23.4.2018 | 11:31
Línur að skýrast á Alþingi til ACER-málsins
Í Noregi er gjá á milli þings og þjóðar í afstöðunni til ESB og til færslu norskra valdheimilda undir lýðræðislegri stjórn til yfirþjóðlegra stofnana. Stórþingsmenn á bandi ESB afneita Stjórnarskránni í þessu sambandi, sem kveður á um, að fullveldisframsal til erlends ríkis eða erlendra stofnana, þar sem Noregur ekki er fullgildur aðili, geti aðeins farið fram, ef að lágmarki 75 % mættra Stórþingsmanna samþykkja það, og að lágmarki 50 % heildarfjölda Stórþingsmanna, sem þýðir, að 2/3 verða að mæta.
Vegna hunzunar ríkisstjórnar og meirihluta Stórþingsmanna á ákvæðum Stjórnarskráar Noregs við afgreiðslu lagafrumvarps orkuráðherrans um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, er nú að grafa um sig ólga á meðal norsks almennings, sem gæti á endanum orðið minnihlutastjórn Noregs að falli. Ef Alþingi hafnar sama gjörningi, verður lögð fram tillaga á norska Stórþinginu um endurupptöku málsins, og þá mun heldur betur hitna í kolunum á lóð æsanna, Ósló.
Innganga Noregs í Orkusamband ESB og áheyrnaraðild Noregs í ACER-Orkustofnun ESB er dæmi um gjá á milli þings og þjóðar, sem vonandi mun ekki birtast á Íslandi. Ólga var í Noregi í aðdraganda samþykktar Stórþingsins á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, og hún er engan veginn horfin. Verkamannaflokkurinn er klofinn í herðar niður í málinu, þótt farið hafi verið að tilmælum Landsstjórnar flokksins til þingflokksins um einhuga stuðning við frumvarp ríkisstjórnarinnar, enda voru tilmæli LO, norska Alþýðusambandsins, þau að fella frumvarpið. Um 100 oddvitar Verkamannaflokksins í sveitarstjórnum Noregs og meirihluti fylkisþinga Noregs hvöttu Stórþingsmenn til að fella frumvarpið. Rætt er um að kæra forystu Stórþingsins til Hæstaréttar fyrir Stjórnarskrárbrot, og fer nú fram söfnun í Noregi til þeirra málaferla. Mikill meirihluti norsku þjóðarinnar, sem afstöðu hafa tekið til ACER-málsins, 80 %-90 %, er andsnúinn því, að ACER fái síðasta orðið um skipan orkuflutningsmála Noregs, enda flyzt ráðstöfunarréttur raforkunnar þá í hendur markaðsaðila á sameiginlegum raforkumarkaði ESB, sem ACER hefur eftirlit með. Á Íslandi fer nú fram tímabær skoðanakönnun um sama mál.
Á Íslandi eru línur teknar að skýrast varðandi afstöðuna til inngöngu Íslands í Orkusamband ESB. Tveir stjórnmálaflokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa nánast einróma lýst yfir andstöðu sinni við að fela ACER ráðstöfunarrétt yfir raforku úr íslenzkum orkulindum. Talsmaður Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs í þessu máli, Kolbeinn Proppé, Alþingismaður, hefur í viðtali við Spegil RÚV lýst andstöðu sinni við gildistöku Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB á Íslandi og þar að auki efasemdum sínum og síns flokks um Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem hér var lögfestur 2003 og núverandi raforkulög eru reist á.
Nú hefur iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir komið með opinbert útspil, sem virðist snúast um að sýna fram á, með rökstuðningi fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, að ályktanir stjórnarflokkanna eigi bara alls ekki við um samþykki Alþingis á innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB. Þetta hefur verið hrakið hér á vefsetrinu, búast má við mótmælum frá Heimssýn, og þessi höfundur hefur sent grein til prentútgáfu Morgunblaðsins, þar sem komizt er að algerlega öndverðri niðurstöðu við lögmanninn, sem ráðherrann fékk minnisblað frá. Nú er verið að gera mælingu á afstöðu almennings til þessa máls. Ef niðurstaðan verður í líkingu við norskar skoðanakannanir um sama mál fyrir Noreg í stað Íslands, þá mun sannast, hvílíkt pólitískt glapræði vegferð varaformanns Sjálfstæðisflokksins er í þessu máli. Hverra hagsmunum er hún eiginlega að þjóna ? Það hefur ekki verið bent á einn einasta ávinning fyrir Ísland af téðri innleiðingu ESB-gerðar í lög hér, en henni fylgir stórkostleg áhætta fyrir landið. Hér er um fádæma lélega frammistöðu hérlendra embættismanna og ráðherra að ræða, að þeir skyldu að lokum samþykkja þessi ósköp í Sameiginlegu EES-nefndinni. Heldur ráðherrann, að framganga hennar í þessu máli fari framhjá kjósendum í NV-kjördæmi ? Alþingismenn verða að þrífa í neyðarhemilinn til að forða meiriháttar stjórnlagalegu slysi.
