra manna skal þurfa til að samþykkja slíka tillögu. Að öðrum kosti er hún felld, og Alþingi verður þá að fella frumvarpið, annars að samþykkja það. Fimmtungur þingmanna getur vísað því til Hæstaréttar, hvort um fullveldisframsal sé að ræða, sem útheimti slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Meirihluti 5 dómara ræður niðurstöðu.
Þegar mál koma til kasta Alþingis, sem 20 % þingmanna telja varða óheimilt framsal ríkisvalds, eins og t.d. Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB ótvírætt er, þá skal krefjast aukins meirihluta til samþykktar, eins og á norska Stórþinginu.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Í frumvarpi stjórnlagaráðs er 111 greinin með skýr ákvæði um framsal ríkisvalds í þjóðréttarsamningum, skilyrði fyrir slíku og skyldu til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að skoðuð höfðu verið hliðstæð ákvæði í öðrum stjórnarskrám.
En hávær hópur manna hefur afflutt þetta ákvæði á þann hátt að það sé eingöngu þarna til að þrýsta Íslandi inn í ESB. Sem er alrangt, því að núverandi stjórnarskrá setur ekkert skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðslu né önnur skilyrði fyrir framsali.
Þungamiðjan í andstöðu við ákvæði um framsal ríkisvalds er,að sleppt í umræðunni, að allt frá aðild að Alþjóða flugmálastofnuninni, Sþ og NATO hefur ríkisvaldi verið afsalað í ótal þjóðréttarsamningum og að núverandi stjórnarskrá er ekki með neitt ákvæði um skyldu til þjóðaratkvæðis eða önnur skilyrði fyrir afsali.
Í skorinorðum fyrirlestri um fullveldi Íslands í fyrra var Björg Thorarensen harðorð um það ástand sem af afskiptaleysi núverandi stjórnarskrár hefur leitt og orðið til þess að EES samningurinn hefur innleitt miklu meira inngrip í íslenska löggjöf en menn sáu fyrir 1993 og 1994.
Í umræðum á Alþingi um stjórnarskrána vorið 2013 kom fram að ALLIR þingflokkar voru fylgjandi ákvæði í stjórnarskrá um framsal ríkisvalds, en hinir háværu andstæðingar á netmiðlunum hafa afgreitt allt slíkt sem landráð.
Ómar Ragnarsson, 15.1.2018 kl. 12:08
Þakka þér fyrir ofangreint innlegg þitt, sem er hjálplegt fyrir fólk til að horfa á umræðuefnið í víðara samhengi en mér auðnaðist í pistlinum. Ég held, að við séum einfaldlega sammála um, hvað þarf að gera í þessu sambandi. Í tímans rás hefur myndazt brýn þörf á að stemma stigu við því, að ríkisstjórn og Alþingi leggi landsmönnum á herðar kvaðir með inngöngu í fjölþjóðleg samtök, sem fylgir frelsisskerðing eða lýðræðisskerðing, sem landsmenn ekki kæra sig um. Það gengur heldur ekki öllu lengur, að Stjórnarskráin setji engar hömlur við upptöku gerninga í íslenzkan rétt, sem landsmenn hafa nánast enga, eða alls enga, lýðræðislega aðkomu átt að, og eru þar lagabálkar ESB skýrasta dæmið í seinni tíð.
Norðmenn banna ekki fullveldisframsal í Stjórnarskrá, og það er óskynsamlegt að gera það. Ef þjóðin vill t.d. ganga í ESB, þá á hún að fá að gera það, enda er gjörningurinn fræðilega séð afturvirkur, þótt útganga kosti mikil harmkvæli, eins og brezka dæmið sýnir.
Bjarni Jónsson, 15.1.2018 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.