Sendiherra kveður sér hljóðs

Það var ánægjulegt að sjá grein í Morgunblaðinu þann 10. marz 2018 um sameiginleg viðfangsefni okkar og Norðmanna í EES-samstarfinu.  Grein Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, bar heitið:

"EES-samningurinn, okkar sameiginlega velferð",

og þar tjáir sendiherrann bæði opinbera stefnu ríkisstjórnar Noregs og sína eigin.  Það er fengur að þessari grein núna á tímum vaxandi efasemda í Noregi og á Íslandi um gildi og framkvæmd EES-samningsins.  Efasemdirnar stafa aðallega af vaxandi tilætlunarsemi ESB (Evrópusambandsins) um, að EFTA-ríkin 3 í EES hagi sér eins og ESB-ríki. 

Það ríkir þó alls ekkert jafnvægi á milli EFTA og ESB í EES-samstarfinu.  EFTA-ríkin eru í hlutverki niðursetningsins á höfuðbólinu. Það átti að vara til bráðabirgða, en hefur nú varað í aldarfjórðung, svo að kominn er tími til að binda endi á þetta óeðlilega samband; ekki með inngöngu í ESB, heldur með uppsögn EES-samningsins.  Stefna norsku ríkisstjórnarinnar er þó fremur hið fyrrnefnda, en góður meirihluti norsku þjóðarinnar er á öndverðum meiði.  Jafnframt virkar lýðræðið með ófullkomnum hætti í Noregi að þessu leyti, því að þar er staðfest gjá á milli þings og þjóðar.

EFTA-ríkin hafa ekki atkvæðisrétt í stofnunum ESB á borð við ACER-Orkustofnun ESB, sem ESB heimtar, að fái að ráðskast með orkuflutningsmál EFTA-ríkjanna innanlands og á milli landa, eins og um ESB-ríki væri að ræða.  Það er þó óhugsandi án þess að framselja ríkisvald til yfirþjóðlegrar stofnunar, sem stjórnarskrár Íslands og Noregs heimila ekki. Stjórnskipulegar gervilausnir á borð við ESA sem millilið fyrir fyrirmæli ACER til útibúa sinna (Norðmenn kalla það RME-reguleringsmyndighet for energi) á Íslandi og í Noregi eru hlálegur kattarþvottur.

Sendiherrann skrifar:

"EES-samningurinn veitir okkur einnig aðgengi að 900 milljörðum norskra króna úr Evrópusambandskerfinu, gegnum hins ýmsu verkefni, sem Noregur er hlutaðeigandi í."

Fjárupphæðin, sem sendiherrann nefnir, 900 miaNOK/ár, dreifist á öll EES-ríkin.  Norðmenn eru um 1,0 % af mannfjöldanum á EES-svæðinu, en því fer fjarri, að í hlut þeirra komi nokkurn tíma 9,0 miaNOK/ár, því að ríkustu þjóðirnar í EES fá tiltölulega lítið í sinn hlut.  Hlutfallslega mest af fjármunum ESB fer til Austur-Evrópu.  Það er alls ekki hægt að búast við, að hlutur Noregs sé hærri en 0,3 %, þ.e. 2,7 miaNOK/ár, en hver eru þá bein útgjöld norska ríkisins til EES/ESB samstarfsins:

  • EES-fjármunir til Austur-Evrópu: 3,8 miaNOK/ár
  • ESB-verkefni og stofnanir:       3,2 miaNOK/ár
  • Interreg-samstarf á milli svæða: 0,2 miaNOK/ár
  • ESA og EFTA-dómstóllinn:         0,1 miaNOK/ár

_____________________________________________________

  • Alls norsk rík.útgj. til EES/ESB:7,3 miaNOK/ár

Niðurstaðan er sú, að Norðmenn greiða a.m.k. 4,6 miaNOK/ár (=60 miaISK/ár) meira til EES/ESB en þeir fá þaðan. Norðmenn greiða bróðurpartinn af kostnaði EFTA-landanna af verunni í EES, en Íslendingar greiða víst aðeins 3,0 % af heildarkostnaðinum þangað, sem þá eru um 3,0 miaISK/ár og fá líklega svipað andvirði til baka á formi rannsóknarstyrkja o.fl.

Þetta eru hins vegar algerar smáupphæðir í samanburði við kostnað þjóðfélagsins af vist í viðskiptabandalagi, þar sem miklu fjölmennari þjóðir ráða ferðinni.  Það er allt of dýrt fyrir smáþjóð að kaupa aðgangsleyfi inn á Innri markað EES því verði að verða að taka upp lög og reglugerðir aðildarþjóðanna.  Eru einhver önnur dæmi um slíkt fyrirbrigði sem EES ?

Viðskiptaráð Íslands gaf út skýrslu 7. október 2015 undir heitinu: "Vilji er ekki allt sem þarf".  Þar er komizt að því, að beinn og óbeinn kostnaður atvinnulífsins af eftirlitsstofnunum hins opinbera, og lögum og reglum, sem atvinnulífinu er gert að starfa undir, nemi 175 miaISK/ár á verðlagi uppfærðu til 2018.  Mest munar um minni getu atvinnulífsins til framleiðniaukningar sökum afar íþyngjandi opinbers regluverks, og kostnaðurinn er talinn aukast um 1,0 %/ár. Þetta er ískyggileg og lífskjarahamlandi byrði til þess eins að mega verzla á Innri markaði EES. Það stefnir þess vegna í óefni fyrir Íslendinga að vera njörvaða í þetta EES-samstarf, sem æ meir einkennist af því, að ESB er að þróast til sambandsríkis, sem sífellt minna tillit tekur til sérþarfa og réttinda EFTA-landanna. Í ACER-málinu um Orkusamband ESB tókst EFTA t.d. ekki að semja um neinar sérlausnir eða undanþágur.  

Auðvitað verður athafnalífið hér að vinna eftir tæknilegum stöðlum og viðskiptareglum, en vægt reiknað mætti minnka þennan kostnað (175 miaISK/ár) um 84 miaISK/ár, ef EES-samninginum verður sagt upp. Slíkur léttir á atvinnulífinu mundi strax virka framleiðniörvandi og treysta þar með undirstöður tekjuöflunar íbúa landsins. Í því samhengi ber að hafa í huga, að þar sem Íslendingar og Norðmenn eiga ekki aðild að sameiginlegu fiskveiði- og landbúnaðarstefnu ESB, njóta þeir ekki fullra tollfríðinda fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarvörur.  Kanadamenn njóta þar betri viðskiptakjara, eftir að hafa gert fríverzlunarsamning við ESB árið 2017, og nú hefur ESB boðið Bretum sams konar samning.  Við þurfum enga skýrslu um reynsluna af EES.  Hún blasir við.  Það þarf að stika út auðveldustu leiðina úr þessu dæmalausa og stjórnlagalega þrúgandi samneyti sem einhvers konar varta á líkama búrókrataskrímslis.   

Fljótt á litið virðast sterk efnahagsleg rök styðja uppsögn EES-samningsins, og því fylgir fjöldi annarra kosta, t.d. að losna undan oki óhefts innflæðis fólks frá EES og hverja kvöðina á fætur annarri um að hlíta stjórn stofnana ESB á afmörkuðum sviðum.  Þetta síðasta getur hreinlega boðið upp á fjárhagslegan óstöðugleika hérlendis, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri í mörgum greinum um ACER, og er klárt stjórnarskrárbrot í leikmannsaugum.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

17.8.2015:

"Samkvæmt skoðanakönnun Gallup er helmingur landsmanna, 50,1%, andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Fylgjendur aðildar eru 34,2% en 15,6% segjast hvorki vera fylgjandi né andvígir inngöngu í sambandið."

Skoðanakannanir um aðild Íslands að Evrópusambandinu eru lítils virði þegar samningur um aðildina liggur ekki fyrir.

Tugþúsundir Íslendinga hafa ekki tekið afstöðu til aðildarinnar og aðrar tugþúsundir geta að sjálfsögðu skipt um skoðun í málinu.

Fólk tekur afstöðu til aðildarinnar fyrst og fremst út frá eigin hagsmunum, til að mynda afnámi verðtryggingar, mun lægri vöxtum og lækkuðu verði á mat- og drykkjarvörum með afnámi allra tolla á vörum frá Evrópusambandsríkjunum.

Og harla ólíklegt að meirihluti Íslendinga láti taka frá sér allar þessar kjarabætur.

Þorsteinn Briem, 6.4.2018 kl. 17:29

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

20.10.2015:

""Krónan gerir það að verkum að við þurfum að hugsa í höftum, verðtryggingu og einhverjum vúdú-seðlabankavöxtum sem að hafa áhrif sem við þekkjum ekki fyrirfram."

