2.3.2018 | 11:42
Jöfnun dreifingarkostnaðar raforku
Lesendur þessa vefrits eru nú orðnir allfróðir um fyrirætlanir Evrópusambandsins (ESB) í orkuflutningsmálum. Þeir vita, að framkvæmdastjórn ESB og orkustofnun ESB, ACER, leggja mikla áherzlu á að auka hjá sér hlutdeild endurnýjanlegrar orku og bæta flutningsmannvirkin, svo að engir flöskuhálsar hindri frjálst flæði orku frá öllum virkjunum, ekki sízt rafstöðvum endurnýjanlegra orkulinda, hvert sem er innan ESB. Með þessu á að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku, auka nýtingu fjárfestinga og tryggja með aðferðum frjáls markaðar, að orkan fari þangað, sem hagkvæmast er að nýta hana, þ.e. til hæstbjóðanda hverju sinni.
Ein af afleiðingum þessa kerfis verður útjöfnun orkuverðs. Við raforkuverð til notenda bætist að sjálfsögðu flutningsgjald einokunarfyrirtækja á borð við Landsnet á Íslandi, Statnett í Noregi og National Grid á Bretlandi, sem hanna, byggja, reka, viðhalda og eiga flutningsmannvirkin og eru reyndar ábyrg fyrir kerfisrekstrinum. Næst almennum notendum eru hins vegar dreifingarfyrirtækin. Þau eru sérleyfisskyld, þ.e. standa ein að dreifingu raforku á sínum svæðum og bera auðvitað ríkar skyldur gagnvart "skjólstæðingum" sínum í krafti sérleyfisins.
Hérlendis er þó pottur brotinn varðandi kostnaðardreifingu dreifingarfyrirtækjanna á viðskiptavini sína eftir búsetu. Það er ekki eðlilegt, að einokunarfyrirtæki megi mismuna viðskiptavinum á dreifingarsvæði sínu eða dreifingarsvæðum, ef þau eru fleiri en eitt, enda kunna að vera hæpnir kostnaðarútreikningar gerðir í tilraun til að styðja slíka mismunun viðskiptavina eftir búsetu. Það er hins vegar ekki hægt að fetta fingur út í mishátt dreifingargjald hjá ólíkum veitufyrirtækjum.
Í ljósi þeirrar viðleitni ESB til jöfnunar raforkuverðs (frá virkjun), sem nú blasir við, er haldlaust að vísa í einhverjar gamlar regur ESB um, að kostnaður notenda eigi að endurspegla raunkostnað við að koma orkunni til þeirra, enda er heilmikill sameiginlegur kostnaður. Vanalega er um það að ræða hérlendis, að dreifbýlisnotandi borgar hærra verð fyrir dreifingu til sín en þéttbýlisnotandi hjá sömu dreifiveitu. Kveður svo rammt að þessu hjá einni veitunni, OR, að munurinn virðist geta orðið þar 38 %. Hann er 29 % hjá RARIK og hjá Orkubúi Vestfjarða, OV, 11 %.
Þingmenn eða ríkisstjórn ættu nú þegar að leggja fram frumvarp til laga um, að sama veitufyrirtæki megi aðeins beita einum dreifingartaxta fyrir raforku. Eftir sem áður geta verið ólíkir taxtar hjá mismunandi dreifiveitum, og fer verðið einfaldlega eftir meðalkostnaði á dreifiveitusvæðinu. Þá verður áfram frjáls verðlagning á orku frá virkjun í heildsölu og smásölu. Flutningsgjaldið er svo annar handleggur, og gæti tekið stakkaskiptum til hins verra, ef til landsins verður lagður aflsæstrengur, því að hann mun útheimta styrkingu stofnkerfisins, hvers kostnaður leggst á rafmagnsnotendur innanlands samkvæmt reglum ACER-orkustofnunar ESB.
Ef raforkumarkaðurinn á Íslandi fær að þróast eðlilega án afskipta ACER, þ.e. án aflsæstrengstengingar við útlönd, þá mun lítil raunverðhækkun verða á orku frá virkjun. Sigurður Jóhannsson hjá Hagfræðideild Háskóla Íslands skrifaði minnisblað 3. október 2017 um "Líklegar tekjur af vatnsréttindum vegna Hvalárvirkjunar". Þar skrifar hann m.a.:
"Hér er gert ráð fyrir, að rafmagnsverð frá Hvalárvirkjun hækki um 2 %/ár umfram annað verðlag á 15 árum, en breytist ekki eftir það. Þetta er í samræmi við algenga spá um rafmagnsverð í Bretlandi. Sennilega er sú spá varleg fyrir Ísland - ekki er ólíklegt, að munur á verði rafmagns hér á landi og í grannlöndunum fari minnkandi."
Með því að draga líklega þróun rafmagnsverðs á Bretlandi inn í verðspá fyrir raforku á Íslandi, er greinilega verið að gæla við verðlagsáhrif aflsæstrengs á milli Íslands og Bretlands. Hér skal efast um, að þessi spá rætist, en fremur spá allt að 1 %/ár raunverðhækkun raforku á meðan orkuskiptin standa yfir, enda verður að virkja nýjar orkulindir til að anna viðbótar orkuþörf.
Vinnslukostnaður nýrra virkjana mun hækka, en á móti kemur, að eldri virkjanir verða skuldlausar og meginkostnaður virkjana, einkum vatnsaflsvirkjana, er fjármagnskostnaður. Engin raunveruleg þörf er þess vegna á 2 %/ár raunhækkun raforkuverðs á smásölumarkaði, hvað þá á því, að verðið á Íslandi nálgist verðið á Bretlandi. Það er út í hött, nema af sæstreng verði.
Orkunotkun dreifbýlisnotanda á ári er vanalega mun meiri en t.d. húseiganda í þéttbýli. Meiri orka er almennt ódýrari á hverja orkueiningu en minni, sem vegur upp á móti gisnari byggð. Þetta stafar af því, að dreifbýlisnotandinn stundar í mörgum tilvikum atvinnustarfsemi. Magnmunurinn verður mun meiri, ef dreifbýlisnotandinn hitar húsnæði sitt upp með rafmagni, en þéttbýlisnotandinn er með tengingu við hitaveitu. Ofan á allt ójafnræðið leggst síðan, að dreifbýlisnotandinn hefur í mörgum tilvikum aðeins aðgang að einfasa rafmagni frá veitu, en þéttbýlisnotandinn getur fengið aðgang að þriggja fasa rafmagni frá veitu, ef hann þarf á því að halda.
Nú er fyrirhugað að stofna "stöðugleikasjóð" með tekjum ríkissjóðs af auðlindarentu af náttúruauðlindum og arðgreiðslum fyrirtækja ríkisins af þeim, í fyrsta umgangi vegna nýtingar orkulinda. Taka má mið af norska Olíusjóðinum, en 18 % útgjalda norska ríkissjóðsins eru um þessar mundir fjármögnuð með Olíusjóðinum. Skal hér gera tillögu um, að íslenzka ríkið vindi bráðan bug að stofnun þessa sjóðs og noti á næstu árum 3 % af höfuðstóli hans til að styðja fjárhagslega við verkefni, sem flýtt geta orkuskiptum og sem stuðla að orkusparnaði eða orkukostnaðarsparnaði og bættri orkunýtni. Hér má nefna:
a) Leit að volgu eða heitu vatni á "köldum" svæðum. Getur lækkað hitunarkostnað húsnæðis.
b) Nýtingu varmadælna til upphitunar húsnæðis, t.d. í tengslum við (a). Getur sparað umtalsverða raforku við upphitun.
c) Flýtingu á lagningu þrífasa jarðstrengja. Dregur úr orkutöpum og eykur gæði rafmagns á afhendingarstað. Í kjölfarið eru teknar niður loftlínur, sem léttir á neikvæðum umhverfisáhrifum rafvæðingarinnar og lækkar viðhalds/rekstrarkostnað.
Allt leiðir þetta til jöfnunar lífskjara í landinu, óháð búsetu, en þannig vilja bæði Íslendingar og Norðmenn, að orkuauðlindunum sé varið, en ekki, að raforkan sé send með miklum orkutöpum til útlanda til verðmætasköpunar þar og í staðinn sé flutt inn dýr raforka, sem kyrkir atvinnustarfsemi hér.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Mannréttindi, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.