19.3.2018 | 13:05
Raforkumál í deiglunni
Staða íslenzkra og norskra raforkumála er einstæð í Evrópu vestan Rússlands vegna þess, að á Íslandi og í Noregi eru nægar endurnýjanlegar orkulindir til að anna raforkuþörf landanna um fyrirsjáanlega framtíð, þótt tekið sé tillit til orkuskiptanna. ESB-löndin hungrar hins vegar eftir raforku úr sjálfbærum orkulindum, og það er nettó innflutningur á raforku inn á ESB-landsvæðið.
Framkvæmdastjórn ESB ætlar að nýta markaðshagkerfið til að bæta skilvirkni raforkukerfisins, enda samræmist það stefnunni um að draga úr rekstri kolakyntra raforkuvera. Hún hefur jafnframt lýst því yfir, að hún vilji tengja Noreg traustum böndum við Orkusambandið, og ACER hefur í raun lýst hinu sama yfir gagnvart Íslandi með því að setja Ice Link (aflsæstreng á milli Íslands og Bretlands) inn á forgangsverkefnaskrá sína. Það er þess vegna alveg ljóst, til hvers refirnir eru skornir. ESB er á höttunum eftir "hinni grænu rafhlöðu" Norðurlandanna tveggja.
Tæki ESB í þessu sambandi er sameiginlegur raforkumarkaður ESB, þar sem allir heildsölukaupendur raforku í ESB-löndunum geta boðið í tiltæka raforku, hvar sem er á markaðssvæðinu.
Til að gera þetta kleift í raun var nauðsynlegt fyrir ESB að stofna orkuskrifstofu eða orkustofnun með valdheimildir frá ráðherraráði og ESB-þingi til að yfirtaka stjórn orkuflutningsmála í hverju landi. Þetta er hlutverk orkustofnunarinnar, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators). Allt reglusetningarvald og eftirlit með starfsemi orkuflutningsfyrirtækja, sem á Íslandi er núna sumpart hjá atvinnuvegaráðuneytinu og sumpart hjá Orkustofnun, OS, er sameinað í orkustofnun hvers lands, og hún er gerð algerlega óháð innlendu stjórnvaldi og innlendum hagsmunaaðilum, en sett undir beina stjórn ACER. Þar með lúta orkuflutningsfyrirtæki fyrir rafmagn og eldsneytisgas, á Íslandi Landsnet (á Íslandi er ekkert víðtækt gasrörakerfi) beinni stjórn ACER.
Þessu fyrirkomulagi gátu EFTA-löndin Ísland og Noregur ekki kyngt, enda felur það í sér klárt stjórnarskrárbrot, að yfirþjóðleg stofnun stjórni innlendri stofnun, sem ríkisvaldið á engin ítök í. Í stað þess að hafna þessu alfarið sem grímulausri innlimun Íslands, Noregs og Liechtenstein í ESB með sneiðaðferðinni ("salamiaðferðin"), eins og vert hefði verið, þá fengu EFTA-löndin ESB til að samþykkja dulbúning á gjörð, sem stjórnlagafræðingarnir Björg Thorarensen og Stefán Már Stefánsson tjá sig um þannig, "að framsalið rúmist ekki innan venjuhelgaðrar reglu um, að almenna löggjafanum sé heimilt að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana".
Íslenzk stjórnvöld og þar með Alþingi hafa einfaldlega teygt sig allt of langt í þjónkun sinni við ESB-valdið. Nú verður að spyrna við fótum áður en ráðstöfunarréttur íslenzkrar raforku verður afhentur ESB á silfurdiski.
Þann 17. marz 2018 skrifaði Sigurbjörn Svavarsson prýðilega grein í Morgunblaðið:
"Valdastofnanir ESB og EES-samningurinn":
"A fundi fjármála- og efnahagsráðherra ríkja Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES 14. október 2014 náðist loks samkomulag um meginatriði við aðlögun umræddra reglugerða að EES-samninginum. Þar var lögð áherzla á, að aðlögun regluverksins yrði reist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins [með sjónhverfingum - innsk. BJo]. Bindandi ákvarðanir gagnvart stjórnvöldum EFTA-ríkjanna innan EES og fyrirtækjum, sem þar starfa, skyldi taka af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), en ekki beint af eftirlitsstofnunum ESB, þó samkvæmt fyrirmælum valdastofnana ESB og með óbreyttu innihaldi gerðanna [ESA mun ekkert annað gera en ljósrita ákvarðanir ACER á pappír með ESA haus og vatnsmerki. ESA er Trójuhestur ESB/ACER inn fyrir fullveldismúra EFTA-ríkjanna.] Þetta var réttlæting fyrir aðgengi og gagnkvæmni að gerðunum.
Samkvæmt þessu eru allar formlegar valdheimildir á hendi Eftirlitsstofnunar EFTA, sem fær mun víðtækara starfssvið en hún hefur núna, þar með talið aðfararhæfi að íslenzkum aðilum. Dómsvald um þessar gerðir verður hjá EFTA-dómstólinum, en ekki hjá íslenzkum dómstólum. [Þetta framsal dómsvalds stríðir gegn Stjórnarskrá og er dæmalaust - innsk. BJo.]
Á síðasta Alþingi voru samþykktar 9 ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn (um fjármálaþjónustu), og 178 gerðir eru framundan á þessu þingi. [Mun Alþingi spyrna við fótum - innsk. BJo.]
Upptaka gerða um ACER, Eftirlitsstofnun á orkumarkaði, var samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017, þ.e. um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn (um orkumál), og framkvæmd þeirra verður með sama hætti og fjármálagerðanna [þ.e. með ESA sem óvirkan (ljósritandi) millilið á milli ACER og OS]. Stofnunin [ACER] mun beita valdheimildum sínum sínum gegnum ESA, og dómsvaldið verður hjá EFTA-dómstólinum.[Það er á leiðinni frá ESB 1000 bls viðbót við Þriðja orkumarkaðslagabálkinn (600 síður), sem enn mun auka við völd ACER-innsk. BJo.]"
Þetta fyrirkomulag er gjörsamlega óviðunandi fyrir fullvalda þjóð á borð við Íslendinga og Norðmenn, og það er sennilega þetta, sem formaður Sjálfstæðisflokksins átti við í ræðupúlti Alþingis 6. febrúar 2018, þegar hann kvartaði undan þróun EES-samstarfsins úr tveggja stoða í einnar stoðar einleik ESB og of mikinn eftirgefanleika að hálfu Noregs og Liechtenstein gagnvart vaxandi valdsækni ESB-stofnana í EFTA-löndunum.
Nú verður að spyrna við fótum á Íslandi. Við erum á góðri leið með að verða étin í sneiðum af ESB. Nú er komið að raforkugeiranum. Samþykkt Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum hefur verið líkt við það að opna landhelgina fyrir Bretum. Málið er enn alvarlegra, því að með eftirlit og dómsvald í raun í höndum ESB, er verið að opna landhelgina og afhenda ESB Landhelgisgæzluna í þokkabót.
Augu Alþingismanna eru að opnast fyrir því, að hér er mikið alvörumál á ferðinni og að við svo búið má ekki standa. Flokksþing framsóknarmanna samþykkti 11. marz 2018 svofellda ályktun:
"Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið."
Þessi ályktun olli straumhvörfum á hinu pólitíska sviði orkumálanna, og eiga framsóknarmenn miklar þakkir skildar fyrir. Greinargerð með ályktuninni var svohljóðandi:
"Evrópusambandið hefur ákveðið að taka upp aukna miðstýringu í orkumálum undir yfirstjórn orkustofnunar (ACER) og leggur áherzlu á, að sama regluverk og þar með vald ACER nái til Íslands. Framsóknarflokkurinn hafnar því, enda er algerlega óásættanlegt, að erlendu stjórnvaldi verði falin bein eða óbein völd yfir orkumálum þjóðarinnar."
Allt felur þetta í sér svo afdráttarlausa afstöðu Framsóknarflokksins, að það er óhugsandi, að boðað frumvarp um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn verði lagt fram í nafni ríkisstjórnarinnar.
Á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 var þetta mikla sjálfstæðismál landsins mikið rætt, eins og vonlegt er. Hjá atvinnuveganefnd var kveðið afdráttarlaust að orði með augljósri skírskotun til væntanlegs frumvarps frá atvinnuvegaráðuneytinu um inngöngu Íslands í Orkusamband ESB:
"Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."
Þetta hefur réttilega verið túlkað í Noregi sem yfirlýsing um, að flokkurinn vilji, að þingmenn beiti neitunarvaldi sínu samkvæmt EES-samninginum við afgreiðslu frumvarps um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn. Það er mat manna, t.d. innan andófshreyfingarinnar "Nei til EU", að væntanleg afstaða ríkisstjórnar og Alþingis muni fjölga þeim Stórþingsmönnum, sem greiða munu atkvæði gegn innlimun Noregs í Orkusamband ESB. Nú ræða Stórþingsmenn um að fresta afgreiðslu Stórþingsins, sem vera átti 22. marz 2018. Tíminn mun vinna með andófsmönnum.
Utanríkismálanefnd Landsfundar horfði lengra fram á veginn:
"Nú, þegar aldarfjórðungur er liðinn frá undirritun EES-samningsins, er tímabært að gera úttekt á reynslu Íslands af honum. Áríðandi er, að haldið verði áfram að efla hagsmunagæzlu innan ramma EES og tryggja, að möguleikar Íslands á fyrri stigum EES-mála verði nýttir til fulls.
Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við, að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn, sem felur í sér valdheimildir, sem falla utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins."
Dæmigert fyrir aðstöðu EFTA-ríkjanna til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri á undirbúningsstigum í ESB er orkustofnunin ACER, en þar hefur hvert ríki fulltrúa með atkvæðisrétt og ákvarðanir eru teknar með atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti ræður, en EFTA-ríkin munu einungis fá áheyrnarfulltrúa þarna. Þetta ójafnræði á milli EFTA og ESB gerir vistina í EES óbærilega.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll Bjarni,
þakka þér fyrir greinarnar um þetta mál sem hefur verið furðu lítið fjallað um í fjölmiðlum fyrr en núna.
(mér sýnist samt að tilskipunin sé frá 2009 og stappið um hvort innleiða skuli þetta í EES-samninginn sé frá 2014, a.m.k. í Noregi).
Það sem ég hef lesið mér til um þetta sýnist mér þetta snúast fyrst um fremst um sameiginlegan markað með raforku eins og reyndar aðrar vörur á EES-svæðinu. Í umræðunni er hins vegar verið að nefna að yfirstjórn orkumála sem slík eigi að fara undir ESB-stofnunina (ACER?) en ég get ekki séð slíkt í tilskipuninni sjálfri (og ætla rétt að vona að það verði ekki þannig lagt fram í tilvonandi frumvarpi).
Hitt sem verið er að gefa í skyn er að hægt sé að skylda aðila innan ESB og þá EES í framtíðinni að veita a.m.k. 30% af orku sinni á sameiginlegan markað en slíkt get ég með engu móti séð í tilskipuninni heldur.
Eins og þetta lítur út fyrir mér þá á þessi tilskipun ekki við hér nema ef við stefnum að því að fara á sameiginlegan orkumarkað ESB, þá með því að byggja sæstreng til Bretlands (sem yrði væntanalega áfram á sameiginlegum markaði ESB þrátt fyrir BREXIT þegar búið verður að gera samninga milli ESB og Breta eftir útgöngu).
Þannig að lausnin er einföld, EKKI gera sæstreng.
Gunnar Sigfússon, 19.3.2018 kl. 15:46
Sæll, Gunnar;
Það er rétt; Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB var út gefinn árið 2009, en ACER, Orkustofnun ESB, var sett á laggirnar 2011. Það er líka rétt, að málið snýst um að skapa virkan sameiginlegan orkumarkað fyrir rafmagn og eldsneytisgas. Verkfærið til þess á raforkusviðinu er ACER, og hafa völd yfir orkuflutningsmálum ESB-landanna (ekki orkumálum almennt) verið færð frá orkustofnunum einstakra ESB-landa til ACER. Það er gert með því að færa fyrst allt reglugerða- og eftirlitsvald með orkuflutningsfyrirtækjunum, t.d. Landsneti hér, yfir til viðkomandi orkustofnunar, og síðan er orkustofnunin gerð óháð stjórnvöldum í viðkomandi landi og færð beint undir ACER. Í EFTA-löndunum er ætlunin að nota ESA sem millilið. Með þessum hætti verður það á færi ACER að ákveða, hvaða flutningslínur og rafstrengir verða reistar á milli svæða með ólíkt raforkuverð, og miðar sérfræðingahópur ACER við 2,0 EUR/MWh. EF deilur koma upp á milli landa, sem tengja á eða tengja betur, úrskurðar ACER um kostnaðarskiptinguna, t.d. á milli Landsnets og National Grid á Bretlandi. Það verður alls ekki lengur í höndum íslenzkra stjórnvalda að ráða því, hvort sæstrengurinn Ice Link verður lagður eða ekki. Þetta er mergurinn málsins með ACER að ryðja burt öllum hindrunum í einstökum löndum gegn stefnunni um frjálst flæði raforku, og markmiðið er að auka orkuflutningana yfir landamæri upp í 30 % árið 2030 af summu raforkuvinnslunnar, en þá að því tilskildu, að raforkuverðsmunur á milli landanna sé meiri en jafngildi um 0,25 ISK/kWh. Tilskipunin á við hér, enda er Ice Link kominn á forgangsverkefnalista ACER.
Bjarni Jónsson, 19.3.2018 kl. 17:08
Ok, takk fyrir svarið eins og ég skil þetta núna (á eftir að lesa mig betur til um þetta).
Með samþykkt tilskipunarinnar er ekki hægt að skylda íslensk stjórnvöld og stofnanir (Orkustofnun, Landsnet) að gera (fjármagna) sæstreng til að tengjast markaði ESB.
Hins vegar geta þau ekki komið í veg fyrir að einhver annar geri það og að því gefnu að Bretar eða aðrir myndu ákveða að leggja (og fjármagna) streng til Íslands þá værum við skyldug að afhenda þeim raforku og þá yrðum við jafnframt aðili að sameiginlega markaði ESB. Eins og staðan er núna yrði það ekki gert af hagkvæmnisástæðum augljóslega en mögulega af pólítískum (hlutfall grænnar orku ofl.). Auk þess myndi samþykkt tilskipunarinnar gera erfiðara að gera sérsamninga um verðið sem upphaflega planið var (þ.e. að Bretar borguðu yfirverð fyrstu 10 árin með grænni niðurgreiðslu frá ESB).
Fyrir Norðmenn er staðan önnur, þeir eru þegar á markaðnum og eiga á hættu að missa viðskipti sín ef þeir neita að taka inn tilskipunina.
Fyrir okkur ætti að vera augljóst að taka þetta ekki inn í EES-samninginn. Tel ekki að þetta stofni EES-samningnum í hættu, eins og er er þetta viðbót byggt á tilskipun og ekkert sem þarf að samþykkja.
Gunnar Sigfússon, 19.3.2018 kl. 20:00
Þakka þér fyrir áhugavert innlegg, Gunnar Sigfússon;
ACER hefur tekið ákvörðun um að setja Ice Link á verkefnaskrá sína, og þá má fastlega reikna með, að hafizt verði handa um verkefnið strax og Alþingi hefur lagt blessun sína yfir valdatöku ACER á raforkuflutningsmálum hérlendis, sem vonandi aldrei verður. Hver fjármagnar ? Norski Verkamannaflokkurinn, sem hallur er undir ESB-aðild Noregs og mun styðja inngöngu Noregs í Orkusamband ESB, hefur samt sett nokkur skilyrði fyrir samþykki sínu, og eitt þeirra er, að Statnett eigi framvegis sem hingað til alla utanlandssæstrengi Noregs. Statnett er í ríkiseigu. Það er hugsanlegt, að ACER muni styrkja Ice Link fjárhagslega til að draga að áhættufjármagn í fjárfestinguna, en það er jafnframt líklegt, að Landsnet og National Grid Interconnector Holding muni eiga hlut og reka strenginn. Komi upp ágreiningur um kostnaðarskiptinguna á milli flutningsfyrirtækjanna, þá úrskurðar ACER í deilumálinu. Við rennum blint í sjóinn með fjárhagsskuldbindingar Landsnets vegna þessa.
ESB er á höttunum eftir "grænni orku" til að fylla upp í "framboðsdalina", sem myndast í kyrrviðri og sólarleysi á ESB-svæðinu. Við þær aðstæður mun raforka streyma frá Íslandi og Noregi, og síðan til baka að næturþeli. Þetta er s.k. jöfnunarorkumarkaður (balance power). Orkuseljendur skuldbinda sig til að selja x MW í t klst á hverjum sólarhring. Selt er á markaðsverði, sem ræðst af framboði og eftirspurn.
Það er nánast útilokað, að Norðmenn skaðist á að hafna Þriðja orkumarkaðsbálki ESB. Slíkar refsingar eru óheimilar samkvæmt EES-samninginum, og hagsmunir kaupenda eru meiri en hagsmunir seljenda af þessum viðskiptum. Ég mun skrifa vefgrein um þetta hér á síðuna.
Bjarni Jónsson, 20.3.2018 kl. 11:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.