Ef Alþingi hafnar Þriðja bálkinum og Sameiginlega EES-nefndin samþykkir ógildingu Annars bálksins í kjölfarið að tillögu ESB, þá mun Alþingi bjóðast tækifæri til að lappa upp á helztu veikleikana í þeirri lagasetningu m.v. íslenzkar aðstæður, án þess að ESA geti fýlt grön.
Þar má nefna hættuna á raforkuskorti í landinu sökum þess, að enginn aðili utan Orkustofnunar (OS) er ábyrgur fyrir því að koma í veg fyrir tímabundinn eða varanlegan raforkuskort í landinu, og OS hefur ekki vald til að skipa neinum að virkja. Það má hugsa sér að fara ýmsar leiðir til að bæta úr þessu. Ein leið er sú að skylda fyrirtækið með stærstu markaðshlutdeildina til að tryggja nægan varaforða í orkukerfinu á hverjum tíma, t.d. að lágmarki 15 % af árlegri raforkunotkun í landinu, sem mundi nú samsvara tæplega 3 TWh/ár og gæti tekið um áratug að mynda. Þetta kostar auðvitað sitt, en bagginn mundi virka til að jafna samkeppnisstöðu raforkuvinnslufyrirtækjanna í landinu.
Það virðist óhætt að búast við því, að flestir ráðherrarnir muni á Alþingi snúast öndverðir gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn ásamt yfirgnæfandi meirihluta í þingflokkum stjórnarflokkanna. Þá hefur formaður Miðflokksins tjáð andstöðu sína í "Reykjavík síðdegis" á Bylgjunni og líklegt, að allir þingmenn flokksins séu sama sinnis og formaðurinn. Blekbónda er ókunnugt um afstöðu þingmanna Flokks fólksins, en búast má við, að ESB-flokkarnir, Samfylking og Viðreisn, muni styðja þessa víkkun EES-samstarfsins út fyrir frelsin 4 á Innri markaðinum sem lið í aðlögun Íslands að æ nánara samstarfi og meiri miðstýringu ESB. Píratar eru líklegir til að sitja hjá, enda málið stórt og þykir sumum torskiljanlegt.
Ef fer sem horfir, stefnir í, að Alþingi hafni því, að Ísland gangi í Orkusamband ESB, enda fæli sú innganga í sér skýlaust Stjórnarskrárbrot (2. gr).
Í Viðskiptablaðinu 28. marz 2018 gaf að líta texta, sem gefur innsýn í blekkingarheim eða sýndarveruleika utanríkisráðuneytisins. Er utanríkisráðherra þessarar skoðunar ?:
"Þar sem engum grunnvirkjunum (svo ?!), sem ná yfir landamæri, er til að dreifa hér á landi, fellur íslenzki orkumarkaðurinn ekki undir valdheimildir ACER. Í svari ráðuneytisins er bent á, að í stað ACER sé Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) falið úrskurðarhlutverk gagnvart EFTA-ríkjunum, ef á myndi reyna. Þannig sé ACER-gerðin aðlöguð að tveggja stoða kerfi EES-samningsins."
Það er einfeldningslegt af utanríkisráðuneytinu að halda þessu blekkingarhjali á lofti. Það náði engum undanþágubeiðnum fram í "samningaviðræðunum" við ESB í sameiginlegu EES-nefndinni, og þar af leiðandi munu ákvæði Þriðja orkumarkaðslagabálksins gilda á Íslandi, eins og Ísland væri ESB-aðildarland, nema Alþingi hafni Þriðja orkubálkinum í heild sinni.
Það er grundvallar misskilningur, að valdheimildir ACER í löndum Orkusambands ESB nái aðeins til orkuflutningsmannvirkja á milli landa. Þær ná til allra mannvirkja, sem skilgreind eru sem orkuflutningsmannvirki og til allra fyrirtækja, sem starfa í orkuflutningsgeiranum. Hvernig hefur þessi fluga komizt inn í höfuð embættismanna utanríkisráðuneytisins íslenzka ? Hvernig ætti ACER annars að takast ætlunarverk sitt um að tengja saman öll lönd Orkusambandsins með svo rækilegum hætti, að verðmunur á raforku verði í mesta lagi 2,0 EUR/MWh (<0,25 ISK/kWh) á milli landa. Í ráðuneytinu ríkir illvíg meinloka, og allir vita, hvað hún heitir.
Hvernig á ESA að gegna "úrskurðarhlutverk[i] gagnvart EFTA-ríkjunum" án þess að hafa hlotið nokkrar sjálfstæðar valdheimildir til að úrskurða gegn ACER ? ESA er einvörðungu upp á punt í hlutverki ljósritandi milliliðar fyrir fyrirmæli frá ACER og til OS. Það er til vanza, hvernig utanríkisráðuneytið reynir að slá ryki í augun á fólki og telja því trú um, að stjórnskipulega feli aðild Íslands að Orkusambandinu ekki í sér neinar breytingar á EES-samstarfinu. Þær eru einfaldlega svo miklar, að ekki er lengur hægt að tala um samstarf, heldur samband húsbónda og þræls.
Þann 4. apríl 2018 skrifaði Óli Björn Kárason, Alþingismaður, merka grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:
"Merkingarlaus stjórnskipulegur fyrirvari".
Þar skrifaði hann m.a. um mikilvægi raforkumálanna fyrir íslenzkan þjóðarhag:
"Skipulag orkumála skiptir okkur Íslendinga miklu, hefur veruleg áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífsins og bein áhrif á lífskjör almennings. Verði af lagningu sæstrengs - líkt og margir vonast til - mun íslenzki orkumarkaðurinn falla undir valdsvið ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), eftirlitsstofnunar Evrópusambandsins. [Hér er þess að geta, að ACER mun fá vald til að ákveða tímasetningu og tilhögun téðs Ice Link, ef Alþingi ákveður, að Ísland skuli ganga í Orkusamband ESB með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn - innsk. BJo.] ACER fær meðal annars vald til að úrskurða í ágreiningsmálum. [Þeim úrskurði verður ekki hægt að áfrýja til íslenzkra dómstóla, heldur aðeins til ESA og EFTA-dómstólsins, sem reisir úrskurði sína á dómafordæmum frá ESB-dómstólinum, ef til eru - innsk. BJo.] (Sæstrengur á milli Íslands og Bretlands er á lista Evrópusambandsins yfir mikilvæg innviðaverkefni í orkumálum.) [Þingmenn þyrftu að komast að því, hvernig í ósköpunum hann komst þangað - innsk. BJo.]
Hrein orka er ein dýrmætasta auðlind okkar Íslendinga. Raforkuvinnsla á íbúa [54 MWh/íb] er hvergi meiri en hér á landi og yfir helmingi meiri en í Noregi [25 MWh/íb]. Í skýrslu ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um raforkumál, sem lögð var fram í marz, koma þessar upplýsingar fram. Kanada og Finnland eru í þriðja og fjórða sæti, langt á eftir okkur Íslendingum. Að fullyrða, að skipulag orkumála, hvernig og hvort við aðlögum íslenzkt regluverk að orkutilskipunum Evrópusambandsins, hafi ekki mikil áhrif hér á landi, er í bezta falli sérkennilegt og í versta falli hættulegt."
Í ljósi þess, að staðhæfingin í lokin í hinum tilvitnuðu orðum þingmannsins, er ættuð frá utanríkisráðuneyti Íslands, verður ekki kveðið vægar að orði um hana en hún sé í senn hneykslanleg og þjóðhættuleg. Hvernig er hagsmunagæzlu þessa ráðuneytis fyrir Íslands hönd eiginlega háttað ? Er metnaður starfsmanna ráðuneytisins bundinn við að vera stimpilpúði fyrir skoðanir ráðamanna ESB og túlkanir skósveina þeirra ? Það er ástæða til að krefjast stjórnsýsluúttektar á starfsemi þessa ráðuneytis og kostnaði þess vegna EES-aðildar Íslands (ferðalög, fundarsetur, launakostnaður vegna þýðinga, reglugerðasetninga og innleiðinga gjörða ESB í EES-samninginn).
Ísland á ekkert erindi í Orkusamband ESB, af því að hagsmunir landsins í raforkumálum stangast algerlega á við hagsmuni ESB á því sviði. Þegar allir keppast við að auka hlutdeild endurnýjanlegra og kolefnisfrírra orkugjafa í orkunotkun sinni, þá skyti skökku við, ef Íslendingar tækju upp á að flytja inn rafmagn frá kola- og gaskyntum orkuverum meginlandsins, því að slíkt yrði óhjákvæmilegt til að vega upp á móti útflutningi raforku. Það verður ókræsilegt að baksa hér við orkuskipti upp á þau býti og rafmagnsverð í hæstu hæðum. Það er óhjákvæmilegt, að slíkt ráðslag mundi tefja orkuskiptin og draga verulega úr hinum fjárhagslega ávinningi af þeim. Þessar ábendingar hljóta að vega þungt gegn sæstreng.
Annað, sem mælir gegn því að tengjast raforkumarkaði ESB, er, að slíkt skapar mikla óvissu um framlengingu langtímasamninga um raforku. Samkvæmt reglum raforkumarkaðar ESB verður að selja tiltæka raforku hæstbjóðanda. Verði gerðir langtímasamningar eftir valdatöku ACER hér, skal bera þá undir ESA, (hefur reyndar gilt frá upptöku Annars orkumarkaðslagabálksins), sem úrskurðar, hvort um undirboð m.v. sameiginlegan markað ESB/EES er að ræða.
Í Noregi eru gríðarlegar áhyggjur út af þessu og út af hækkun markaðsverðsins, en norska stóriðjan kaupir hluta af raforku sinni á skammtímamarkaði (þó ekki augnabliksmarkaði). Þetta er aðalástæða þess, að nánast gjörvöll norska verkalýðshreyfingin lagðist eindregið gegn samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.
Norðmenn og Íslendingar vilja nýta raforku sína í þjóðhagslegu augnamiði, þ.e. til verðmætasköpunar og atvinnusköpunar um allt land, en ekki sem viðfang spákaupmanna. Þess vegna eru hagsmunir Íslendinga og Norðmanna ósamrýmanlegir hagsmunum ESB-ríkjanna í orkumálum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Stjórnmál og samfélag, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Stórfróðlegar greinar hjá þér Bjarni. Það er eins gott að einhver heldur vöku sinni.
Vek athygli þína á því að niðurlag bloggpistils Björns nokkurs Bjarnasonar frá því í gær (22. þ.m.) virðist mér eiga fullt erindi við þig (fyrri málsgreinin, sem ég leyfi mér að endurbirta hér, er úr formálanum) :
“Fullyrðingin um að ACER taki við hlutverki af Orkustofnun stenst einfaldlega ekki ef marka má það sem fram kemur í minnisblaði sem Ólafur Jóhannes Einarsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), tók saman að beiðni atvinnuvegaráðuneytisins og birt er á vefsíðu ráðuneytisins:“
“Viti einhver meira um stöðu þessa máls innan EES-samstarfsins en Ólafur Jóhannes hlýtur hann að gefa sig fram. Enn sannast hve mikilvægt er að gefa sér góðan tíma til að vega og meta alla þætti EES-mála undir leiðsögn þeirra sem þekkja best til þeirra.“
Daníel Sigurðsson, 23.4.2018 kl. 18:53
Þakka þér fyrir, Daníel. Samkvæmt Þriðja orkumarkaðslagabálkinum kemur ACER sér upp útibúi í hverju aðildarlandi Orkusambandsins. Til útibúsins flytjast öll reglusetningarvöld og eftirlitshlutverk með raforkuflutningsfyrirtækinu í hverju aðildarlandi. Þessi völd eru venjulega hjá Orkustofnun (OS) viðkomandi lands. Á Íslandi fara iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun með þessi völd. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp um að sameina öll slík völd undir hatti OS. Hvers vegna ? Það er verið að undirbúa jarðveginn fyrir útibú ACER, sem Norðmenn kalla RME-Reguleringsmyndighet for energi. Sæstrengir koma þessari skipulagsbreytingu ekkert við. Í grein, sem ég sendi í morgun til birtingar í prentútgáfu Morgunblaðsins síðar í þessari viku, geri ég rækilega grein fyrir því, hvernig allt er í pottinn búið með þetta ferli. Þar munu menn sjá, að tal og skrif um, að rafmagnsleg einangrun Íslands sé einhver vörn gagnvart ásælni ACER, er tómt píp.
Bjarni Jónsson, 23.4.2018 kl. 20:29
Ég segi sama og Daníel en þessar greinar frá þér eru mjög greinagóðar og skilmerkilegar. Þakka Bjarni fyrir þína baráttu í þessu máli.
Valdimar Samúelsson, 23.4.2018 kl. 20:32
Aðalatriðið er gegn málflutningi Ólafs Jóhannesar Einarssonar lögmanns um að ACER hafi ekki vald til að fyrirskipa okkur með sæstreng af því að slík mannvirki séu ekki til á Íslandi er það að það gleymist að með samþykki 3.orkupakkans hefur Ísland undirgengist að styðja áætlun ACER og ESB um orkumarkaðinn. Sem þýðir að Icelink skal byggður sem hluti af þeim. Þannig verður Icelink byggður ef við samþykkjum og raforkuverð hérlendis mun stórhækka. Það er núna ca. helmingi lægra en það er í Bretlandi svona til að segja eitthvað.
Halldór Jónsson, 24.4.2018 kl. 07:33
Halldór: það er einkennandi, að málflutningur stuðningsmanna inngöngu Íslands í Orkusamband ESB snýst um aukaatriði og hrein formsatriði, en efnisatriði málsins liggja óbætt hjá garði. Það er t.d. hreint formsatriði, að Orkustofnun (OS) veiti leyfi um umsóknir, sem eru undan rifjum ACER runnar. Slíkur úrskurður hlýtur að falla að vilja og stefnu ACER, því að annars verður hann ólöglegur eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB. Annað dæmi: það er algert aukaatriði og útúrsnúningur á upprunalega tveggja stoða fyrirkomulaginu í samskiptum EFTA og ESB, að ESA gefi útibúi ACER á Íslandi fyrirmæli. Þau koma frá ACER, og ESA hefur enga heimild hlotið til að breyta þeim. ESA er þarna hrein "stimpilstofnun".
Bjarni Jónsson, 24.4.2018 kl. 10:28
Hér halda góðir menn uppi merkinu góða: íslenzks fullveldis.
Gott hjá Daníel að vara í raun við áliti lögmannsins Ólafs Jóhanns, sem sennilega er eins konar heppileg málpípa fyrir Brussel-valdið.
Enn betra hjá Halldóri kollega þínum, Bjarni, að stinga upp í Ólaf þennan og hjá þér að bæta enn um betur við viðauka-ábendingu þinni, afgerandi mikilvægri.
Ennfremur er grein sem tók á þessu Ólafsmáli í gær á vef Heimssýnar:
Árétting Heimssýnar vegna orkusambands Evrópusambandsins
-- árétting sem rituð í andmælaskyni við minnisblaðið frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni, lögmanni og fyrrum framkvæmdastjóra hjá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Jón Valur Jensson, 24.4.2018 kl. 11:53
MEÐ viðauka-ábendingu þinni
Jón Valur Jensson, 24.4.2018 kl. 11:54
Ofangreind árétting á afstöðu Heimssýnar var kærkomin í umræðuna. Ég er fullkomlega sammála henni og lýsi yfir ánægju minni með þá stefnumörkun Heimssýnar, að EES-aðild Íslands verði að setja strangar hömlur. Þótt það sé ekki skrifað í áréttinguna, þá tel ég skýringuna á þessari stefnumörkun vera þá, að annars sogast Ísland óhjákvæmilega inn í ESB. Framkvæmdastjórnin vill meðhöndla EFTA-ríkin eins og ESB-ríkin, þótt EES-samningurinn sé þar með brotinn. Hvar er þá sérstaða EFTA-ríkjanna niður komin og í raun fullveldi þeirra ? Því miður, EES-samningurinn þurrkar smátt og smátt fullveldið út, nema hraustlega sé spyrnt við fótum, eins og þegar Grettir glímdi við Glám.
Bjarni Jónsson, 24.4.2018 kl. 12:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.