"Þetta sagði Helgi Hrafn Gunnarsson formaður Pírata í ræðu á Alþingi í dag.

Í ræðunni sagðist Helgi Hrafn ávallt komast að þeirri niðurstöðu að íslenska krónan sé í grundvallaratriðum gallaður gjaldmiðill.

Krónan búi ekki bara til óstöðugleika, heldur knýi hún fram "skítmix" á borð við verðtryggingu."

"Það er sama hvað okkur finnst um Evrópusambandið, við verðum að takast á við vandamálið sem er íslenska krónan.""

Formaður Pírata kemst ávallt að þeirri niðurstöðu að íslenska krónan sé gallaður gjaldmiðill

Þorsteinn Briem, 6.4.2018 kl. 17:30

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland gæti fengið aðild að gengissamstarfi Evrópu, ERM II, þegar landið fengi aðild að Evrópusambandinu.

"The currency of Denmark, the krone (DKK), is pegged at approximately 7.46 kroner per euro through the ERM.

Although a September 2000 referendum rejected adopting the euro, the country in practice follows the policies set forth in the Economic and Monetary Union of the European Union and meets the economic convergence criteria needed to adopt the euro."

10.2.2015:

"Í Danmörku hafa lágir vextir á húsnæðislánum einnig styrkt efnahagslífið og komið því enn betur í gang.

Nú er hægt að fá lán til 30 ára með föstum 1,5 prósenta vöxtum en aldrei hefur verið boðið upp á lægri fasta vexti.

Þessi lán eru óverðtryggð."

Þorsteinn Briem, 6.4.2018 kl. 17:32

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Þorsteinn Briem, 6.4.2018 kl. 17:37

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar.

Bjarni Jónsson, 6.4.2018 kl. 18:32

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Steini einokar engin skrif önnur en þau sem ógna ESB málstað hans.  Ákveðinn gæðastimpill að fá hann í heimsókn, aftur - og aftur - og aftur...
Að því sögðu, Bjarni, þá er ég sammála pistlinum þínum.  Örþjóðin hefur ekki efni á öllum þessum tilskipunum frá ESB á EES forsendum, sem henta aðeins tugmilljónaþjóðum.

Kolbrún Hilmars, 6.4.2018 kl. 18:48

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Kolbrún, starfsmannafjöldi fyrirtækja er yfirleitt miklu minni hér en í ESB, en þarf að standa undir sama reglugerðafarganinu.  Þetta er mjög ósanngjarnt.  Að hanga lon og don í biðsal ESB, þurfa að taka við öllu, sem að okkur er rétt og nú að framselja ríkisvald til stofnana ESB, nær náttúrulega ekki nokkurri átt.  

Bjarni Jónsson, 7.4.2018 kl. 18:48

8 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Var einmitt að hugsa þetta í dag, þegar ég var að hlaða batteríin á "nauðsynlegum" heimilistækjum; síma, fartölvu, myndavél, ryksugu (ekki rafbíl að auki sem betur fer).  Hvað munu þessi litlu tæki kosta okkur ef ACER stýrir ekki aðeins aðgengi okkar að raforku, heldur verðinu líka? 
Svo er nú hitt, sem hefur margoft verið fjallað um, reglugerðir fyrir vinnumarkað.  Flest okkar fyrirtæki eru örsmá, með 5-10 starfsmenn en reglugerðarflóðið gerir ráð fyrir 500-1000 starfsmönnum, eins og gerist hjá stórþjóðum ESB.  Held að fulltrúar okkar á Alþingi þurfi að öðlast smáminnimáttarkennd áður en þeir samþykkja hvað sem er að utan.

Kolbrún Hilmars, 7.4.2018 kl. 20:15

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég myndi búast við 75 % hækkun á rafmagnsreikninginum, því að bæði orkuhlutinn og flutningshlutinn mundu hækka.

Það er einmitt lóðið, Kolbrún, EES er baggi á atvinnulífinu, sem dregur úr samkeppnishæfni, af því að miklu færri starfsmenn per fyrirtæki halda reglugerða- og eftirlitsbákninu uppi.  Þetta hefur framleiðnihamlandi áhrif, sem dregur lífskjörin niður.  Við höfum látið flækja okkur inn í stórþjóða-apparat í blindni. 

Bjarni Jónsson, 7.4.2018 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband