Er EES á skilorði ?

Ásteytingarsteinum EFTA-landanna í EES-samstarfinu við ESB fjölgar, og þeir verða tíðari með tímanum, og árekstrarnir verða alvarlegri.  Ástæðurnar eru af tvennum toga.  Stefnan um sameiginlegt stjórnkerfi ESB-ríkjanna tekur nú til æ fleiri sviða, nú síðast orkusviðsins, sem upphaflega var ekki með í EES-samninginum, og við brotthvarf Breta minnkar vilji ESB til að semja við EFTA-ríkin um sérlausnir á grundvelli tveggja jafnrétthárra aðila.  ESB-mönnum þykir einfaldlega vera tímasóun að hefja samningaferli við 3 smáríki eftir að hafa loksins náð samstöðu um málefni í eigin röðum.  Það gætir vissulega aukinnar ágengni, sem nefna mætti óbilgirni, að hálfu ESB gagnvart EFTA, en sá fyrrnefndi merkir upp á sitt eindæmi málaflokka viðeigandi fyrir EES, sem eru alls óskyldir viðmiðun upprunalega EES-samningsins um frelsin fjögur á Innri markaðinum.  Það fjölgar þess vegna þeim, sem telja tímabært að fara fram á endurskoðun EES-samningsins bæði á Íslandi og í Noregi.   

Þann 1. marz 2018 tók nýr maður við starfi aðalritara framkvæmdastjórnar ESB, sem áreiðanlega á eftir að láta að sér kveða og reka hart trippin.  Hann er Þjóðverji og heitir Martin Selmayr.  Selmayr var áður starfsmannastjóri Jean-Claude Junckers, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og ræður nú yfir 33´000 manna her búrókrata í Berlaymont. Þessi her verður notaður til að berja saman Sambandsríki, með illu eða góðu, og við atganginn mun kvarnast úr hópnum og fleiri fylgja í kjölfar Breta, og hugsanlega ganga í EFTA.

Aðdragandinn að stöðuhækkun Selmayrs var ævintýralegur og hefur verið kallað "valdarán" í Berlaymont.  Þjóðverjinn Martin Selmayr er nú í raun valdamesti maður ESB.  Hann mun ekki hafa þolinmæði gagnvart sérþörfum EFTA-ríkjanna, heldur heimta, að þau taki við því, sem að þeim er rétt, möglunarlaust, eins og þau væru í ESB. Þessi afstaða er þegar komin fram, t.d. í ACER-málinu. Upprunalegar forsendur EES-samstarfsins (um tvo jafnréttháa aðila) eru virtar að vettugi. Staða EFTA-ríkjanna er þó enn verri en ESB-ríkjanna að því leyti, að þau geta lítil sem engin áhrif haft á þróun mála á undirbúningsstigum. Ísland hefur ekki einu sinni mannafla í að fylgjast með öllu því, sem á döfinni er. Vanmáttugar tilraunir í þá veru eru sýndarmennska og sóun opinbers fjár.

Þetta þýðir, að samstarfsgrundvellinum, sem upprunalega var lagður á milli EFTA og ESB í EES-samninginum, hefur verið kippt undan.  

Þegar sjást merki um þetta, og er Orkusamband ESB gott dæmi.  Orkusambandið og Orkustofnun ESB, ACER, kom sem tilskipun beint í kjölfar samþykktar Lissabonsáttmálans 2009, þar sem kveðið var á um nána samvinnu ESB-ríkjanna á sviði orkumála.  Yfirstjórn ESB á orkumálum þjóðanna skyldi tryggja árangur í loftslagsmálum, koma í veg fyrir orkuskort í ESB og auka skilvirkni orkuvinnslu, orkuflutninga og dreifingar. Þessi grundvöllur Orkusambandsins á engan veginn við á Íslandi, og t.d. mundu heildarorkutöpin í raforkuflutningskerfinu þrefaldast, þegar afltöp um 120 MW vegna flutnings innanlands að landtaki sæstrengs, töp í endabúnaði og í sæstrengnum sjálfum, mundu bætast við núverandi afltöp. Í Noregi er m.v. 10 % heildarorkutöp vegna sæstrengja, og þau verða ekki minni hér vegna miklu lengri sæstrengs en þar fyrirfinnst. Þetta er hreinræktuð orkusóun.  

Gagnvart EFTA er sá hængurinn á, að orkusviðið stendur alveg utan við Innri markaðinn, sem skilgreindur er í upphaflega EES-samninginum um frelsin fjögur.  Þróun EES-samningsins átti einvörðungu að varða frelsin fjögur á Innri markaðinum.  Þar að auki eru hagsmunir EFTA-ríkjanna, a.m.k. Íslands og Noregs, í orkumálum gjörólíkir hagsmunum ESB-ríkjanna.  Þarna eru í raun djúptækir hagsmunaárekstrar á ferð, sem skýra það, að EFTA-ríkin móuðust við í 6 ár, eftir að ACER tók til starfa, að ganga í Orkusamband ESB, sem alltaf var þó  vilji ESB, enda hefur Framkvæmdastjórnin lýst því yfir, að vilji hennar standi til að samþætta Noreg í orkumarkað ESB.  Það voru mikil mistök að láta undan þrýstingi ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. maí 2017 og samþykkja þar innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn. Þann 22. marz 2018 staðfesti norska Stórþingið þennan gjörning gegn háværum mótmælum almennings og verkalýðshreyfingar, en Alþingi Íslendinga á eftir að taka afstöðu til málsins. Sé tekið mið af andstöðu Íslendinga við inngöngu landsins í ESB, má reikna með, að a.m.k. 70 % þjóðarinnar séu andvíg inngöngu landsins í Orkusamband ESB.     

Meginástæðu undanlátssemi Sameiginlegu EES-nefndarinnar í þessu máli má rekja til þess, að við völd í Noregi er ríkisstjórn, sem höll er undir ESB-aðild Noregs og stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Verkamannaflokkurinn, vill sömuleiðis, að Noregur gangi í ESB.  Þannig er meirihluti á Stórþinginu fyrir því að sækja um aðild að ESB, en sá er hængurinn á fyrir þingið, að norska þjóðin er því algerlega fráhverf.  Þetta er meginskýringin á því, að Stórþingið samþykkti 22. marz 2018 inngöngu Noregs í Orkusamband ESB með 43 % gegn 14 %, en 43 % voru annaðhvort fjarverandi eða skiluðu auðu. Stórþingsmenn munu vafalaust hljóta kárínur að launum frá kjósendum, og þess sjást reyndar þegar merki, að fylgið hrynji nú af Verkamannaflokkinum, sbr nýlega skoðanakönnun í fylkinu Troms.  Á næsta ári verða sveitarstjórnarkosningar í Noregi, og þá mun afstaða stjórnmálaflokkanna á Stórþinginu vafalaust verða dregin fram, enda telur norskur almenningur, að innganga Noregs í Orkusambandið muni hafa neikvæð áhrif á atvinnuframboð um allan Noreg vegna hækkandi raforkuverðs.

Athyglisvert er, að samkvæmt skoðanakönnun á meðal norsku þjóðarinnar voru aðeins 9 % hlynnt þessum gjörningi, 52 % á móti og 39 % óákveðin.  Ef að líkum lætur, mun þessum stóra meirihluta Norðmanna að lokum verða að vilja sínum, því að á Alþingi Íslendinga er minnihluti þingmanna hlynntur því, að aftur séu teknar upp aðlögunarviðræður við ESB með aðild sem lokamark, en aðild Íslands að ACER yrði ekkert annað en enn einn áfanginn í aðlögun Íslands að regluverki ESB. Sýnir það í hnotskurn, hversu ólýðræðisleg þessi vera landsmanna í EES getur orðið, ef menn eru ekki á varðbergi.   

Það eru greinilega að myndast sprungur í EES-samstarfið, sem eru aðallega afleiðing af þróun mála innan ESB.  Þar af leiðandi var eðlilegt, að utanríkismálanefnd Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 liti lengra fram á veginn:

"Nú, þegar aldarfjórðungur er liðinn frá undirritun EES-samningsins, er tímabært að gera úttekt á reynslu Íslands af honum.  Áríðandi er, að haldið verði áfram að efla hagsmunagæzlu innan ramma EES og tryggja, að möguleikar Íslands til áhrifa á fyrri stigum EES-mála verði nýttir til fulls.  

Sjálfstæðisflokkurinn gerir verulegar athugasemdir við, að tekin sé upp löggjöf í EES-samninginn, sem felur í sér valdheimildir, sem falla utan ramma tveggja stoða kerfis samningsins."

Norðmenn hafa gert skýrslu um reynslu sína af aldarfjórðungsreynslu af verunni í EES, og það er fagnaðarefni, ef slík rannsókn verður gerð hérlendis. Að auki hefur Sigbjörn Gjelsvik, Stórþingsmaður norska Miðflokksins, samið merka skýrslu um valkosti Noregs við EES-samninginn.

Í upphafi þeirrar skýrsluvegferðar er vert að gæta vel að því, hvað rannsaka á, og hver rannsakar.  Í janúar 2018 gaf utanríkisráðuneytið út skýrslu, sem Hagfræðistofnun, HHÍ, gerði um nytsemi aðildarinnar, en hún hafði ákaflega lítið notagildi til ákvarðanatöku um framhald veru Íslands í EES. Um rannsóknarefnið skrifaði Björn Bjarnason í téðri Morgunblaðsgrein:

"Eigi að hefja svipað úttektarstarf núna [og 2004-2007], er skynsamlegt að hafa hliðsjón af því, sem leiðir af útgöngu Breta úr ESB (BREXIT), því að hún kann að geta af sér nýtt samstarfslíkan ESB við þriðju ríki."

Þetta er hverju orði sannara hjá Birni og aðalástæða þess, að "Nú eru nýir tímar", eins og hann endar grein sína á.  Í væntanlegri skýrslu verður að leggja nákvæmt og hlutlægt kostnaðarlegt mat á annars vegar áframhaldandi veru í EES og hins vegar fríverzlunarsamning við ESB og Bretland.  Árið 2017 luku Kanadamenn gerð fríverzlunarsamnings við ESB, og ganga má að því sem vísu, að Íslendingum standi slíkur samningur til boða.  

Þegar aðildin að Innri markaðinum verður metin, verður ekki hjá því komizt að meta beinan kostnað af greiðslu í sjóði EES og ESB, útlagðan kostnað fyrri ára við þýðingar og innleiðingu reglugerða og laga ESB, sem engin vinna færi í hérlendis, ef staðið væri utan EES, ásamt styrkjum til ýmissar starfsemi hérlendis frá EES/ESB. Þá þarf að meta kostnað ríkissjóðs og atvinnulífsins vegna eftirlitskerfa, sem hér hafa verið sett upp, en mætti losa sig við utan EES. Síðast, en ekki sízt, verður að leggja mat á óbeina kostnaðinn, sem af innleiðingu óþarfs og íþyngjandi reglugerðafargans hlýzt hérlendis. Hann er fólginn í hægari framleiðnivexti fyrirtækjanna hérlendis vegna vinnu við innleiðingu og framfylgd reglugerða og laga, sem eingöngu eru hér vegna aðildarinnar að EES.

Athugun Viðskiptaráðs Íslands 2015 leiddi til þeirrar niðurstöðu, að langhæsti kostnaður atvinnulífsins af reglugerðafarganinu væri fólginn í þessum þætti, og gætu sparazt 80 miaISK/ár á verðlagi 2018 við grisjun á reglugerða- og lagafrumskóginum frá ESB að mati höfundar þessa pistils. Jafnframt var komizt að því, að þessi kostnaður ykist um 1,0 %/ár.  Þennan þátt er nauðsynlegt að greina nákvæmlega í væntanlegri rannsókn.

Þá er bráðnauðsynlegt að framkvæma stjórnlagalega greiningu á EES-samninginum og afleiðingum þeirrar þróunar, sem nú á sér stað með stofnanavæðingu ESB og hunzun tveggja stoða forsendunnar fyrir samstarfi jafnrétthárra aðila.  Það þýðir ekkert að tippla á tánum í kringum þetta verkefni.  Ef nauðsynlegri endurskoðun fæst ekki framgengt vegna stefnu ESB um einsleitni allra þeirra gjörða, verður ekki hjá því komizt að segja EES-samninginum upp og leiða á önnur mið.  Af því verður að öllum líkindum hagræðing hjá ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, bættir viðskiptaskilmálar og í heildina þjóðhagslegur ávinningur. 

Þar sem Ísland og Noregur eru utan við hina sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB, njóta löndin ekki tollfrjáls aðgengis að Innri markaðinum fyrir sjávarafurðir.  Kanadamenn njóta aftur á móti tollfrjáls aðgengis í krafti nýgerðs fríverzlunarsamnings.  Í fljótu bragði virðist það vera Íslendingum til mikilla hagsbóta að segja EES-samninginum upp, og þess vegna er vissulega tímabært að fara ofan í saumana á þessum málum. Það hefur verið gert í Noregi.  Þar hefur Stórþingsmaðurinn Sigbjörn Gjelsvik samið "Alternativrapporten" eða Valkostaskýrsluna, sem til er bæði á norsku og ensku, þar sem fram fer vönduð greining á því, hvaða fyrirkomulag viðskiptamála er hagkvæmast fyrir Noreg.  Það er alveg áreiðanlegt, að það er líf utan við EES, og það hafa Svisslendingar sannað, og það munu Bretar sanna.  

Þróun EES-samstarfsins virðist í meiri mæli snúast um að fela stofnunum ESB forræði á málefnasviðum hérlendis, sem innlendar stofnanir hafa haft með höndum.  Má þar nefna Fjármálaeftirlitið og Orkustofnun.  Í fyrra tilvikinu náðist viðunandi tveggja stoða lausn eftir mikið þjark á fundum EFTA og ESB, þótt Fjármálaeftirlit ESB hafi æðsta valdið, en í síðara tilvikinu er ekki við það komandi að hálfu ESB.  Það er stjórnlagalega óviðunandi lausn, að ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) virki sem stimpilstofnun fyrir fyrirmæli frá ACER til valdamikillar undirstofnunar sinnar hérlendis á sviði raforkuflutninga, sem íslenzk stjórnvöld þá hafa engin áhrif á, því að hún á að vera "óháð" samkvæmt reglum ACER. 

Það eru nánast engar líkur á, að stjórnlagalega verjandi fyrirkomulag fáist í samskiptum EFTA-ríkjanna við ESB, og þess vegna er þetta samstarf nú komið að fótum fram.  Það samræmist ekki stjórnarskrá fullvalda ríkja. Þess vegna er nú búizt við dómsmáli fyrir Hæstarétti Noregs, þar sem  Stórþingið verður ákært fyrir stjórnarskrárbrot.

Stjórnlagafræðingar þurfa að fá tækifæri til að tjá sig um stjórnlagaþáttinn í væntanlegri uppgjörsskýrslu við EES á Íslandi.  Á grundvelli þessarar skýrslu þarf Alþingi að taka ákvörðun og getur auðvitað valið þann kost að leita álits þjóðarinnar í almennri atkvæðagreiðslu.  Má telja víst, að þingið fylgi þjóðarviljanum í kjölfarið.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á RÚV.is dag:

"Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti í dag minnisblað um áhrif orkupakkans frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni lögmanni sem starfaði áður sem framkvæmdastjóri markaðssviðs ESA. Hans niðurstaða er að þriðji orkupakkinn breyti í engu heimildum íslenskra stjórnvalda að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindunum.

Ísland mun áfram hafa fullt ákvörðunarvald yfir með hvaða skilyrðum orkuauðlindir hér eru nýttar og hvaða orkugjafar eru nýttir.

ACER hefði engin áhrif á leyfisveitingar og stjórnsýslu hér á landi né heldur valdheimildir gagnvart einkaaðilum. Valdheimildirnar gagnvart EFTA löndunum verða hjá eftirlitsstofnun EFTA, ESA en ekki hjá ACER.

Heimildir ACER að taka bindandi ákvarðanir ná einungis til orkumannvirkja sem ná yfir landamæri. Og þriðji orkupakkinn haggar ekki forræði Íslands að ákveða lagningu sæstrengs og að íslenska ríkið yrði eigandi hans."

Þorsteinn Briem, 17.4.2018 kl. 17:31

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á RÚV.is í dag, 17.4.2018, átti þetta nú að vera.

Og ofangreint felur í sér staðfestingu á því sem undirritaður hefur sagt hér áður um þetta mál.

Þorsteinn Briem, 17.4.2018 kl. 17:43

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég tók á móti norsku Stórþingsmönnunum, sem hingað komu mánudaginn 16.04.2018 og áttu samtöl við nokkra Alþingismenn og áttu viðtal við fréttastofu RÚV (Spegilinn).  Ég ræddi Orkusamband ESB við þessa þingmenn og tel mig vera allvel að mér um þetta mál.  

Ofannefnt minnisblað, sem ráðherra orkumála hefur pantað af Ólafi Jóhannesi Einarssyni, fyrrverandi starfsmanni ESA, er meingallað.  Þar er að finna hálfsannleik og sleppt er mikilvægum staðreyndum.  Sem dæmi þmá er hvergi minnzt á útibú ACER, sem stofnað er í hverju landi Orkusambandsins og ryður þar brautina fyrir stefnu ACER (ESB).  Útibúið fær í hverju aðildarlandanna allt reglugerðar- og eftirlitsvald með raforkuflutningum hvers lands, bæði innanlands og á milli landa.  Til að framfylgja stefnu ACER um að tengja Ísland rafmagnslega við umheiminn, verður útibúinu falið að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála, sem eigandi sæstrengsverkefnis verður að uppfylla.  Leyfisveitingavaldið verður áfram í höndum Orkustofnunar (OS), en hvernig á OS að hafna umsókn, sem uppfyllir alla skilmála ?  Slíkt yrði þá kært til ESA/EFTA, og ekki er að efa, hvernig þeir úrskurðir verða.  Dómsvaldið hefur þarna verið flutt úr landi.  Útibú ACER verður óháð íslenzkum yfirvöldum og mun hafa gríðarleg áhrif á alla starfsemi Landsnets.  ACER, með ESA sem millilið án heimilda til að breyta ákvörðunum ACER, mun þá stjórna stofnun á Íslandi, sem ekki er opinber stofnun.  Þetta er gróft brot á Stjórnarskrá.

Bjarni Jónsson, 18.4.2018 kl. 09:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband