4.3.2018 | 09:54
Frændríki á sama báti
Ísland og Noregur eru á sama báti. Því ræður uppruninn, staðsetning, landshættir og atvinnuvegirnir. Þess vegna var tímabært, að formanni norsku andófssamtakanna, "Nei til EU", Kathrine Kleveland, væri boðið til Íslands. Það gerðu íslenzku systursamtökin Heimssýn nýlega. Kom hún til landsins 1. marz 2018 og hélt magnþrungið erindi hjá Heimssýn um baráttu samtaka sinna gegn innlimun Noregs í ESB, bakdyramegin um EES (Evrópska efnahagssvæðið).
Það er kominn tími til að reisa burst við EES, því að tilætlunarsemi ESB um aðlögun EFTA-ríkjanna að regluverki ESB virðist hafa tekið stökkbreytingu við áhrifaleysi Breta innan ESB eftir BREXIT. Með þessum hætti breytist EFTA í taglhnýting ESB í stað þess að vera sjálfstætt viðskiptabandalag á jafnræðisgrunni við ESB. Þessi þróun er augljós og með öllu óviðunandi, enda óþarfi að beygja sig undir þvílíkt ok.
Þann 1. marz 2018 birti Morgunblaðið viðtal Guðrúnar Erlingsdóttur við Kathrine Kleveland í tilefni téðrar heimsóknar. Verður nú vitnað í þetta viðtal og lagt út af því:
""Ég hef áhuga á að koma umræðunni um EES-samninginn í gang á Íslandi, það er orðið tímabært", segir Kleveland, ... "
Gagnrýnin umræða um aðild Noregs að EES hefur staðið yfir um skeið í Noregi og á sér tvær rætur. Annars vegar úrslit BREXIT-atkvæðagreiðslunnar í júní 2016 og horfur á, að Bretland sé á leiðinni út úr EES-samstarfinu 2019-2020, og hins vegar sameiginlegt stjórnkerfi ESB-ríkjanna á æ fleiri sviðum, sem ESB purkunarlaust treður upp á EFTA-ríkin innan EES, þótt það stríði gegn upphaflegu grunnreglunni um samskipti jafnrétthárra aðila, EFTA og ESB, um málefnin, sem á döfinni eru hverju sinni.
Bretar eru ein af aðalviðskiptaþjóðum Norðmanna og Íslendinga, og BREXIT og nýgerður fríverzlunarsamningur Kanada við ESB veita kærkomið tækifæri til gagnrýninnar endurskoðunar á EES-samstarfinu við ESB. Það er ljóst, að ESB vill breyta þessu samstarfi þannig, að stofnanir þess á mikilvægum sviðum efnahagslífsins fari með stjórnun mála í EFTA-ríkjunum, eins og um ESB-ríki væri að ræða, þótt EFTA-ríkin séu nánast áhrifalaus innan ESB. Þetta er erfiður biti fyrir Ísland og Noreg að kyngja, eins og komið hefur fram hjá Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, í ræðupúlti Alþingis, og hjá mörgum Stórþingsmönnum og lagaprófessorum, norskum.
Það blasir við, að fyrirkomulag innan EES í anda ESB stríðir gegn stjórnarskrám bæði Íslands og Noregs. Löndunum er þá ekki lengur vært innan EES. Þjóðþing þessara landa verða að koma ríkisstjórnunum á rétt spor í þessum efnum. Þær eru í heljargreipum embættismanna, sem hallir eru undir skrifræðið í Berlaymont. Atvinnulífið stynur undan skrifræði og eftirlitsstarfsemi, sem fyrirskrifuð er frá Berlaymont og sniðið er við mun fjölmennari samfélög en okkar. Beinn og óbeinn nettó kostnaður vegna EES-aðildar Íslands gæti numið yfir 80 miaISK/ár (kostnaður umfram ávinning). EES-aðild er orðin hagvaxtarhamlandi og hefur gengið sér til húðar.
""Umræðan um ESB er ekki eins mikilvæg í Noregi og umræðan um EES, vegna þess að meirihluti Norðmanna trúir því, að við þurfum á EES að halda. Á samningnum eru þó margar neikvæðar hliðar, og það þarf að skoða, hvaða þýðingu hann hefur fyrir Noreg, og hvort við þörfnumst hans", segir Kleveland."
Norðmenn voru í nóvember 2017 spurðir um afstöðu sína til orkustofnunar ESB, ACER. Þá kváðust 70 % þeirra, sem afstöðu tóku, vera andvígir aðild Noregs að þessari stofnun ESB (þeir munu einvörðungu öðlast áheyrnarrétt, ef til kemur). Reyndar tóku 38 % aðspurðra ekki afstöðu, en þessi niðurstaða gefur til kynna, að senn muni meirihluti Norðmanna snúast öndverður gegn veru landsins í EES. Samtökin "Nei til EU" hafa á stefnuskrá sinni, sem samþykkt var á landsfundi samtakanna fyrir nokkru, að Noregur segði upp EES-samninginum. Það fer að verða lýðræðislega knýjandi fyrir bæði Norðmenn og Íslendinga að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa veru. Kjósendur fá þá tækifæri til að leggja blessun sína yfir stjórnarskrárbrot, sem margir telja felast í framkvæmdinni, eða að hafna innlimun í ESB sneið eftir sneið ("salamiaðferðin").
""Í umræðunni um EES á Íslandi og í Noregi þarf að ræða, hvers vegna samningurinn er umfangsmeiri en aðrir viðskiptasamningar ESB, sem gerðir eru við yfir 150 lönd, og að EES-löndin eru þau einu, sem þurfa að breyta lögum til þess að eiga viðskipti innan ESB", segir Kleveland og bætir við, að þegar Noregur skrifaði undir EES-samninginn við ESB, hafi Norðmönnum verið sagt, að EES-samningurinn tæki bara til viðskiptalífsins."
EES-samningurinn var gerður við Norðmenn árið 1992 og var að þeirra hálfu og ESB hugsaður sem biðleikur, þar til Noregur gengi í ESB. Samningum um inngöngu Noregs var síðan lokið árið 1994, og þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin í kjölfarið, eins og stjórnarskráin kveður á um, þegar gengið er í fjölþjóðleg samtök, sem yfirtaka hluta af þeim völdum og ábyrgð, sem áður voru hjá þingi, dómstólum og ríkisstjórn, þ.e. inngangan felur í sér fullveldisframsal. Þjóðin hafnaði samninginum í annað sinn, en hið fyrra var haustið 1972. Var blekbóndi þá nýkominn til námsdvalar í Noregi og hefur aldrei upplifað jafntilfinningaríka kosningabaráttu.
Síðan þetta var hefur EES-samningurinn tekið meiri breytingum en nokkurn óraði fyrir og er einfaldlega orðinn alltof viðamikill og dýrkeyptur fyrir smáþjóðir að halda uppi til að fá aðgang að Innri markaði ESB. Þetta blasti við, þegar ljóst varð, að Bretar væru búnir að fá sig fullsadda af vistinni hjá Germönum og Göllum, og Kanadamenn sömdu um hagstæðari viðskiptakjör fyrir útflutningsvörur sínar við ESB en Íslendingum bjóðast á Innri markaðinum. Þótt Bretum þyki skorta í hann frelsi til fjármagnsflutninga, getur Kanadasamningurinn vel þjónað hagsmunum EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs.
Rökrétt viðbrögð stjórnvalda við núverandi stöðu mála eru þau, sem fundur Heimssýnar samþykkti 1. marz 2018 og endaði þannig:
"Í ljósi ofanritaðs leggur aðalfundur Heimssýnar til, að gagnrýnin skoðun fari fram á aðild Íslands að samninginum um Evrópska efnahagssvæðið. Slík skoðun ætti að miða að því að leiða í ljós þá kosti, sem í boði eru og bezt eru til þess fallnir að tryggja í senn fullveldi Íslands og aðra hagsmuni Íslendinga til langframa."
Ef ríkisstjórnin ekki fer að þessum ráðum, er hún komin í hlutverk strútsins í breytilegum heimi og stingur hausnum í sandinn og gerir ekkert af viti í þessum mikilsverðu málum á meðan. Ef vönduð rannsókn á viðfangsefninu fer hins vegar fram, getur farið fram um hana ítarleg þjóðfélagsumræða og síðan þjóðaratkvæðagreiðsla um uppsögn EES-samningsins.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Evrópumál, Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Mjög góð grein og í rauninni ætti hún að vera skyldulesning þeirra sem sífellt eru að halda uppi "Evróputrúboðinu" en virðast ekki hafa eina einustu glóru um hvað þeir eru að bulla. Ég var búsettur í Noregi þegar EES samningurinn var á lokametrunum. Þar var þáverandi forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland og þáverandi formaður Verkamannaflokksins Norska (systurflokks LANDRÁÐFYLKINGARINNAR Íslensku) mesti og helsti talsmaður þessa samnings í Noregi. Hún var ÓÞREYTANDI við að tala um mikilvægi samningsins og sú er línan sem ALLIR formenn verkamannafloksins hafa tekið sem á eftir henni hafa komið og svo virðist vera að meirihluti Norðmanna kjósi að trúa þessu. En síðan þessi samningur var gerður eru 25 ár og breytingarnar sem hafa orðið á alþjóða vísu eru alveg gríðarlegar OG ER NOKKUÐ MARGT SEM BENDIR TIL ÞESS AÐ STAÐA ESB SÉ EKKERT Í LÍKINDUM VIÐ ÞAÐ SEM HÚN VAR Í KRINGUM 1990......
Jóhann Elíasson, 4.3.2018 kl. 12:23
Nýlega var samþykkt á vettvangi Verkamannaflokksins norska, að innganga í ESB skyldi ekki verða lengur á dagskrá flokksins. Hann berst hins vegar á Stórþinginu fyrir hraðri og umræðulítilli innleiðingu allra tilskipana ESB, sem ESB hefur markað EES líka. Á Stórþinginu vinna forkólfar hans að innlimun Noregs í orkusamband ESB, en grasrótin í flokkinum er óróleg út af af þessu og hefur fjölmennt í blysfarir víða um iðnaðarsvæði Noregs gegn þessu, því að væntanleg raforkuverðshækkun af völdum raforkuviðskipta um sæstrengi við útlönd mun ógna tilvist iðnaðarfyrirtækjanna og iðnstörfum í dreifbýlinu. Fleiri og fleiri jafnaðarmenn ganga þess vegna til liðs við "Nei til EU". Ekkert slíkt mun gerast hér, því að Samfylkingin hefur glatað tengslum jafnaðarmanna við "vinnandi" fólk.
Bjarni Jónsson, 4.3.2018 kl. 13:06
Getur verið að íbúatalan á Íslandi sé, 0,0022031500089020771513353115727 % af íbúatölunni í Evrópusambandinu?
Áhrif okkar í stjórnun sambandsins verða þá, 0,0022031500089020771513353115727 %.
EU, 742,461,562 íbúar.
Ísland, 336,883 íbúar
Egilsstaðir, 04.03.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 4.3.2018 kl. 16:00
Sæll, Jónas; Ég aldrei séð svona marga aukastafi við %. Íbúatala Íslands er um 0,35 M og ESB um 500 M áður en Bretland yfirgefur samkvæmið. Hlutfallið er þá: 0,35/500 x 100 = 0,07 %.
Bjarni Jónsson, 4.3.2018 kl. 18:18
Sæll Bjarni og þakka góða grein eins og venjulega. Hér eru lögin sem Vigdís var neydd til að skrifa undir á sínum tíma hvar sem sá samningur er sem hún skrifaði undir. Hún sagði í beinni að hún var þvinguð til þess.
https://www.althingi.is/lagas/nuna/1993002.html
Það virðist vera í höndum viðskiptaráðherra að rifta honum með 12 mánaða fyrirvara. Gústi nokkur hér á blog síðunni sendi mér þetta um daginn en hann er á allt öðru máli sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér. Er reyndar á minni bloggsíðu.
Valdimar Samúelsson, 5.3.2018 kl. 16:59
Sæll, Valdimar;
EFTA-þjóðirnar 3 í EES, þ.e. þjóðþingin, hafa heimild samkvæmt honum til að beita neitunarvaldi gagnvart málum, sem Sameiginlega EES-nefndin hefur samþykkt, að séu EES-mál. Þetta kom líka greinilega fram í máli Kathrine Kleveland, formanns "Nei til EU" í Noregi á fundi hjá Heimssýn 1. marz 2018 og í Morgunblaðsviðtali samdægurs, sem bar yfirskriftina, "Við verðum að segja oftar nei". Jafnframt getur ríkisstjórnin sagt EES-samninginum upp, eins og þú skrifar. Þessi viðamesti samningur Íslands var aldrei borinn undir þjóðina til samþykktar. Það er orðið tímabært að segja á honum kost og löst og spyrja síðan þjóðina, hvort hún vilji lengur búa með þessu skrímsli eða losa sig við það áður en það verður um seinan.
Bjarni Jónsson, 5.3.2018 kl. 20:55
Þakka Bjarni er sammála þér. Hvernig skildi þessum mönnum líða sem leika sér að brjóta lög og stjórnarskránna ég veit að margir eru fallnir en ef við tökum t.d. Össur og Jóhönnu sérstaklega núna þegar Ítalía fer að sína á sér vígtennurnar.
Valdimar Samúelsson, 5.3.2018 kl. 21:10
Jafnvel lögfræðingar, kannski stjórnlagafræðingar þar á meðal, hafa talið EES-samninginn innan marka íslenzku stjórnlaganna. Með núverandi þróun þessa fjölþjóðasamnings er ómögulegt að rökstyðja það með sannfærandi rökum, að EES-samningurinn feli ekki í sér stjórnarskrárbrot. Á Ítalíu eru nú stjórnmálaflokkar í meirihluta á ítalska þinginu, sem vilja afleggja evruna sem lögeyri á Ítalíu. Það er auðvitað út af því, að hún er talin hafa hamlað hagvexti á Ítalíu í einn áratug nú. Að leggja af evruna mun jafngilda úrsögn úr ESB. Það á enn eftir að fækka við borð leiðtogaráðsins í Brüssel. Þeir geta kennt Lissabonsáttmálanum um og flutningi valda frá þjóðríkinu til yfirþjóðlegra stofnana.
Bjarni Jónsson, 6.3.2018 kl. 10:10
Europe Population (LIVE)
http://www.worldometers.info/world-population/europe-population/
742,465,196
1960196019701970198019801990199020002000201020100.00.00.50.51.01.0Yearly Growth Rate (%)Yearly Growth Rate (%)
Þetta voru mínar upplýsingar, hvaðan koma þínar?
Egilsstaðir, 06.03.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 6.3.2018 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.